Á hvaða lögum byggja innistæðutryggingar og Icesave-samningurinn?

Fyrir umræðuna er gott að halda því til haga á hvaða keðju réttarheimilda skuldbindingar Íslands gagnvart innistæðueigendum í útibúum íslenskra banka byggja.  Borið hefur á misskilningi varðandi þetta, ekki síst frá erlendum álitsgjöfum, meira að segja greinahöfundum hjá Financial Times.

Alþingi samþykkti í janúar 1993 samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (lög nr. 2/1993).  Í þeim lögum segir m.a.:

2. gr. Meginmál EES-samningsins skal hafa lagagildi hér á landi. [...]

3. gr. Skýra skal lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja.

Í EES-samningnum er m.a. að finna eftirfarandi greinar (leturbr. mínar):

3. gr. Samningsaðilar skulu gera allar viðeigandi almennar eða sérstakar ráðstafanir til að tryggja að staðið verði við þær skuldbindingar sem af samningi þessum leiðir. Þeir skulu varast ráðstafanir sem teflt geta því í tvísýnu að markmiðum samnings þessa verði náð.[...]

4. gr. Hvers konar mismunun á grundvelli ríkisfangs er bönnuð á gildissviði samnings þessa nema annað leiði af einstökum ákvæðum hans.

6. gr. Með fyrirvara um þróun dómsúrlausna í framtíðinni ber við framkvæmd og beitingu ákvæða samnings þessa að túlka þau í samræmi við úrskurði dómstóls Evrópubandalaganna sem máli skipta og kveðnir hafa verið upp fyrir undirritunardag samnings þessa, þó að því tilskildu að þau séu efnislega samhljóða samsvarandi reglum stofnsáttmála Efnahagsbandalags Evrópu og stofnsáttmála Kola- og stálbandalagsins og gerðum sem samþykktar hafa verið vegna beitingar þessara tveggja sáttmála.

7. gr. Gerðir sem vísað er til eða er að finna í viðaukum við samning þennan, eða ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar, binda samningsaðila og eru þær eða verða teknar upp í landsrétt sem hér segir:
   a. gerð sem samsvarar reglugerð EBE skal sem slík tekin upp í landsrétt samningsaðila;
   b. gerð sem samsvarar tilskipun EBE skal veita yfirvöldum samningsaðila val um form og aðferð við framkvæmdina.

(Athyglisvert er að benda á að í 111. gr. EES-samningsins eru ákvæði um úrlausn deilumála, sem leggja skal fyrir sameiginlegu EES-nefndina, en samþykki beggja deiluaðila þarf til að fara fram á það við dómstól Evrópubandalaganna að hann kveði upp úrskurð.)

Á grundvelli ofangreindra laga og EES-samningsins hefur tilskipun Evrópusambandsins um innlánatryggingakerfi (94/19/EB) frá 30. maí 1994 lagagildi hér á landi.  Í henni segir m.a. í inngangi (leturbr. mínar):

Þegar gjaldþrota lánastofnun er lokað verða innstæðueigendur í útibúum í öðrum aðildarríkjum en þar sem lánastofnunin efur höfuðstöðvar að njóta verndar sama tryggingakerfis og aðrir innstæðueigendur í stofnuninni.

Kostnaður lánastofnana við þátttöku í tryggingakerfi er í engu hlutfalli við kostnaðinn sem hlytist af stórúttektum bankainnstæðna, ekki aðeins frá lánastofnun sem á í erfiðleikum heldur einnig frá velstæðum stofnunum, vegna þess að innstæðueigendur myndu missa trúna á stöðugleika bankakerfisins.

Útibú þarf ekki lengur að fá leyfi í gistiríki, því allsherjarleyfið gildir alls staðar í bandalaginu, og lögbær yfirvöld í heimaríkinu [Íslandi] fylgjast með gjaldhæfi þess. Þetta skipulag leyfir að eitt tryggingakerfi nái yfir öll útibú lánastofnunar innan bandalagsins. Þetta kerfi verður að vera það kerfi sem gildir fyrir hlutaðeigandi flokk lánastofnana í heimaríki viðkomandi lánastofnunar, ekki síst vegna þeirra tengsla sem eru á milli eftirlits með gjaldhæfi útibús og aðildar þess að innlánatryggingakerfi.

Samræmingin ætti að einskorðast við höfuðatriði innlánatryggingakerfanna og í henni þarf að felast að unnt verði að inna tryggingagreiðslu af hendi með örskömmum fyrirvara, útreiknaða eftir samræmdri lágmarksviðmiðun. Innlánatryggingakerfin verða að koma til skjalanna um leið og innlán verða ótiltæk.

Tilskipun þessi getur ekki gert aðildarríkin eða lögbær yfirvöld þeirra ábyrg gagnvart innstæðueigendum ef þau hafa séð til þess að koma á einu eða fleiri kerfum viðurkenndum af stjórnvöldum sem ábyrgjast innlán eða lánastofnanirnar sjálfar og tryggja að innstæðueigendur fái bætur og tryggingu í samræmi við skilmálana í þessari tilskipun.

Í grein 7.1. segir:

Innlánatryggingakerfin tryggja að samanlögð innlán hvers innstæðueiganda séu tryggð upp að 20 000 ECU ef innlánin verða ótiltæk.

Í grein 10.1. segir:

Tryggingakerfin þurfa að geta fullnægt réttmætum kröfum innstæðueigenda varðandi ótiltæk innlán eigi síðar en þremur mánuðum frá þeim degi sem lögbær yfirvöld láta fara fram mat samkvæmt i-lið 3. mgr. 1. gr. eða dómstóll fellir úrskurð samkvæmt ii-lið 3. mgr. 1. gr.

Á grundvelli  tilskipunarinnar og með vísan til hennar voru sett á Íslandi lög 98/1999 um Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta. Þar er m.a. þessi grein:

10. gr. Fjárhæð til greiðslu.
Nú hrökkva eignir viðkomandi deildar sjóðsins ekki til þess að greiða heildarfjárhæð tryggðra innstæðna, verðbréfa og reiðufjár í hlutaðeigandi aðildarfyrirtækjum og skal þá greiðslu úr hvorri deild skipt þannig milli kröfuhafa að krafa hvers þeirra allt að 1,7 millj. kr. er bætt að fullu en allt sem umfram er þessa fjárhæð skal bætt hlutfallslega jafnt eftir því sem eignir hvorrar deildar hrökkva til. Fjárhæð þessi er bundin við gengi evru (EUR) miðað við kaupgengi hennar 5. janúar 1999. Sjóðurinn verður ekki síðar krafinn um frekari greiðslu þótt tjón kröfuhafa hafi ekki verið bætt að fullu.
Hrökkvi eignir sjóðsins ekki til og stjórn hans telur til þess brýna ástæðu er henni heimilt að taka lán til að greiða kröfuhöfum.

Um þessa 2. mgr. 10. gr. laga 98/1999 stendur Icesave málið í reynd; þ.e. TIF hefur samið um lántöku til að greiða kröfuhöfum sjóðsins en þarf ríkisábyrgð til að lánið verði veitt - og það er sú ábyrgð sem Alþingi hefur samþykkt að veita, með fyrirvörum.

Þá er loks rétt að geta þess að Evrópudómstóllinn hefur aðeins einu sinni dæmt í máli á grundvelli tryggingatilskipunarinnar, þ.e. í hinu svokallaða "Peter Paul" máli sem átti uppruna sinn í Þýskalandi (C-222/02). Það sem máli skiptir í samhengi Icesave umræðunnar er að þýska ríkið var á fyrra dómstigi dæmt til að greiða innistæðueigendunum 20.000 EUR á grundvelli tilskipunarinnar, þrátt fyrir að Þýskaland hefði látið undir höfuð leggjast að lögleiða tilskipunina tímanlega og með réttum hætti (sjá 16. gr. dómsins).  Það reyndi sem sagt á það prinsipp að tilskipunin ein og sér myndar rétt hjá innistæðueiganda, þótt landslög hafi ekki fylgt á eftir.

Af ofangreindu má vera ljóst að keðja réttarheimilda er fyrir hendi.  Svo geta menn vitaskuld deilt um einstaka hlekki og hvort þeir eigi við eður ei í tilviki Icesave.  Og lög og pólitík eru ekki alltaf eitt og hið sama.  En það er of langt gengið að segja að það sé "enginn lagagrundvöllur" fyrir útgreiðslu innistæðutryggingar til allra innistæðueigenda Landsbankans, innlendra sem erlendra.


Af hverju er ákvörðun forsetans röng?

Ákvörðun forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar, um að synja ríkisábyrgðarlögunum vegna Icesave staðfestingar er röng af mörgum ástæðum.  Lítum á þær helstu.

  • Lagafrumvarpið sem um ræðir fjallar um breytingar á fyrri lögum um ríkisábyrgðina, sem fyrir eru og í fullu gildi.  Það sem kosið yrði um er ekki hvort borga eigi Icesave eður ei, eins og margir þeir sem studdu yfirlýsingu InDefence virðast halda.  Kosningin snýst aðallega um hvort halda eigi í óbreytt orðalag tiltekinna efnahagslegra fyrirvara, sem viðsemjendurnir, Bretar og Hollendingar, hafa þegar hafnað.  Spurningin sem verið er að vísa til þjóðarinnar er því bæði óljós og í reynd marklaus.
  • Eðli þessa máls er að verið er að semja milli þjóða.  Það er einfaldlega ekki hægt að framkvæma samningaviðræður með þjóðaratkvæðagreiðslum.  Á þá að setja næsta útspil, ef eitthvað verður, í þjóðaratkvæðagreiðslu, og svo áfram?  Flókin mál af þessu tagi verður almennt að afgreiða innan fulltrúalýðræðisins; það er nógu erfitt að halda úti samningaviðræðum við þjóðþing, hvað þá heila þjóð.
  • Allan lagaramma um þjóðaratkvæðagreiðslur vantar og við erum að fara í mikla óvissu um ferlið sem framundan er.  Alls kyns tæknileg atriði eru óljós, bæði varðandi framkvæmd kosningarinnar sjálfrar og um hina lagalegu stöðu sem uppi er á meðan hún hefur ekki farið fram.  Þetta er sérstaklega bagalegt í Icesave-málinu, miklu bagalegra en í öðrum málum (t.d. fjölmiðlafrumvarpinu).  Málið er frámunalega illa til þess fallið að fara í þessa lagalegu og stjórnskipulegu tilraunastarfsemi.
  • Endurreisn Íslands bíður á meðan á ferlinu stendur.  Ljóst er að við fáum ekki lán frá Norðurlöndum meðan Icesave er óafgreitt.  Það tefur næstu áfanga AGS-áætlunarinnar og við fáum ekki ný gjaldeyrislán á meðan.  Lánshæfismat ríkisins og annarra íslenskra aðila (t.d. orkufyrirtækja) er í hættu og endurfjármögnun útilokuð.  Ný erlend fjárfesting bíður og engar líkur eru á styrkingu krónunnar.  Allt er þetta þjóðinni mjög dýrt og kemur á versta tíma, einmitt þegar skriðþungi var að byrja að myndast í rétta átt.
  • Forsetinn vitnaði til þess að þingmenn hefðu skorað á sig og hann teldi að meirihluti væri á þingi fyrir þjóðaratkvæði um málið.  Á þetta reyndi í atkvæðagreiðslu á Alþingi 30. desember og þá var breytingatillaga um þjóðaratkvæði felld.  Svo einfalt er það og stjórnskipulega stórhættulegt fyrir forsetann að gefa sér einhverja aðra afstöðu þingsins en þessa.
  • Forsetinn talar um að þjóðaratkvæðagreiðslan sé leið til að finna sátt.  Það tel ég vera alrangt mat.  Ég sé fram á áframhaldandi vikur og mánuði af harðvítugum deilum um Icesave-málið, ekki síst í ljósi þess hversu spurningin sem taka á afstöðu til er óljós.  Blandast mun saman umræða um hvort yfirleitt eigi að borga Icesave, við umræðu um einstaka fyrirvara - sem er ófrjó að því leyti að afstaða gagnaðila okkar liggur ekki fyrir.  Þetta verður því erfið og slítandi umræða um ekki neitt, einmitt þegar full þörf var á að byrja að ræða um aðra - og mikilvægari hluti.  Icesave er þrátt fyrir allt ekki mest aðkallandi vandi sem við stöndum frammi fyrir.

Ég reyni að vera orðvar maður almennt, en ég verð að segja það hreinskilnislega, að mér finnst ákvörðun forsetans forkastanleg, óskiljanleg og illa ígrunduð.


Einhliða evra: Leið Svartfjallalands er fjallabaksleið fyrir Ísland

Í tilefni af umræðu um Daniel Gros, bankaráðsmann í Seðlabanka Íslands, leitaði ég mér upplýsinga um einliða upptöku evru í Svartfjallalandi (Montenegro) í upphafi árs 2002.  Gros mun hafa komið að því verkefni sem ráðgjafi.  Þeir sem helst hafa talað fyrir einhliða upptöku evru á Íslandi hafa nefnt þetta Svartfjalla-fordæmi til vitnis um að einhliða upptaka sé ekki mikið mál, hana megi "klára á einni helgi" o.s.frv.

En þegar málið er skoðað betur kemur í ljós að aðstæður Svartfellinga voru allt aðrar en hér.  Grundvallarmunurinn er sá að þýska markið var í reynd (de facto) gjaldmiðill Svartfellinga, en serbneski dínarinn var notaður í undantekningartilvikum.  Einhliða upptakan var því ekki meiri einhliða upptaka en svo, að gerður var samningur við þýskan banka um að taka við þýsku mörkunum og láta evrur í staðinn, sem hann fékk svo aftur hjá Evrópska seðlabankanum sem hluta af almennri upptöku evru og útskiptingu þýska marksins.  (Sjá nánar t.d. umfjöllun BBC frá þessum tíma.)

Þetta er nákvæmlega það sem myndi gerast á Íslandi ef við gengjum í ESB og tækjum upp evru: íslenskar krónur yrðu þá teknar til baka inn í Seðlabanka Íslands (sem yrði aðili að evrópska seðlabankakerfinu ESCB) og alvöru evrur látnar í staðinn í boði ECB.

Án stuðnings ECB yrðu ekki fyrir hendi neinar alvöru evrur til að skipta krónum í, nema þá í mesta lagi seðlum og mynt sem er hverfandi hluti peningamagns í umferð (rétt rúm 1%).  Einhliða upptöku-menn hafa reyndar uppi áform um að deila í allar rafrænar krónur með 180 eða einhverri álíka tölu og kalla niðurstöðuna "evrur".  En þær "evrur" væru ekki alvöru evrur útgefnar af ECB og með samsvörun í innistæðu íslenska Seðlabankans í ECB (á nostro-reikningi), heldur bara tölur á blaði sem Íslendingar streittust við að kalla "evrur".  Enginn annar myndi nota það nafn yfir fyrirbærið né taka það gilt sem eitthvað annað en íslenskar krónur með viðhengdu almennu broti.

Seðlabankinn gæti, í tímabundnu brjálæðiskasti, kosið að bjóða landsmönnum að skipta íslenskum "evrum" í alvöru evrur - meðan gjaldeyrisforði hans entist.  En um leið og forðinn væri uppurinn (sem myndi gerast á fyrsta sólarhringnum, þar sem allir vissu að ekki væru til alvöru evrur fyrir öllum íslensku "evrunum") þá væri "game over". Forðinn búinn og þeir sem ekki náðu að skipta íslensku "evrunum" sætu eftir með sárt ennið og verðlausan pappír - og ekki fullir þakklætis gagnvart þeim stjórnmálamönnum sem bæru ábyrgðina á dellunni.

Þessi einhliða-"evru" hugmynd er bara eitt dæmið af mörgum um delluhugmyndir sem ganga ljósum logum í umræðunni og er eytt allt of miklu púðri í.  Ályktunin er: það hefur aldrei verið jafn mikilvægt og nú að beita gagnrýni og heilbrigðri skynsemi - og velja vandlega þær raddir sem tekið er mark á.


Þrjár góðar fréttir (sem enginn tók eftir)

Eins og reglulegir lesendur þessa bloggs hafa eflaust ályktað, þá er ég dyggur aðdáandi vefs Seðlabanka Íslands.  Í það geitarhús má ætíð leita ef þörf vaknar fyrir ull tilþrifa í stíl og neistaflugs í skopi.

Hérna er til dæmis margföld stórfrétt frá Seðlabankanum sem fjölmiðlamenn hafa nánast algjörlega misst af (undantekning í lok þessa pistils).

  • Viðskiptajöfnuður landsins er sennilega jákvæður á þriðja ársfjórðungi.  Viðskiptajöfnuður er mæling á heildarflæði gjaldeyris til og frá landinu, nettó.  Hann samanstendur af vöruskiptajöfnuði, þjónustujöfnuði og þáttatekjujöfnuði (sem eru einkum vextir og fjárfestingarliðir).  Menn hafa almennt talið að viðskiptajöfnuðurinn væri stórlega neikvæður um þessar mundir, sem væru vondar fréttir fyrir krónuna.  En raunin er sú að tölur Seðlabankans hafa hingað til innifalið reiknaða áfallna vexti á skuldir þrotabúa gömlu bankanna.  Þessir vextir verða hins vegar aldrei greiddir.  Án áhrifa þeirra er viðskiptajöfnuðurinn aðeins neikvæður um 9,5 milljarða á þriðja ársfjórðungi, og sú tala innifelur jafnframt áfallna vexti erlendra skulda annarra aðila en bankanna (t.d. eignarhaldsfélaga) sem verða ekki heldur greiddir.  Ég tel því allar líkur á að viðskiptajöfnuðurinn sé í reynd orðinn nálægt núlli eða jákvæður, á greiðslugrunni.  Það er stórfrétt og á að hafa áhrif á væntingar markaðarins um gengi krónunnar.
  • Nettó erlend staða þjóðarbúsins er nú talin vera neikvæð um "aðeins" 524 milljarða, í stað yfir 600 milljarða eftir 2. ársfjórðung.  Þetta eru 35% af vergri landsframleiðslu (VLF) og telst ekki mikið í alþjóðlegum samanburði, sérstaklega hjá ungri þjóð með mikilli uppbyggingu og fjárfestingu.  Taka verður fram að þetta er heildarstaða þjóðarbúsins erlendis, þ.m.t. ríkissjóðs, Seðlabanka, Icesave, sveitarfélaga, orkufyrirtækja, stóriðjufyrirtækja, gömlu og nýju bankanna, allra annarra fyrirtækja og einstaklinga.
  • Eign erlendra aðila í skuldabréfum útgefnum á Íslandi er töluvert lægri en áður var talið.  Þetta kemur fram í lokamálsgrein tilkynningar Seðlabankans en er ekki rökstutt frekar.  Þó er þarna aftur um stórfrétt að ræða og verður fróðlegt að sjá nánari tölur frá bankanum.  Ef rétt reynist styrkir það einnig horfur og væntingar um gengi krónunnar.

Eins og áður sagði hafa fjölmiðlar lítið fjallað um þessar fréttir.  Morgunblaðið birti þó klausu á föstudaginn þar sem þeim tókst að gera neikvæða frétt úr öllu saman. Að auki tók blaðamaðurinn sér það bessaleyfi (besserwisser-leyfi?) að fullyrða, ranglega, að vantalin væri 300 milljarða skuld í nettó erlendri stöðu þjóðarbúsins(*).  En þetta hefur eflaust verið erfið frétt fyrir Moggann, sem má fyrir alla muni ekki vera jákvæður, ekki einu sinni þegar fréttirnar styðja hans heittelskuðu krónu.

(Smellið á myndina til að fá stærri útgáfu af Moggafréttinni frá því á föstudaginn.)

*) Fullyrðing blaðamanns Moggans um að skuldabréf nýja Landsbankans til þess gamla eigi að bætast við þessa tölu er röng.  Það væri tvítalning því erlend skuld Tryggingasjóðs innistæðueigenda vegna innlána í gamla Landsbankanum er innifalin í skuldastöðunni.


Myndrænar skuldir

Ég hef ítrekað skrifað um skuldir þjóðarbúsins, m.a. hér, en nú er kominn tími á myndræna framsetningu.  Hér að neðan má sjá erlendar skuldir og eignir þjóðarbúsins, skv. tölum Seðlabankans frá miðju ári.  Með þjóðarbúinu er átt við alla íslenska lögaðila, þ.m.t. ríki, Seðlabanka, banka (gamla og nýja), sveitarfélög, lífeyrissjóði, orkufyrirtæki, álfyrirtæki, öll önnur fyrirtæki og einstaklinga sem skulda beint í útlöndum.

Erlend staða þjóðarbúsins

Eins og sjá má vega þrotabú gömlu bankanna langþyngst, bæði í skuldum og eignum.  Eignirnar munu ganga upp í skuldirnar, eins langt og þær ná, en restin er tap kröfuhafa - ekki skattborgara.

Skoðum nú betur það sem eftir stendur, þ.e. erlenda stöðu þjóðarbúsins að frádregnum gömlu bönkunum.

Erlend staða án gömlu bankanna

Hér sést að skuldir þjóðarbúsins án gömlu bankanna eru sirka 220% af vergri landsframleiðslu (sem er summa allrar vöru og þjónustu sem framleidd eða veitt er í landinu á einu ári).  Á móti koma eignir erlendis upp á sirka 180% af VLF og eftir standa nettó 40% af VLF eða sirka 600 milljarðar.  Hafa ber í huga að í þessum tölum eru stórir póstar á vegum einkafyrirtækja, t.d. Actavis sem eitt og sér skuldar sirka 70% af VLF (um 1.000 milljarða) erlendis, en á líka eignir á móti.

Þessar tölur eiga sem sagt við um þjóðarbúið í heild.  Það sem snýr að beinlínis að skattborgurum sést betur hér:

Skuldir ríkissjóðs

Hér má sjá skuldir ríkissjóðs og Seðlabanka í lok þessa árs.  Icesave skuldbindingin er inni í þessum tölum, miðað við 75% endurheimtur úr þrotabúi Landsbankans, núvirt til dagsins í dag.  Nettóskuld er brúttóskuldin að frádregnum hreinum peningalegum eignum, þ.e. skuldastaðan sem eftir stæði ef ríkið tæki allt lausafé sitt og notaði það til að greiða skuldir.  Við sjáum jafnframt hversu stór hluti af heildarskuldunum eru í erlendum gjaldeyri, bæði brúttó og nettó.  Niðurstaðan er sú að heildarskuldin er nettó sirka 90% af VLF og erlendar skuldir ríkissjóðs sirka 40% af VLF nettó.

Engin þessara talna er þess eðlis að vera óviðráðanleg eða út úr korti miðað við ýmsar nágrannaþjóðir okkar, sérstaklega ef haft er í huga að Ísland er með nánast fullfjármagnað lífeyrissjóðakerfi.  Þar að auki erum við ung þjóð með miklar náttúruauðlindir.  Það er því engin ástæða til að láta hugfallast, við getum þetta alveg með skynsamlegri stjórn, smáskammti af dugnaði - og kjarki


Pínlegur bankaráðsmaður

Daniel Gros heitir bankaráðsmaður í Seðlabanka Íslands, sem skipaður var af hálfu Framsóknarflokksins.  Gros þessi er heimild forsíðufréttar Morgunblaðsins í dag, þar sem hann segir að Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta ætti að geta sparað 185 milljarða (1 milljarð evra) á því að fá lán frá Bretum og Hollendingum á sömu kjörum og þeir láni eigin sjóðum.  Til þessa eigi TIF tilkall vegna "jafnræðisreglu EES" (svo!).  Í samantekt Eyjunnar:

Því vakni spurningin hvaða lánskjör sjóðirnir fái hjá ríkisstjórnum Breta og Hollendinga. Svarið fyrir Bretland sé að sjóðurinn fái lán á LIBOR-vöxtum, að viðbættum 30 grunnpunktum, sem þýðir 1,5% um þessar mundir. Þetta sé fjórum prósentustigum undir lánskjörum Íslendinga, sem eru 5,55% sem fyrr segir. Þetta samsvari um 100 milljónum evra á ári, eða samanlagt yfir 1 milljarði evra á lánstímanum með uppsöfnuðum vöxtum.

Nú finnst mér að einhver sem vill hr. Gros vel ætti að eiga við hann lágstemmt samtal undir fjögur augu, og útskýra fyrir bankaráðsmanninum muninn á breytilegum skammtímavöxtum (t.d. LIBOR) og föstum vöxtum til 15 ára.  Við Íslendingar eigum vissulega ákveðna hefð af bankaráðsmönnum sem eru ekki djúpvitrir um bankamál, en það er ekki til áframhaldandi eftirbreytni.


ESB umræða óbreytt í 14 ár

Árið 1995 var ég í kosningastjórn Alþýðuflokksins í Reykjavík.  Flokkurinn fór þá fram með róttæka, frjálslynda jafnaðarstefnu þar sem m.a. var lögð áhersla á að sækja um aðild að ESB.  (Einnig vildi flokkurinn að landið yrði eitt kjördæmi, gjörbylta landbúnaðarkerfinu, taka upp auðlindagjald í sjávarútvegi og sameina atvinnuvegaráðuneytin í eitt.)  Ég var að fletta í gögnum sem ég fann úr þessari kosningabaráttu og get enn skrifað undir flest eða allt sem þar var sagt - og það hefði betur komist í framkvæmd árið 1995.

Hér eru til dæmis tvö fjórtán ára gömul málefnablöð sem mætti endurprenta og nota í ESB umræðu dagsins.  Það hefur nákvæmlega ekkert gerst eða hreyfst á þessum 14 árum.  Og Sjálfstæðisflokkurinn talar enn um að málið sé ekki tímabært!

xA'95 - Ísland í ESB  xA'95 - Sjávarútvegur og ESB


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Tuttugu ár síðan múrinn féll

Í dag, 9. nóvember, eru 20 ár frá falli Berlínarmúrsins 1989.

Að morgni jóladags sama ár voru haldnir tónleikar í Berlín, sem sjónvarpað var í beinni útsendingu, meðal annars til Íslands.  Þar stjórnaði öldungurinn Leonard Bernstein flutningi 9. sinfóníu Beethovens, en hljóðfæraleikarar og söngvarar komu bæði úr austri og vestri og lögðust á eitt við flutninginn.

Í tilefni hinna sögulegu tíðinda var texta Schillers í síðasta hluta sinfóníunnar breytt þannig að í stað orðsins Freude (gleði) kom Freiheit (frelsi).

Ég hlustaði á þessa tónleika 1989 ásamt syni mínum sem þá var nýorðinn tveggja ára, en verður reyndar 22ja eftir rúma viku.  Það var andaktug stund fyrir okkur báða.

Leonard Bernstein, gjörið svo vel.


Skuldir ýktar, enn og aftur

Enn veður uppi misskilningur um skuldir Íslendinga.  Í kjölfar hrunsins þurfti ítrekað að leiðrétta ranghermi um skuldir ríkissjóðs, sem sumir töldu vera upp á mörg þúsund milljarða.  Sem betur fer hafa flestir áttað sig á að þær eru og verða hlutfallslega svipaðar eða lægri en hjá ýmsum nágrannaþjóðum okkar, t.d. Bretum - þrátt fyrir Icesave og allt hitt.  Nú eru það hins vegar ýkjur um skuldastöðu þjóðarbúsins sem hver étur upp eftir öðrum, og því miður er hagfræðimenntað fólk á borð við Lilju Mósesdóttur þar ekki undanskilið.

Munurinn á þessu tvennu er að skuldir þjóðarbúsins innifela allar erlendar skuldir íslenskra aðila: ríkisins, sveitarfélaga, banka, orkufyrirtækja, álvera, allra annarra fyrirtækja, og einstaklinga. (Einungis beinar skuldir eru taldar með, lán gegn um innlenda banka eru ekki tvítalin.) Minni hluti erlendra skulda þjóðarbúsins verða greiddar af skattborgurum eða almenningi. Á móti meiri hluta þeirra standa aðeins afmarkaðar eignir og tekjur fyrirtækja, sem almenningur ber ekki ábyrgð á.

Dæmi um þetta eru fyrirtæki á borð við Actavis, Alcoa á Íslandi, Rio Tinto Alcan á Íslandi og Norðurál.  Þessi félög, sem eru íslenskir lögaðilar, skulda erlendum bönkum og móðurfélögum sínum töluvert fé.  Þær upphæðir eru innifaldar í skuldum þjóðarbúsins, og í tilviki Actavis eins eru tölurnar hvorki meira né minna en 50-70% af VLF.

Einnig er það ennþá þannig, að skuldir gömlu bankanna við erlenda lánardrottna eru taldar með skuldum þjóðarbúsins.  Þetta er þrátt fyrir að aðeins eignir þrotabúanna gangi upp á móti skuldunum, og rest verður á endanum afskrifuð - ekki á kostnað almennings, heldur erlendu kröfuhafanna.

Samkvæmt nýjustu tölum Seðlabanka Íslands er svokölluð hrein staða við útlönd (International Investment Position) neikvæð um 5.954 milljarða um mitt þetta ár.  Þar er um að ræða heildarskuldir þjóðarbúsins erlendis að frádregnum heildareignum erlendis.  Þetta eru 400% af VLF.  En þegar búið er að draga frá skuldir og eignir gömlu bankanna - en erlend staða þeirra er neikvæð um 5.347 milljarða, sem kröfuhafar tapa - þá er neikvæð staða þjóðarbúsins nettó 606 milljarðar.  Það er ekki há tala í alþjóðlegu samhengi, og mótast m.a. af sterkri stöðu lífeyrissjóða.

Það er sem sagt engin ástæða til að örvænta.  Ef við spilum rétt úr stöðunni, getur staða Íslands orðið ágæt, a.m.k. í samanburði við það sem annars staðar þekkist, innan fárra ára. Látum ekki óupplýsta úrtölumenn draga úr okkur kjark að óþörfu.


Davíð sagði ríkið geta ábyrgst öll innlán

Haldið til haga: Davíð Oddsson þáverandi Seðlabankastjóri sagði í viðtali við sjónvarpsstöðina Channel 4 í Bretlandi þann 3. mars 2008, að Ísland gæti ábyrgst öll innlán ef á þyrfti að halda.

Þulur segir: "Iceland's Central Bank governor says his country can afford to guarantee all deposits." (Seðlabankastjóri Íslands segir að land hans hafi efni á að ábyrgjast öll innlán.)

Davíð: "These banks are so sound that nothing like that is likely to ever happen.  And if something would happen, you never would be talking about the whole amount of money, because it is never like that.  But even so, the Icelandic economy, the state being debtless, this would not be too much for the state to swallow, if it would like to swallow it."  (Þessir bankar eru svo traustir að ekkert slíkt er líklegt til að gerast.  Og ef eitthvað gerðist, myndi það aldrei snúast um alla peningaupphæðina, því það er aldrei þannig.  En þó svo væri, íslenska hagkerfið, með ríkið skuldlaust, þetta væri ekki of mikið fyrir ríkið að kyngja, ef því þóknaðist að kyngja því.)

Enginn vafi virðist þarna á ferð um að ríkið bakki upp innlán bankanna, það sé skuldlaust og ráði við það.  Ekki að furða að breskir sparifjáreigendur héldu áfram að leggja inn peninga á Icesave, með svona líka fínni ríkisábyrgð, yfirlýstri af Seðlabankastjóra.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband