Þrjár góðar fréttir (sem enginn tók eftir)

Eins og reglulegir lesendur þessa bloggs hafa eflaust ályktað, þá er ég dyggur aðdáandi vefs Seðlabanka Íslands.  Í það geitarhús má ætíð leita ef þörf vaknar fyrir ull tilþrifa í stíl og neistaflugs í skopi.

Hérna er til dæmis margföld stórfrétt frá Seðlabankanum sem fjölmiðlamenn hafa nánast algjörlega misst af (undantekning í lok þessa pistils).

  • Viðskiptajöfnuður landsins er sennilega jákvæður á þriðja ársfjórðungi.  Viðskiptajöfnuður er mæling á heildarflæði gjaldeyris til og frá landinu, nettó.  Hann samanstendur af vöruskiptajöfnuði, þjónustujöfnuði og þáttatekjujöfnuði (sem eru einkum vextir og fjárfestingarliðir).  Menn hafa almennt talið að viðskiptajöfnuðurinn væri stórlega neikvæður um þessar mundir, sem væru vondar fréttir fyrir krónuna.  En raunin er sú að tölur Seðlabankans hafa hingað til innifalið reiknaða áfallna vexti á skuldir þrotabúa gömlu bankanna.  Þessir vextir verða hins vegar aldrei greiddir.  Án áhrifa þeirra er viðskiptajöfnuðurinn aðeins neikvæður um 9,5 milljarða á þriðja ársfjórðungi, og sú tala innifelur jafnframt áfallna vexti erlendra skulda annarra aðila en bankanna (t.d. eignarhaldsfélaga) sem verða ekki heldur greiddir.  Ég tel því allar líkur á að viðskiptajöfnuðurinn sé í reynd orðinn nálægt núlli eða jákvæður, á greiðslugrunni.  Það er stórfrétt og á að hafa áhrif á væntingar markaðarins um gengi krónunnar.
  • Nettó erlend staða þjóðarbúsins er nú talin vera neikvæð um "aðeins" 524 milljarða, í stað yfir 600 milljarða eftir 2. ársfjórðung.  Þetta eru 35% af vergri landsframleiðslu (VLF) og telst ekki mikið í alþjóðlegum samanburði, sérstaklega hjá ungri þjóð með mikilli uppbyggingu og fjárfestingu.  Taka verður fram að þetta er heildarstaða þjóðarbúsins erlendis, þ.m.t. ríkissjóðs, Seðlabanka, Icesave, sveitarfélaga, orkufyrirtækja, stóriðjufyrirtækja, gömlu og nýju bankanna, allra annarra fyrirtækja og einstaklinga.
  • Eign erlendra aðila í skuldabréfum útgefnum á Íslandi er töluvert lægri en áður var talið.  Þetta kemur fram í lokamálsgrein tilkynningar Seðlabankans en er ekki rökstutt frekar.  Þó er þarna aftur um stórfrétt að ræða og verður fróðlegt að sjá nánari tölur frá bankanum.  Ef rétt reynist styrkir það einnig horfur og væntingar um gengi krónunnar.

Eins og áður sagði hafa fjölmiðlar lítið fjallað um þessar fréttir.  Morgunblaðið birti þó klausu á föstudaginn þar sem þeim tókst að gera neikvæða frétt úr öllu saman. Að auki tók blaðamaðurinn sér það bessaleyfi (besserwisser-leyfi?) að fullyrða, ranglega, að vantalin væri 300 milljarða skuld í nettó erlendri stöðu þjóðarbúsins(*).  En þetta hefur eflaust verið erfið frétt fyrir Moggann, sem má fyrir alla muni ekki vera jákvæður, ekki einu sinni þegar fréttirnar styðja hans heittelskuðu krónu.

(Smellið á myndina til að fá stærri útgáfu af Moggafréttinni frá því á föstudaginn.)

*) Fullyrðing blaðamanns Moggans um að skuldabréf nýja Landsbankans til þess gamla eigi að bætast við þessa tölu er röng.  Það væri tvítalning því erlend skuld Tryggingasjóðs innistæðueigenda vegna innlána í gamla Landsbankanum er innifalin í skuldastöðunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Vilhjálmur!

Þakka þér fyrir enn eina góðu greinina. Auðvitað er þetta rétt metið hjá þér, en þú hefur sennilega ekki tekið eftir athugasemd Indriða Þorlákssonar, þar sem hann fullyrðir að heimtur á fé erlendis frá úr skattaskjólum oþh. líti mun betur út en áður var talið.

Þetta orsakast af því að viðamikil skýrsla Breta um skattaskjól nánast allra "útrásarvíkingana" og annarra sem hafa gert tilraun til að fela illa fenginn feng.

Þetta þýðir í raun að mér þykir afar ólíklegt yfir höfuð að íslenska þjóðin þurfi yfirleitt að borga nokkuð í framtíðinni vegna Icesave. Tryggingarsjóðurinn var einungis 1% á meðan kröfur í Svíþjóð t.d. eru 15%.

Hins vegar þarf að taka á málum og það er verið að gera það með styrkri stjórn Evu Joly.

Hverjir eru mest sekir?

Það mun febrúarskýrslan sýna, og nb! hér verður ekki komist upp með Olíusamráðsvinnubrögð, þar sem 100 milljörðum að núvirði sé stolið fyrir "vinina" af Stjórnvöldum.  Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn, viðhöfðu helmingaskiptaregluna, sem kunnugt er.

Mest sekur er:

Fv. stjórnendur Sjálfstæðisflokksins, það er óþarfi að nafngreina þá, hins vegar hafa þeir og leigupennar þeirra farið hamförum hér á netinu. Allt snýst um hagsmunagæslu, og "tilgangurinn helgar meðalið".

Fv. stjórnendur Framsóknarflokksins, sekt þeirra er rík, en sérhygli og brot á ýmsum reglum hafa viðgengist af fv. stjórnendum Framsóknarflokksins.

Aðrir flokkar hafa nánast ekkert tekið þátt í þessu sukki.

Nokkrir einstaklingar innan Samfylkingarinnar, hafa tekið þátt að litlu marki. Tekið þátt í hrunadansinum. Þeir aðilar eru ekki í framlínu Samfylkingarinnar.

Hins vegar glymur hæst í tómri tunnu, og aulabrandarar og blekkingar duga þessu liði EKKI.

Auðvitað er ekki verið að dæma viðkomandi flokka: hins vegar hafa stjórnendur flokkana misnotað sína aðstöðu gróflega og brotið landslög.

Því mun Landsdómur þurfa að koma saman.

Evrópusambandið mun fara síðan yfir allar skýrslur, og gerð verður krafa um að viðkomandi aðilar þurfa að standa skil á sínum gerðum. Blekkingar, áróður og lygar  t.d. hér á þessu blokki af hálfu þessara aðila mun ekki vera þeim til framdráttar.

Þátttakendur í þessum glæp, þurfa að standa reikningsskil.

Erlingur Þorsteinsson (IP-tala skráð) 30.11.2009 kl. 16:09

2 identicon

Get þá farið að minnka Prozac skammtinn .Án gríns þá eru þetta ágætar fréttir Vilhjálmur.

Öddi (IP-tala skráð) 30.11.2009 kl. 18:07

3 identicon

Mér þykir leitt að þurfa að spilla gleði ykkar en viðskiptajöfnuður án gömlu bankanna var neikvæður um 9,5 milljarða ISK á 3. ársfjórðungi ársins.

Viðskiptajöfnuður án gömlu bankanna er neikvæður um 79,931 milljarða ISK fyrstu níu mánuði ársins samkvæmt tölum Seðlabanka Íslands.

Til að viðskiptajöfnuðurinn verði ekki neikvæður yfir árið þarf vöruskipta- og þjónustujöfnuður að vera jákvæður um yfir 200 milljarða og það eru engar líkur á að það gerist (ekki nema krónan lækki til mikilla muna).

Þáttatekjujöfnuður fyrstu níu mánuði ársins er neikvæður um tæpa 155 milljarða án gömlu bankanna. Jafnvel þótt inn í þessari tölu séu reiknuð vaxtagjöld af lánum gjaldþrota eignarhaldsfélaga þá er ljóst að upphæð erlendra vaxtagreiðslna er slík að krónan þarf að lækka töluvert í viðbót til að afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd dugi fyrir greiðslu erlendra vaxta (og ég tala nú ekki um afborganir af erlendum lánum.

Það er því ljóst að þeir sem láta sig dreyma um mikla styrkingu á gengi krónunnar á næstunni geta gleymt því.

Nonni (IP-tala skráð) 30.11.2009 kl. 18:50

4 Smámynd: Eyjólfur Sturlaugsson

Takk fyrir þetta. 

Eyjólfur Sturlaugsson, 30.11.2009 kl. 19:40

5 identicon

Kærar þakkir fyrir ábendinguna. Mér léttir verulega að lesa þetta. Vonandi höldum við áfram réttu leiðina án spillingar. Frábært innlegg frá Erlingi hér að ofan.

Anna Geirsdóttir (IP-tala skráð) 30.11.2009 kl. 20:17

6 identicon

Villi, þetta er vel unnið og mjög svo jákvæðar fréttir, það væri óskandi ef bara einn þingmaður, ráðherra, embættismaður gæti sett þessar tölur fram eins og þú gerir í þínu bloggi. Það er kominn tími fyrir þessa þjóð að hætta að grenja og byrja að berjast! 35% net debt er "piece of shit" fyrir jafn auðlindaríka og menntaða Þjóð eins og Ísland.

ragnar (IP-tala skráð) 30.11.2009 kl. 20:29

7 identicon

Þetta eru skrítnar upplýsingar og svo sannarlega vona ég að þær séu réttar en held að sú sé ekki raunin.

Á vef seðlabankans er hægt að nálgast excelskjal og neðsi í þvi skjali kemur fram að viðskiptahalli fyrstu 9 mánuði ársins sé í kringum 70 milljarða án gömlu bankanna. Sjá línu 69 í skjalinu sem slóðin vísar í.

Hvar kemur það fram á vef Seðlabankans að viðskiptajöfnuður ársins sé einungis 9 milljarðar í mínus. Held að þessar fréttir séu varla réttar. Einungis vaxtagreiðslurnar af gömlu jöklabréfunum fara langt með að dekka vöruskiptajöfnuðinn.

http://www.sedlabanki.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=1739

Þórhallur Kristjánsson (IP-tala skráð) 30.11.2009 kl. 21:24

8 identicon

Vildi bara bæta við að ef slóðin sem ég vísa í hér að ofan er sett í brásara og ýtt á enter þá hleður hún skjalinu niður og setur á desktop. Það þarf því að sækja skjalið þangað

Þórhallur Kristjánsson (IP-tala skráð) 30.11.2009 kl. 21:29

9 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Nonni og Þórhallur: Þetta eru rétt ábendingar hjá ykkur, og ég biðst afsökunar á misherminu.  Ég hef leiðrétt texta færslunnar.  En þetta breytir ekki því að viðskiptajöfnuður þriðja ársfjórðungs virðist vera nálægt núlli (a.m.k. innan við 5% af útflutningi), eða jafnvel jákvæður ef spáð er í áhrif einkaaðila í greiðslustöðvun eða á leið í þrot; sem sagt miklu betri en flestir hafa talið.

Erlingur: Þetta er nú frekar steikt athugasemd.  Rannsóknanefnd eða Landsdómur fjallar ekki um verk stjórnmálamanna sem slíkra, t.d. hvort þeir hafi skrifað ósannindi á blogg, heldur hvort ráðherrar, embættismenn og stjórnsýsla almennt hafi brugðist.  Þá sé ég ekki hvað Evrópusambandið á að hafa með þetta að gera.  Ég held sjálfur að meirihluti skýringar á hruninu sé ekki að finna í glæpsamleg athæfi (hvað þá skattsvikum) heldur fremur í vanhæfni, gáleysi, ábyrgðarleysi, áhættusækni, sjálfsblekkingu og fífldirfsku, meðal annars.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 30.11.2009 kl. 22:52

10 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Til skýringar varðandi athugasemd mína við ályktun blaðamanns Morgunblaðsins: Þær erlendu skuldir sem hér er verið að fjalla um eru skuldir innlendra aðila við erlenda, sem greiða þarf og verða greiddar með gjaldeyri.  Ein af helstu eignum gamla Landsbankans er skuldabréf frá NBI sem mun vera í myntkörfu (en mér hefur ekki tekist að finna upplýsingar um hvort hluti þeirrar körfu sé í ISK).  Allar eignir Landsbankans munu fyrirsjáanlega verða greiddar til forgangskröfuhafa hans.  Þar er stærstur Tryggingasjóður innistæðueigenda, sem gerir kröfur f.h. FSCS í Bretlandi og seðlabanka Hollands.  Skuld TIF við Breta og Hollendinga er talin með í erlendum skuldum þjóðarbúsins.  Það væri því augljóslega tvítalning að telja pund og evrur sem fara frá NBI til TIF og þaðan upp í skuld við Breta og Hollendinga, bæði sem erlenda skuld NBI og sem erlenda skuld TIF.

Það sannleikskorn er hins vegar að finna í skrifum blaðamannsins, að að því marki sem gjaldeyrir mun fara frá NBI og greiðast út til annarra kröfuhafa en FSCS og seðlabanka Hollands í gegn um TIF, þá er ofgert að fella hann niður með skuldum gömlu bankanna.  Það má því með réttu segja að nettóstaðan sé vanmetin sem þessu nemur, en upphæðin er hvergi nálægt 300 milljörðum, heldur minnihluti þeirrar tölu (og erfið að reikna, það fer m.a. eftir "Ragnars Hall" meðhöndlun krafna TIF).

Vilhjálmur Þorsteinsson, 30.11.2009 kl. 23:13

11 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

[Felldi niður athugasemd frá Sigurrafni þar sem hún var ólæsileg, í stórum fonti með neikvæðu línubili.  Sigurrafni er velkomið að setja hana inn aftur með venjulegu letri.]

Vilhjálmur Þorsteinsson, 30.11.2009 kl. 23:16

12 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Og P.S.: Skuldabréf NBI var haft í gjaldeyri af því að eignir bankans eru að talsverðu leyti í gjaldeyri (t.d. útlánasafn til sjávarútvegsfyrirtækja) og það hefur verið talið áhættuminna að hafa betri jöfnuð í efnahagsreikningi bankans en fengist með 100% krónubréfi.  (Sem er umdeilanlegt eins og skarpur rýnir hefur bent mér á.)  Þar fór því fram ákveðið val sem vonandi er betra fyrir heildarhagsmunina en ekki.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 30.11.2009 kl. 23:21

13 identicon

Sammála þér Vilhjálmur. Letrið var of stórt og rann saman. Hinsvegar þykir mér letrið sem þú notar í athugasemdum of smátt. Formáli þinn er með stærri stöfum og læsilegri. Taktu eftir að Lárahanna notar mun stærra letur. Margt gott við farmsetingu á Mbl. blogg en letrið mætti vera í staðlaðri stærð. 

Vegna jákvæðni þinnar og uppsetningar á efni á ég eftir að lesa bloggið þitt, en verð að játa að ég fann þig ekki á vinsældalistanum þar sem þú átt heima í.

Sigurrafn (IP-tala skráð) 1.12.2009 kl. 00:02

14 identicon

Tölurnar fyrir þriðja fjórðung eru bráðabyrgðartölur og segja að viðskiptahallinn sé um 9,5 milljaðrar á þriðja fjórðungi.

Ég held að bráðarbyrgðatölurnar fyrir annan ársfjorðung hafi verið svipaðar eða um 10 milljarðar. Þær enduðu síðan í um 32 milljarða mínus. Miðað við þetta fer viðskiptahallinn langt yfir 100 milljarða á þessu ári þrátt fyrir að krónan sé svona veik.

í raun er krónan allt of hátt skráð. Hún þarf að vera talsvert veikari til þess að viðskiptajöfnuðurinn komist niður í núll.

Þórhallur Kristjánsson (IP-tala skráð) 1.12.2009 kl. 00:25

15 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Þórhallur: Til glöggvunar þá var viðskiptahallinn á Q1 245,1, á Q2 32,7 og á Q3 9,5, í öllum tilvikum að frátöldum þrotabúum banka.  En hafa verður í huga að stofnanir voru að tínast inn í greiðslustöðvun á Q1 og Q2 (t.d. Straumur, SPRON og Icebank).

Ef miðað er við 9,5 milljarða viðskiptahalla á Q3 þá er það innan við 5% af útflutningi, þannig að krónan þyrfti ekki að veikjast mikið til að dekka hann.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 1.12.2009 kl. 00:39

16 identicon

Hér kemur fram að viðskiptajöfnuður hafi verið óhagstæður um 10 milljarða á öðrum fjórðung miðað við fyrstu tölur en hann virðst enda í að vera óhagstæður um rúmlega 30 milljarða miðað við excel skjalið.

Mig grunar að þriðji fjórðungur eigi eftir að fara í meiri mínus en 9,5 milljarða.

http://www.sedlabanki.is/?PageID=13&NewsID=2235

Þórhallur Kristjánsson (IP-tala skráð) 1.12.2009 kl. 00:56

17 identicon

Ein spurning.  Þegar þú talar um nettó stöðu þjóðarbúsins, eru erlendar eignir lífeyrissjóðanna meðtaldar?  Veistu ca hversu há sú tala er þ.e. erlendar eignir lífeyrissjóðanna?

Styrmir (IP-tala skráð) 1.12.2009 kl. 01:01

18 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Sæll Vilhjálmur 

Það vildi ég að færslurnar þínar væru gefnar út með stuttum hnitmiðuðum texta og dreyft í hvert hús á Íslandi undir yfirskriftinni STAÐREYNDIR MÁLSINS - SANNLEIKURINN UM HRUNIÐ eða eitt hvað í þessum dúr.

Sá pési mundi örugglega spara heilmikið í Heilbrigðiskerfinu, draga úr veikindum á vinnustöðum og bjarga einhverjum mannslífum. Svartnættisrausið er svo yfirgengilegt að það nær bara eingri átt.

Enn og aftur þakkir fyrir frábæra upplýsingagjöf

Hólmfríður Bjarnadóttir, 1.12.2009 kl. 01:59

19 identicon

Sæll Vilhjálmur,

Jú Landsdómur þarf að koma saman vegna brota ráðherra. Víst skiptir máli áróður þessara aðila t.d. hér á blogginu, sem afhjúpar staðfestan vilja til blekkkinga. (nb! ég hef kennt Verslunarrétt í c.a 7 ár)  Auðvitað vissi ég af þessu!

Varðandi Evrópusambandið, það er líka rangt hjá þér. Það hefur komið fram að Evrópusambandið mun fara síðan yfir allar skýrslur og vinnu, því þessi brot eru alþjóðleg.  Gjaldþrot íslensku bankana eru 2-3 af 10 stærstu gjaldþrotum sögunnar. Því komast menn ekkert upp með neitt hagsmunagæslumúður.

Erlingur Þorsteinsson (IP-tala skráð) 1.12.2009 kl. 09:53

20 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Styrmir: Skv. tölum Seðlabankans áttu lífeyrissjóðir erlendar eignir upp á 521 milljarð í lok september sl.  Þær eignir eru meðtaldar í nettó stöðu þjóðarbúsins.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 1.12.2009 kl. 15:25

21 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég tók svo sem eftir fréttinni, en fannst hún, eins og margt frá Seðlabankanum, full af eyðum sem erfitt væri að geta í.  Málið er að mikil óvissa er um flestar hagstærðir og svo hefur verið undanfarin 2 - 3 ár.  Hvað af upplýsingum frá gömlu bönkunum getum við í raun og veru treyst á?  Hagstofan mælir hlutina á annan hátt en Seðlabanki sem mælir á annan hátt en greiningadeildir bankanna.  Tölur eru birtar og þær síðan leiðréttar fleiri mánuði aftur í tímann án þess að hafa fyrir því að segja frá því að tölur hafi verið leiðréttar.  Hafi maður notað tölur Seðlabankans frá því í janúar eða febrúar og ekki vistað skjalið með tölunum, þá er allt eins víst að í september hafi janúar tölunum verið breytt svo og svo mikið.  Svo skoðar maður tvö skjöl frá Seðlabankanum, en þar sem sitthvor maðurinn útbjó skjölin, þá eru tölurnar ekki samanburðarhæfar.

Marinó G. Njálsson, 1.12.2009 kl. 16:56

22 identicon

Snýst ekki umræðan frekar um það hvort erlendar tekjur þjóðarinnar dugi fyrir afborgunum af lánum. Í slíku tilviki verður að skoða heildarmyndina.

Annars sammála um að viðsnúningur í viðskiptajöfnuði er mjög jákvæður upp á IKR sem gæti hins vegar versnað ef menn ætli sér í fjárfreka atvinnuuppbyggingu.

Vilhjálmur, er ekki ljóst að verðandi atvinnuuppbygging verður að byggjast tækifærum sem ekki eru mjög fjárfrek. Uppbygging álvera telst þannig varla í því mengi eða hvað ?

Hvaða hugmyndir myndi þú telja Vilhjálmur að kæmu hér sterkar inn svona til að koma umræðunni á nýtt plan.

Björn Kristinsson (IP-tala skráð) 1.12.2009 kl. 19:47

23 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Björn: Kjarni málsins er sá að erlend staða þjóðarbúsins hefur ekki verið eins hagstæð árum saman, og viðskiptajöfnuður ekki heldur (hann var gríðarlega neikvæður í gróðærinu).  Við erum búin að "skera niður" hinn ofvaxna efnahagsreikning þjóðarbúsins og erum komin með miklu minni og viðráðanlegri reikning.

Varðandi tækifæri, þá þarf ég ekki að líta langt í kring um mig: Við eigum ennþá öflug rekstrarfélög á borð við CCP, Össur, Marel og Actavis.  Það þarf að vinna í að halda þeim áfram í landinu.  Síðan hef ég þá trú að gagnaveraiðnaður eigi eftir að byggjast upp í verulegum mæli í landinu á næstu árum.  Og loks eru mikil tækifæri í grænni orku almennt, ekki síst eftir að koltvísýringskvótar verða markaðsvara á árinu 2013 skv. ETS áætlun Evrópusambandsins.  Í tengslum við tvennt hið síðarnefnda (gagnaver og græna orku) munum við fá inn verulega erlenda fjárfestingu, sem talin verður í tugum og hundruðum milljarða á næstu árum.  Allt þetta liggur fyrir ef menn eyðileggja ekki tækifærin með því t.d. að rétta grannþjóðum fingurinn í Icesave og reka AGS úr landi.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 1.12.2009 kl. 22:22

24 identicon

Viðskiptajöfnuðurinn fer sennilega yfir 100 milljarða í mínus á þessu ári. Ég get ekki séð að það sé neitt sérstaklega hagstætt.

Eftir því sem fleiri lán eru tekin ásamt IceSave skuldbindingunum og krónuinnistæðu útlendinga þá er ekki líklegt að viðskiptajöfnuðurinn fari í plús í bráð.

Ef þú skoðar tölurnar sem AGS leggur fram til þess að ná fram jákvæðum viðskiptajöfnuði þá þarf vöruskiptajöfnuðurinn að fara yfir 150 milljarða  á næstu árum. Það hefur aldrei gerst í sögunni að svo mikill jákvæður afgangur sé af vöruskiptum.

Hægt er að skoða áætlaðar tölur á síðu Láru Hönnu um það hvernig vöruskiptajöfnuðurinn þurfi að vera næstu ár til þess að ná endum saman.

http://www.larahanna.blog.is/blog/larahanna/entry/986361/

Þórhallur Kristjánsson (IP-tala skráð) 2.12.2009 kl. 08:50

25 identicon

Myndmálið virkar sterkt í niðurlagi greinar þinnar. Morgunblaðið ofgerir skuldir þjóðarbúsins af einskæri ást blaðamansins á krónunni. Harmagrátur út af  mistökum og óstjórn er reynt að fela. Breta og Hollendinga  eru gerðir að blórabögglum í Æsseif-deilunni. Þykir gott til að hylja eigin slóð. Allir eiga að vera góðir í skóginum og uppfræða skal mátulega hin dýrin.

 

Íslenska ríkið skuldar ekki meira en mörg þróuð iðnríki, þótt einstaklingar hafi farið offari. Ótrúlega góð útkoma sem góðærið skilaði í kassann hjá Haarde. Þá er sjaldan getið um þau miklu verðmæti sem hafa skapast t.d. í vegalagningu, tækja- skipa- og bílaeign en eru ekki með á skuldalistanum.

 

Ákveðinn hofmóður ríkir um hagfræði og  þjóðarhag. Fræðingarnir vilja sitja að sínu og oft nota fréttamenn þá til að spá í spilin, lífga upp á  frétt. Þeir eru þá oft eins og hverjir aðrir töframenn. Hér á netinu er jákvæð viðleitni til að vita betur og færa umræðuna til okkar.

 

Oft dettur manni í hug Fávitinn eftir Dostojevskí þegar kemur að  athugasemdum á Mbl.-blogginu.  Samkvæmið er eins og hjá Nastösju í Pétursborg. Reynt er hafa stækkaðar myndir af vinum og útvöldum. Vinsældalistinn virkar eins og allir séu í veisluskapi þótt flestir séu angurværir.  Letur athugasemda er gert eins lítið og hægt er og  spennandi frumleiki og kraftur hverfur í fésvæddri vinavæðingu. Einstakir lífga upp á samræðurnar og aðrir vita varla um hvað þeir áttu um að tala. Margir hóta að yfirgefa partíið en fæstir fara.

 

 

 

sigurrafn (IP-tala skráð) 3.12.2009 kl. 12:42

26 identicon

Takk fyrir góða grein. Smá leiðrétting. Það er ekki rétt að þetta sé stórfrétt. Stórfrétt er það sem gefur tilefni til að skrifa fleiri greinar, sem hræða fleiri, og gefur fleiri tilefni til að tala af mikilli alvöru um hluti sem þeir hafa ekki gefið sér tíma til að brjóta til mergjar.

Þetta er vond smáfrétt. Í raun merkilegt að hún hafi sloppið í gegn. Svona fréttir gera engum gott og skila engu í búið nema afslöppuðu andvarpi til þreyttra foreldra sem sjá framtíð barnanna aðeins bartari. Hvaða hagur er svosem af því? Glatt fólk gæti orðið ánægt. Ánægt fólk myndi etv. hætta að berast á banaspjótum og leyfa nýjum hlutum að blómstra. Það, minn kæri, er sko ekkert íhald.

Andri Haraldsson (IP-tala skráð) 3.12.2009 kl. 20:52

27 identicon

Frábær grein í Morgunblaðinu í dag um víkingahagkerfið, skrifuð af Sigurði Sigurðssyni verkfræðingi. Hann sýnir fram á hvernig íslenska krónan er misnotuð. Notuð til að ræna verðmætum af venjulegu fólki. Krónan gagnast nú best þeim sem ráða yfir útflutningi, en hér áður fyrr urðu þeir að þola óhagstæða samkeppni við gjaldmiðla sem voru of lágt skráðir.  Skammt er öfga á milli og sýnir stjórnleysið sem hlýst af ónýtum gjaldmiðli. Vandinn er sá að það er ekki stjórnmálalegur vilji til að skipta um gjaldmiðill. Vilji menn breytingar er eina ráðið að kjósa yfir sig ESB með Samfylkingunni. Aðrir flokkar eru ekki nógu einlægir í afstöðu sinni til gjaldmiðlaskipta. Hægur vandi væri að taka upp dollar, en þá er Samfylkingin á móti. 

Í reynd held ég að lýðræði í litlu þjóðríki eins og Íslandi þjóni ekki tilgangi sínum. Brotið er á rétti þeirra sem vilja ekki vera með í  þessum firrta leik verðbólgu, hafta og leikaraskapar með fjöreggið. Framtíð barna okkar.

 

Ef hér hefði verið alvöru gjaldmiðill hefði bankaránið aldrei tekist. Vilhjálmur hvernig væri að setja upp línurit um þróun íslensku krónunnar og viðskiptajöfnuðinn?

sigurrafn (IP-tala skráð) 3.12.2009 kl. 22:18

28 identicon

Frábær grein í Morgunblaðinu í dag um víkingahagkerfið, skrifuð af Sigurði Sigurðssyni verkfræðingi. Hann sýnir fram á hvernig íslenska krónan er misnotuð. Notuð til að ræna verðmætum af venjulegu fólki. Krónan gagnast best nú þeim sem ráð yfir útflutningsgreinum, en hér áður fyrr urðu þær að þola óhagstæða samkeppni við gjaldmiðla sem voru of lágt skráðir.

 

Skammt er öfga á milli og sýnir stjórnleysið sem hlýst af ónýtum gjaldmiðli. Vandinn er sá að það er ekki stjórnmálalegur vilji til að skipta um gjaldmiðill. Vilji menn breytingar er eina ráðið að kjósa yfir sig ESB með Samfylkingunni. Aðrir flokkar eru ekki nógu einlægir í afstöðu sinni til gjaldmiðlaskipta. Hægur vandi væri að taka upp dollar, en þá er Samfylkingin á móti.

 

Í reynd held ég að lýðræði í litlu þjóðríki eins og Íslandi þjóni ekki tilgangi sínum. Brotið á rétti þeirra sem vilja ekki vera með í  þessum firrta leik verðbólgu, hafta og leikaraskap með fjöreggið. Framtíð barna okkar. Vilhjálmur hvernig væri að setja í línurit ránið með íslensku krónuna.

sigurrafn (IP-tala skráð) 3.12.2009 kl. 22:27

29 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Þórhallur: Það er fjarri lagi að vöruskiptajöfnuður þurfi að vera jákvæður um 150 milljarða.  Það er grundvallarmisskilningur í gangi um skuldir þjóðarbúsins, eins og ég er að reyna að benda á.  Tökum Actavis sem dæmi.  Félagið skuldar 1.000 milljarða erlendis.  En 95% af starfsemi félagsins er erlendis og kemur aldrei til Íslands, hvorki sem innflutningur né útflutningur.  Skuldirnar verða hins vegar aðeins greiddar af tekjuflæði af þessari erlendu starfsemi, ekki peningum almennings eða skattborgara.  Og það skiptir engu máli í þessu sambandi hver vöruskiptajöfnuður Íslands er - hann hefur ekkert með skuldaþol Actavis að gera.

Sama gildir að verulegu leyti um Marel, Össur og Bakkavör, svo dæmi séu nefnd - og að sjálfsögðu Exista.

Andri: Einmitt, þú átt kollgátuna!

Vilhjálmur Þorsteinsson, 4.12.2009 kl. 11:01

30 identicon

Vilhjálmur: Ég held að þú sért að misskilja eitthvað varðandi það vandamál sem við erum að glíma við. Vöru og þjónustujöfnuður þarf að fara langt yfir 150 milljarða næstu ár til þess að við eigum að geta greitt niður skuldir okkar.

Þetta er einfaldlega mat AGS getur skoðað það hér. Kíktu á myndina neðst.

http://www.larahanna.blog.is/blog/larahanna/entry/986361/

Viðskiptahallinn stefnir í að fara langtyfir 100 milljarða á þessu ári.

Þórhallur Kristjánsson (IP-tala skráð) 5.12.2009 kl. 13:10

31 identicon

Ef við tökum saman vaxtagreiðslur sem þarf að standa skil á þá fáum við í grófum dráttum þetta út. Tölur í milljörðum

Lán vegna IceSave stendur í 765  og ber það 5,5 % vexti frá 1 jan 2009 = 42

http://www.vb.is/frett/1/57552/

Heildar erlendar skuldir eru um 900 og segjum að meðallvextir séu um 5,5 = 49

http://www.sedlabanki.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=1731

Krónueign útlendinga (gömlu jöklabréfin) segjum að þau séu um 600 á 7 % vöxtum = 42

Samtals gerir þetta 133 milljarðar í vexti.

Til þess að dekka þessar vaxtagreiðslur þarf vöru og þjónustujöfnuðurinn að vera yfir 133 milljarðar á þessu ári.

Hann er langt frá því eins og er. 

Þórhallur Kristjánsson (IP-tala skráð) 5.12.2009 kl. 14:17

32 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Þórhallur: Lán vegna Icesave ber ekki nettóvexti af 765 milljörðum.  Á móti stendur eignasafn þrotabús Landsbankans (að mestu í erlendri mynt) sem einnig ber vexti og talið er að muni á endanum skila 75-90% upp í skuldirnar.  Að bestu manna yfirsýn munum við greiða 35-45 milljarða á ári þegar greiðslur hefjast af Icesave, árið 2016, í 8 ár - og það er samtala höfuðstólsgreiðslna og vaxta.

Sama gildir um aðrar erlendar skuldir ríkisins, þær eru að mestu vegna AGS og tengdra lána til gjaldeyrisforðans, og á móti þeim standa innistæður sem skila vöxtum.  Nettóvaxtamunur er talinn vera á bilinu 1-1,5%.

Í gangi eru tvær skilgreiningar á orðinu "jöklabréf", ég veit ekki hvora þú meinar, þ.e. eign útlendinga í íslenskum ríkistryggðum verðbréfum eða útistandandi bréf erlendra útgefenda í krónum.  Sú síðarnefnda hefur ekki endilega engin nettóáhrif á krónuna, því útgefendurnir þurfa að kaupa krónur til að greiða af bréfunum, sem viðtakendur vilja væntanlega skipta strax aftur í evrur - og flæðið því nettó núll.

Svo má ekki gleyma að íslenskir lífeyrissjóðir eiga yfir 500 milljarða (sennilega nær 600) í erlendum eignum sem skila vaxtatekjum í erlendum gjaldeyri.  Þar að auki eru aðrar erlendar eignir íslenskra aðila sem verður að telja á móti.

Loks breytist myndin algjörlega við það að við tökum stefnu á evru og fáum stuðning ECB við skipti úr krónu í evru, fyrst í ERM II ramma og svo með endanlegum skiptum.  Við það hverfur gjaldeyrisvinkillinn og -áhættan úr myndinni.

Það verður því að skoða heildarmyndina - eins og Seðlabankinn og AGS gera - en ekki bara neikvæðu hliðina.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 6.12.2009 kl. 15:49

33 identicon

Lán vegna IceSave stendur í 765 milljörðum í dag og safnar vöxtum á þá tölu þar til byrjað verður að greiða það niður með eignum úr þrotabúi Landsbankans.

Samkvæmt gögnum frá Seðlabankanum er viðskiptajöfnuðurinn búin að vera neikvæður um 80 milljarða fyrstu 9 mánuði ársins. Hægt að sjá það í þessu skjali lína 68. Þetta er eftir að búið er að taka út tölur vegna gömlu bankanna.

http://www.sedlabanki.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=5361

Ef vaxtagreiðslur vegna IceSave lánsins eru ekki byrjaðar að telja i þessum viðskiptahalla þá er ástandið verra en ég hélt.

Hvernig stendur á því að þegar vöru og þjónustujöfnuður er jákvæður um sirka 90 milljarða fyrstu 9 mánuðina að viðskiptajöfnuðurinn sé  neikvæður um 80 milljarða.

Ég er ekki alveg að ná þessu. Einhverstaðar hlýtur að vera skekkja í þeim gögnum sem Seðlabankinn er að birta eða ástanið er þannig að  þáttatekjurnar fyrstu 9 mánuði ársins hafi verið neikvæðar um 170 milljarða. það lítur út fyrir að svo sé.

Ef þú hefur skýringu á þessu þá væri áhugavert að fá hana. Ég vona allaveganna að það sé til góð skýring og ég sé að misskilja þetta.

Hvað varðar ESB er eg ekki að sjá að þjóðin sé að fara að kjósa að ganga þar inn. Skoðannakannanir benda allaveganna ekki til þess.

Þórhallur Kristjánsson (IP-tala skráð) 6.12.2009 kl. 17:28

34 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Já, 80 milljarðar fyrstu 9 mánuði ársins eru rétta talan.  Þar af eru 9,5 milljarðar á þriðja ársfjórðungi.  Mér er ekki ljóst hvernig SPRON, Icebank og Straumur telja inn í þessar tölur, en þeir fóru í slitameðferð á ýmsum dagsetningum á 1. og 2. ársfjórðungi 2009.

Það sem er að auki oftalið í þessu eru reiknaðir áfallnir vextir á skuldir eignarhaldsfélaga á borð við Exista og annarra sem skulda beint í útlöndum (þ.e. ekki í gegn um innlenda banka).  Og væntanlega eru áfallnir vextir á 1.000 milljarðana sem Actavis skuldar einnig þarna inni.  En þeir verða ekki greiddir af vöru- og þjónustujöfnuði Íslands, heldur af hagnaði samstæðu Actavis (sem er a.m.k. 95% utan Íslands).

Skoðanakannanir segja að markverður meirihluti þjóðarinnar vill sækja um inngöngu í ESB.  Það hefur ósköp lítið að segja hvernig menn svara könnunum um afstöðu til aðildarsamnings sem ekki liggur fyrir.  En ég vona að menn muni sjá að framtíðarhagsmunir okkar eru best tryggðir í nánu samstarfi Evrópuþjóða.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 6.12.2009 kl. 23:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband