2.5.2007 | 13:51
Óborganlegur aðstoðarmaður
Þetta er alveg óborganlegt... Jón Kristinn Snæhólm aðstoðarmaður borgarstjóra að þvælast milli brennandi húsa í miðbænum, Vínbarsins (hálfur bjór) og Ráðhússins á slökkviliðsbúningi
Hafði maðurinn ekkert betra að gera?
2.5.2007 | 00:42
Aðför að lýðræðinu og stjórnarskránni haldið til haga
Rétt fyrir kosningar er vert að halda til haga einu af stærstu deilumálum kjörtímabilsins sem nú er senn á enda, sem sagt fjölmiðlamálinu og umræðunni um stjórnarskrána og lýðræðið sem fylgdi í kjölfarið.
Eins og menn muna sjálfsagt fór allt í bál og brand í júní og júlí 2004 eftir að forseti Íslands synjaði fjölmiðlafrumvarpi ríkisstjórnarinnar staðfestingar. Með því vísaði hann í raun frumvarpinu til þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þá bar svo við að fylgismenn ríkisstjórnarinnar, einkum Sjálfstæðismenn, fundu þessu allt til foráttu; töldu forsetann í raun ekki hafa það vald sem í stjórnarskránni stendur. Ef til atkvæðagreiðslu kæmi, vildu þeir setja um hana sérstök lög með þrengri skilmálum en fyrirfinnast í stjórnarskránni, einkum um lágmarksþátttöku til að atkvæðagreiðslan teldist "gild" og jafnvel aukinn meirihluta.
Mér fannst þá og finnst enn að þessir menn væru að leika sér að eldinum og sýna verulegan valdhroka, jafnvel tilhneigingu í átt að fasisma. Þarna var í fúlustu alvöru talað um að ganga gegn skýrum fyrirmælum stjórnarskrár Lýðveldisins Íslands. Þessi umræða öll var viðkomandi til skammar og ég ætla rétt að vona að þetta mál gleymist ekki í kosningunum núna. Það er rétti tíminn 12. maí að senda þau skilaboð - einkum til Sjálfstæðisflokksins - að svona gera menn ekki.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.4.2007 | 22:07
Unga fólkið og framtíðin
Um daginn kynntu Samtök atvinnulífsins nýja könnun sem Námsmatsstofnun vann fyrir samtökin, um það hvað ungu kynslóðina langar til að starfa við í framtíðinni. Umfjöllun um könnunina í þjóðfélaginu var í frekar neikvæðum stíl, fólk hneykslaðist á því að fáir ætluðu að verða bændur og sjómenn, en unglingarnir sjá fyrir sér að verða háskólamenntaðir sérfræðingar af ýmsu tagi, t.d. læknar og arkitektar.
Mér fannst þetta afskaplega fín könnun og markverð, og líka jákvæð. Ég er bjartsýnn fyrir hönd nýrrar kynslóðar sem áttar sig á mikilvægi menntunar og hugvits, og sér að bestu lífskjörin fást í störfum sem byggja á þessum þáttum.
En það sem hryggir mig er að í aðdraganda kosninga talar enginn flokkur um þessa könnun, óskir unga fólksins og hvernig flokkurinn ætli að vinna að því að skapa þjóðfélagið og atvinnulífið sem unga fólkið vill starfa í.
Eini maðurinn sem hefur tjáð sig ítarlega um þetta mikilvæga mál er Andri Snær Magnason, í bók sinni Draumalandið, og því miður hefur enginn flokkur tekið almennilega upp þann þráð. Kannski helst Samfylkingin, en ekki nógu afgerandi að mínu mati.
30.4.2007 | 21:51
Fleipur Frjálslyndra um öryggisákvæði EES samningsins
Frjálslyndi flokkurinn sérhæfir sig í upphrópunum og popúlisma sem stenst enga málefnalega skoðun. Eitt af því sem hann vill gera er að beita svokölluðum öryggisákvæðum EES samningsins til að takmarka fjórfrelsið hvað varðar frjálst flæði vinnuafls til Íslands. Ekki virðist þeim detta í hug að velta fyrir sér hvaða afleiðingar þetta hefði fyrir Íslendinga sem starfa erlendis. En gefum Ragnari Árnasyni, forstöðumanni vinnumarkaðssviðs Samtaka atvinnulífsins, orðið:
Frá 1. maí [núna, innskot VÞ] er Íslandi óheimilt að grípa til sérstakra aðgerða gegn nýju ríkjunum einum og sér. Öryggisráðstöfunum verður einungis beitt gegn öllum aðildarríkum EES samtímis, þ.m.t. Norðurlöndunum. Ef Ísland vill stöðva eða takmarka með lögmætum hætti frjálsa för launafólks frá aðildarríkjum EES þá er einungis ein leið fær: Uppsögn EES samningsins.
Nánar hér.
Þótt Frjálslyndir hafi ýmisleg furðuleg stefnumál þá get ég ekki ímyndað mér að þeir vilji segja upp EES samningnum, einu helsta framfaraskrefi í atvinnu- og réttindamálum Íslendinga frá lýðveldisstofnun. Eða hvað?
30.4.2007 | 00:05
Silkiklædda þotuliðinu haldið til haga
Eftirfarandi ummæli Ögmundar Jónassonar af www.ogmundur.is, sem segja mjög mikið um hugsunarhátt vinstri grænna, eru of merkileg til að týnast, svo ég held þeim til haga hér:
Er jafnaðarsamfélaginu fórnandi fyrir 12 milljarða og nokkra stráka og stelpur í silkigöllum; þotuliðið? Eða eigum við að snúa spurningunni við: Er þotuliðinu fórnandi fyrir meiri jöfnuð og félagslegt réttlæti? Mitt svar er játandi...
Með 12 milljörðunum meinar hann víst fjármagnstekjuskatt (10%) af hagnaði bankanna á fyrstu 9 mánuðum ársins 2006, sem var 120 milljarðar skv. blogginu. Af hverju tekjuskattur bankanna er ekki inni í þessari tölu veit ég ekki, en Ögmundur er ekkert allt of sleipur í mekanismum skattkerfisins, eða hagkerfisins yfirleitt. Upphaflegu bloggfærsluna hans Ögmundar má sjá hér.
29.4.2007 | 16:13
Bandar prins kemur víða við sögu
Mjög athyglisverð grein í New York Times um Bandar prins, fyrrum sendiherra Sádí-Arabíu í Bandaríkjunum og persónulegan vin og ráðgjafa Bush, Cheneys, Powells og fleiri stjórnarherra. Fyrir þá sem hafa áhuga á því sem gerist bak við tjöldin í stjórnmálum Mið-Austurlanda (og Bandaríkjanna) er þessi grein algjör skyldulesning. Bandar prins átti t.d. stærstan þáttinn í því að bin Laden-fjölskyldunni var bjargað út úr Bandaríkjunum á næstu dögum eftir 11. september, og fékk flugvélar undir sig, þrátt fyrir almennt flugbann.
Sádí-Arabía er nóta bene einræðisríki þar sem er öflug ritskoðun, konur mega ekki aka bílum og helst ekki ganga einar á götum úti, og lögggjöf og dómstólar fara í einu og öllu eftir sharía-lögum Íslams. En ekki hefur komið til tals að efna til sprengjuárása á landið, merkilegt nokk.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.4.2007 | 02:15
Mistökin halda áfram
![]() |
Níu bandarískir hermenn féllu í Írak í dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.4.2007 | 01:33
Listi hinna staðföstu þjóða
Svona var listi hinna staðföstu þjóða kynntur á blaðamannafundi utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna í Washington þann 18. mars 2003:
MR. BOUCHER: There are 30 countries who have agreed to be part of the coalition for the immediate disarmament of Iraq. I'd have to say these are countries that we have gone to and said, "Do you want to be listed?" and they have said, "Yes."
I'll read them to you alphabetically, so that we get the definitive list out on the record.
They are: Afghanistan, Albania, Australia, Azerbaijan, Colombia, the Czech Republic, Denmark, El Salvador, Eritrea, Estonia, Ethiopia, Georgia, Hungary, Iceland, Italy, Japan, Korea, Latvia, Lithuania, Macedonia, the Netherlands, Nicaragua, the Philippines, Poland, Romania, Slovakia, Spain, Turkey, the United Kingdom, and Uzbekistan.
Takið eftir að þarna vantar t.d. Noreg, Svíþjóð, Finnland, Frakkland og Þýskaland. En litla Ísland er með, "we wanted to be listed". Svei sé því alla daga.
29.4.2007 | 01:17
Samkynhneigð: gildir bókstafur Biblíunnar bara stundum?
Kirkjuþing hafnaði því sem kunnugt er nýlega að heimila prestum Þjóðkirkjunnar að veita hjónaböndum samkynhneigðra blessun. Er í því efni vísað til kirkjuhefðar sem byggir á ritningargreinum um samkynhneigða.
Mér er spurn af þessu tilefni af hverju Þjóðkirkjan tekur þá ekki í leiðinni upp endurnýjaða umræðu um til dæmis Matt. 5.32: "En ég segi yður, að hver sem skilur við konu sína, nema fyrir hórsök, verður þess valdandi, að hún drýgir hór; og hver sem gengur að eiga fráskilda konu, drýgir hór."
Ég sé ekki rökin fyrir því að taka orð Biblíunnar um samkynhneigð bókstaflega, meðan menn leyfa hjónaskilnaði hægri og vinstri, sem ekki verður séð að Biblían líti jákvæðari augum.
Svo er reyndar margt fleira miður fallegt sem Biblían kennir og Þjóðkirkjan kýs að taka ekki bókstaflega, nenni ekki að nefna dæmi en þau eru mýmörg. Fyrir leikmann lyktar þessi fælni gagnvart jafnrétti samkynhneigðra af hræsni.
28.4.2007 | 23:20
Allt á sömu bókina lært í Írak
Íraksstríðsins verður án efa minnst sem einna helstu mistaka okkar tíma. Þar er allt á sömu bókina lært. Forsendurnar voru rangar, upplýsingarnar falskar, áætlanagerðin engin, skilningur á sögu og menningu ekki fyrir hendi, markmiðin óljós, og framkvæmdin klúður. Nú segir New York Times frá því að við endurskoðun hafi komið í ljós að uppbyggingarverkefnin - sem gumað var af til vitnis um að herförin bæri a.m.k. einhvern árangur - hafa líka mistekist, ofan á allar hinar hörmungarnar.
Ég er enn að reyna að átta mig á því hvort ráðamenn í Bandaríkjunum séu svona arfavitlausir, eða hvort einhver óopinber og leynileg áætlun sé undirliggjandi í öllu kaosinu, bara svona assgoti vel falin. Ég hélt lengi vel að hið síðarnefnda væri svarið (málið snerist í raun um olíuhagsmuni og öfgakenndan stuðning við Ísrael), en hallast nú æ meir að því fyrrnefnda.
Íslendingar eiga í fyrsta lagi að sjá sóma sinn í því að biðja Íraka afsökunar og segja sig frá þessum stríðsrekstri opinberlega, og í öðru lagi að axla ábyrgð og taka við íröskum flóttamönnum. Það væri þá fyrsta ákvörðunin í tengslum við Íraksmálið sem mannsbragur væri á.