"Tifandi tímasprengjan" lifir

Ég hélt að ég yrði ekki eldri þegar ég sá þessa upptöku frá kappræðum forsendaframbjóðenda Repúblikanaflokksins:

Þarna setur þáttastjórnandinn fram með miklum alvöruþunga hina svokölluðu "tifandi tímasprengju" sem er tilbúið dæmi - þekkt úr siðfræði og heimspeki - sem á að sýna fram á að pyntingar séu nauðsynlegt tæki gegn vondum hryðjuverkamönnum.  Og frambjóðendurnir gleypa þetta hver af öðrum og vilja leyfa pyntingar eða a.m.k. veigrunina "enhanced interrogation techniques".  Einn bætir við að hann vilji tvöfalda stærð Guantanamo búðanna.  Hvað er eiginlega að verða um Bandaríkin?  Er fasisminn að verða svona rosalega sterkur?

Fyrir þá sem vilja lesa sér til um tifandi tímasprengjuna má benda á eftirfarandi greinar:

Bruce Schneier, minn uppáhaldsskríbent um öryggismál: http://www.schneier.com/blog/archives/2006/10/torture_and_the.html 

Hér er greinin sem Schneier vísar til: http://balkin.blogspot.com/2006/10/torture-and-ticking-time-bomb.html

Önnur góð: http://progressive.org/node/3940

Ítarleg: http://www.blackwell-synergy.com/doi/pdf/10.1111/j.1468-5930.2006.00355.x?cookieSet=1

Mjög ítarleg og fræðileg: http://www.virginialawreview.org/content/pdfs/91/1425.pdf

Pyntingar eiga aldrei rétt á sér.  Þeir sem halda öðru fram eru að hafna öllu siðgæði.

Ef við segjum að leyfilegt sé að beita pyntingum ef líklegt er að þær laði fram upplýsingar sem þyrmi lífi margra (t.d. þúsunda), hvar á þá að draga mörkin?  Væri t.d. leyfilegt að pynta barn hryðjuverkamanns fyrir framan hann, ef það gæti þyrmt lífi tugþúsunda?  Eða nauðga konu hans fyrir framan hann, ef það gæti þyrmt lífi hundraða þúsunda?  Nákvæmlega hversu miklar þurfa líkurnar að vera - 100%, 99,9%, 99%, 90%?  Og hvernig á að vera hægt að treysta því sem menn segja eftir pyntingar?

Að forsetaframbjóðendur í valdamesta ríki veraldar séu að svara svona bulli vekur mér verulegan ugg.  Og svo segjast þeir vera kristnir í þokkabót.


Jæja, þá er Kúrdistan næst á dagskrá...

... í áframhaldandi hörmungasögu Íraksstríðsins.  Eitt af því sem allir vissu, sem eitthvað kynntu sér sögu Íraks og nágrennis í aðdraganda stríðsins, er að Kúrdar í norðurhéruðum Íraks hafa fullan hug á að sameinast suðurhluta Tyrklands og stofna Kúrdistan, þeirra fyrirheitna land.  En víst má telja að Bandaríkjamenn hafa ekki hugsað sér að það yrði að veruleika, þótt þeir reiddu sig á stuðning Kúrda gegn Saddam.

Ég spái því að þarna verði næsta stórvandamálið sem hlýst af hinu vanhugsaða (óhugsaða?) Íraksstríði.


mbl.is Tyrkir varaðir við að senda herlið yfir landamæri Íraks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju, Ingibjörg Sólrún...

... með utanríkisráðuneytið, og nýju ríkisstjórnina almennt.

Nú væri gaman að sjá Ísland móta sjálfstæðari og ferskari utanríkisstefnu en verið hefur um árabil.  Við eigum að leyfa okkur að vera vörður friðar, lýðræðis og mannréttinda í heiminum, og nýta okkur smæð okkar og sérstöðu í því skyni.  Þarna eru mikil tækifæri til að láta gott af sér leiða ef vel er á haldið.

Mér er minnisstætt fréttaviðtal sem ég sá í sænsku sjónvarpi við Önnu Lindh, heitna, þáverandi utanríkisráðherra Svíþjóðar.  Þar talaði kona sem leyfði sér að túlka afdráttarlausa og sjálfstæða utanríkisstefnu þjóðar sinnar og ríkisstjórnar, í þessu tilviki í málefnum Palestínu.  Ég varð samstundis einlægur aðdáandi Önnu Lindh og harmaði fráfall hennar eins og margir.  En þegar ég horfði á viðtalið saknaði ég svona skeleggs utanríkisráðherra minnar eigin þjóðar; við höfðum reyndar einn slíkan þar sem Jón Baldvin var, en ósköp tilþrifalitla síðan.  Nú bíð ég spenntur eftir að sjá hvað ISG gerir, og bind við það miklar vonir.

Og - Ingibjörg Sólrún - mikið svakalega væri það fínt ef fyrsta verk ráðherrans yrði að aflétta stuðningi Íslands við stríðið í Írak.


Eddu Rós sem fjármálaráðherra

Sú venja að skipa ráðherra úr röðum alþingismanna er barn síns tíma.  Áður fyrr voru alþingismenn hvort eð er í hópi best menntuðu og reyndustu dætra og sona landsins.  Nú er þjóðfélagið mikið breytt, sérhæfing allt önnur og meiri, og hæfileikar sem nýtast fólki til metorða innan stjórnmálaflokka og síðan í þingkosningum eru ekki endilega þeir sömu og gagnast stjórnendum framkvæmdavaldsins til góðra verka fyrir land og lýð.

Ég tel til dæmis að fjarskiptamálum hefði getað verið betur sinnt í tíð undanfarinna ríkisstjórna ef ráðherrar samgöngumála, Halldór Blöndal og Sturla Böðvarsson, hefðu haft meiri faglega nasasjón af því út á hvað Internetið og fjarskiptabyltingin ganga.

Nú legg ég til í anda þess sem á undan er sagt, og í hæfilegum hálfkæringi, að Samfylkingin tilnefni Eddu Rós Karlsdóttur yfirmann greiningardeildar Landsbankans í starf fjármálaráðherra.  Þar er afar frambærilegur kandídat í starfið, sem skilur gangverk íslenska hagkerfisins, hefur góð tengsl við verkalýðshreyfinguna og nýtur trausts á fjármálamörkuðum.  Þar væri flott byrjun á nýrri ríkisstjórn fyrir Samfylkinguna!


Skipulagi hefur farið aftur

Ég ólst upp á Melunum, í afar fallegu hverfi sem skipulagt var um og fyrir 1940.  Það var í þá gömlu góðu daga þegar fólk kunni að skipuleggja borgarumhverfi.  Manneskjulegar stærðir, vinalegir húsagarðar, rólegar götur sem gaman er að ganga um.  Byggðin hæfilega þétt.

Því miður er eins og þessi þekking hafi týnst í kring um 7. og 8. áratuginn.  Síðan þá hefur borgarskipulagið meira og minna verið fast í ógöngum, þó með stöku undantekningum í Fossvogi, Breiðholtshverfi og kannski í Grafarvogi.  Einhver verstu dæmin eru í nýjustu hverfunum, t.d. í Hafnarfirði, þar sem verktakar virðast ráða skipulagi með hörmulegum afleiðingum.

Dæmi um nútíma skipulagsmistök má sjá í Borgartúninu, þar sem ekkert hefur verið hugsað um mannlegt og vinalegt umhverfi.  Gangandi fólk kemst varla milli húsa þar, hvað þá að nokkrum manni detti í hug að labba um götuna sér til ánægju.  Mikil steypugljúfur munu sjá þar fyrir vindstrengjum sem valda því að fólk flýtir sér beint úr bílnum inn í næstu hús og svo sem hraðast í burtu eftir að nauðsynlegum erindum er lokið.

Í framtíðinni verða perlurnar innan borgarinnar enn mikilvægari en áður; þangað mun fólk leita í var frá háhýsum og steypulandslagi til að finna afslappað og mannvænt umhverfi.

Bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ skilja þetta greinilega ekki.  Þau kunna ekki að meta þá perlu sem Álafosskvosin er, og sjá ekki möguleikana sem þar eru á að gera einhvern besta hluta Mosfellsbæjar - og þótt víða væri leitað - enn betri.  Þarna er komið upp samfélag listamanna og skapandi fólks í mjög fallegu umhverfi, sem gæti orðið vin í umhverfislegri eyðimörk sem hefur Kentucky Fried Chicken sem merkisbera.  En bæjaryfirvöld, þ.m.t. Vinstri grænir, virðast álíta KFC-skipulag vera framtíðina og Álafosskvosina eiga að tilheyra fortíð.  Því er einmitt öfugt farið.


mbl.is Háhýsastefna í mótun í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tímalaus snilld!

Þetta var nú spilað mikið í mínu ungdæmi, og er ennþá fjári gott!

(Örstutt intro fyrst, svo byrjar ballið.)

Já, það verður ekki af þeim skafið...


Hvað eru jöklabréf?

Síðunni hefur borist ábending um að hugtakið "jöklabréf" hafi verið notað í fyrri færslu án útskýringar.  Hér er hún:

Jöklabréf = glacier bond = skuldabréf gefin út af alþjóðlegum bönkum og sjóðum en í íslenskum krónum og með íslenskum ofurvöxtum.  Seld ítölskum tannlæknum og austurrískum ekkjum, sem finnst vextirnir spennandi.  Einnig seld spekúlöntum sem taka lán í jenum og svissneskum frönkum á 1-3% vöxtum og kaupa jöklabréf á 11-13% vöxtum fyrir peningana, og vona að krónan falli ekki (a.m.k. ekki meira en 10% á ári).

Alþjóðlegu bankarnir taka íslensku krónurnar sem þeir fá fyrir jöklabréfin og skipta þeim aftur í íslenskum bönkum fyrir evrur, eða kaupa íslensk ríkisskuldabréf á hærri vöxtum en jöklabréfin eru, eða setja krónurnar á íslenskan peningamarkað (en þar er vöxtum haldið uppi af Seðlabankanum).  Meðan þetta gengur svona áfram, styrkist krónan, það er fullt af peningum í umferð og allir eru glaðir - uns tjaldið fellur.

Um þessar mundir eru yfir 700 milljarðar af jöklabréfum útistandandi.


Maður líttu þér nær

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra kveinkar sér í dag í yfirlýsingu í framhaldi af umræðu um útstrikanir af lista Sjálfstæðismanna í Reykjavík Suður, og auglýsingu Jóhannesar í Bónus.   Svo virðist sem 18% kjósenda D-listans í kjördæminu hafi strikað yfir nafn Björns.

Þessar yfirstrikanir eru ekki Jóhannesi í Bónus að kenna.  Þær lýsa raunverulegri afstöðu kjósenda í leynilegri kosningu.  Auglýsing Jóhannesar er ekki annars eðlis en almennar auglýsingar í kosningabaráttu, þar sem fólk er hvatt til að kjósa tiltekna lista eða menn, eða til að kjósa ekki tiltekna lista og jafnvel menn, eftir atvikum.  En kjósendur taka afstöðu og lýsa henni með atkvæði sínu.

Ég get ímyndað mér margt við skoðanir Björns og framgöngu sem kjósendur D-listans gætu verið að lýsa óánægju sinni með.  Björn hefur löngum komið fyrir sem einlægur stuðningsmaður Bandaríkjanna en svipleg brottför hersins og Íraksmálið hafa grafið undan trúverðugleika hans á því sviði.  Hann hefur flækst öfugu megin inn í umræðu um hlerunarmál, og virðist almennt áhugasamur um eflingu lögregluríkis og hervæðingu, hverju nafni sem nefnist.  Þetta eru skoðanir sem ekki allir Sjálfstæðismenn taka undir, sérstaklega ekki þeir sem leggja áherslu á frelsi einstaklingsins og lágmörkun ríkisafskipta.  Þá gekk Björn fram fyrir skjöldu í fjölmiðlamálinu svokallaða og gaf undir fótinn hugmyndum um kröfur um lágmarksþátttöku og jafnvel aukinn meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslu, án þess að séð verði að stjórnarskráin heimili slíkt. Svona hluti muna margir, og þarf ekki Baugsmálið til að menn séu ósáttir við Björn.

Ég held að hollast væri Sjálfstæðisflokknum og Birni að taka mark á kjósendum og líta í eigin barm; kannski eru hér á ferðinni skilaboð sem vert er að taka mark á.

 


mbl.is Björn lýsir áhyggjum af þróun stjórnmálastarfs og réttarríkisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað gerir Seðlabankinn?

Á miðvikudagsmorgunn kynnir Seðlabankinn næstu vaxtaákvörðun sína.  Það verður athyglisvert að sjá hvernig tónninn verður í þetta skiptið.  Ef ég mætti hvísla í eyru Seðlabankastjóra, ráðlegði ég þeim að byrja að gefa tóninn - blíðlega - um lækkun vaxta.  Af hverju?  Jú, það er ljóst að vaxtahækkanirnar eru ekki að skila tilætluðum árangri, heldur fremur í öfuga átt.

Fjárfestar og almenningur líta svo á að Seðlabankinn sé að lofa þeim sterkri krónu til alllangs tíma.  Það þýðir að jöklabréfaútgáfan heldur áfram og að almenningur einhendir sér í ódýr erlend lán, fyrir húsnæði, bílum og jafnvel neyslu.  Vextirnir eru sem sagt neysluhvetjandi en ekki letjandi eins og hefðbundin hagfræði segir.

Jöklabréfastabbinn er kominn í 700 milljarða og fer stækkandi.  Þarna eru peningar sem munu flæða út úr krónunni aftur þegar vaxtamunarviðskipti (carry trade) dragast saman á heimsvísu.  Að óbreyttu mun þetta ójafnvægi fara í 1000 milljarða og enn hærra.  Það verður ekki gaman þegar allir fílarnir ætla að troða sér út um litlar útgöngudyr, daginn sem krónan byrjar að falla.  Þá mun markaður fyrir krónur einfaldlega hverfa (sbr. 19. febrúar 2006), seljanleiki verður enginn, skrúfa þarf vexti upp í hundruðir prósenta tímabundið o.s.frv.  Seðlabankanum er vandi á höndum að reyna að komast hjá þessari stöðu með því að veikja krónuna afar mjúklega.  Á því verður að byrja sem allra fyrst, ef við eigum að komast hjá krísu sem kallar ekki allt ömmu sína.


Íslendingar flýja krónuna

Ástand efnahagsmála er afskaplega einkennilegt um þessar mundir.  Fyrirtæki á borð við Actavis, Straum, Marel og CCP færa bókhald sitt yfir í evrur og dollara.  Almenningur fjármagnar kaup á bílum og íbúðarhúsnæði í erlendri mynt.  Á meðan kaupa erlendir fjárfestar jöklabréf fyrir milljarðatugi og eru komnir samtals með mörg hundruð milljarða stöðu í hávaxtakrónu.

Ég spái því að íslensk fyrirtæki byrji fljótlega að bjóða starfsfólki að taka laun í evrum eða dollurum í stað krónu.  Þá getur fólk verið rólegt yfir því að hafa lánin sín í evrum.  Af kynnum mínum af upplýsingakerfum verslana veit ég að það er lítið mál fyrir búðir almennt að verðleggja vörur í evrum og krónum samhliða, og þá er stutt að bíða eftir debet- og kreditkortum á evrureikningum hjá bönkunum.

Sem sagt, almenningur er á leiðinni út úr krónunni og það verða smám saman aðallega erlendir spekúlantar og ríkissjóður sem halda í krónuna, svo ekki sé nú minnst á Seðlabankann, sem missir alla stjórn á hagkerfinu sem fólkið kýs með veskinu.

Þá vaknar góð spurning: er nokkuð slæmt við það? 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband