20.8.2009 | 11:46
Enn um forgang Icesave-krafna
Eitt af því sem hvað mest hefur verið rætt í Icesave-málinu er hvernig Tryggingarsjóður innstæðueigenda, breski og hollenski innistæðutryggingasjóðirnir, og innlánseigendur sjálfir skipta með sér því sem fæst úr þrotabúi Landsbankans.
Í Icesave samningunum er gert ráð fyrir því að allir ofangreindir aðilar eigi jafnstæðar kröfur í búið og að til þeirra verði úthlutað að jafnri tiltölu eftir kröfufjárhæð þeirra. Það er meira að segja tekið fram að ef úthlutun verður af einhverjum ástæðum ójöfn, þá séu tryggingasjóðirnir sammála um að jafna það út eftir á, sín á milli.
Ragnar H. Hall hrl. og fleiri lögmenn hafa bent á að það sé ekki augljóst að úthlutun úr búinu eigi að vera með þessum hætti. Þeir telja að Tryggingarsjóður eigi alltaf kröfu á fyrstu 20.887 evrur sem hver innistæðueigandi fær í sinn hlut. Sú túlkun leiðir til þess að sjóðurinn fær mun meira úr þrotabúi Landsbankans en ella og tjón skattborgara verður þá minna sem því nemur.
Indriði H. Þorláksson og fleiri hafa túlkað afstöðu Ragnars þannig að verið sé að fara fram á að Tryggingarsjóðurinn hafi aukinn forgang ("super-priority") í þrotabúið. Fjárlaganefnd voru m.a. afhent álit evrópskra og íslenskra lögfræðinga um að slíkur aukinn forgangur væri í andstöðu við jafnræðisreglur og skuldbindingar um sanngjarna meðferð kröfuhafa, og jafnvel bann EES við mismunun eftir þjóðerni (sem eru reyndar rök sem ég skil ekki hvernig eiga við í þessu máli).
Ég tel hins vegar að þetta sé rangur skilningur á ábendingum Ragnars. Það er ekki verið að fara fram á aukinn forgang og það þarf enga lagabreytingu til að ná því fram sem hann bendir á. Það sem þarf er aðeins samningur milli innistæðueiganda og Tryggingarsjóðs um að gegn greiðslu tryggingarinnar framselji innistæðueigandinn fyrstu 20.887 evrur af endurheimt innistæðunnar úr búinu til sjóðsins. Slíkur samningur ætti að vera staðaltexti á eyðublaðinu sem notað er til að fara fram á endurgreiðslu úr Tryggingarsjóðnum.
Svona framsal uppfyllir öll skilyrði EES-reglugerðar um innistæðutryggingar og einnig ákvæði íslensku laganna, en þar stendur einfaldlega: Komi til greiðslu úr sjóðnum yfirtekur hann kröfu kröfuhafa á hendur hlutaðeigandi aðildarfyrirtæki eða þrotabúi (3. mgr. 10. gr). Með öðrum orðum, sjóðurinn yfirtekur heildarkröfu innistæðueigandans, fær greitt að réttri tiltölu úr búinu, tekur fyrstu 20.887 evrurnar í sinn hlut (sem hann hafði áður greitt út) og skilar rest til innistæðueigandans. Það er engin lagastoð né nauðsyn til þess að skipta kröfunni í tvennt, kröfu innistæðueiganda og kröfu Tryggingarsjóðs. Hér er um að ræða einfaldan samning milli þessara tveggja aðila um skiptingu endurheimtunnar sín á milli.
Þessi aðferð gefur Tryggingarsjóðnum 20.887 evrur upp í allar innistæður sem skila þeirri endurheimt eða hærri, óháð því hvort breski og hollenski sjóðurinn hafi tekið upp á sitt einsdæmi að tryggja hærri upphæðir. Ég sé ekki annað en að hún standist fullkomlega að gildandi lögum og reglum. Engan ofurforgang þarf til.
Ég vona að það sé ekki of seint að koma þessum sjónarmiðum að í umræðuna; hér munar milljarðatugum fyrir skattgreiðendur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:15 | Facebook
Athugasemdir
Eyðublað Tryggingarsjóðs til að sækja um bætur má sjá hér. Það er ekki mjög sterklega orðað eða vandlega uppsett, frekar amatöralegt sannast sagna. En orðalag þess ("yfirtekur sjóðurinn kröfu mína...sem þeirri greiðslu nemur") (skáletraði parturinn á sér reyndar ekki lagastoð) kemur ekki í veg fyrir skilning þann sem ég lýsi hér að ofan. Ég myndi samt ráðleggja sjóðnum að skýra orðalagið, því þokuhugsun þarna getur kostað milljarða eins og reynslan sýnir.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 20.8.2009 kl. 17:13
Skv. ofanskráðu þá á fyrirvarinn í breytingartillögu meirihluta fjárlaganefndar í ríkisábyrgðarfrumvarpi í raun ekki við:
Það er sem sagt ekki verið að tala um að kröfur Tryggingarsjóðsins "gangi við úthlutun framar öðrum hluta krafna vegna sömu innistæðu". Að réttu lagi er bara ein krafa um hverja innistæðu, og svo samningur um hvernig endurheimt hennar skiptist.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 20.8.2009 kl. 17:32
Búinn að fara yfir reglugerðir sem um starfsemi sjóðsins gilda, og þar ber allt að sama brunni. Engin lagastoð, heimild eða nauðsyn er fyrir því að skipta kröfu innistæðueigenda í tvennt eða þrennt.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 20.8.2009 kl. 20:31
Bendi á Wikipediu-grein um lögfræðihugtakið subrogation, en það er notað í EES-reglunum um innistæðutryggingakerfi um það þegar tryggingasjóður tekur yfir (gengur inn í) kröfu innistæðueiganda. Það er klárt að ef kerfið virkar ekki eins og ég hef hér lýst, þá eru innistæðueigendur að fá of mikið út úr þrotabúinu (overcompensation), vegna þess að tryggingakerfið er að taka of mikið af tapinu á sig miðað við subrogation virknina.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 20.8.2009 kl. 20:51
Sæll Vilhjálmur.
Ég ræddi þetta sama í nýlegri færslu. Gott að sjá að þú hefur litið í lagaheimildir. Ég er hræddur um að alltof margir hafi ekki sett sig inn í hvað Ragnar var að segja, samt er það í raun sáraeinfalt. Eins og hann leggur dæmið upp er greiðsla úr tryggingasjóðnum greiðsla uppí það sem innstöðueigandi fær svo vonandi síðar úr þrotabúi bankans, ef tryggingasjóðsgreiðslan dekkar ekki alla innstæðuna. Eins og Bretar og Hollendingar vilja hafa þetta (og Indriði H.) er greiðslan að nokkru leyti viðbót við það sem kemur úr búinu á endanum. Ósköp einfalt og alveg hreint með ólíkindum að það sé ekki á hreinu í lögum og reglum hvora leiðina á að fara!
Það er hárrétt eins og þú bendir á að ekki er um að ræða raunverulegan forgang íslenska sjóðsins sé farin Ragnars-Hall-leiðin, ef íslenski sjóðurinn/ríkið fengi forgang í búið á undan Bretum og Hollendingum værum við jú á grænni grein!
Einar Karl, 20.8.2009 kl. 20:53
Já, Einar Karl, mér finnst þetta því augljósara sem ég set mig betur inn í þetta. Það er klárlega og beinlínis rangt að búa til nýja kröfu úr tryggingu sjóðsins, enda skekkir það úthlutunina að tilefnislausu. Mér er óskiljanlegt hvernig lögfræðingar (sumir) geta komist að annarri niðurstöðu.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 20.8.2009 kl. 21:02
Ef skilningur Indriða ætti að vera réttur, þá gefur subrogation frá innistæðueigandanum til tryggingasjóðsins þeim fyrrnefnda meiri rétt en hann hafði áður en gengið var inn í kröfu hans. Subrogation virkar aldrei þannig, og þarf ekki að lesa margar skilgreiningar á hugtakinu áður en það verður kristalskýrt.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 20.8.2009 kl. 21:10
Ég þakka ykkur fyrir áhugaverðar útskýringar.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 21.8.2009 kl. 08:52
Sæll Villi,
Takk fyrir þetta, mjög áhugavert. Ég komst sjálfur að svipaðri niðurstöðu með subrogated þegar ég skoðaði evrópureglugerðina og hnaut um þetta hugtak. Ég held að þú hittir naglann á höfuðið þegar þú skýrir subrogation með því að "ganga inn í kröfu". Það er ómögulegt að skilja það öðruvísi en þú fáir til baka sama og þú lagðir til, þ.e. ef þú greiddir fyrstu 20 þúsund evrurnar átt þú að fá fyrstu 20 þúsund evrurnar til baka. Ég fann hvergi dæmi um að kröfu væri skipt í jafnréttháa hluti og/eða að annar samningsaðilinn myndi beinlínis hagnast á subrogation.
Spurning hvort hægt sé að fá áreiðanlegri heimildir fyrir þessu hugtaki, þannig að ekki þurfi að nota útilokunaraðferðina.
Bestu kveðjur,
Z
Sigurgeir Jónsson (IP-tala skráð) 21.8.2009 kl. 09:50
Hér er greinin sem um ræðir úr tilskipun 94/19/EC. Athugið að hér er talað um að ganga inn í kröfu innistæðueigandans (subrogation), ekki að sjóðurinn eigi að eignast nýja kröfu í þrotabú (skáletrun mín):
Vilhjálmur Þorsteinsson, 21.8.2009 kl. 11:12
áhugaverð skrif....takk
Heiða B. Heiðars, 21.8.2009 kl. 14:44
Mjög athyglisvert og frábærlega útskýrt. Erfitt að sjá hvernig Indriða tekst að komast að þveröfugri niðurstöðu.
Frosti Sigurjónsson, 21.8.2009 kl. 20:13
Skilgreining á subrogation - af netinu:
A taking on of the legal rights of someone whose debts or expenses have been paid. For example, subrogation occurs when an insurance company that has paid off its injured claimant takes the legal rights the claimant has against a third party that caused the injury, and sues that third party.
Brezk stjórnvöld voru ekki í hliðstæðri stöðu og tryggingarfélag hér að ofan - þau höfðu einfaldlega ekkert með málið að gera heldur var það alfarið í höndum Tryggingasjóðs innistæðueigenda og fjárfesta að gera upp við Icesave innistæðueigendur skv. tilskipun 94/19/EC.
Einhliða ákvörðun brezkra stjórnvalda án samþykkis TIF skapar þeim engan lagalegan rétt undir tilskipun 94/19/EC sem allir aðilar málsins eru í orði kveðnu sammála um að skilgreini réttindi og skyldur þeirra.
Gunnar Tómasson (IP-tala skráð) 22.8.2009 kl. 00:39
Rétt, Gunnar, en reyndar held ég að bresku og hollensku sjóðirnir gætu einnig átt rétt til að ganga inn í upphaflegu innistæðukröfurnar, með sama hætti (subrogation), en þá vitaskuld á eftir íslenska sjóðnum. Að halda að þetta séu allt skiptar og hliðstæðar kröfur er bara firra.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 22.8.2009 kl. 01:01
Vilhjálmur, hér er tölvupóstur sem ég var að senda:
Ágætu alþingismenn.Eftirfarandi skilgreiningu hugtaksins "subrogation" er að finna á netinu: A taking on of the legal rights of someone whose debts or expenses have been paid. For example, subrogation occurs when an insurance company that has paid off its injured claimant takes the legal rights the claimant has against a third party that caused the injury, and sues that third party. “Subrogation” myndi þannig varða yfirtöku tryggingarfélagsins A á bótakröfu viðskiptavinar A á hendur tjónvaldi sem er viðskiptavinur tryggingarfélagsins B. Brezk stjórnvöld voru ekki í hliðstæðri stöðu og tryggingarfélag A hér að ofan – þau höfðu ekkert með málið að gera heldur var það alfarið í höndum Tryggingasjóðs innistæðueigenda og fjárfesta (TIF) að gera upp við Icesave innistæðueigendur skv. tilskipun 94/19/EC. Einhliða ákvörðun brezkra stjórnvalda án samþykkis TIF skapar þeim engan lagalegan rétt undir tilskipun 94/19/EC sem aðilar málsins eru í orði kveðnu sammála um að skilgreini réttindi og skyldur þeirra.Virðingarfyllst,
Gunnar Tómasson, hagfræðingur og löggiltur skjalaþýðandiGunnar Tómasson (IP-tala skráð) 22.8.2009 kl. 01:28
Eitthvað fór úrskeiðis - tölvupósturinn var ekki í belg og biðu!
Gunnar Tómasson (IP-tala skráð) 22.8.2009 kl. 01:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.