25.1.2009 | 21:57
Setjum rétt fólk á rétta staði
Það hefur aldrei verið jafn mikilvægt að vanda til stjórnar landsins eins og núna, næstu vikur og mánuði. Að mínu mati þarf að líta á verkefnið með ferskum hætti, án kredda og fordóma.
Ég tel að fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra eigi að þessu sinni ekki að velja úr röðum þingmanna, heldur verði fengið fagfólk í þessi störf. Þá á ég við fólk með þekkingu á og reynslu af fjármálum, flóknum rekstri og verkstjórn, og sem nýtur trausts innan lands sem utan. Með allri virðingu fyrir stjórnmálamönnum, þá eru það ekki endilega sömu hæfileikar sem þarf til framgangs í stjórnmálum og þeir sem lykilráðherrar þurfa að hafa núna á ögurstundu. Einnig er líklegra til árangurs, og vænlegra til samstöðu, að framkvæmdavaldið sé að nokkru aftengt flokkapólitík meðan brotsjóirnir ríða yfir.
Að sjálfsögðu á að velja nýja Seðlabankastjórn og jafnvel fækka bankastjórum niður í einn. Bankaráð Seðlabankans þarf að skipa að nýju, og að þessu sinni faglega færum ráðgjöfum, innlendum og erlendum, með bakgrunn í hagfræði, lögfræði og alþjóðaviðskiptum. Bankaráðið yrði ríkisstjórn og Seðlabankastjóra til aðstoðar við hagstjórn, mótun peningamálastefnu, í gjaldeyrismálum, samskiptum við AGS, samningum við önnur ríki, og endurskipulagningu bankakerfisins.
Forsætisráðherra þarf að hafa tvo öfluga ráðgjafa: efnahagsráðgjafa (sem gæti jafnframt verið formaður bankaráðs Seðlabanka) og samskiptaráðgjafa. Hinn síðarnefndi sjái til þess að þjóðin sé upplýst jafnóðum um áætlun stjórnvalda, verkefnin framundan, þær fórnir sem færa þarf, og framgang mála. Aðeins með upplýstri þátttöku þjóðarinnar verður unnt að sigrast á vandanum.
Of lengi hefur íslensk pólitík og stjórnsýsla komist upp með viðvaningshátt, ófaglegheit, hroka, klíkuskap, smákóngaveldi og skjallbandalög. Nú hefur þetta allt komið í bakið á þjóðinni með afdrifaríkum hætti. Nýtt Ísland verður ekki byggt með sömu vinnubrögðum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:02 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Villi,
Tek undir þessa skoðun eins og svo margar aðrar sem birst hafa á blogginu þínu. Gylfason bræður hafa líka allir sem einn á sinn hátt mótað lífstíl, skoðanir og menntun mína í nokkra áratugi. Er bjartsýn fyrir hönd Íslands ef ráðamenn taka undir þína áskorun.
Kær kveðja
Jenný Stefanía Jensdóttir, 26.1.2009 kl. 02:29
Sammála, nú vantar bara að gott fólk gefi kost á sér.
Kristín Hildur Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 26.1.2009 kl. 07:59
Í dag þætti það nú ekkert sérstaklega intresant að fara í þessar stöður og því spurning hverjir myndu gefa kost á sér. En það þarf að vinna leiðinlega vinnu eins og skemmtilega.
Þó er ég algjörlega sammála þér og mynda þar með skjallbandalag, sem er í fínu lagi í bloggheimum :-) En ljóst er að það þarf fagmenn til stjórnunar, það þarf ekki "útbrunna" pólitíkusa og vini þeirra.
Árni (IP-tala skráð) 26.1.2009 kl. 09:33
Þakka jákvæð viðbrögð. Til að sjá glögglega hvað ég á við, þarf aðeins að rifja upp hver er formaður bankaráðs Seðlabankans. Með allri virðingu fyrir þeim ágæta blaðamanni, stúdent frá MA, og stjórnmálamanni, þá bera svona ákvarðanir fyrst og fremst því vitni að við búum í bananalýðveldi.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 26.1.2009 kl. 11:41
Hjartanlega sammála
b
frú Birna (IP-tala skráð) 26.1.2009 kl. 14:20
Jæja, núna verður þá væntanlega gerð "hreinsun" út úr Seðlabankanum.
Varstu örugglega ekki búinn að senda Frú Ingibjörgu aðgerðaráætlunina ?
Árni (IP-tala skráð) 26.1.2009 kl. 14:45
já
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 26.1.2009 kl. 17:01
Eins og talað úr mínu hjarta. Góðar hugmyndir.
Ég hef verulegar áhyggjur af því hvernig málin eru að þróast. Flokkarnir strax komnir í skotgrafirnar og skjóta miskunnarlaust hver á annan.
Við þurfum raunverulega endurnýjun lýðræðis í anda vinar þíns Vilmundar.
annag (IP-tala skráð) 26.1.2009 kl. 17:22
.
http://nyttlydveldi.is/
.
LS (IP-tala skráð) 26.1.2009 kl. 17:41
Kolbrúnu sem heilbrigðisráðherra svo að hún geti lagfært klæðnað nýbura
Jón Aðalsteinn Jónsson, 26.1.2009 kl. 20:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.