28.4.2007 | 23:20
Allt á sömu bókina lært í Írak
Íraksstríðsins verður án efa minnst sem einna helstu mistaka okkar tíma. Þar er allt á sömu bókina lært. Forsendurnar voru rangar, upplýsingarnar falskar, áætlanagerðin engin, skilningur á sögu og menningu ekki fyrir hendi, markmiðin óljós, og framkvæmdin klúður. Nú segir New York Times frá því að við endurskoðun hafi komið í ljós að uppbyggingarverkefnin - sem gumað var af til vitnis um að herförin bæri a.m.k. einhvern árangur - hafa líka mistekist, ofan á allar hinar hörmungarnar.
Ég er enn að reyna að átta mig á því hvort ráðamenn í Bandaríkjunum séu svona arfavitlausir, eða hvort einhver óopinber og leynileg áætlun sé undirliggjandi í öllu kaosinu, bara svona assgoti vel falin. Ég hélt lengi vel að hið síðarnefnda væri svarið (málið snerist í raun um olíuhagsmuni og öfgakenndan stuðning við Ísrael), en hallast nú æ meir að því fyrrnefnda.
Íslendingar eiga í fyrsta lagi að sjá sóma sinn í því að biðja Íraka afsökunar og segja sig frá þessum stríðsrekstri opinberlega, og í öðru lagi að axla ábyrgð og taka við íröskum flóttamönnum. Það væri þá fyrsta ákvörðunin í tengslum við Íraksmálið sem mannsbragur væri á.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.