Þjóðaratkvæðagreiðslur í nágrannalöndum

Nokkur umræða hefur skapast síðustu daga um 26. gr. íslensku stjórnarskrárinnar og um þjóðaratkvæðagreiðslur almennt. Í framhaldi af því er forvitnilegt að skoða hvernig farið er með þjóðaratkvæði í stjórnarskrám nokkurra nágrannalanda. Til upprifjunar, þá er 26. greinin svohljóðandi:

Ef Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp, skal það lagt fyrir forseta lýðveldisins til staðfestingar eigi síðar en tveim vikum eftir að það var samþykkt, og veitir staðfestingin því lagagildi. Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi, ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu.

Sjálfgefið er að byrja á því að skoða dönsku stjórnarskrána.  Sú íslenska er nánast þýðing á henni eins og hún var 1944, að undanteknum mannréttindakafla sem bætt var inn 1995.  (Mér telst til að 62 greinar af 80 í íslensku stjórnarskránni eigi sér beina samsvörun í þeirri dönsku.)

22. gr. dönsku stjórnarskrárinnar, sem samsvarar okkar 26. gr., er svona:

Et af folketinget vedtaget lovforslag får lovkraft, når det senest 30 dage efter den endelige vedtagelse stadfæstes af kongen. Kongen befaler lovens kundgørelse og drager omsorg for dens fuldbyrdelse.

Eins og sjá má getur danski konungurinn (núna drottningin) ekki synjað lagafrumvarpi staðfestingar.  Í staðinn er komin ný grein í dönsku stjórnarskrána, sem bætt var við í endurskoðun hennar árið 1953, þ.e. 42. gr. um þjóðaratkvæðagreiðslur.

Greinin sú er nokkuð löng, en aðalatriðin eru þessi:  Eftir að frumvarp hefur verið afgreitt frá þinginu, getur þriðjungur þingmanna krafist þess, innan þriggja virkra daga, að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um það. Komi slík krafa fram, getur þingið innan fimm virkra daga ákveðið að draga frumvarpið til baka.  Að öðrum kosti skal forsætisráðherra boða til atkvæðagreiðslunnar, sem fari fram eftir minnst tólf og mest átján virka daga.

Í þjóðaratkvæðagreiðslunni er kosið með og móti frumvarpinu.  Til að frumvarp falli brott og verði ekki að lögum, þarf meirihluti kjósenda að greiða atkvæði á móti því, en þó aldrei færri en 30% allra atkvæðisbærra manna.

Frumvörp um fjárlög, aukafjárlög, lántökur ríkisins, launamál og eftirlaun, ríkisborgararétt, framsal manna til annarra landa, óbeina og beina skatta, og um efndir alþjóðlegra skuldbindinga mega ekki fara til þjóðaratkvæðis í Danmörku, skv. 6. mgr. 42. gr. Þetta er væntanlega að vel athuguðu máli um það hvers konar mál henta til afgreiðslu með fulltrúalýðræði og hver ekki.

Þessu ákvæði hefur aðeins einu sinni verið beitt í Danmörku, þ.e. 1963 þegar fram fór þjóðaratkvæðagreiðsla um jarðalög, og voru lögin þá felld (heimild hér).

Finnska stjórnarskráin gerir aðeins ráð fyrir ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslum (53. gr.), en til þeirra skal stofnað með lögum, þ.e. með samþykki meirihluta þingsins.

Sænska stjórnarskráin er svipuð, þ.e. innifelur aðeins ákvæði um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur (4. gr. 8. kafla) sem ákveða skal nánar um í lögum.

Engin ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur um lagafrumvörp er að finna í norsku stjórnarskránni.

Í stjórnarskrá Sviss eru einhver frægustu ákvæði heims um þjóðaratkvæðagreiðslur, en þar geta 50.000 kjósendur eða átta kantónur (með atkvæðagreiðslu í hverri kantónu) krafist þjóðaratkvæðis innan 100 daga um sambandslög, neyðarlög til lengri tíma en eins árs, og alþjóðasamninga.  Mér sýnist fjárhagsáætlun sambandsríkisins ekki vera í lagaformi, þannig að hana sé ekki unnt að setja í þjóðaratkvæði.  Athyglisvert er að stjórnarskráin sjálf innifelur ákvæði um einstaka skatta, m.a. tekjuskatt einstaklinga og lögaðila og virðisaukaskatt.  Unnt er að krefjast þjóðaratkvæðis um tillögur um breytingar á stjórnarskránni, og þarf 100.000 undirskriftir atkvæðisbærra manna á slíka kröfu.  Ekki er þó hægt að samþykkja breytingar sem ganga í berhögg við skuldbindingar skv. alþjóðalögum.

Í þýsku stjórnarskránni er ekki gert ráð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum.

Samkvæmt frönsku stjórnarskránni getur fimmtungur þingmanna og tíundi hluti atkvæðisbærra manna kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um frumvörp ríkisstjórnarinnar á tilteknum sviðum.

Umfjöllun um þjóðaratkvæðagreiðslur í fleiri löndum má sjá hér.

Eins og sjá má er sinn siðurinn í landi hverju.  Við endurskoðun íslensku stjórnarskrárinnar, sem er bráðnauðsynleg og löngu tímabær, þarf að kveða á um þjóðaratkvæðagreiðslur með skýrum og skynsamlegum hætti.  Að mínu mati má skoða frumkvæði jafnt þingmanna sem almennra kjósenda að slíkum atkvæðagreiðslum. Ég tel þó að undanskilja eigi tiltekna málaflokka, að danskri fyrirmynd - enda hafa fulltrúalýðræði og þjóðaratkvæði hvort sína styrkleika og veikleika. Farsælast er að nýta það besta úr hvoru tveggja.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sennilegast væri þjóðin betur stödd ef við hefðum þjóðaratkvæðagreiðslur oftar.

Númi (IP-tala skráð) 24.2.2011 kl. 13:24

2 Smámynd: Guðmundur Jónsson

""Ég tel þó að undanskilja eigi tiltekna málaflokka, að danskri fyrirmynd ""

Það er aðalsmerki vinstrimanna að þeir telja sig geta haft vit fyrir okkur hinum eða lýðnum eins og við hin erum gjarnan kölluð. Lýðræði er þess vegna í ákveðinni andstöðu við vinstristefnur nútímans.

Í Danmörku er lýðnum treyst til að kjósa um aðild að myntbandalagi en ekki til að kjósa um hvort hækka eigi skatta til að drottningin geti ferðast meira. 

Þar er lýðnum líka treyst til að kjósa um hvort útríma eigi gyðingum en ekki hvort skattleggja eigi til að börn fái frítt í sund.

Hér í íslandi erum við með svipaðar reglur varðandi mannanöfn. Við treystum foreldrum til að ala upp börnin sín ekki til að gefa þeim nafn.

Þegar ég skoða  þetta þá virkar þetta eins og einhver málamiðlun þar sem kommunum er leift að halda eftir forsjárhyggju í málflokkum sem ekki skipta nein raunverulega máli fyrir almannahag.

Guðmundur Jónsson, 24.2.2011 kl. 14:43

3 identicon

As a result of the renegotiation of the Lisbon Treaty, a regulation was adopted by the EU which allows for the citizens of Europe to demand by petition a change in EU legislation. The “European citizens’ initiative” enables citizens to ask the Commission to bring forward legislative proposals if the supporters of an initiative number at least one million and come from more than a quarter of member states.A referendum in Ireland could be the beginning of this process because the only way to get an EU-wide deal, which is what we need, is to mobilise citizens around the EU. Given that together Irish, Greek, Spanish and Portuguese banks owe German and French banks over €920bn, there are plenty of other citizens who will have an interest in getting the banks to pay for what the banks have done.

http://www.davidmcwilliams.ie/2011/02/23/bit-of-something-is-better-than-all-of-nothing-for-ecb

Hólmsteinn Jónasson (IP-tala skráð) 24.2.2011 kl. 16:29

4 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Hólmsteinn: Svona bænaskrárréttur (right of petition) er í nokkrum stjórnarskrám og er ein leið til að gefa almenningi frumkvæði. Þá geta menn sameinast um undirskriftasöfnun fyrir ákveðnu máli sem afhent er þinginu, oftast sérstakri nefnd þess, til úrvinnslu í formi lagafrumvarps.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 24.2.2011 kl. 17:05

6 identicon

Ég verð að lýsa furðu minni með gremju í garð, 26gr, þjóðaratkvæðis þar sem ég get ekki séð betri lýðræðislegan vettvang en þar sem þjóðin sjálf lýsir vilja sínum, óháð vilja kjörinna fulltrúa sem segjast ætla að gera eitt en gera svo annað þegar þeir ná kosningu. Sitjandi stjórnvöld eru þessu lifandi dæmi.

Það að vilja hafa vit fyrir fólki með því að leyfa bara sumu að fara fyrir þjóðina og segja svo að eitt og annað sé henni ekki fært að taka ákvörðun um er ekkert annað en forræðishyggja og stjórnsemi í mínum bókum.

BVG átti t.d. kollgátuna þegar hann sagði arðgreiðslu Iceland til skilanefndar Landsbankans standa undir kostnaði vegna IceSave ! Þarna sér maður "skilningin" sem liggur í mati þessa kjörnu fulltrúa, sem eiga að hafa vit fyrir hinum sem ekki skulu fá að tjá sig um málefnið.

Það er skrýtin jafna sem gengur út á að þing setji af rétt fólks til þjóðaratkvæðis eingöngu vegna þess að þjóðin, að gefnu tækifæri, sýnir að hún sé ósammála þingmönnum. Frekar ætti að setja af stjórnvöld sem svo greinilega starfa í óþökk þjóðarinnar.

Styrmir Guðmundsson (IP-tala skráð) 24.2.2011 kl. 20:42

7 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Styrmir: Gallinn við 26. gr. er að hún er háð kenjum og mati forsetans hverju sinni. Miklu affarasælla er að fá inn almenna leið almennings og/eða minnihluta þings til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu, að uppfylltum tilteknum formskilyrðum. Ég vil líta m.a. til Danmerkur og jafnvel einnig Sviss og Frakklands í þessu sambandi.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 25.2.2011 kl. 16:19

8 Smámynd: Guðmundur Jónsson

"Gallinn við 26. gr. er að hún er háð kenjum og mati forsetans hverju sinni. Miklu affarasælla er að fá inn almenna leið almennings og/eða minnihluta þings til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu, að uppfylltum tilteknum formskilyrðum."

Finnst þér mat forseta ekki skipta máli ? ertu ekki að gleyma að þetta er æðsta embætti þjóðarinnar . Við höldum kosningar á fjögra ára fresti þar sem bara er kosið um forseta.

Guðmundur Jónsson, 25.2.2011 kl. 16:48

9 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Finnst þér gott að mat forsetans eins ráði þessu, Guðmundur? Athugaðu að forsetar lýðveldisins hafa litið mjög mismunandi augum á þennan synjunarrétt og það veit enginn hvernig sá næsti mun taka á þessu. Er ekki betra að um þjóðaratkvæði gildi skýrar reglur sem byggja ekki á persónulegu mati forsetans hverju sinni?

Vilhjálmur Þorsteinsson, 27.2.2011 kl. 16:18

10 identicon

Sælir,
mér finnst þetta frekar bera þess merki að einhver sé ósáttur við niðurstöður í tilteknu máli eða málum frekar en fundið sé að því hvernig lög öðlast gildi skv. gildandi stjórnarskrá.

Persónulega finnst mér þetta hinn ágætasti varnagli gegn kattasmölun stjórnmálamanna sem er langt frá því að endurspegla þjóðarvilja og ég gleðst yfir því að slíkt dugi ekki til svo festa megi klyfjar á óverðskuldaða landsmenn.

Því er kannski rétt að endurskíra 26.gr "stjórnsemis varnaglann" ?

Steingrímur og Jóhanna hafa sem fyrr fullan rétt á að sitja heima meðan Þjóðin talar.

kv.S

Styrmir Guðmundsson (IP-tala skráð) 28.2.2011 kl. 14:33

11 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Styrmir, ég er hlynntur varnagla og ég er almennt hlynntur beinu lýðræði.  En ég myndi vilja sjá skýra reglu um þetta í stjórnarskránni sem ekki byggir á persónulegu mati og kenjum eins manns.  Þá á ég til dæmis við að tiltekið hlutfall kosningabærra manna, segjum 5-10%, geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um lög innan tiltekins tíma frá því þau eru afgreidd frá Alþingi.  Er ekki nokkuð ljóst að slíkt yrði til bóta frá því sem nú er?

Og varðandi varnagla að öðru leyti þá kemur til greina að forseti gæti sent mál til baka til þings sem þyrfti þá e.t.v. aukinn meirihluta til að knýja það í gegn, eða til stjórnlagadómstóls til að skera úr um hvort það standist stjórnarskrá, svipað og gerist hjá Finnum og Frökkum.  Allt eru þetta möguleikar sem á að velta fyrir sér í endurskoðun stjórnarskrárinnar - sem er löngu tímabær.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 2.3.2011 kl. 17:24

12 identicon

Vandi 26. gr. gæti verið að hún er svona "win,win"fyrir forsetann. Ef þjóðin fellir viðkomandi lög (bara einhver lög) fær þingið vandann, en ef þjóðin samþykkir lögin fær hún sjálf vandann. Forsetinn fær aldrei vandann, ábyrgð hans er ekki í hlutfalli við vald hans.

Til Icesave Vilhjálmur. Ef Icesaveheimtur verða 95%, hverju skiptir þá eftir hvaða samningi við erum að greiða? Hefurðu skoðað það? Var fallsamningurinn ekki með einhverskonar vindskjóli?

stefan benediktsson (IP-tala skráð) 3.3.2011 kl. 09:55

13 identicon

Sæll aftur,

hér að neðan er texti tekinn af vef kjosum.is í kjölfar synjunar Forseta á samþykki umræddra laga:

Föstudagskvöldið 11. febrúar kl. 22:15 hófst undirskriftasöfnun þar sem skorað var á forseta Íslands að synja lögum um Icesave staðfestingar. Á fimm og hálfum sólarhring skoruðu 37.488 Íslendingar á forseta Íslands að synja lögunum staðfestingar. 

Hin sterku viðbrögð eru án fordæmis í sögu lýðveldisins.

Alþingi felldi tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu með naumum meirihluta. Þrjátíu þingmenn vildu vísa málinu til þjóðarinnar en 33 voru á móti. Í skoðanakönnun MMR kom fram að 62,1% Íslendinga vilja þjóðaratkvæðagreiðslu um nýjasta Icesave-samninginn gegn 37,9%. Liðlega 80% aðspurðra tóku afstöðu.

Það verður að segjast að ofangreindar staðreyndir tala sínu máli og því er nú kannski orðum aukið að halda að ákvörðunin "byggi á persónulegu mati og kenjum eins manns".  Það er ekki annað að sjá en að Forsetinn hafi sinnt stjórnarskrárvörðum skyldum sínum.

kveðja S

Styrmir Guðmundsson (IP-tala skráð) 3.3.2011 kl. 10:54

14 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Styrmir, afstaða mín til 26. gr. og nýrra þjóðaratkvæðagreiðsluákvæða er í hjartans einlægni óháð Icesave málinu.

Forsetinn er í reynd að virkja 26. gr. sem þjóðaratkvæðagreiðsluákvæði að gefnum tilteknum fjölda undirskrifta. Gallinn er þó sá að reglurnar þar að baki eru óljósar, t.d. um fjölda og form slíkra undirskrifta og um eðli mála (myndi ÓRG vísa fjárlögum í þjóðaratkvæði ef nógu margar undirskriftir söfnuðust?).

Næsti forseti gæti svo vitaskuld snúið til baka og hætt þessu alveg - eftir eigin kenjum. Ég held að við hljótum að vera sammála um að betra sé að fá skýrt regluverk um þetta í stjórnarskrána.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 3.3.2011 kl. 21:59

15 identicon

Nei hann virkjaði þjóðaratkvæðisgreiðslu að gefnum mjög naumum þingmeirihluta gegn þjóðaratkvæði, nokkrum samróma skoðnanakönnunum OG undirskriftum nær fimmta tug þúsunda manna.

Varðandi að setja þurfi reglur um þetta þá er ég ósammála því þar sem ef Forsetinn misnotar þetta vald sitt þá getur Alþingi sett Forseta af. Ég fæ því ekki betur séð en að sé mikill samhljómur innan Alþingis þá er hægt að stöðva ferlið og því sé ég ekki punktinn fyrir frekari reglur hér að lútandi. Stjórnarskrá er rammi, ekki ítarlegar leiðbeiningar.

Nýting ÓRG á þessu setur hins vegar forsetakosningar í annan búning en áður og ég tel það ágæta þróun. Forsetinn er jú æðsta embættið og því skal þar vera hæfur einstaklingur. Einsog greinilega nú er...

kv.S

Styrmir Guðmundsson (IP-tala skráð) 3.3.2011 kl. 23:22

16 Smámynd: Vendetta

Þú veizt víst mjög lítið um þjóðaratkvæðagreiðslur í Danmörku, Vilhjálmur. Því að þú "gleymir" að nefna, að áður en Danir fengu aðild að EBE 1972, þá var málið sett í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Síðan, í hvert skipti sem Þjóðþingið hefur undirskrifað samninga við EBE/ESB, sem felur í sér fullveldisafsal, þá fer fram bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla sjálfkrafa, þar sem einfaldur meirihluti þjóðarinnar fær neitunarvald.

Það fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla um Maastricht-samninginn sem var felldur, síðan um Maastricht 2, sem innihélt fjögur undanþáguatkvæði fyrir Dani. Sá samningur var samþkktur með naumum meirihluta, en samþykki dönsku þjóðarinnar á Maastricht 2 var skilyrði fyrir því að ESB gat fæðzt á rústum EBE. Þ.e. Maastricht-samningurinn, sem aðrar Evrópuþjóðir fengu ekki að kjósa um gat ekki tekið gildi í öðrum EBE-löndum fyrr en danska þjóðin hefðu samþykkt hann. Nokkrum árum síðar var spurningin um upptöku evrunnar settar í þjóðaratkvæðagreiðslu skv. beiðni 2/3 þingmanna og danska þjóðin felldu það til allrar hamingju, annars væru þeir hugsanlega í sömu sporum og Írar eru núna. Þannig var meirihluti Þjóðþingsins úr takti við dönsku þjóðina, alveg eins og meirihluti Alþingis er úr takti við vilja íslenzku þjóðarinnar hvað varðar IceSlaveIII og ESB.

Þannig að það hafa farið fram ekki færri en fjórar bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur í Danmörku milli 1970 og 2000, allar í sambandi við fullveldisafsal til EBE/ESB.

Vilhjálmur, vonandi hefurðu manndóm í þér til að viðurkenna að þú slepptir því vísvitandi að nefna þetta.

Vendetta, 6.3.2011 kl. 13:14

17 identicon

Hver eru rök þín, Vilhjálmur, fyrir því að leyfa ekki þjóðaratkvæði um þessi efni að neðan?  Ég tel að það geti oft verið erfitt að fá almenning til þess að samþykkja útgjöld af ýmsu tagi, en er það ekki vegna þess að hann hefur verið firrtur frá upplysingum og ákvarðanatöku um slík mál fram að þessu?

Frumvörp um fjárlög, aukafjárlög, lántökur ríkisins, launamál og eftirlaun, ríkisborgararétt, framsal manna til annarra landa, óbeina og beina skatta, og um efndir alþjóðlegra skuldbindinga mega ekki fara til þjóðaratkvæðis í Danmörku,

Ragnar (IP-tala skráð) 9.3.2011 kl. 15:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband