24.11.2010 | 18:29
Auðlindir, náttúran og stjórnarskráin
Meðal stefnumála minna fyrir stjórnlagaþing er að eignarréttur þjóðarinnar á auðlindum lands og sjávar - sem ekki eru þegar í einkaeigu - verði staðfestur í stjórnarskrá, og að ég sé fylgjandi hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Hvað á ég við með þessu?
Umræða um eignarrétt á auðlindum og umgengni um náttúruna er ekki ný af nálinni í tengslum við stjórnarskrána. Auðlindanefnd sem starfaði 1998-2000 undir forystu Jóhannesar Nordal lagði til að tekið yrði upp nýtt ákvæði í VII. kafla stjórnarskrárinnar, svohljóðandi:
Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru þjóðareign1) eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Handhafar löggjafar- og framkvæmdarvalds fara með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt þessara auðlinda og réttinda í umboði þjóðarinnar.
Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi til einstaklinga eða lögaðila. Þó má veita þeim heimild til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum og réttindum gegn gjaldi, að því tilskildu að hún sé tímabundin eða henni megi breyta með hæfilegum fyrirvara eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Slík heimild nýtur verndar sem óbein eignarréttindi.
Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign ber að nýta á sem hagkvæmastan hátt og á grundvelli sjálfbærrar þróunar og skal arði af þeim varið til þess að vernda auðlindirnar, rannsaka þær og viðhalda þeim, svo og til hagsældar fyrir þjóðina að öðru leyti.
Auðlindanefndin heldur svo áfram:
Lagt er til að um meðferð þessara náttúruauðlinda gildi eftirfarandi meginreglur:
- Stjórnvöld fari með forsjá auðlindanna sem ber að nýta á sem hagkvæmastan hátt á grundvelli sjálfbærrar þróunar.
- Veita megi einstaklingum og lögaðilum heimild til að nýta þessar auðlindir, enda sé afnotaréttur ætíð tímabundinn eða uppsegjanlegur.
- Lagt sé á afnotagjald til að standa undir kostnaði ríkisins af rannsóknum og eftirliti með nýtingu auðlindanna.
- Þjóðin fái sýnilega hlutdeild í þeim umframarði (auðlindarentu) sem nýting auðlindanna skapar.
Fyrir kosningarnar í apríl 2009 var lagt fram á Alþingi frumvarp að breytingum á stjórnarskrá, sem kafnaði því miður í málþófi. (Þar var m.a. kveðið á um að tillaga stjórnlagaþings að breyttri stjórnarskrá gæti farið beint í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu, án afskipta Alþingis.) Í frumvarpinu var eftirfarandi tillaga að orðalagi stjórnarskrárgreinar um náttúruauðlindir, sem byggð er á nálgun auðlindanefndar:
Náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti eru þjóðareign. Ríkið fer með forsjá þeirra, vörslu og ráðstöfunarrétt og hefur eftirlit með nýtingu þeirra í umboði þjóðarinnar eftir því sem nánar er ákveðið í lögum.
Allar náttúruauðlindir ber að nýta á sem hagkvæmastan hátt á grundvelli sjálfbærrar þróunar til hagsældar fyrir þjóðina og komandi kynslóðir. Náttúruauðlindir í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi.
Allir eiga rétt til umhverfis sem stuðlar að heilbrigði og þar sem líffræðilegri fjölbreytni er viðhaldið eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Réttur almennings til upplýsinga um ástand umhverfis og áhrif framkvæmda á það, svo og kostur á þátttöku í undirbúningi ákvarðana sem áhrif hafa á umhverfið, skal tryggður með lögum.
Undir flest ofangreint get ég tekið, sérstaklega síðari tillöguna, sem mér finnst skýrari og skarpari en hin fyrri. Þó tel ég að til greina komi að sérstakur Auðlindasjóður fari með forsjá auðlindanna f.h. þjóðarinnar og stjórnvalda og innheimti afnotagjöld og hlutdeild í auðlindarentu skv. sérstökum lögum þar um.
Varðandi náttúruvernd og umhverfismál má einnig líta til fyrirmynda í stjórnarskrám annarra landa. 20. gr. finnsku stjórnarskrárinnar segir til dæmis: "Náttúran og líffræðilegur fjölbreytileiki, umhverfið og þjóðararfurinn eru á allra ábyrgð. Stjórnvöld skulu leitast við að tryggja öllum rétt til heilbrigðs umhverfis og að allir eigi möguleika á að hafa áhrif á ákvarðanir sem snerta lífsskilyrði þeirra."
Í svissnesku stjórnarskránni er ítarlegur kafli (nr. 4) um umhverfi og skipulagsmál, þar sem er m.a. fjallað um sjálfbæra þróun, verndun umhverfis, skipulagsvald, vatn, skóga, verndun náttúruminja og menningararfs, veiði og dýravernd. Margt af því gæti verið til eftirbreytni.
Þessi málaflokkur er með þeim mikilvægari sem stjórnlagaþing mun ræða. Ég hlakka til að takast á við verkefnið og vona að ég fái stuðning þinn til þess.
-----
1) Auðlindanefndin skilgreinir hugtakið "þjóðareignarréttur" í kafla 2.5.2 í skýrslu sinni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Vilhjálmur, mætum á Austurvöll alla fimmtudaga kl. 14.00,
biðjum Alþingismenn að standa við loforð sín, stórauknar strandveiðar,
og frjálsar handfæra veiðar, sem leysa fátæktar og atvinnu vanda Íslendinga!
70 % af afla lönduðum á markað í Noregi, er veiddur af smábátum,
en þar fer allur fiskur á markað.
Smábátar fara vel með fiskimiðin!
Getur þetta verið skýringin á því að þorskafli verður 700.000 tonn,
1. milljón tonn Síld, Ýsuveiðar frjálsar, árið 2011 í Noregi ?
Ísland 2011, þorskur 160.000 tonn, allir fiskistofnar að gefa þjóðinni
lítið brot af eðlilegum afla, þetta kallar fátækt yfir þjóðina!
Fiskimiðin eru nýtt í dag af örfáum, með ofurskipum sem eyðileggja miðin,
og lífríkið, og valda þannig þjóðinni stórtjóni!
Förum að dæmi Norðmanna, frjálsar handfæra veiðar leysa atvinnu og
fátæktar vanda Íslendinga!
Aðalsteinn Agnarsson, 24.11.2010 kl. 20:21
Takk fyrir góðan pistil. Ég get tekið undir flest í þessu.
Frosti Sigurjónsson, 25.11.2010 kl. 01:59
Ágæti frambjóðandi,
eins og þú eflaust gerir þér grein fyrir er kosning stjórnlagaþings sögulegur viðburður og starf þingsins er líklegt til að móta stjórnmál á Íslandi um ókomna tíð. Ekki er einungis um einstakan viðburð í sögu Íslands að ræða heldur í sögu lýðræðis í heiminum. Það er því mikilvægt að kortleggja vel atburðarrásina svo við, sem og aðrar þjóðir, getum lært og miðlað af reynslunni. Nú þegar eru t.d. nokkuð háværar kröfur á Írlandi að lagt verði í svipaða endurskoðun á stjórnarskrá landsins.
Í þessum tilgangi óska ég eftir þátttöku þinni í stuttri spurningakönnun um framboð þitt til stjórnlagaþings, kosningabaráttu þína og stefnumál. Með því að miðla af reynslu og skoðunum þínum myndirðu veita dýrmæta aðstoð við rannsókn á þessum óvenjulegum kosningum sem reyndar hafa víðtækari skírskotun – þær eru einnig fyrstu kosningarnar á landsvísu sem notast við persónukjör og af því má hugsanlega draga einhvern lærdóm en persónukjör hefur einmitt verið nokkuð í umræðunni í tengslum við breytingar á stjórnarskránni.
Rannsóknin er framkvæmd við University of California, Riverside þar sem ég starfa. Fullur trúnaður ríkir um svör þín við spurningakönnuninni og ekki verður með neinu móti hægt að ráða af niðurstöðum rannsóknarinnar hvernig einstakir frambjóðendur hafa svarað. Ekki hika við að hafa samband við mig ef þú hefur einhverjar spurningar um rannsóknina. Tölvupóstfang mitt er: Indridi.indridason@ucr.edu. Frekar upplýsinar um mig og rannsóknir mínar má finna hér: www.indridason.politicaldata.org
Ef þú ert reiðubúin til að taka þátt í könnuninni þarf ég að að biðja þig um að senda mér netfang þitt svo ég geti sent þér tölvupóst með tengli á könnunina.
Með fyrirfram þökk fyrir þátttökuna,
Indriði H. Indriðason
Indridi Indridason (IP-tala skráð) 29.11.2010 kl. 07:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.