Hvað er hægt að gera og hvað ekki?

Eitt af því sem ég hef tekið eftir í umræðu um hin ýmsu málefni undanfarið er hversu óljósa mynd margir virðast hafa af valdheimildum stjórnvalda.  Eða með öðrum orðum, hvar mörkin liggja milli þess sem stjórnvöld mega og geta gert, og þess sem þau mega ekki og geta ekki gert.  Þessi mörk eru mjög, mjög mikilvæg.  Sú staðreynd að þau eru til, og að þau eru þar sem þau eru, er samandregin niðurstaða margra alda og jafnvel árþúsunda tilraunastarfsemi með stjórnskipulag, lýðræðisformið og vernd mannréttinda.

Um daginn fór fréttamaður Ríkissjónvarpsins í bæinn og spurði fólk hvort það hefði lesið stjórnarskrána og vissi hvað stæði í henni.  Fæstir viðmælendur svöruðu því játandi.  Ef sú óvísindalega könnun væri marktæk fyrir heildina, væri þar kannski komin skýringin á því að of margir virðast styðja alls kyns aðgerðir sem eru utan ramma eðlilegra valdheimilda stjórnvalda í þróuðu lýðræðisríki.

Skoðum aðeins betur það sem kalla má ramma stjórnarskrárinnar og lýðræðishefðarinnar:

Rammi stjórnarskrárinnar

Blái ramminn táknar hér stjórnarskrána og hornsteina lýðræðisins.  Ég merkti inn fjóra af þessum hornsteinum, en þeir eru fleiri.  Hér eru það réttarríkið (að stjórnvöld fari ætíð að lögum og reglum og megi ekkert gera nema það sem lög heimila); gildi samninga (að frjálsa, löglega samninga beri að efna); bann við afturvirkni (að ákvarðanir sem eru löglegar og teknar í góðri trú verði ekki síðar gerðar ólöglegar); og eignarréttur (að ekki sé heimilt að taka eign af manni með valdi, nema í almannaþágu og fullar bætur komi fyrir).

Grænu kúlurnar tákna ákvarðanir sem stjórnvöldum er heimilt að taka; þær eru innan ramma stjórnarskrár og hefða lýðræðis og mannréttinda.

Rauðu kúlurnar standa fyrir alls kyns ákvarðanir og ráðstafanir sem mönnum gætu dottið í hug, og eru vissulega oft freistandi - sérstaklega á álagstímum.  En bitur reynsla og lærdómar aldanna og árþúsundanna hafa sýnt að slíkar "rauðar" ákvarðanir eru ekki góðar; þær á ekki að taka og þær má ekki taka.  Hversu freistandi sem þær kunna að vera.  Og það er einmitt á álagstímum sem það kemur í ljós hvort menn meina eitthvað með stjórnarskrá, réttarríki og hornsteinum lýðræðis.  (Þegar allt leikur í lyndi er auðvelt að setja upp sparisvipinn, því þá kostar það ekki neitt.)

Afleiðingar þess að taka "rauðar" ákvarðanir eru ýmis konar, og bæði beinar og óbeinar.  Þær beinu blasa í flestum tilvikum við, en þær óbeinu leyna á sér.  Þar er sú afleiðing verst að þegar menn hafa einu sinni brotið rammann - sem er ætíð réttlætt með einhvers konar "neyðarrétti" eða "sérstökum kringumstæðum" - þá brestur traustið á að það verði ekki gert aftur og endurtekið.  Eitt horn molnar undan lýðræðisríkinu og undirstöður þess veikjast snögglega.  Það hefur svo nýjar afleiðingar, sem auka meinta "neyð" og kalla á ný viðbrögð - og áður en menn vita af er lýðræðið horfið og mannréttindin fyrir bí.  Þá sjá menn - of seint - að betur hefði verið heima setið en af stað farið.  Þetta hefur sagan ítrekað kennt okkur.

Höfum þetta í huga á komandi vetri.  Það þarf sterk bein til að standast freistingarnar, í þágu lýðræðisins.  En lýðræðið er hvorki sjálfgefið né ókeypis.  Að halda það er hættulegur misskilningur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Veistu það , eftir því sem fleiri langskólagengnir tjá sig , þá fyrst fer málið að vera flókið !

Öll mannanna verk er hægt að breyta !

Eina sem þarf  er vilji !

Þetta mál er ekkert flókið, það þarf bara að vinna verkið !

Ef þú villt gera málið flólkið , þá gerir þú það flókið !

Þetta er bara verkefni sem þarf að vinna !!!

Það þarf sennilega að fá skúringarkonuna í stjórnarráðinu til að vinna þetta verk, því það virðist alveg ómögulegt að fá þessa handónýtu og gjörspilltu embættismenn til að gera eitthvað að viti !  

JR (IP-tala skráð) 8.10.2010 kl. 23:59

2 identicon

Humm... ef ég má vera mjög leiðinlegur...

Bann við afturvirkni er nú yfirleitt talið verið hluti af réttarríkinu (Rule of law). Svo það er full mikil tvítekning í gangi þarna hjá þér...

kv. ÞHG

Þórir Hrafn (IP-tala skráð) 9.10.2010 kl. 00:52

3 Smámynd: Þórður Björn Sigurðsson

,, Í 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um að eignarrétturinn sé friðhelgur og að engan megi skylda til að láta eign sína af hendi nema almenningsþörf krefji, og þá með lögum og þannig að fullar bætur greiðist fyrir. Hvers kyns verðmæt réttindi manna, þ.m.t. kröfuréttindi og veðréttindi, njóta verndar ákvæðisins. Þrátt fyrir framangreint hefur einnig verið viðurkennt í íslenskum rétti að löggjafinn geti heimilað ýmiss konar takmarkanir á eignarrétti án þess að til nokkurra bóta komi.
Í íslenskum rétti hefur við mat á gildi afturvirkra laga verið litið til þess hvort skýra megi þau svo að þau takmarki stjórnarskrárvernduð réttindi manna með almennum, hlutlægum og málefnalegum hætti og að ekki sé gengið svo nærri réttindum manna að þau nýtist ekki. Slík lagasetning hefur helst verið talin koma til álita við óvenjulegar aðstæður svo sem við lausn aðsteðjandi efnahagsvanda. Um miðja síðustu öld var uppi alvarlegt ástand í efnahagslífi íslensku þjóðarinnar. Löggjafinn greip til margvíslegra aðgerða í því skyni að bregðast við vandanum, og voru þá t.a.m. sett lög nr. 22/1950 sem kváðu m.a. á um að stóreignaskattur var lagður á afturvirkt. Deilt var um hvort lagasetning þessi stæðist eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, og komu nokkur slík mál til kasta Hæstaréttar. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 5/1953 (1954, bls. 73) var staðfest sú niðurstaða bæjarþings Reykjavíkur að afturvirk lagasetningin væri réttlætanleg þar sem lögin væru þáttur í margþættri tilraun til að lagfæra fjárhagskerfi þjóðarinnar og koma því í fastari skorður. Í umfjöllun Sigurðar Líndal um stóreignaskattsmálin svokölluðu, í 1. tbl. Úlfljóts árið 2006 (bls. 37–39), segir að dómendur í umræddum málum hafi metið það svo að um brýna almannahagsmuni hefði verið að ræða og þeim hagsmunum bæri að skipa ofar sérstökum hagsmunum þegnanna. Þetta hafi mátt réttlæta með því að lögin hafi verið sett „sem þáttur í margþættri tilraun til að lagfæra fjárhagskerfi þjóðarinnar í heild, koma því í fastari skorður og verja landið fyrir verðbólgu“ (bls. 39). Með hliðsjón af þessum forsendum hefðu stóreignaskattslögin ekki verið talin fara í bága við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.
    Með hliðsjón af þeim aðstæðum sem nú eru uppi, og raktar hafa verið hér að framan, verður að meta það svo að mikilvægir almannahagsmunir krefjist þess, og að það sé jafnframt þjóðfélagslega nauðsynlegt, að gripið verði til almennrar aðgerðar sem þeirrar sem hér er gerð tillaga um. Nauðsynlegt er að hafa í huga að með frumvarpinu er ekki gengið með óhæfilegum hætti gegn eignarrétti kröfuhafa, enda felur sú aðferðafræði sem í frumvarpinu felst í sér að kröfuhafi fær endurgjald í samræmi við þau verðtryggðu lánskjör sem hann bauð skuldurum á viðskiptalegum forsendum á sínum tíma. Því er einungis verið að takmarka óeðlilegan ávinning kröfuhafa af gríðarlegri hækkun gengistryggðra lána og færa hann að því endurgjaldi sem alþekkt er og felur í sér fullkomlega ásættanlegt og fullnægjandi endurgjald fyrir kröfuhafa. Þá ber að hafa í huga að mörg fordæmi eru um íhlutun löggjafarvalds og stjórnvalda í vaxta- og verðtryggingarskilmála. Sett hefur verið hámark á vexti, hámark á ávöxtun verðtryggðra lána og verðtryggingarvísitölu hefur oft verið breytt."

http://www.althingi.is/altext/138/s/1176.html

Þórður Björn Sigurðsson, 9.10.2010 kl. 00:59

4 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Þórir Hrafn: Eflaust rétt hjá þér, en bann við afturvirkni er mikið lykilatriði og mér þótti ástæða til að draga það fram sérstaklega.

Þórður Björn: Takk kærlega fyrir þennan athyglisverða frumvarpstexta.  Þetta frumvarp var að mínu mati afskaplega vond hugmynd, og dæmi um freistingu sem ég tel að við eigum að forðast.  Rökstuðningurinn um afturvirknina (með vísan til arfavondra laga og dóms frá 1953) og eignarréttinn er svo veikur að sama niðurstaða hefði átt að blasa við alþingismönnum.  Mér er stórlega til efs að þessi lög hefðu staðist fyrir Hæstarétti, hvað þá Mannréttindadómstól Evrópu (sem hafði nóta bene ekki lögsögu á Íslandi árið 1953).  Sem betur fer reyndi ekki á þetta því gengisdómur Hæstaréttar tók ómakið af Alþingi.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 9.10.2010 kl. 01:35

5 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Eitt dæmi um lagafrumvarp sem brýtur í bága við eignarrétt, gildi samninga og bann við afturvirkni, er svonefnt "lyklafrumvarp" Lilju Mósesdóttur, Þórs Saari o.fl.  Um það hefur laganefnd Lögmannafélags Íslands ritað skarpa og skýra (og gagnrýna) umsögn sem ég tek heilshugar undir.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 9.10.2010 kl. 02:23

6 identicon

Þú ert ágætur Vilhjálmur.

En segðu mér nú eitt. Vísar staðsetning grænu og rauðu kúlanna í hlutfallsleg vensl hverrar og einnar til fjögurra meginþátta ramma stjórnarskrárinnar og lýðræðishefðar?

bugur (IP-tala skráð) 9.10.2010 kl. 03:02

7 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Neibb, staðsetning kúlanna er ákveðin af handahófi   En það væri vissulega skemmtileg æfing að staðsetja t.d. rauða kúlu fyrir lyklafrumvarpið á réttum stað í margvíðu rúmi, utan kassans.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 9.10.2010 kl. 03:25

8 identicon

Það gengur bara ekki að vera inn í þessum litla kassa. Það að fara út fyrir kassann getur líka kallast bylting og er einmitt það sem við þurfum. Við getum alveg eins kallað svæðið fyrir utan kassann yfirráðasvæði bankamafíunnar og mér þykir nóg komið af tilraunum þínum Vilhjálmur til þess að verja það og vara fólk við að fara út úr kassanum. En nú mun það gerast Þorsteinn og þú getur bara horft á. Þar að auki hafa yfirvöld oft farið út fyrir þennan kassa þegar þeim hefur hentað.

Þórarinn Einarsson (IP-tala skráð) 9.10.2010 kl. 08:58

9 identicon

Hvar staðsetur þú boðað frumvarp Árna Páls um afturvirka breytingu á vaxtaákvæði gengistryggðra lánasamninga í erlendri mynt ? (NB að þorri húsnæðislána í erlendri mynt fellur í þennan flokk sem og megnið af fjármögnunarsamningum fyrirtækja)

Hvar staðsetur þú afturvirka vaxtabreytingu gengistryggðra lánasamninga í íslenskri mynt samkvæmt nýföllnum Hæstaréttardómi ? (NB að undir þessa skilgreiningu falla nánast bara bílasamningar til einstaklinga)

Væri fróðlegt að fá það á hreint hér hvort menn í þinni stöðu, Vilhjálmur, skilji yfir höfðu muninn á gengistryggðum samning í erlendri mynt og gengistryggðum samning í íslenskum krónum og hver afleiðingin er fyrir Ísland, almenning og jú auðvitað, bankakerfið, sé farið eftir þessum augljósu skilgreiningum og efni samninga látið standa?

Guðmundur Andri Skúlason (IP-tala skráð) 9.10.2010 kl. 09:20

10 identicon

Samkvæmt því sem þú segir þá sýnist mér neyðarlögin vera rauð kúla. Borga innistæður umfram 20k og björngun peningamarkaðssjóða erðu það. Er bannað að bakka með rauðar kúlur? Hve margir þessara fjármagnseigenda eru fluttir til Lux?

Skitið þegar að eignarréttur verndar illa fenginn, óverðskuldaðan gróða. Í mínum huga skipa réttlætissjónarmið hærri sess, sérstaklega ef horft er til þess hvort kerfið eigi að standa til frambúðar eða hrynja.

Þráinn Guðbjörnsson (IP-tala skráð) 9.10.2010 kl. 10:45

11 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Þórarinn: Já, ég geri mér grein fyrir að byltingarsinnar vilja einmitt brjótast út úr þessum kössum.  Það er nánast skilgreining á byltingu.  En að tengja þetta eitthvað sérstaklega við "bankamafíu" held ég að sé of langt gengið.  Við erum að tala um prinsipp sem hafa þróast allt frá Grikkjum og Rómverjum, til frönsku byltingarinnar, til stofnunar Bandaríkja Norður-Ameríku, til evrópskra stjórnspekinga, til nútíma hugmynda og skilgreininga á mannréttindum.  Fæstir þeirra sem ruddu brautina voru sérstaklega með hagsmuni banka í huga, heldur gekk hugmyndafræðin út á að búa til gott, stöðugt og friðsælt þjóðfélag sem gæti veitt sem flestum sem mesta velmegun almennt.  Í ljósi biturrar reynslu af alls kyns tilraunastarfsemi, sem menn eiga að þekkja úr sögunni.

Þú verður bara að bíta í það súra epli, Þórarinn, að þótt "þér finnist nóg komið" þá er lýðræðislegt tjáningarfrelsi í landinu.  Mér finnst sjálfum að sérhver sú hugmyndafræði sem ekki þolir gagnrýna rökræðu geti varla verið á vetur setjandi.  Svo er spurningin hvað byltingin ætlar að gera við alla þá sem eru ósammála henni, til dæmis mig.  (Mig langar minna en ekkert að búa í landi þar sem ofangreind prinsipp eru ekki virt).  Á að taka Maó eða Pol Pot á þetta?

Gandri: Ég tel boðað frumvarp Árna Páls um lán sem sannarlega eru í erlendri mynt vera utan rammans og að slík lög myndu ekki standast fyrir dómi.  Ég tel leiðina í því máli vera að leita samninga við banka, ekki að reyna að nota lagavöndinn, það tæki er einfaldlega ekki fyrir hendi.

Dómur Hæstaréttar um myntkörfuvextina var ekki afturvirk breyting, eins og sést af rökstuðningi hans.  Lánin voru frá upphafi með ólöglegum skilmálum, rétturinn leit svo á að niðurstaðan ætti að vera sú sama og ef ekki hefði verið kveðið á um vexti, og notaði þau lög sem í gildi voru um slíka stöðu til að ákveða vaxtakjörin.  Skuldurum verulega í hag, nóta bene.

Þráinn: Neyðarlögin eru vissulega á mörkunum, því þau breyta forgangsröðun krafna í bú banka, sem breytir forsendum lánveitenda bankanna afturvirkt.  Þau fara fljótlega fyrir dómstóla, en ég geri ráð fyrir að í rökstuðningi ríkisins verði því m.a. haldið fram að við bankahrun megi gera ráð fyrir að innistæður verði verndaðar og að sá möguleiki eigi lánveitendum banka að vera ljós.  En mér heyrist á þér að þú sért haldinn þeim misskilningi að björgun innistæðna hafi verið á kostnað ríkisins.  Það er einmitt ekki svo, neyðarlögin sáu til þess að björgun innistæðna var að langmestu leyti á kostnað lánardrottna.  Að sama skapi var björgun peningamarkaðssjóða að miklu leyti á kostnað lánardrottna, þ.e. fór fram í gömlu bönkunum (í tilviki Glitnis) eða í nýjum bönkum sem eru nú að mestu í eigu lánardrottna (í tilviki Arion).

Þegar þú segir að "réttlætissjónarmið" eigi að skipa hærri sess en eignarréttur til "illa fengins, óverðskuldaðs gróða" þá er mín spurning: hvaða kerfi ætlar þú að hafa annað en réttarríkið til að skera úr um hvað er réttlátt, illa fengið og óverðskuldað?  Geðþóttaákvarðanir einræðisherra hverju sinni?  Það hefur verið reynt og virkaði ekki.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 9.10.2010 kl. 12:51

12 identicon

Gott og vel Vilhjálmur,

en þú svarar ekki spurningunni um erlend lán sem eru gengistryggð í íslenskum krónum.

Árni Páll boðar breytingar á þeim lánum með fyrirhuguðu frumvarpi. Ert þú tilbúinn að styðja okkur í þeirri baráttu að bankarnir viðurkenni augljósa skilmála þeirra lána og því sé lagasetning ekki bara óþörf, heldur beinlínis ólögleg sbr. ramman fína hér að ofan... :)

Við erum n.b. að tala um lungann úr húsnæðislánum heimilanna sem og nánast öll lán amk. litlu og meðalstóru fyrirtækjanna...

B.t.w. þá er ég alls ekki sammála þér með vaxtadóminn, enda lítur Hæstiréttur  framhjá 14. gr. laga um neytendalán ásamt því að slá föstu forsendu sem tæplega getur staðist, s.e. hin "órjúfanlega" tenging gengistryggingar og libor-vaxta. En það þýðir svo sem ekkert fyrir okkur að slást um það...

Guðmundur Andri Skúlason (IP-tala skráð) 9.10.2010 kl. 13:53

13 identicon

Rétt hjá Vilhjálmi - góð og holl lesning. 

Réttarríkinu má alls ekki fórna á altari stundarinnar.  (Fannst því reyndar fórnað á altari pólitíkur þegar Samfylkingin munstraði sína ráðherra í skjól en setti Geir á píningarbekkinn um daginn.) 

Lyklafrumvarpið hljómar skynsamlega (fasteignaskuldir eingöngu tryggðar með fasteigninni sjálfri) en sjálfsagt er umdeilanlegt hvort það eigi eða geti verið afturvirkt.  Skilst að þannig lög séu t.d. í USA.

Líklega gætu stórauknar vaxtabætur slegið á mestu erfiðleikana hjá ungu fólki.  Slíkt mætti fjármagna t.d. með fjármagnsskattinum og nýja eignarskattinum.   Þannig ætti sér stað umtalsverð tilfærsla frá fjármagnseigendum til skuldara.

En hárrétt - við skulum halda okkur við grunngreglur réttarkerfisins.  Virðum eignarrétt, semjum ekki afturvirk lög, fólk er saklaust þar til dæmt sekt, virðum lýðræðið og réttkjörin stjórnvöld, mótmælum án ofbeldis o.s.frv.  

Ef við gerum það ekki - þá tapast allt. 

Comon (IP-tala skráð) 9.10.2010 kl. 18:11

14 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Gandri: Ég tel að mál erlendra lána (sem sé ekki krónulána sem voru tengd gengi erlendra mynta) þurfi að leysa í samkomulagi stjórnvalda og banka.  Lagasetning gengur ekki á þau lán því þau eru ekki ólögleg og hafa aldrei verið.

Comon: "Lyklaskilmálar" eru ekki afturvirkir í USA.  En þeir eru tíðkaðir í sumum fylkjum og skoðanir eru skiptar um hvort það fyrirkomulag sé sniðugt þegar á heildina er litið.  Sjá t.d. umsögn Seðlabanka Íslands um lyklafrumvarp Lilju Mósesdóttur o.fl.

Ég er fylgjandi viðbótar úrræðum/aðgerðum fyrir þá hópa sem verst koma út úr þessu, þ.e. þá sem eru með erfiðustu fjölskylduaðstæðurnar (einstæðir foreldrar/ungt barnafólk) og með versta eiginfjárstöðu og greiðslubyrði.  En slíkar aðgerðir þurfa einmitt að vera með skarpan fókus á þá sem þurfa á þeim að halda; það eru ekki til peningar fyrir almennri niðurskrift höfuðstóls og það er þar að auki afar ómarkviss aðgerð.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 9.10.2010 kl. 18:58

15 identicon

Ekki það að mér finnist eitthvað sérlega gaman að vera leiðinlegur, en ég ætla samt að vera smá þrár og biðja þig að svara spurningunni um erlend lán sem eru TENGD íslensku krónunni... :)

Þar erum við að tala um lán sem sögð eru "erlend veðskuld" í forskrift ásamt því að vera sögð "gengistryggð" í næstu línu samningsins.

Við vitum öll af umtali eða biturri reynslu hvað gerist þegar íslenskar krónur eru tengdar erlendri mynt, (upphæð í krónum hækkar við verðfall krónunnar) þannig að spurningin til þín er (aftur) varðandi erlendu myntirnar sem tengdar eru íslenskum krónum... (lækkar þá ekki upphæð erlendu fjárhæðarinnar vegna verðfalls krónunnar ??? )

Bara svona af því að ég hefði svolítið gaman af því að sjá rökstuðning þinn fyrir því af hverju STJÓRNVÖLD og bankar ættu eitthvað að semja um þessháttar skuldir framhjá mér... en það er jú ég sem er skuldarinn... :)

Guðmundur Andri Skúlason (IP-tala skráð) 9.10.2010 kl. 19:54

16 identicon

Ekki sýnist mér þú íhuga mikið hver stjórnar þessum ramma, hvernig hann verður til og hver gætir hans. En það er nefnilega elíta sem setur þennan ramma.

En sama hvað þú segir, þá verður bylting og það verður farið út fyrir þennan ramma. Annars virðist þú hafa óþarflega þröngan skilning á 'byltingu' (Mao & Pol Pot). En þú gætir hæglega lifað hana af og jafnvel átt þér framtíð. :)

Bylting er ekki endilega eitthvað sem ræðst gegn lýðræðislegu tjáningarfrelsi og sem þolir ekki gagnrýna rökræðu. Upphafið á byltingunni gæti einmitt verið einfaldar og sjálfsagðar hugmyndir um hvernig mætti breyta fjármálakerfinu. Það er t.d. gert hér:

www.ifri.is

Það væri vissulega bylting ef það tækist að breyta fjármálakerfinu þannig að það þjónaði hagsmunum almennings í stað þess að vera svikamylla í þágu sérhagsmuna.

Þórarinn Einarsson (IP-tala skráð) 9.10.2010 kl. 23:01

17 identicon

Vilhjálmur skrifaði:

"Dómur Hæstaréttar um myntkörfuvextina var ekki afturvirk breyting, eins og sést af rökstuðningi hans. Lánin voru frá upphafi með ólöglegum skilmálum, rétturinn leit svo á að niðurstaðan ætti að vera sú sama og ef ekki hefði verið kveðið á um vexti, og notaði þau lög sem í gildi voru um slíka stöðu til að ákveða vaxtakjörin. Skuldurum verulega í hag, nóta bene."

-------------

Ef vöxtunum er breytt afturvirkt þá er það afturvirk breyting. Lánin voru frá upphafi með ólöglegum skilmálum og því gölluð vara. Neytandinn á ekki að bera kostnaðinn af því að laga gallaða vöru og nýja varan sem á að koma í staðinn skal ekki vera verri.

Hákon Hrafn (IP-tala skráð) 10.10.2010 kl. 00:12

18 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Gjaldeyrishöftin eru dæmi um rauðan punkt!

Þar er einstaklingum mismunað, auðmenn fá undanþágur og forréttindi á meðan almenningur og fyrirtæki sem ekki njóta sömu kjara og þeir útvöldu dragast aftur úr.

Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri, segir gjaldeyrishöft brengla efnahagslega hvata, leiða til þess að viðskiptatækifæri glatast og vera gróðrarstíu lögbrota. 

Að viðhalda þessu ástandi telja margir sjálfsagt á þessum "álagstímum" og meira að segja að veita útvöldum forréttindi, eins og td. að heimila þeim viðskipti með aflandskrónur og veita þeim undanþágur frá reglum sem aðrir eru neyddir til að fara eftir.

Ég endurtek lokaorðin þín:"Það þarf sterk bein til að standast freistingarnar, í þágu lýðræðisins.  En lýðræðið er hvorki sjálfgefið né ókeypis.  Að halda það er hættulegur misskilningur."

Lúðvík Júlíusson, 10.10.2010 kl. 09:17

19 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Gandri: Meðferð mismunandi lánsskilmála mun fara eftir blæbrigðum í orðalagi lánasamninga, það er ljóst af lestri dóms Héraðsdóms (og Hæstaréttar).  Lykilatriði þar er hvort lánssamningurinn er um tiltekna lánsfjárhæð í krónum, eða um lán í erlendri mynt (sem eftir atvikum kann að hafa verið greitt út í krónum).  Treysti mér ekki til að fjalla af neinu viti um þitt dæmi enda hvorki lögfræðingur né dómari, né hef ég séð orðalagið á samningnum.

Þórarinn: Íslenska stjórnarskráin var samþykkt af 95% kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu 1944 (og kjörsókn var 98%).  Auðvitað er langbest að stjórnarskrá njóti svo víðtæks fylgis og að því á að stefna.  En ég geri ekki ráð fyrir að þú hafir áhuga á því ferli sem nú er í gangi til að móta nýja stjórnarskrá, eða hvað?  Verður það bara elítan sem verður fyrirsjáanlega kosin óvart og í misgripum af þjóðinni til stjórnlagaþings?

Hákon: Það stoðar lítt að deila við dómarann.

Lúðvík: Gjaldeyrishöftin eru mjög vond á alla kanta, ég er alveg sammála því.  En þau eru því miður staðreynd.  Ef þú átt patentlausn á því hvernig hægt væri að aflétta þeim prontó án þess að rústa efnahag heimila og fyrirtækja endanlega, þá máttu gjarnan koma með hana.  Ég sé enga leið út úr gjaldeyrishöftunum aðra en þá að ganga í ESB og taka upp evru í boði ECB.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 10.10.2010 kl. 21:47

20 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Vilhjálmur, á meðan gjaldeyrishöftin eru nauðsynleg þá er sjálfsögð krafa að stjórn jafnaðarmanna fylgist með því að reglur mismuni ekki einstaklingum og fyrirtækjum.

Reglunum þarf að breyta.  Núverandi útfærsla haftanna hyglir auðmönnum og refsar tekju- og eignalitlum einstaklingum.  Er það ekki sjálfsögð krafa að allir séu jafnir? 

Er það ekki sjálfsögð krafa að Seðlabankinn hafi ekki völd til að ákveða hvaða einstaklingar búi saman?  Hvað kemur það í raun Seðlabankanum við? 

Er það ekki sjálfsögð krafa að reglurnar séu gagnsæjar og að allir njóti sömu réttinda?

Það er lítið mál að breyta þessu, viljinn er allt sem þarf.  Þetta er ekkert annað hvort eða, heldur spurning um það hvort menn séu í raun jafnaðarmenn eða ekki.

Lúðvík Júlíusson, 10.10.2010 kl. 23:28

21 Smámynd: Arnar Sigurðsson

Góð nálgun og réttar ályktanir sem rökrétt blása allar hugmyndir um eignaupptöku út af borðinu. Gildir þá einu hvort heldur er kvótaeign á landi og legi eða öðrum bókfærðum eignum sem grundvallast á löglegum viðskiptum á hverjum tíma.

Arnar Sigurðsson, 11.10.2010 kl. 14:35

22 identicon

"Þegar þú segir að "réttlætissjónarmið" eigi að skipa hærri sess en eignarréttur til "illa fengins, óverðskuldaðs gróða" þá er mín spurning: hvaða kerfi ætlar þú að hafa annað en réttarríkið til að skera úr um hvað er réttlátt, illa fengið og óverðskuldað? Geðþóttaákvarðanir einræðisherra hverju sinni? Það hefur verið reynt og virkaði ekki."

-> Það sem ég á við er að réttarríkið hafi burði til þess að geta spólað til baka þegar að sýnt er að svindlað hafi verið á kerfinu; hlutir hafi komist í gegn sem ekki voru í anda laga o.s.frv. Vil semsagt betrumbæta réttarríkið. Sé ekki hvernig þú kemst að því að ég sé að endorsa einræðisherra ...

Þráinn Guðbjörnsson (IP-tala skráð) 12.10.2010 kl. 11:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband