17.9.2010 | 14:30
Myndrænn samanburður lánategunda
Dómur Hæstaréttar frá í gær er að mínu mati Salomónsdómur. Höfðustóll flestra myntkörfulána lækkar talsvert, skuldurum til hagsbóta, en þó ekki svo mikið að bankakerfið - og hagkerfið almennt - bíði verulegan skaða af.
Til að skilja um hvað málið snýst er best að setja það upp myndrænt. Hér að neðan er graf sem vonandi skýrir myndina. Það svarar þeirri spurningu, hvernig höfuðstóll 1,0 milljónar króna upphaflegs myntkörfuláns væri orðinn í dag, eftir því hvenær lánið var tekið - og samkvæmt þrenns konar forsendum. Borin eru saman:
- óverðtryggt krónulán með vöxtum Seðlabanka Íslands hverju sinni, skv. dómi Hæstaréttar frá í gær (bláu súlurnar);
- myntkörfulán, 50% í japönsku jeni og 50% í svissneskum franka, með 1,2% vegnum LIBOR vöxtum og 300 punkta álagi, samtals 4,2% meðalvöxtum til einföldunar (rauðu súlurnar);
- og krónulán í sömu myntkörfuvöxtum, þ.e. útkoman ef gengistryggingin hefði verið felld burt en samningsvextir látnir standa óbreyttir, þótt lánið væri komið yfir í krónu (grænu súlurnar).
Myndin sýnir stöðu óhreyfðs höfuðstóls, með áföllnum vöxtum og gengistryggingu í tilviki myntkörfulánsins. Ekki er tekið tillit til afborgana enda eru forsendur þar mjög mismunandi og breyta ekki því aðalatriði sem myndinni er ætlað að sýna.
Smella má á myndina eða hér til að fá stærri útgáfu. Excel reiknivangur að baki tölunum er hér.
Eins og sjá má hefur höfuðstóll einnar milljónar myntkörfuláns sem tekið var til dæmis í júlí 2007 margfaldast og er nálægt 3 milljónum króna samkvæmt upphaflegum lánasamningi (rauð súla fyrir miðri mynd). Með dómi Hæstaréttar í gær verður höfuðstóllinn rétt rúmar 1,5 milljónir (blá súla). Ef upphaflegir myntkörfuvextir væru látnir gilda væri höfuðstóllinn hins vegar undir 1,2 milljónum (græn súla).
Salomónsdómurinn er hér myndrænn. Upphaflegar og bókstaflegar forsendur hefðu gefið rauðu höfuðstólana; ítrustu kröfur lántakenda hefðu gefið grænu súlurnar; en dómur Hæstaréttar kemur þarna mitt á milli og gefur bláu niðurstöðuna. Lántakendur geta andað léttar - og bankarnir líka.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll
...er það ekki rétt athugasemd, að á öllum þeim tíma sem lánin voru tekin - þá buðu bankarnir uppá lán með þessum kjörum, þ.e. óverðtryggð lán með þeim okurvöxtum sem í gangi voru? Vöxtum, sem voru svo háir, að þeim var í reynd ætlað að hræða fólk frá því að taka óverðtryggt lán til langs tíma. Þá er spurningin: Hverju tapa bankarnir?? Ekki krónu eða..., ennþá betra, þeim er dæmt að fá allt greitt til baka og það á okurvöxtum. Halda menn t.d. að óverðtryggðir vextir verði "hagstæðir" fyrir almenning á einhverjum tíma í framtíðinni? - kanski ef við tökum upp evru og fáum leiðinlega, en praktíska, austurríska bankamenn hingað....
Þórmundur Bergsson (IP-tala skráð) 17.9.2010 kl. 16:28
Jú, ég hygg að það sé rétt, að bankarnir hafa alltaf boðið upp á óverðtryggð lán í krónu með breytilegum vöxtum (REIBOR + álag). Seðlabankavextirnir eru eitthvað smávegis lægri en þeir vextir sem einstaklingum buðust að jafnaði á krónulánum.
Óverðtryggðir vextir í krónu eru lágir þessa dagana vegna gjaldeyrishaftanna (af því að krónur komast ekki út úr landi og það er engin samkeppni við innlenda vexti), en það veit enginn hvert þeir fara ef og þegar þeim höftum yrði aflétt. Varanlega lausnin, til að gefa stöðugleika og viðráðanlega vexti til frambúðar, er vitaskuld evran.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 17.9.2010 kl. 17:33
Þessi dómur kann nú varla að teljast Salómonsdómur þar sem slíkir dómar gerðu báða málsaðila sátta og jafnræði milli þeirra. Hér hallar enn verulega á greiðendur/lántakana.
Þá er þessi dómur í mótsögn við dóm Hæstaréttar þar sem lánin voru dæmd ólögmæt - enda augljós niðurstaða samkvæmt lagabókstafnum og greinargerðum lagafrumvarpsins á sínum tíma. Í dóminum var skírt sagt að ekki mætti í stað gengistryggingar taka neitt annað form verðtryggingar. Vextir Seðlabanka á óverðtryggðar skuldbindingar eru einmitt eitt form verðtryggingar í sjálfu sér þar sem þeir vextir hækka og lækka með verðbólgu/vísitölu.
Þá er vitað að bankakerfið hefði ekki tapað þessum lánum þar sem þeir hafa heimild til að skila þeim inn í skilanefndir föllnu bankanna við breyttar forsendur. Þannig væru erlendu kröfuhafarnir að tapa en ekki nýju bankarnir. Þeir hefðu einungis tapað virði lánsins frá þeirri prósentu sem þeir keyptu þau úr skilanefndunum upp að fullvirði þeirra eins og þeir ætluðu sér að innheimta þau - og var notað til að sýna eiginfjárstöðuna betri.
Það hefur komið fram að þannig var samið, nema ef vera kynni að jarðfræðineminn og flugfreyjan hafi haft puttana í málinu vegna Landsbankans og klúðrað þar málum.
Það er mál manna nú að Hæstiréttur hafi dæmt pantaða niðurstöðu úr ranni jarðfræðinemans og flugfreyjunnar og embættismanna þeirra í Seðlabanka og víðar. Við hin héldum að það væru breyttir tímar og Hæstiréttur dæmdi eftir lögum en ekki pöntuðum niðurstöðum.
Predikarinn - Cacoethes scribendi , 17.9.2010 kl. 20:51
Lítil þekking er hættuleg þekking. Þegar slíkir einstaklingar fjalla t.d. um lánamál opinberlega átta flestir sig á því þeir hafa lítið vit á málaflokknum og áhrif þeirra eru því afar takmökuð. Ástæða þess að m.a. Umboðsmaður neytenda og Umboðsmaður skuldara eru ósáttir með þennan dóm, er að ekki virðist hafa verið tekið tillit til neytendalaga í niðurstöðu hans.
Þegar flokksforystur flokkanna ákveða hvað er sanngjarnt og hvað ekki, virðist ekki vera hörgull á mönnum sem eru tilbúnir að þjóna hagsmunum flokkforystunnar og fara fram á ritvöllinn.
Sigurður Þorsteinsson, 18.9.2010 kl. 09:19
Ég myndi gjarnan vilja að þú bættir inná myndina dæmigerðu láni tekið annarsstaðar en á Íslandi; Evrópu, USA, Asíu eða Ástralíu.
Síðan er hægt að slá upp annari áþekkri mynd þar sem við skoðum þróun innistæðna í sömu ríkjum.
Þvínæst getum við rætt um hvað sé sanngjarnt.
Þráinn Guðbjörnsson (IP-tala skráð) 20.9.2010 kl. 18:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.