Framkvæmdavaldið verður að velja faglega

Ein mikilvægasta endurbót á íslensku stjórnkerfi sem gera þarf er sú að velja ráðherra ríkisstjórnarinnar á grundvelli þekkingar, reynslu og hæfileika á hverju stjórnsýslusviði fyrir sig.

Nútíma samfélag er flókið og sérhæft, og þekking skiptir miklu máli þegar stefna er mótuð og ákvarðanir teknar.  Þeir tímar eru liðnir, að þokkalega greindir þúsundþjalasmiðir geti á stuttum tíma sett sig inn í fagsvið með nógu djúpum hætti til að geta tekið góðar ákvarðanir, sérstaklega á álagstímum.  Þetta gildir hvort um er að ræða heilbrigðismál, menntamál, umhverfismál, efnahagsmál eða aðra málaflokka.

Við sáum forsmekkinn af því sem verið gæti, þegar Gylfi Magnússon og Ragna Árnadóttir gegndu störfum ráðherra um hríð, með prýði.  Það voru mistök og afturhvarf til fyrri og verri tíma, að skipta þeim út - með allri virðingu fyrir eftirmönnum þeirra.

Í umræðu dagsins um Landsdóm rifjast upp hvað getur gerst, og gerist, þegar dýralæknar verða fjármálaráðherrar og sagnfræðingar viðskiptaráðherrar (aftur með fullri virðingu fyrir þeim ágætu mönnum sem þau embætti skipuðu).  Vandinn er ekki beinlínis þeirra heldur kerfisins sem ýtti þeim upp í stöður sem þeir réðu ekki við, sbr. Peters-lögmálið.

Sjáum til dæmis þennan útdrátt úr bréfi Björgvins G. Sigurðssonar til þingmannanefndar um ráðherraábyrgð:

Það er engum greiði gerður, hvorki tilvonandi ráðherrum né þjóðinni, með því fyrirkomulagi sem hér hefur viðgengist.  Á því verður að gera róttækar endurbætur og breytingar.

Forsætisráðherra á helst að kjósa beinni kosningu.  Hún eða hann velur ráðuneyti sitt, gjarnan fyrir kosningar.  Þingmenn geta ekki jafnframt verið ráðherrar.  Ráðuneyti eru þá skipuð fólki með fagþekkingu, gott orðspor og dómgreind; reynslumikið fólk af viðkomandi sviðum.  Þetta er svipað því sem tíðkast í Frakklandi og Bandaríkjunum.

Samhliða þarf að breyta störfum þingsins og gera það mun öflugra og sjálfstæðara sem stefnumótandi vettvang pólitískrar rökræðu.  Þingið á, með lagasetningu og ályktunum sínum, að setja ríkisstjórninni ramma og stefnu hverju sinni.  Jafnframt á það að hafa gott eftirlit með framkvæmdavaldinu og stjórnsýslunni.  Það má hugsa sér að til verði sérstakur stjórnsýsludómstóll að franskri fyrirmynd; embætti Umboðsmanns Alþingis er vísir að þessu en þyrfti að efla og gefa aukna vigt.

Í þessa átt eigum við að breyta stjórnarskránni í kjölfar stjórnlagaþingsins næsta vor.  Þessi kerfisbreyting ein og sér myndi gjörbreyta framtíðarhorfum á okkar ágæta landi til hins betra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Núverandi skipulag gerir ráð fyrir því að ráðherra sé æðsti embættismaður í ráðuneyti. Þess vegna er mikilvægt að hann hafi faglega þekkingu. Þetta er ég sammála þér um. Það er þó aðeins í núverandi kerfi.

Mér finnst það hins vegar fráleitt að sá sem veitir pólitíska forystu fyrir ríkisvaldinu þurfi að hafa faglega embættismannaþekkingu. Kerfinu þarf því að breyta, leggja af einvalda ráðherra/embættismenn, en breyta ríkisstjórn í fjölskipað vald. Það sem má svo sem vera verkaskipting milli ráðherra en allar ákvarðanir ætti að taka sameiginlega eftir umræðu á ráðherrafundi. Þessu fylgir að sjálfsögðu að vald faglegra embættismanna eykst, en pólitísk forysta verður markvissari. Spyrja má Svía hvernig þetta virkar.

Ég tek svo undir með þér að það væri skynsamlegt að koma á stjórnsýsludómstóli hér, þó e.t.v. ekki í stað Umboðsmanns. Þá þarf að skilgreina mun betur eftirlitshlutverk alþingis. Ég er hins vegar efins um að hægt verði að breyta alþingi í "stefnumótandi vettvang pólitískrar rökræðu".

Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 12.9.2010 kl. 23:25

2 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Ríkisstjórn hverju sinni þyrfti að eiga gott samstarf við þingið, því hún þyrfti að semja um framgang mála og leita meirihlutafylgis við þau.  Ég held að framkvæmdin yrði sú að forsætisráðherrar yrðu að njóta tiltölulega almenns trausts.  Þá mætti líka kjósa í tvöfaldri umferð til að tryggja meirihlutafylgi og styrkja umboð þeirra.

Þingið á að mínu mati að taka meira frumkvæði í stefnumótun.  Dæmi: nú er unnið að mótun heildstæðrar orkustefnu, á vegum iðnaðarráðuneytis (ég er formaður þess stýrihóps).  Það má í framtíðinni hugsa sér að iðnaðarnefnd Alþingis (eða framtíðar atvinnuvega- og nýsköpunarnefnd) hafi frumkvæði að slíku, a.m.k. hvað varðar hinn almenna stefnumótunarhluta (strategíu) - en stefnan væri svo falin ríkisstjórninni til framkvæmdar (taktík).

Vilhjálmur Þorsteinsson, 12.9.2010 kl. 23:37

3 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Annars vil ég taka fram að ég byggi skoðun mína ekki á menntahroka (og ætti erfitt með slíkt enda er ég "bara" stúdent sjálfur).  Við munum eiga góða ráðherra sem eru ekki endilega langskólagengnir.  En þeir verða þá valdir á grundvelli raunverulegra hæfileika og reynslu á þeim sviðum sem um ræðir, og úr stærra þýði en rúmlega 32 þingmönnum ríkisstjórnarflokka.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 12.9.2010 kl. 23:51

4 identicon

Góðar vangaveltur. Tek undir að fagmennsku hefur verið ábótavant - næstum svo, að menn hafa verið gerðir að ráðherrum því "komið var að þeim".

Hinn helmingurinn á vandanum er svo stjórnarandstaðan.

Hún virkar yfirleitt á mig eins og höfuðlaus her (ekki bara í núinu). Allir þingmenn kynna sér öll mál, takmarkað, en enginn þingmaður kynnir sér neitt mál rækilega. Eftirlitið verður óttalega yfirborðskennt (að mínu mati).

Líklega yrði erfitt að koma á fyrirkomulagi skuggaráðherra, líkt og tíðkast t.d. í Bretlandi, Kanada og Frakklandi, en eitthvað slíkt sýnist mér þó þurfa. Að n.k. "skuggaráðherra" setji sig rækilega ofan í mál síns "ráðuneytis".

Ef vel tækist til, ætti slíkt að dýpka umræðuna á alþingi og tryggja betra eftirlit með störfum ríkisstjórnar.

Ég þykist reyndar viss um stjórnarandstöður reyni yfirleitt að vinna svona....skipta með sér verkum - en það þyrfti að gerast með formlegri hætti, svo fjölmiðlar og almenningur viti hver ber "ábyrgð" á móti viðkomandi ráðherra.

Kannski er þetta rugl í mér.

En stjórnarandstaðan og mikilvægi hennar má alls ekki gleymast í þeirri umræðu sem framundan er.

baldur mcqueen (IP-tala skráð) 13.9.2010 kl. 00:40

5 identicon

Þetta er allt hárrétt Vilhjálmur, þótt ég sé ekki endilega sammála því að kjósa forsætisráðherra beint, má athuga það.  Hins vegar þarf að skilja á milli þings og framkvæmdavalds og reyna með einhverjum ósköpum að koma í veg fyrir að þingið sé bara biðsalur eftir ráðherratign.  Hingað til hefur eina leiðin í ráðherrastól legið í gegnum flokkinn, prófkjörin, þingið og svo áfram streberast þangað til kanína kemur úr hatti flokksformanns með einhverjum fáránlegum rökum sem hafa ekkert með getuna til ráðherrasetu að gera.  Við súpum nú seyðið af þessu ráðslagi og því miður virðist Samfylkingin jafn ófær um að breyta þessu og aðrir flokkar.  Ég skrifaði um það fyrst 1998 að taka ætti ráðherrana að mestu annars staðar frá en í Þinginu og ekki tóku nú margir félagar í pólitíkinni undir það.  Enda allir á leið á Þing!

Stefán Jón Hafstein (IP-tala skráð) 13.9.2010 kl. 08:05

6 identicon

Virkilega góð hugmynd sem mér finnst að menn þurfi að skoða miklu betur.

Þrískipting valdsins hefur verið of veik hjá okkur og mér finnst það mikil styrking fyrir lýðræðið að ráðherrar séu fagmenn, ekki bara sá skársti eða "þaulsetnasti" af 32 manna þingmeirihluta.

Þórlaug (IP-tala skráð) 13.9.2010 kl. 08:51

7 Smámynd: Haraldur Baldursson

Hjartanlega sammála þér um flest, þó ekki alveg reiðubúin að stökkva inn í aðdáendaklúbb Gylfa. Ragna hins vegar stóð sig um flest vel.
En aukinn aðskilnað framkvæmdavalds og Alþingis er mjög þarft. Gallinn í framkvæmd felst í flokksræðinu. Persónulega tel ég einmenningskjördæmi (reyndar tvímennings) henta best til að færa valdið nær fólkinu.

Haraldur Baldursson, 13.9.2010 kl. 09:05

8 identicon

Hvað segir þú um þá gagnrýni sem komið hefur upp á franska stjórnkerfið að framkvæmdavaldið sé nánast hömlulaust á ákveðnum sviðum. Ég trúi ekki að þú sért að mæla með því  -- en til þess að hamla forsetavaldi þarf að venjulega að deila valdstofnum sem skapar óhagræði og jafnvel mögulega pattstöðu á ákveðnum sviðum.

Það er það sem þarf að ræða - ekki einhvérja útópíska ídeal hugmynd - sem hefur bæði kosti og galla  - heldur hvernig megi koma í veg fyrir þekkta annmarka.

árni (IP-tala skráð) 13.9.2010 kl. 09:07

9 identicon

Tek heils hugar undir þetta. Lýðræðið grundvallast á þrískiptingu ríkisvaldsins, frjálsum fjölmiðlum og þeirri trú að þegar allt þetta sé fyrir hendi muni meiri hluti manna - eftir upplýsta umræðu - komast að skynsamlegri niðurstöðu í hverju máli.

Þrískipting ríkisvaldsins er hér ekki einu sinni í orði og fjölmiðlar hvorki frjálsir né upplýsandi. Enda fer umræða um flest mál fljótlega í hefðbundið kappleikjaform og niðurstaðan verður engin.

Kosning forsætisráðherra sem skipa myndi ráðuneyti sitt hæfu fólki á sínu sviði væri mjög til bóta.

Dofri Hermannsson (IP-tala skráð) 13.9.2010 kl. 09:41

10 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Þakka góðar athugasemdir.

Baldur: Tek undir með þér varðandi stjórnarandstöðu.  Mér leiðist afar mikið flokkadráttaandrúmsloftið á þingi, og í umræðunni almennt, þar sem menn virðast líta á rökræðu í stjórnmálum eins og handboltaleik.  Að mínu viti þarf að veikja flokkana dálítið, til dæmis með rýmri reglum um persónukjör.  Það myndi minnka agavald (og ægivald) þeirra yfir "sínu fólki" og umræðunni, en styrkja einstaklingana í því að hafa sjálfstæðar skoðanir og rök.

Stefán Jón: Það má vel vera að til séu fleiri leiðir til að velja forsætisráðherrann, en a.m.k. tel ég að hann/hún eigi fortakslaust að velja ráðuneyti sitt utan þings.

Haraldur: Ég tel Gylfa hafa staðið sig mjög vel og þetta lögfræðiálita-mál vera storm í vatnsglasi, sem Mogganum tókst að æsa upp.

Árni: Franska framkvæmdavaldið er mjög sterkt, enda skrifaði de Gaulle stjórnarskrána 1955 einn og sjálfur, á viðsjárverðum tímum.  Á móti kemur að þeir eru með töluvert sterkt aðhald að stjórnsýslunni, með stjórnsýsludómstól og rannsóknardómarakerfi (t.d. Evu Joly).  Það má margt læra af franska kerfinu, bæði jákvætt og neikvætt.

Dofri: Sammála.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 13.9.2010 kl. 11:34

11 Smámynd: Haraldur Baldursson

Stjórnsýsludómstóll er gott mál.
Ég tel þó að tryggja þurfi sérstaklega skipan í þann dómstól. Kröfur um menntun, starfsreynslu og ekki síst að skipan í dómstólinn verði frá hendi Alþingis með 2/3 meirihluta. Til að jafnvægi haldist, mætti kjósa um 2 í einu og þannig má finna málamiðlanir milli stjórarmeirihluta og stjórnarandstöðu. Mikilvægi þessa dómstóls væri slíkt að það má ekki lita hann of miklum pólitískum litum svo hann hallist ekki of mikið í einhverjar áttir.
Seta í dómstólnum ætti þó að vera til 7 ára...tryggja að það falli ekki saman við þingkosningar ef unnt er.

Haraldur Baldursson, 13.9.2010 kl. 13:05

12 identicon

Sammála því sem sagt hefur verið hérna, að mestu. Tvær smá athugasemdir:

1. Það er ekkert raunverulegt stjórnlagaþing framundan. Eins og lögin eru sett hefur þingið ekkert raunverulegt vald, heldur einungis tillögurétt til alþingis. Það er ekki einu sinni tryggt að þó að "stjórnalagaþingið" væri einróma um nýja stjórnarskrá að kjósendur fengju að tjá sig um hana. Eins þá hefur þetta "þing" álíka mikinn tíma til að sinna störfum sínum og málfundafélag framhaldsskóla myndi gefa sér til að ræða breytingar á meðlimareglum sínum.

2. Þær hugmyndir sem hafa verið reifaðar hérna, og á ýmsum öðrum síðum, um breytingar á stjórnarskrá þarf að skoða gaumgæfilega. Kann ekki að þýða "law of unintended consequences" almennilega, en hugtakið er mikilvægt í allri stjórnsýslugerð. Það er margt seem gerir hlutina á Íslandi svolítið öðruvísi en í stærri þjóðfélgögum og við getum ekki bara farið í einhverja "copy/paste" æfingu eins og síðast. Þetta er bæði vegna náinna tengsla fólks og lítillar stærðar, en ekki síður vegna annarra þátta (t.d., málsvæðið er lítið og mjög lítill hluti af reynslu heimsins er aðgengilegur á íslensku, tiltölulega fá fyrirtæki fara með mest af gjaldeyristekjunum, samstarf við stórar fjölþjóðaeiningar er erfitt, formleg tengls berjast á við fjölskyldu og venslatengsl, osfrv.)

Andri Haraldsson (IP-tala skráð) 13.9.2010 kl. 17:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband