Rétt og rangt um fjárfestingarsamninga

Nokkur umræða hefur sprottið um fjárfestingarsamninga vegna umfjöllunar og afgreiðslu Alþingis á nýjasta samningnum, vegna gagnavers í Reykjanesbæ.  Er sumt af því sem haldið er fram rétt en annað rangt, og því er efni til að fjalla eilítið um fjárfestingarsamninga almennt.

Sérstakir samningar um erlenda fjárfestingu tíðkast í flestum löndum heims, og m.a. bæði í Bandaríkjunum og Evrópu. Í Bandaríkjunum er löng hefð fyrir klæðskerasniðnum samningum um einstök verkefni (ad hoc); svo dæmi sé nefnt fékk BMW margháttaða fyrirgreiðslu þegar þeir reistu bílaverksmiðju í Suður-Karólínu á sínum tíma. Í Evrópu (ESB og EES) gildir samræmdur lagarammi um opinberar ívilnanir vegna fjárfestinga. Slíkar ívilnanir má aðeins veita á sérstökum atvinnuþróunarsvæðum, ívilinun má aðeins nema tilteknu hlutfalli af upphæð fjárfestingar og eftirlitsstofnanir ESB/EES, í okkar tilviki Eftirlitsstofnun EFTA (ESA), fylgist með ferlinu og verður að staðfesta endanlegan samning.

Fjárfestingarsamningar, með heimildum í sérlögum frá Alþingi, hafa verið gerðir vegna allra helstu stóriðjuframkvæmda á Íslandi, til dæmis nýlega vegna Norðuráls (sjá lög um fjárfestingarsamning Norðuráls hér).

Fjárfestingarsamninga innan ESB/EES ramma má aðeins gera vegna verkefna á atvinnuþróunarsvæðum. Þá má til dæmis ekki gera vegna verkefna á höfuðborgarsvæðinu.

Helsti tilgangur fjárfestingarsamninga er að tryggja viðskiptaumhverfi, einkum hvað varðar skatta og gjöld, til langs tíma. Stóriðjusamningar hafa hingað til verið gerðir til 20 ára en ESA hefur nýlega lagst gegn svo löngum samningum og er almennt verið að stytta þá niður í 10 ár eða svo. Fjárfestar sem koma með stórar upphæðir inn í land, svo nemur tugum milljarða króna, vilja skiljanlega hafa nokkra vissu fyrir því að skattaumhverfi eða öðrum rekstrarforsendum verði ekki gjörbreytt eftir fá ár, þannig að upphafleg viðskiptaáætlun falli um sjálfa sig. Því snúast samningarnir gjarnan um tiltekin þök eða hámörk á skattahlutföll.

Svo dæmi sé tekið af samningi vegna gagnavers í Reykjanesbæ, en frumvarp um heimild til gerðar hans má sjá hér, þá er hámark tekjuskatts 15% fyrstu 5 árin og 18% næstu 5 árin, en 25% eftir það. Þetta þak er hærra en hjá Norðuráli, sem hefur tryggðan 15% tekjuskatt í 20 ár. Taka má fram til skýringar að tekjuskattshlutfall fyrirtækja var 15% þegar samningagerðin hófst en er nú 18%.

Eitt af því sem horft er til þegar ákvörðun er tekin um fjárfestingarsamning, og við staðfestingu hans hjá ESA, er hvort um sé að ræða verulega röskun á samkeppni. Ef til dæmis væri um að ræða ívilnun til fyrirtækis sem ætlaði sér að keppa með öflugum hætti á innanlandsmarkaði við fyrirtæki sem þar væru fyrir, og njóta ekki ívilnunar, yrði slíkt varla samþykkt. Og auðvitað gilda samkeppnislög um viðkomandi fyrirtæki, hvort sem þau hafa gert fjárfestingarsamning eður ei.

Að sama skapi gildir að öll fyrirtæki sem uppfylla málefnaleg skilyrði um nýja fjárfestingu á atvinnuþróunarsvæðum, eiga tilkall til þess að fá sambærilegar ívilnanir; það liggur í hlutarins eðli og í jafnræðisreglu stjórnsýslulaga og stjórnarskrár.

Nú hefur iðnaðarráðherra lagt fram frumvarp á Alþingi um almennan ramma um nýfjárfestingar og ívilnanir vegna þeirra. Ef það verður samþykkt má gera ráð fyrir að sértæk lög um einstök verkefni leggist af, heldur verði þau afgreidd af ráðuneytinu með almennum hætti innan rammans. Er full ástæða til að fagna þessu enda er slík löggjöf í gildi í velflestum nágrannalöndum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er fengið úr lögunum:

  Í beinum tengslum við verkefnið skulu félögin og hluthafar þeirra undanþegin takmörkunum sem kveðið er á um í reglum nr. 880/2009, um gjaldeyrismál, sem settar voru á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða í lögum um gjaldeyrismál, nr. 87/1992, með síðari breytingum, svo og hvers kyns sams konar eða efnislega svipaðra hafta sem síðar kunna að verða sett á til viðbótar við slík höft eða í þeirra stað. Í fjárfestingarsamningi er heimilt að kveða nánar á um slíka undanþágu.

Segðu mér, af hverju eru hlutafar Verne Holding undanþegnir reglum Seðlabankans nr. 880?  Ég er ekki að tala um Verne Holding sjálft, heldur eigendur Verne Holding?   Er ekki hægt að fjárfesta á Íslandi nema með aflandsgengi?

Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 8.6.2010 kl. 16:58

2 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Taktu eftir að þarna stendur "í beinum tengslum við verkefnið" þannig að þarna er aðeins um að ræða fjármagnsflutninga beinlínis vegna þess.  Og athugaðu að það er til langur listi yfir aðila sem njóta undanþágu vegna gjaldeyrishafta, og hana geta allir fengið sem eru með tiltekið hlutfall tekna og gjalda í erlendri mynt; listann má t.d. sjá hér.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 8.6.2010 kl. 17:09

3 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Hér mætti bæta við að Verne fær hér á Íslandi styrk í formi 60% ódýrara raforkuverðs, heldur en ef verið hefði verið reist í Bandaríkjunum.

"The data centre will purchase power for four cents per kilowatt-hour, whereas typical prices in the United States are about 10 cents and can be 20 cents in London, says Tate Cantrell, CTO of Verne Global."

http://news.techworld.com/green-it/3212677/data-centre-host-moves-to-iceland/?getDynamicPage&print

Ég hefði talið að þetta gjafverð á raforkunni hefði væri nægileg gulrót fyrir Verne og óþarft að bæta frekari sértækum ívilnunum við.

Ketill Sigurjónsson, 8.6.2010 kl. 17:24

4 identicon

Já, það er ljóst.  En af hverju geta ný fyrirtæki ekki fjárfest hér án þess að fá afslátt á reglum Seðlabankans?  Mér finnst þetta mjög ódýrt því þetta hefur áhrif á alla þá sem ekki fá undanþágu.  Það fá ekki allir undanþágu og það er þér líklega ljóst.

Einstaklingar hafa sótt um undanþágu og ekki fengið.  Þeir verða víst að fórna sér fyrir Verne Holding, eigendur þeirra og annara sem hafa fengið undanþágu.

Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 8.6.2010 kl. 17:24

5 identicon

Spilling er ekkert grín... og þó!

kryppa.com (IP-tala skráð) 8.6.2010 kl. 19:31

6 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Til hamingju með þennan áfanga Vilhjálmur.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 8.6.2010 kl. 21:31

7 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Ketill: Raforkuverðið ræðst í frjálsum samningum á samkeppnismarkaði.  Þar finnst einfaldlega verð sem seljandi (orkufyrirtækið) og kaupandi eru báðir sáttir við og hafa báðir ávinning af.  Ef slíkt verð finnst ekki verður ekki af samningum.  Ég geri síðan ráð fyrir því að orkufyrirtækin sækist almennt eftir meiri fjölbreytni í kaupendahópnum, þannig að eggin séu ekki öll í nánast sömu körfunni.  Ákvörðun um staðarval iðnfyrirtækja byggir á fjölmörgum atriðum, sem öll eru vegin saman; þar vega t.d. traust viðskiptaumhverfi og stöðugleiki þungt, ásamt fjölmörgum öðrum þáttum (til dæmis hættu á eldgosum og jarðskjálftum...)

Stefán: Það þýðir ekki að bjóða erlendum fjárfestum upp á umhverfi gjaldeyrishafta, það er alveg ljóst og klárt að það kemur ekki evra til landsins ef einhverjar efasemdir eru um að það verði hægt að fá hana aftur til baka seinna.  En erlend fjárfesting hjálpar krónunni, bætir vöruskipta- og þjónustujöfnuð, er atvinnuskapandi og myndar skatttekjur fyrir ríkið; þess vegna er talsvert til vinnandi að hvetja til hennar.  Sérstaklega í núverandi stöðu efnahagsmála.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 8.6.2010 kl. 21:37

8 identicon

Það veitir ekki af að GEFA Bjögga og vinum hans afslætti!!!! Sérstaklega í ljósi þess að við erum að gefa þeim rafmagnið (tala um gefins rafmagn þar sem orkuveitur landsins eru flestar að tapa peningum)

Þetta er yndislegt ekki borga tolla af innfluttum vörum, ekki borga gatnagerðargjöld, ekki borga venjulega stimpilgjöld, ekki borga iðnaðarmálagjald, ekki borga fasteignagjöld miðuð við fasteignamat o.s.fr.v.

Það vantar alveg að koma með inn í þetta að eigendur þurfi að koma inn með ákveðið mikið eigið fé þar sem þeir eru að fá svona miklar undanþágur frá lögunum. Sé þetta ekki sett inn geta eigendur lánað félaginu og rukkað himinháa vexti á það sem þeir lána félaginu til að sleppa við að greiða tekjuskatt hér á landi. Þessa aðferð nota alþjóðlegir fjárfestar óspart til þess að koma hagnaði fyrir á aflandseyjum.

Sigurður Sigurbjörnsson (IP-tala skráð) 8.6.2010 kl. 22:51

9 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Sigurður, það er ekki verið að gefa neinum neitt.  Raforkuverð ræðst eins og áður sagði í frjálsum samningum.  Það er enginn undir nauðung að selja og enginn undir nauðung að kaupa.  Fyrir rest verður samt einhver að kaupa raforkuna ef hún á að teljast verðmæt og skila arði.  Það getur verið bara ál og hefðbundin stóriðja, eða fleiri tegundir viðskiptavina, eins og margir myndu telja æskilegt.

Þeir fjárfestingarsamningar sem gerðir hafa verið til þessa eru mjög áþekkir um orðalag og innihald.  Enda má segja að visst fordæmi hafi skapast, sem samkvæmt jafnræðissjónarmiðum er eðlilegt að líta til - nema menn vilji mismuna atvinnugreinum, sem væri frekar á skjön í þessu sambandi.

Varðandi fjármögnun, skatttekjur, orkukaup o.m.fl. má finna nokkuð ítarlegar tölur og umfjöllun í greinargerð með frumvarpinu um fjárfestingarsamninginn vegna gagnaversins, en hana má sjá hér (greinargerðin kemur strax á eftir frumvarpinu sjálfu og er í nokkrum hlutum; aftast er úttekt KPMG á samfélags- og hagfræðilegum áhrifum verkefnisins).

Vilhjálmur Þorsteinsson, 8.6.2010 kl. 23:23

10 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Hólmfríður: Þakka góðar óskir.  Það hefur líka verið gott að sjá góðan stuðning og ánægju í upplýsingatæknigeiranum almennt, enda held ég að hér séu miklir möguleikar til framtíðar í gagnaversiðnaði og hliðargreinum sem munu byggjast upp í kring um gagnaverin.  Þar á ég við allt frá stafrænum brellum í kvikmyndir, til vinnslu með genamengi (computational genomics), til jarðfræðilíkana og annarrar reiknivinnslu með mikið magn gagna sem erfitt er að hreyfa mikið yfir net.  Gagnaverin eru eins og járnbrautarstöðvar voru einu sinni, þau eru hnútpunktar netkerfa og laða að sér tengda þjónustu.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 8.6.2010 kl. 23:33

11 identicon

Æ já hvað það er gott að vera besti vinur aðal og fá feitan skattaafslátt jafnvel þó að bankahelv. sem hann átti hafi farið langleiðina með að setja okkur öll á hausinn.

Alveg ótrúlegt að nokkur sæmilega siðaður maður vilji vinna með þessu landráðamanni

Sigurður Sigurðsson (IP-tala skráð) 9.6.2010 kl. 00:18

12 identicon

Sammála Sigurði. Hvað er eiginlega að gerast hérna á landinu ? Er ekki hægt að gera neitt án þess að þessir ræningjar komi og fái allt fyrir ekkert og ekki einu sinni greitt með ránsfengnum.  Þeir fá bara undanþágur og afganginn lánaðan.  Eru þetta kúlulán ???

margrét (IP-tala skráð) 9.6.2010 kl. 00:44

13 identicon

Vilhjálmur:  Innlend fjárfesting virkar alveg eins.  Hún styrkir gengið, eykur atvinnu, skilar þjónustu- og viðskiptajöfnuði.  Hún skilar arði til landsins. 

Þannig að þetta eru rök fyrir fjárfestingu hvort sem hún er innlend eða erlend.

Við vitum báðir að erlend fjárfesting er taldar sem erlendar skuldir þjóðarbúsins við útlönd. Þannig að skuldastaða Íslands mun versna eftir því sem meiri erlend fjárfesting kemur til landsins.

Þetta er ákvörðun um að hygla erlendum aðilum í einni ákveðinni innlendri atvinnugrein á kostnað innlendra aðila.

Ég er með nokkrar spurningar:

1. Kemur þú og þín fyrirtæki að Verne Holding sem innlendur eða erlendur aðili samkvæmt lögum um búsetu?

2.  Hvað með aðra fjárfesta?  

3.  Munuð þið nota aflandskrónur til að fjármagna verkefnið?

4. Munu allar gjaldeyristekjur skila sér til landsins eða hvers vegna þurfa eigendur og Verne Holding undanþágu frá almennri skilaskildu?

5.  Er búið að taka það með í reikninginn hvaða neikvæðu áhrif undanþágan hafa á gengi íslensku krónunnar?  Höftin eru til að styrkja gengi íslensku krónunnar.

6. Ef þessir þættir sem þú og viðskiptafélagar þínir eruð að fá undanþágu frá hafa engin áhrif á gengi krónunnar.  Hvers vegna eru þá þessir þættir í reglum Seðlabankans nr. 370 um gjaldeyrishöft?

7.  Af hverju er verið að fara í viðskipti með öðrum erlendum fjárfestum ef þeir hafa ekki trú á því viðskiptaumhverfi sem ríkir á Íslandi í dag og önnur rótgróin fyrirtæki og einstaklingar þurfa að starfa við í dag?

Ég þakka þér fyrirfram að svara þessum spurningum.   En ekki getur verið erfitt að svara þeim.

Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 9.6.2010 kl. 07:19

14 identicon

Stefán,  ég held að þú sért að gelta uppí vitlaust tré.  Mér sýnist þú vera láta pirring þinn á viðskiptaumhverfinu á Íslandi bitna á Verne Holding.  það er ekki ákvörðun Verne Holding að hér séu gjaldeyrishöft.  Sem betur fer eru til fjárfestar sem sjá tækifæri á íslandi til að græða pening, ef þú sérð slíkt tækifæri þá skaltu endilega finna fjárfesta og ég er viss um að þú getur samið við yfirvöld um allskonar ívilnanir sem falla innan ramma EFTA um slíkt, t.d. eru mörg sveitarfélög tilbúin að gefa þér lóð undir atvinnuskapandi starfsemi.  Don't hate the player, hate the game

Björn Hákonarson (IP-tala skráð) 9.6.2010 kl. 10:41

15 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Sigurður og Margrét: Ef það hefur farið fram hjá ykkur, þá hefur "aðal" (sem er minnihlutaeigandi í verkefninu, með um fimmtungshlut) afsalað sér öllum ávinningi af þessum fjárfestingarsamningi til ríkisins.  Og ríkið er ekki að lána neina peninga í þetta verkefni, hvorki með kúluláni né öðrum hætti.

Stefán: Það er rétt að erlend fjárfesting er talin með í erlendri skuldastöðu þjóðarbúsins, en þegar hún er í formi hlutafjár er vitaskuld alls óvíst um hvort eða hvenær gjaldeyrir fari aftur til útlanda.  Það sem ég á við er að hlutafé er selt í upphafi til útlanda gegn gjaldeyrisinnstreymi, en síðan er fremur sjaldgæft að það sé keypt aftur til baka til landsins - yfirleitt er verslað með hlutaféð milli þriðju aðila eftir það.  Ef vel gengur þá heldur fyrirtækið áfram starfsemi í áratugi með sínu eigin fé og það fer ekki neitt.

Að öðru leyti er svar Björns mjög gott og ég geri það að mínu.  Það er eins og menn haldi að það sé auðvelt að fá erlenda fjárfesta til Íslands um þessar mundir, en ég get fullvissað þá um að svo er ekki.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 9.6.2010 kl. 10:54

16 identicon

Þetta er bara rán og ekkert annað í boði Samfylkingarinnar. Það er verið að ræna skattborgarinnar enn og aftur.

Sigurður Sigurðsson (IP-tala skráð) 9.6.2010 kl. 11:10

17 identicon

Til hamingju með verkefnið, og að hafa sett nýtt Íslandsmet í þolinmæði að reyna að skýra út fyrir þjóðinni af hverju það væri þess virði að fá nýjar erlendar fjárfestingar til landsins.

Andri Haraldsson (IP-tala skráð) 9.6.2010 kl. 11:49

18 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Ég var ekki að véfengja að raforkuverðið ráðist af örðu en frjálsum samningum. Ég var að segja að raforkuverðið sé svo lágt að það ætti að vera nægileg gulrót fyrir Verne og óþarft að bæta frekari sértækum ívilnunum við.

Ketill Sigurjónsson, 9.6.2010 kl. 11:51

20 identicon

Vilhjálmur:  Þú vilt þá ekki svara spurningunum sem ég setti fram?

Ert þú innan Samfylkingarinnar að berjast gegn höftunum?  Hvar get ég tekið þátt í þeirri baráttu?  hvar er sá hópur?

Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 9.6.2010 kl. 12:41

21 Smámynd: Arnar Sigurðsson

Til hamingju með vel unnið starf fyrir hluthafa og þjóðina.

Skora á niðurrifsraddir á þessu vefsvæði að ígrunda hvort og þá hvernig einhver hér á landi tapi á þessari uppbyggingu eða þeim gjaldeyristekjum sem verkefnið mun færa inn í landið fyrir rekstrarkostnaði.

Ef skattasamningar eru í boði fyrir svona starfsemi er ekkert nema sjálfsagt fyrir fyrirtæki að nýta sér slíkt.

Arnar Sigurðsson, 9.6.2010 kl. 13:46

22 Smámynd: Arnar Sigurðsson

Ketill! Hefðir þú hafnað samningi um skattaleg atriði fyrir svona starfsemi ef slíkt væri í boði lögum samkvæmt?

Arnar Sigurðsson, 9.6.2010 kl. 13:48

23 identicon

Niðurrifsraddir:  Þeir sem eru að reyna að berjast fyrir frelsi og jafnræði í viðskiptum eru nú orðnir niðurrifsseggir;) 

Þá er ég niðurrifsseggur og stolltur af því;)

Ég hlakka til að fá svörin frá þér Vilhjálmur.

Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 9.6.2010 kl. 13:53

24 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Sigurður, þetta verkefni mun skila skattborgurum margföldum fjármunum á við þá ívilnun sem felst í fjárfestingarsamningnum (en sú ívilnun felst ekki í því að félagið fái peninga greidda, heldur í því að félagið greiðir nokkru lægri gjöld en án samningsins).  Til þess er einmitt leikurinn gerður af hálfu ríkisins.

Andri: Takk, það vekur mér líka stundum furðu hvað vantar upp á Hagfræði 101 jafnvel á ólíklegustu stöðum.

Ketill: Tjah, svona er bara staðan, hvort sem mönnum líkar betur eða verr.  En það má líka spyrja í hina áttina: af hverju ætti gagnaver - sem borgar hærra raforkuverð en álver - ekki að fá sambærilegar ívilnanir og álver?

Stefán: Ég verð manna fegnastur þeim degi þegar gjaldeyrishöftin verða afnumin.  Og ég er sannfærður um að erlend fjárfesting til landsins hjálpar til við að færa þann dag nær.  En vegna hættunnar á verulegu gengisfalli við útstreymi gjaldeyris þegar þeim er aflétt, sem aftur myndi steikja efnahagsreikninga heimila og fyrirtækja (í gegn um erlend og verðtryggð lán), þá hef ég skilning á því að Seðlabankinn og AGS vilji hafa vaðið mjög öruggt fyrir neðan sig.  Besta og áhættuminnsta leiðin er reyndar ESB-aðildarumsókn og stuðningur ECB innan ERM-II ramma, sem leiðir síðan til útskiptingar krónu fyrir evru, en spurningin er hversu langan tíma það tekur að komast inn í ERM-II.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 9.6.2010 kl. 14:09

25 identicon

Vilhjálmur:  Enn svararðu ekki einustu spurningu sem ég spyr þig.  Ég hlakka til að fá svörin.

Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 9.6.2010 kl. 14:20

26 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Vilhjálmur,

en þú afsalar þér ekki þeim fjárhagslega ávinningi sem undanþágan frá gjaldeyrishöftunum veitir þér!

Ef við gefum okkur að gjaldeyrishöftin séu til að koma í veg fyrir að hagkerfið 'steikist' þá hljóta allar undanþágur frá þeim að 'hita' hagkerfið og valda skaða þó minni sé.

Ef raunin er ekki sú, þ.e. ef undanþágurnar veikja ekki gengið eða 'hita' hagkerfið, má ég þá ekki bjóða þér að berjast gegn þessum þáttum gjaldeyrishaftanna með mér?

Lúðvík Júlíusson, 9.6.2010 kl. 15:34

27 identicon

Verne er góð byrjun og vonandi skapar það félag störf á Suðurnesjum en á því svæði er jafn mikið atvinnuleysi og á Spáni. Ef vel er haldið á spilunum þá gæti VERNE orðið okkar NOKIA en sömu sögu má segja um CCP. Einnig er líklegt að mörg þjónustu fyrirtæki geti orðið til í kringum Verne sem og spin-offs (sbr CCP kom útúr OZ).....Eins og allir viðskiptagreindir menn vita þá mun svona verkefni ekki byrja að skila neinum hagnaði fyrir félagið sjálft fyrr en eftir kannski 6-8ár enda fyrstu árin þung í fjárfestingum. Aftur á móti munu starfsmenn félagsins frá fyrsta degi greiða tekjuskatt og neysluskatta og fá engan afslátt á þeim. Þetta getur ekki verið annað en jákvætt fyrir þjóðfélagið og hugsanlega endurreisn.

ragnar (IP-tala skráð) 9.6.2010 kl. 16:13

28 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Ragnar,

ef Verne Holding og eigendur þess nýta sér undanþágurnar frá gjaldeyrishöftunum þá hefur það neikvæð áhrif á gengið, verðbólgan verður meiri en annars, kaupmáttur landsmanna verður minni en ella og stýrivextir yrðu hærri en þeir þyrftu að vera.

Gjaldeyrishöftin eru til að koma í veg fyrir að hagkerfið 'steikist' eins og Vilhjálmur segir hér að ofan, allar undanþágur munu því skaða hagkerfið.  Hann er því sammála mér um þær slæmu afleiðingar undanþága sem ég greini frá að ofan!

Vegna hærri stýrivaxta þá verða störf annars staðar færri!

Vegna verðbólgunnar þá verða laun lægri að raungildi.  Það hefur þau áhrif að fyrirtæki hafa efni á að ráða fleiri í vinnu.  En það er ekki vegna aukinnar verðmætaskönar heldur vegna þess að vinnuaflið er ódýrara.  Það er auðvitað ein leið til að minnka atvinnuleysi.  En þá verða þeir sem nota þessa aðferð að treysta á að fólk sé það vitlaust eða hreinlega það ragt að það sæki sér ekki kjaraskerðinguna til baka í næstu kjarasamningum.

Ég skora á Vilhjálma að útskýra hvernig undanþágan frá gjaldeyrishöftunum muni ekki skaða landið.

Lúðvík Júlíusson, 9.6.2010 kl. 19:13

29 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Ágætu Júlíussynir: Það getur ekki verið mjög erfitt að skilja, jafn sammála og við erum um galla og óæskileika gjaldeyrishafta, að þetta verkefni hefði aldrei orðið, og verður aldrei, ef það ætti að vera undir höftum.  Fjárfestum dytti ekki í hug að koma með gjaldeyri inn í landið ef þeir eiga á hættu að vera bannað að fara með hann út aftur.  Fjölmörg fyrirtæki (t.d. Össur, Marel, og álfyrirtæki margumrædd) eru með undanþágu frá höftunum af sömu ástæðum, þ.e. þau myndu torvelda svo starfsemina að það yrði þjóðfélaginu til verulegs tjóns.  Í þessu verkefni er um að ræða innstreymi á verulegu magni af gjaldeyri til landsins.  Mér er ómögulegt að sjá hvernig það ætti að rýra kjör þjóðarinnar eða auka atvinnuleysi eða valda vaxtahækkun, heldur fremur þvert á móti.

Þið talið eins og þetta sé eitthvert aðalatriði í málinu.  Ég endurtek að ég væri guðslifandi feginn ef engin væru höftin, og að það er vandkvæðum bundið að halda fjárfestum við efnið með svona vitleysu í gangi, en þetta erfum við frá galinni hagstjórn síðustu ára, og þurfum að reyna að gera það besta úr.

Loks ítreka ég frá Birni Hákonarsyni, að það þýðir ekki að jagast í mér um þetta efni, það væri nær að jagast í einhverjum sem einhverju ræður um þessi gjaldeyris- og haftamál.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 9.6.2010 kl. 20:44

30 identicon

Vilhjálmur:  Þú svarar ekki þeim spurningum sem ég spurði þig um hér að ofan.

Ég spyr þig aftur:

1. Kemur þú og þín fyrirtæki að Verne Holding sem innlendur eða erlendur aðili samkvæmt lögum um búsetu?

2.  Hvað með aðra fjárfesta?  

3.  Munuð þið nota aflandskrónur til að fjármagna verkefnið?

4. Munu allar gjaldeyristekjur skila sér til landsins eða hvers vegna þurfa eigendur og Verne Holding undanþágu frá almennri skilaskildu?

5.  Er búið að taka það með í reikninginn hvaða neikvæðu áhrif undanþágan hafa á gengi íslensku krónunnar?  Höftin eru til að styrkja gengi íslensku krónunnar.

6. Ef þessir þættir sem þú og viðskiptafélagar þínir eruð að fá undanþágu frá hafa engin áhrif á gengi krónunnar.  Hvers vegna eru þá þessir þættir í reglum Seðlabankans nr. 370 um gjaldeyrishöft?

7.  Af hverju er verið að fara í viðskipti með öðrum erlendum fjárfestum ef þeir hafa ekki trú á því viðskiptaumhverfi sem ríkir á Íslandi í dag og önnur rótgróin fyrirtæki og einstaklingar þurfa að starfa við í dag?

Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 9.6.2010 kl. 20:50

31 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Ég er búinn að svara þessum spurningum, sem eru fremur frekjulega framsettar að mínu mati, hér að ofan að því marki sem hægt er að ætlast til að þeim sé svarað.  Lagatextinn og greinargerðin svara einnig mörgu af þessu.  En ég bæti þó við til skýringar, ef það var ekki ljóst, að gagnaverið er íslenskur lögaðili sem fjármagnaður er með erlendu hlutafé; hluthafarnir sem lögin nefna eru erlendir lögaðilar og gætu því aldrei verið undir skilaskyldu á gjaldeyri.  Svo mæli ég með kennslubókum í undirstöðuatriðum hagfræði og viðskiptafræði varðandi rest.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 9.6.2010 kl. 21:18

32 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Að sjálfsögu eiga álver ekki heldur að fá sérstakar opinberar ívilnanir, þegar þau fá orkuna á gjafverði. Það mætti reybdar skrifa langan pistil um það hvernig hér hefur verið staðið hörmulega að stóriðjustefnunni. Rekstrarmódel orkufyrirtækjanna hefur verið að selja orkuna á kostnaðarverði og fyrir vikið hefur í reynd verið tekin óeðlilega mikil áhætta með þessi opinberu fyrirtæki. Loksins núna eru horfur á að eðlilegar rekstrarforsendur muni verða viðhafðar hjá Landsvirkjun. Þessi sérlög gagnvart Verne eru vinnubrögð sem ættu að heyra sögunni til.

Ketill Sigurjónsson, 9.6.2010 kl. 21:39

33 identicon

Einhvern finnst mér eins og það sé verið að hygla einhverjum. Ekki fær mitt fyrirtæki skattaíviljanir. Þessi klikkaða ríkisstjórn er aftur á móti að reyna kála öllu atvinnulífi á íslandi, kannski ætti maður að ganga í Samfylkinguna

Sigurður Sigurðsson (IP-tala skráð) 9.6.2010 kl. 22:10

34 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Ketill: Það má fallast á það með þér, að æskilegast væri að rekstrarumhverfi fyrirtækja væri nægilega gott og stöðugt til þess að ekki þyrfti fjárfestingarsamninga, þótt þeir séu reyndar praktíseraðir víðast hvar.  En því miður eiga menn mjög erfitt með að treysta skattaumhverfi komandi ára á Íslandi, og þegar um er að ræða fjárfestingarverkefni sem skilar arði á löngu tímabili, þá verður að vera einhver trygging um hámarks skatta og gjöld til að unnt sé að gera sæmilega áreiðanlegar viðskiptaáætlanir.  Í gagnaversverkefninu er þó aðeins um að ræða 10 ára skattaþak; hjá álverunum er það 20 ár.

Sérlögin munu heyra sögunni til ef samþykkt verður frumvarp iðnaðarráðherra um almennan ramma um ívilnanir vegna fjárfestinga, sem ég fagna.

Sigurður: Það er ekki verið að hygla neinum; fyrirgreiðslan sem gagnaversverkefnið fær er mun minni en í öðrum sambærilegum málum (t.d. Norðuráli) og byggir á jafnræðissjónarmiðum. Og aðrir sem koma á eftir munu að sjálfsögðu hafa sama tilkall til ívilnana á grundvelli málefnalegra sjónarmiða og jafnræðis, sbr. til dæmis skilyrðin sem lýst er í ofangreindu frumvarpi.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 9.6.2010 kl. 22:46

35 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Vilhjálmur,

takk fyrir gott svar.

takk fyrir að benda okkur á að 13. grein í reglum 370/2010, um að nýfjárfestingar séu undanþegnar gjaldeyrishöftunum, sé í raun ekki hægt að treysta!  Það segir okkur einnig að stjórnvöldum og Seðlabankanum sé ekki hægt að treysta heldur.

Þú segir einnig að gjaldeyrishöftin séu að mestu óþarfi  Sérstaklega þær greinar reglna 370/2010, sem aðilar með fjárfestingasamning við ríkið fá undanþágu fá.  Enda munu undanþágurnar ekki 'steikja' hagkerfið.

Þetta hlýtur einnig að vera mat Iðnaðarráðuneytisins, Seðlabankans og Alþingis sem leggja til að veita þessar undanþágur.

Þetta leyfi ég mér að nota þetta þegar ég gagnrýni höftin.

Höftin eru nokkuð stórt atriði vegna þess að undanþága frá þeim er veitt á sama tíma og Seðlabankinn tilkynnir mér að engar undanþágur séu veittar frá þeim.  Þetta hlýtur að skekkja samkeppnisstöðu fyrirtækja sem öll eru að fjárfesta og skapa verðmæta og störf með einum eða öðrum hætti, sum með erlendum lánum og/eða erlendum tekjum.

Höftin eru sett til að koma í veg fyrir lækkun krónunnar.  Sé undanþága veitt þá getur krónan styrkst, staðið í stað eða veikst!  Ef krónan styrkist eða stendur í stað þá eru það skilaboð um að höftin séu stórskaðleg íslensku efnahagslífi(það er reyndar það sem þú heldur fram).  Ef krónan lækkar, eins og ríkið heldur fram, þá hækkar verðbólga, sem hækkar vexti, sem hækkar stýrivexti, sem dregur úr kaupmætti og skerðir lífskjör.  -  Hér er ég ekki að segja eða skrifa neitt sem þú, Vilhjálmur, eða hið opinbera hafið ekki skrifað eða látið í ljós með öðrum hætti áður.


Ég er reyndar á þeirri skoðun að fyrst í stað þá versni lífskjör en að mjög fljótlega þá muni gengið ná hærra gildi og lífskjör verða betri en þau myndu annars vera með höftum.

Þú ert að verða nokkuð góður bandamaður gegn þessari haftavitleysu!  Takk fyrir það!

Lúðvík Júlíusson, 10.6.2010 kl. 00:40

36 identicon

Svo mæli ég með kennslubókum í undirstöðuatriðum hagfræði og viðskiptafræði varðandi rest

Er kominn einhver hroki í þig? 

Ef þér finnst ég vera með frekju, þá getur þú sagt það og ég breyti þá spurningunum sem vefst fyrir þér að svara.

En ég skil það vel að það er einhver pirringur í þér, enda er þessi bloggfærsla þín gerð til þess að réttlæta það að Verne Holding er ekki með rekstrargrundvöll nema með þessum ívilnunum sem þið fenguð.

Það er enginn í rekstri til þess að bjarga heiminum.  Hugmyndin um gagnaver og framkvæmdir voru komnar af stað áður en að hrunið varð í október 2008.  

En ég læt þetta núna eiga sig, því mér finnst þetta vera frekar dapurt hérna hjá þér allt saman.

Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 10.6.2010 kl. 01:06

37 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Það er ekkert athugavert við það að ríkið geri sertæka samninga  um þjóahagslega hagkvæm verkefni.  Það er náttúrlega spilling ef það er gert bak við tjöldin,  en ef spillingin er upp á borðinu eins nú virðist raunin, þá heitir hún ekki spilling heldur ívilnanir.  

Til hamingju með samning Vilhjálmur. 

Guðmundur Jónsson, 10.6.2010 kl. 10:04

38 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Guðmundur: Tjah, ég veit ekki hvernig mál getur verið kyrfilegar ofan á borðinu en með 7-8 mánaða opinni meðferð Alþingis og umfjöllun í nefndum þess með tilheyrandi umsögnum hagsmunaaðila og ítarlegum umræðum; ég held að það verði seint hægt að segja að þetta verkefni hafi verið "bak við tjöldin".

En ég þakka fyrir hamingjuóskirnar, ég er sannfærður um að gagnaveraiðnaðurinn á bjarta framtíð hér á landi til heilla fyrir land og lýð; nú hafa verið stigin góð og nauðsynleg fyrstu skref og þá er bara að halda áfram.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 10.6.2010 kl. 12:10

39 identicon

 

Til hamingju með þennan áfanga við uppbyggingu gagnavers í Reykjanesbæ.  Þetta eru gleðitíðindi fyrir okkur sem erum að byggja upp þjónustufyrirtæki fyrir þennan nýja iðnað á Íslandi.

Verkefnið ykkar hefur beint augum erlendra framleiðslu og þjónustufyrirtækja á sviði gagnavera hingað til lands sem hefur haft góð áhrif á uppbyggingu okkar fyrirtækis.

Við fáum greiðari aðgagn að þekkingu og þjónustu innan þessara erlendu fyrirtækja sem annars myndu ekki nenna að eiða tíma sínum á okkar litla markaði.  Þetta er breytt landslag með nýjum tækifærum.

Gangi þér og þínu fólki vel með framhaldið.  

Hjörtur Rúnar Guðmundsson (IP-tala skráð) 11.6.2010 kl. 10:14

40 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Takk Hjörtur Rúnar, gott að fá smá jákvæðni og bjartsýni ;-)

Vilhjálmur Þorsteinsson, 11.6.2010 kl. 12:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband