19.5.2010 | 22:30
Tveir mikilvægir áfangar á langri leið
Sem betur fer koma inn á milli fréttir sem hægt er að gleðjast yfir.
Sú fyrri sem mig langar að nefna er önnur endurskoðun samstarfsáætlunar Íslands og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (AGS) og skýrslan sem henni fylgir. Með þessari endurskoðun fékk Ísland aðgang að næstu útborgunum lána og lánalínum frá AGS og samstarfsþjóðum. Þetta er afar þýðingarmikið til að afstýra líkum á greiðslufalli okkar þegar kemur til stórra afborgana af erlendum lánum í lok næsta árs, og til að styðja við gjaldeyrisforðann og þar með krónuna.
Það er nánast kraftaverk að hafa náð fram þessari endurskoðun án þess að gengið hafi verið frá samningum um Icesave, en reyndar eru gefin fyrirheit um fullan vilja til slíkra samninga í minnisblaði stjórnvalda til sjóðsins. Efnahags- og viðskiptaráðherra Gylfi Magnússon, seðlabankastjóri Már Guðmundsson og fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon eiga hrós skilið fyrir frammistöðuna og árangurinn.
Seinni fréttin er frá því í morgun og varðar kaup Seðlabanka Íslands á skuldabréfapakka sem var í eigu Seðlabanka Lúxemborgar. Pakkinn hafði verið lagður fram sem veð þegar Landsbankinn í Lúx tók evrur að láni hjá Seðlabanka Lúxemborgar (nóta bene öllu haldbærari veð en Seðlabanki Íslands krafðist gagnvart sínum lausafjárlánum, sem voru "ástarbréfin" margfrægu).
Seðlabankinn í Lúx átti sem sagt um 120 milljarða íslenskra króna í bankainnistæðum, ríkisbréfum og íbúðabréfum, sem hann hefði leitað fyrsta tækifæris til að selja um leið og gjaldeyrishöftum væri aflétt. Slík sala hefði sett verulegan veikingarþrýsting á krónuna og í reynd leitt til þess að Seðlabankinn hefði þurft að selja samsvarandi upphæð evra úr forða sínum á móti.
Í stað þessa, leitaði Seðlabanki Íslands samninga um kaup á þessum bréfum á hagstæðum kjörum, bæði hvað varðar gengi krónunnar og hvað varðar greiðslufrest á evrunum. Það gekk loks eftir. Seðlabankinn fær um 260 krónur fyrir hverja evru í þessum viðskiptum (í stað 160 sem er innanlandsgengið í dag) og greiðir evrurnar á 15 árum með tiltölulega lágum vöxtum (2,75% álagi á fljótandi EURIBOR vexti).
Niðurstaðan er nálægt 55 milljarða nettólækkun á erlendri skuldastöðu þjóðarbúsins, sem kemur til af því að 120 milljarða krónuskuldir breytast í evruskuldir að andvirði 65 milljarðar á núverandi gengi evru. (Og ef við göngum í ESB og tökum upp evru verða þeir 65 milljarðar ekki lengur í "erlendri mynt".)
Þessi lausn er fjöður í hatt Seðlabankans og góður áfangi á leið okkar út úr áfallinu. Nú vantar okkur fleiri slíka, en við erum sem betur fer í faglegum höndum hjá Gylfa og Má.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hvernig stendur á því að þið hjá Vern holding þurfið skattaafslátt en fyrirtæki í sama geira er komið í gang án þess. Eruð þið ekki að reyna hlunnfara íslenskan almenning enn eina ferðina.
Sigurður Sigurðsson (IP-tala skráð) 19.5.2010 kl. 23:44
Þegar AGS hefur lokið sér af, verður búið að convertera óvissum kröfum og kröfum í íslenskum krónum í gjaldeyrislán með ríkisábyrgð. Sennileg niðurstaða er skuldaaukning ríkisins uppá 1000 milljarða í gjaldeyri. Undir því munum við aldrei rísa, en "erlendir fjárfestar" eiga góða daga í vændum.
Við stefnum í að verða nýlenda. Stöðugar "góðar fréttir" um samfélagsvæðingu skulda og breytingu krónuskulda í gjaldeyrisskuldir, minna á kjánatal áranna fyrir hrun. Þá var líka allt æðislegt.
Marat (IP-tala skráð) 20.5.2010 kl. 10:02
Sigurður: Þetta blogg er minn persónulegi vettvangur og ég tjái mig ekki hér um málefni fyrirtækja sem ég starfa fyrir. En þar sem spurning þín felur í sér algengan misskilning á eðli fjárfestingarsamninga þá ætla ég að svara henni með almennum hætti í stuttu máli.
Sérstakir samningar um erlenda fjárfestingu tíðkast í flestum löndum heims, og m.a. bæði í Bandaríkjunum og Evrópu. Í Bandaríkjunum er löng hefð fyrir klæðskerasniðnum samningum um einstök verkefni (ad hoc); svo dæmi sé nefnt fékk BMW margháttaða fyrirgreiðslu þegar þeir reistu bílaverksmiðju í Suður-Karólínu á sínum tíma. Í Evrópu (ESB og EES) gildir samræmdur lagarammi um opinberar ívilnanir vegna fjárfestinga. Slíkar ívilnanir má aðeins veita á sérstökum atvinnuþróunarsvæðum, ívilinun má aðeins nema tilteknu hlutfalli af upphæð fjárfestingar og eftirlitsstofnanir ESB/EES, í okkar tilviki Eftirlitsstofnun EFTA (ESA), fylgist með ferlinu og verður að staðfesta endanlegan samning.
Fjárfestingarsamningar, með heimildum í sérlögum frá Alþingi, hafa verið gerðir vegna allra helstu stóriðjuframkvæmda á Íslandi, til dæmis nýlega vegna Norðuráls (sjá lög um fjárfestingarsamning Norðuráls hér).
Fjárfestingarsamninga innan ESB/EES ramma má aðeins gera vegna verkefna á atvinnuþróunarsvæðum. Þá má til dæmis ekki gera vegna verkefna á höfuðborgarsvæðinu.
Helsti tilgangur fjárfestingarsamninga er að tryggja viðskiptaumhverfi, einkum hvað varðar skatta og gjöld, til langs tíma. Stóriðjusamningar hafa hingað til verið gerðir til 20 ára en ESA hefur nýlega lagst gegn svo löngum samningum og er almennt verið að stytta þá niður í 10 ár eða svo. Fjárfestar sem koma með stórar upphæðir inn í land, svo nemur tugum milljarða króna, vilja skiljanlega hafa nokkra vissu fyrir því að skattaumhverfi eða öðrum rekstrarforsendum verði ekki gjörbreytt eftir fá ár, þannig að upphafleg viðskiptaáætlun falli um sjálfa sig. Því snúast samningarnir gjarnan um tiltekin þök eða hámörk á skattgreiðslur.
Svo dæmi sé tekið af samningi Verne Holdings, en frumvarp um heimild til gerðar hans er hér, þá er hámark tekjuskatts 15% fyrstu 5 árin og 18% næstu 5 árin, en 25% eftir það. Þetta þak er hærra en hjá Norðuráli, sem hefur tryggðan 15% tekjuskatt í 20 ár. Taka má fram til skýringar að tekjuskattshlutfall fyrirtækja var 15% þegar samningagerðin hófst en er nú 18%.
Nú hefur iðnaðarráðherra lagt fram frumvarp á Alþingi um almennan ramma um nýfjárfestingar og ívilnanir vegna þeirra. Ef það verður samþykkt má gera ráð fyrir að sértæk lög um einstök verkefni leggist af, heldur verði þau afgreidd af ráðuneytinu með almennum hætti innan rammans. Er full ástæða til að fagna þessu enda er slík löggjöf í gildi í velflestum nágrannalöndum.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 20.5.2010 kl. 11:08
Marat: Þær kröfur sem Seðlabanki Íslands keypti af Seðlabanka Lúxemborgar eru ekki "óvissar kröfur" heldur að meginhluta til skuldabréf með ríkisábyrgð, sem alltaf hefði þurft að greiða hvort eð er. Ég held að það sé gersamlega ómögulegt að túlka þessa frétt neikvætt, en þú gerir vissulega mjög heiðarlega tilraun.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 20.5.2010 kl. 11:12
Er þetta ekki bara stórt carry trade á offshore genginu hjá yfirvöldum?
Björn Hákonarson (IP-tala skráð) 20.5.2010 kl. 13:28
Takk fyrir svarið, er eitthvað í þessum lögum sem kemur í veg fyrir að nýtt fyrirtæki njóti skattahagræðis umfram sambærileg fyrirtæki á markaði.
Sigurður Sigurðsson (IP-tala skráð) 20.5.2010 kl. 15:03
Öll fyrirtæki sem uppfylla skilyrði frumvarpsins munu fá sambærilega fyrirgreiðslu á málefnalegum grundvelli, það liggur í hlutarins eðli og í jafnræðisreglu stjórnsýslulaga og stjórnarskrár.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 20.5.2010 kl. 15:10
Ég er að meina hvort að sú staða gæti komið upp að nýtt fyrirtæki nyti skattahagræðis umfram fyrirtæki í sambæriegum reksti sem er nú þegar á markaði.
Ég gat ekki séð það í þeim skilyrðum sem sett eru í frumvarpinu. Er þá ekki hætta á því að samkeppnisstaða verði ekki á jafnræðisgrundvelli.
Sigurður Sigurðsson (IP-tala skráð) 20.5.2010 kl. 17:06
Ég skil þetta sem sé rétt, að SÍ er að kaupa "krónur" sem lágu fastar, á afar hagstæðu gengi, þ.e. greiða eina evru fyrir hverjar 260 krónur. Ansi magnað!
Ætli þetta sé nálægt því raungengi sem umheimurinn metur okkar krónur á? Ekki er Seðlabanki Lúx að styrkja íslenska ríkið um tugi milljarða sí svona?
Einar Karl, 20.5.2010 kl. 20:41
Sigurður, eitt af því sem horft er til þegar ákvörðun er tekin um fjárfestingarsamning, og við staðfestingu hans hjá ESA, er hvort um sé að ræða verulega röskun á samkeppni. Ef til dæmis væri um að ræða ívilnun til fyrirtækis sem ætlaði sér að keppa með öflugum hætti á innanlandsmarkaði við fyrirtæki sem þar væru fyrir, og njóta ekki ívilnunar, yrði slíkt varla samþykkt. Og auðvitað gilda samkeppnislög um viðkomandi fyrirtæki, hvort sem þau hafa gert fjárfestingarsamning eður ei.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 20.5.2010 kl. 21:26
Einar Karl: Já, rétt hjá þér. Seðlabanki Lúx metur væntanlega stöðuna þannig að hann muni ekki fá evrugengið 160 fyrir krónurnar sínar í bráð og vill því frekar taka 260 kalls tilboðinu núna. Og svo má vel vera að þetta séu að hluta liðlegheit, eins og Már nefndi, og væru þá engan veginn sérstaklega velforþént af Íslendinga hálfu. Yves Mersch kom tvisvar til Íslands til að forvitnast um og vara við gríðarlegri uppsöfnun veðlána íslensku bankanna í Lúxemborg, en viðbrögð voru lítil sem engin (sjá m.a. Rannsóknarskýrsluna, 2. bindi, síður 52-56).
Vilhjálmur Þorsteinsson, 20.5.2010 kl. 21:32
P.S. Yves Mersch er seðlabankastjóri Lúxemborgar.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 20.5.2010 kl. 21:36
Það er athyglisvert að ekki hefur verið minnst einu orði á þessi viðskipti Seðlabanka Íslands og Seðlabanka Lúxemborgar á www.mbl.is, svo ég hafi séð. Það var orðin mjög brýn aðgerð að skipta út bankastjórum Seðlabanka Íslands eins og sést m.a. af þessu máli, og hin þrúgandi þögn í Hádegismóum er skiljanleg þegar 2. bindi rannsóknaskýrslunar er lesið í samhengi við þetta. Það er hins vegar ljóst að Lúxemborgarar eru með vandaðan og vel innrættan seðlabankastjóra. Auðvitað var ekki tekið neitt mark á slíkum manni í seðlabanka Davíðs Oddssonar.
Þór Eysteinsson (IP-tala skráð) 20.5.2010 kl. 23:08
Þór, ég sá forsíðu Davíðstíðinda í dag og þar var í litlu boxi frétt um málið, með hliðarfyrirsögn sem var "70 milljarða aukning erlendra skulda" eða eitthvað álíka. Sem segir allt sem segja þarf um "hlutlaust" og "yfirvegað" fréttamat blaðsins í málefnum sem varða Seðlabankann.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 20.5.2010 kl. 23:26
Takk fyrir greinagóð svör Vilhjálmur. Hádegismóri lætur ekki að sér hæða. Enda eru flestir hættir að lesa Moggan.
Sigurður Sigurðsson (IP-tala skráð) 21.5.2010 kl. 14:07
Þessar tvær fréttir hafa ekki fengið það vægi sem þeim ber í fjölmiðlum landsins. Þetta eru að mínu álit tvö stór kraftaverk ef við kjósum að segja svo. Mikið er rætt numa um skuldavanda heimilanna og lausna vænst. Hverjar eru þínar hugmyndir um mögulegar lækkanir annars vegar á húsnæðislánum og hinsvegar bílalánum.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 30.5.2010 kl. 23:20
Bjóst einhver við að Davíðstíðindi greindu frá svona "fáránlegri" frétt um hreinsunarstarf á Svörtuloftum. Hlutleysi er ekki krulla tamt og svo er maðurinn skáld.
Gleymdi að þakka þér fyrir greinagóða færsla Vilhjálmur.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 30.5.2010 kl. 23:28
Núna er Avens díllinn orðinn eitthvað annað en stórt carry trade og því orðinn mjög góður díll fyrir okkur. Vissulega jákvætt.
http://www.sedlabanki.is/?PageID=13&NewsID=2484
Björn Hákonarson (IP-tala skráð) 31.5.2010 kl. 09:18
Nú eru Lífeyrissjóðirnir að kaupa krónubréfin af Seðlabankanum sem er enn ein góðu tíðindin.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 31.5.2010 kl. 17:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.