24.1.2010 | 17:06
Um útreikninga Jóns Daníelssonar á Icesave
Lesandi þessa bloggs benti mér í athugasemd á grein og útreikninga Jóns Daníelssonar hagfræðings á Icesave-skuldbindingunni, sem birtist í Morgunblaðinu 15. janúar sl., en ég sé ekki lengur það fornfræga blað og vissi því ekki af þessu fyrr en núna.
Jón kemst að þeirri niðurstöðu að heildarkostnaðurinn vegna Icesave nemi 507 milljörðum króna, miðað við gengi krónunnar 14. janúar sl.
Ég hef margvíslegar athugasemdir við útreikninga Jóns, sem ég hef sett inn í Excel skjal hans (sem "comment", merkt með rauðum þríhyrningi í norðausturhorni viðkomandi reita). Uppfært Excel-skjal með athugasemdum fylgir þessari bloggfærslu.
Helstu athugasemdirnar eru þessar:
- Í útreikningum af þessu tagi verða forsendur að vera skýrar og reikningarnir byggðir á þeim með samræmdum hætti.
- Þegar um er að ræða skuldir og eignir (að mestu leyti) í erlendri mynt þarf að nota sama gengi fyrir hvort tveggja, ef framsetning er í íslenskum krónum.
- Ef komast á að niðurstöðu sem er ein krónutala, er skýrast og réttast að byggja á föstu verðlagi. Þá þarf jafnframt að reikna út frá raunvöxtum miðað við fasta verðlagið, en ekki nafnvöxtum. Að öðrum kosti er verið að leggja saman upphæðir úr framtíð sem eru í veikari gjaldmiðli (epli), við upphæðir í nútíð (appelsínur). Niðurstöðutala Jóns er hvorki núvirt né tekur tillit til verðbólgu í erlendri mynt til 2023.
- Skuldabréf Nýja Landsbankans (NBI) til þess gamla er til 10 ára, en á fyrstu 5 árum greiðast aðeins vextir; síðari 5 árin (2014-2018) greiðist höfuðstóllinn niður ásamt vöxtum. Bréfið ber LIBOR/EURIBOR+175 punkta vexti fyrstu 5 árin, en LIBOR/EURIBOR+290 punkta seinni 5 árin. Jón er með ranga tímasetningu á endurgreiðslum þessa bréfs og reiknar að auki enga vexti á það, þótt skýrt komi fram í forsendum skilanefndar Landsbankans, sem Jón vísar til, að áfallnir vextir séu ekki innifaldir í tölum nefndarinnar. Ef reikna á fulla vexti á Icesave-skuldina verður að sama skapi að reikna fulla vexti á eignasafnið sem á móti kemur.
- Endurgreiðsluáætlun Landsbankans er reiknuð inn í líkan Jóns með árs seinkun, sem rök skortir fyrir.
- Þá reiknar Jón ekki með því að endurheimtur úr búi bankans, sem berast eftir að Icesave-afborganir hefjast, lækki höfuðstólinn jafnóðum, eins og þó er skýrt í samningnum.
Jón og fleiri gera mikið með þá staðreynd að kröfum er lýst í bú Landsbankans í krónum, skv. ákvæðum gjaldþrotalaga. Flestir virðast gefa sér að þetta þýði að Tryggingasjóður innistæðueigenda fái aldrei nema tiltekna krónutölu út úr búinu, þótt skuld hans við Breta og Hollendinga sé í pundum og evrum. Ég er ósammála þessu.
TIF lýsir engri kröfu í bú Landsbankans. Það eru aðeins FSCS (breski sjóðurinn) og hollenski seðlabankinn sem lýsa kröfum, auk innistæðueigenda sem ekki fá bætur úr sjóðunum. Krónuupphæðirnar ráða hlutfallslegri skiptingu eigna Landsbankans milli þessara forgangskröfuhafa, en TIF á þar ekki hlut að máli fyrr en með baksamningi sínum við bresku og hollensku sjóðina, um það hvernig endurheimtur ganga upp í lán TIF. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að slitastjórn úthluti eignum búsins eins og þær eru, í upprunalegum gjaldmiðlum, hlutfallslega milli forgangskröfuhafa. Það er engin lagagrein sem segir að slitastjórn sé skylt að selja gjaldeyri í eigu búsins og kaupa krónur fyrir hann áður en kröfuhöfum er greitt. Og þó svo væri, væri alltaf hægt að semja um framvirk gjaldeyriskaup sem gerðu slíkt ferli hlutlaust gagnvart gengi krónunnar.
Kröfulýsing í krónum gæti aðeins orðið vandamál ef krónan veikist svo mikið að eignir bankans dugi 100% fyrir forgangskröfum í krónum talið og að það komi þá til úthlutunar upp í almennar kröfur. Þetta væri þá að því gefnu að slitastjórn teldi sér skylt að uppreikna eignir búsins á dagsgengi uppgjörs en ekki á genginu sem gilti þegar kröfum var lýst. Aftur sé ég ekki klárlega á gjaldþrotalögum að slíkt sé skylt, en lögfróðum er velkomið að gera athugasemd og leiðrétta ef rangt er.
En sem sagt: Ég geri athugasemdir við forsendur og útreikninga Jóns Daníelssonar og tel tölu hans um "heildarkostnað vegna Icesave" upp á 507 milljarða vera fjarri lagi. Rétt tala er miklu nær því sem Seðlabanki og AGS gera ráð fyrir, og Icesave-reiknir mbl.is sýnir, þ.e. vel undir 300 milljörðum og jafnvel nær 200 (á föstu verðlagi, ónúvirt). Sú upphæð verður greidd á 8 árum frá 2016-2023 og er ekki stærsta vandamál sem íslenska hagkerfið stendur frammi fyrir um þessar mundir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:14 | Facebook
Athugasemdir
Það er dálítið merkilegt að lesa öll þessi blogg um hversu mikið við eigum að greiða fyrir mistök stjórnmálamanna og bankabófa. Mér er eiginlega nákvæmlega sama hvort að menn fá út að við eigum að greiða 200 milljarða eða 500 milljarða. Ég ætla ekki að greiða eina einustu krónu, pund né evru. Ég geri bara eins og svo margir aðrir hafa nú þegar gert og ég mun hvetja allt ungt fólk að gera, flytja í hvelli frá þessu spillingarbæli og aldrei koma aftur. Með maður les svona sorgleg blogg eins og frá Vilhjálmi, uppgjöf og engin baráttuandi þá fallast manni hendur. Bara borga þegandi og hjlóðalaust afþví að þá verða vinir okkar í ESB glaðir og hleypa kratavinum hans að kjötkötlunum. Kannski Bjöggi Thor viðskiptafélgi Vilhjálms fá einhverja fyrirgreiðslu líka.
Sigurður Sigurðsson (IP-tala skráð) 24.1.2010 kl. 17:20
Nú, er það ekki "uppgjöf og skortur á baráttuanda" að flytja bara af landi brott? Ég er, eins og vonandi flestir, að reyna að leggja lóð á vogarskálarnar í lýðræðislegri umræðu um það hvernig réttast sé og affarasælast að vinna úr stöðunni. Að neita að borga tel ég vera óðs manns æði, því miður, og kosta okkur miklu meira en að standa við okkar lögfræðilegu, siðferðislegu og praktísku skuldbindingar.
En það er rétt ályktað hjá þér, að ég tel hluta af framtíðarlausninni vera að ganga í Evrópusambandið eins og allar okkar nágrannaþjóðir nema Noregur. Og þótt miklu fyrr hefði verið.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 24.1.2010 kl. 17:36
Þetta er eigin síða Jóns Daníelssonar:
http://risk.lse.ac.uk/icesave/
Og hérna má senda honum athugasemdir:
icesave.comments@gmail.com
Ég skal senda honum comment, með "Copy/Paste" af athugasemdum þínum, og svo skulum við sjá, hvort hann kemur sjálfur fram.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 24.1.2010 kl. 18:30
Takk fyrir þennan pistil, Vilhálmur. Ég mun skoða þetta betur.
Sigurður: Það er alveg augljóst og óumdeilt að við þurfum greiða alveg helling fyrir mistök stjórnmálamanna og bankabófanna. T.d. þurfum við að endurfjármagna nýju bankanna sem og Seðlabankann. Við þurfum að hafa bankakerfi í landinu, erum við ekki sammála um það? Svo erum við að bera heilmikið tjón vegna ömurlegs gengis krónunnar og fáum litlu við það ráði.
Það sem þú ert væntanlega að segja er að þú vilt ekki borga neitt fyrir tjón sem bankabófar og stjórnmálamenn (með því að stöðva ekki bankabófana) ollu utan Íslands. Er það ekki fljótt á litið nokkuð eigingjarnt að segja bara sem svo að það tjón komi okkur ekkert við?
Ég setti niður í morgun pistil með vangaveltum um þetta mál, m.a. um að það er okkur hollt að reyna að skilja sjónarmið annarra, ekki síst ef við viljum að aðrar þjóðir sýni okkar stöðu skilning. Hann er hér: www.bloggheimar.is/einarkarl
Einar Karl, 24.1.2010 kl. 18:49
Varðandi athugasemdir um fast verðlag, þá mun sala eigna standa yfir um nokkurt árabil, svo fremi að dómsmál fresti ekki þeirri aðgerð - þ.e. sölu eigna.
Einnig, taka greiðslur af Icesave nokkurn tíma.
Eins og kemur fram að neðan, er rúmlega 2% verðbólga í Bretl. á meðan að Evrusvæðið er með verðbólgu rétt við 0.
Spurningin er þá, hvort ekki sé líklegt að verðbólga í Bretlandi muni lækka, og hverfa yfir tímabilið að mestu. En, eins og hér, féll gengi Pundsins nokkuð gagnvart Evru, sem líklega eins og hér, framkallaði einhverja aukningu verðbólgu. En, ef við gerum ráð fyrir að Bretland, sé að ná jafnvægi efnahagslega, þá ætti sú bólga að hverfa.
Inflation
http://www.statistics.gov.uk/cci/nugget.asp?ID=19
Euro Area Inflation Rate
http://www.tradingeconomics.com/Economics/Inflation-CPI.aspx?symbol=EUR
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 24.1.2010 kl. 18:58
Jamm - nafni.
Ég skrifaði einnig pistil í dag:
Áhættan er öll okkar! Tvennt skiptir mestu máli, í tengslum við Icesave, Ísland er í "Depression" og greiðlsugeta er mjög lítil, á sama tíma er mikil hætta á auknum kostnaði við Icesave yfir samningstímann!
Stóra spurningin, er greiðslugetan.
En, mín skoðun, er að Icesave samkomulagið, sé líklega ekki sjálfbært - í ljósi mjög alvarlegs hagkerfis skaða, sem við höfum orðið fyrir.
Að mínu viti, er ísl. hagkerfið eins og 75% öryrki akkúrat núna, ástand sem geti einungis lagast smám saman, á næstu árum.
Ef við þurfum að bera mjög erfiða skuldabyrði, á sama tíma, þá í allra besta falli tefjist sú lækning.
Í verra fallinu, þá elni hagkerfinu smám saman sóttin, eftir því er frá líður.
Í þriðja fallinu, muni verða gjaldþrot eftir e-h ár,þó svo við fáum öll þau lán, sem stefnt er að, við fáum.
--------------------------------
Mín tilfinning, er sú. Að Ísland sé líklega nú þegar í þeirri aðstöðu, að hæfilega íhaldsöm skoðun á aðstæðum, bendi til þeirra niðurstöðu, að Ísland þurfi að óska eftir eftirgjöf skulda.
Ég er t.d. að tala um Parísarklúbbinn. En sjá þessa frétt:
http://in.reuters.com/article/worldNews/idINIndia-45426420100115
Kv.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 24.1.2010 kl. 19:06
Hann er langseigur þessi misskilningur að erlendar forgagnskröfur á íslenskt gjaldþrota fyrirtæki haldi forgangi sínum í erlendum myntum. Það þarf ekki túlkunar við, gjaldþrotalögin eru skýr hvað þetta varðar.
Við þrot eru allar kröfur í erlendum myntum "færðar yfir í krónu" m.v. slitdag. Þetta þýðir orðrétt að forgagnshluti kröfunnar getur aldrei orðið meiri en þessi tiltekna krónufjárhæð.
En hvað verður um erlenda gengismuninn ef krónan veikist frá slitdegi? Svarið er jafnskýrt. Allir gengismunur (ásamt áföllum vöxtum og innheimtukostnaði) frá slitdegi verður afgangskrafa í þrotabúið, sem einungis má greiða þegar almennar kröfur hafa verið greiddar upp í topp.
Þrotabú Landsbankans er í krónum og hefur slitastjórn enga heimild til að mismuna kröfuhöfum m.t.t. íslenskra króna. Kröfufjárhæðir forgangs- og almennra krafna eru allar í krónum óháð uppruna. Krónufjárhæðir eru því ekki notaðar eingöngu til að ákvarða skiptingu milli forgangskrafna, heldur einnig milli forgangskrafna og almennra krafna.
Við getum t.d. skoðað eftirfarandi dæmi:
Ef krónan myndi veikjast tvöfalt frá slitdegi er eftirfarandi líklegt:
(a) 100% innheimtur á íslenskri krónutölu forgagnskrafna
(b) Eitthvað recovery verður á almennum kröfum
(c) Afgangskröfur fá ekkert
Krónutalan sem innheimtist nær að greiða helminginn af Icesave láninu (by definition). Engar eignir eru upp í afganginn, sem nemur undir þessum kringsumstæðum 700 milljörðum króna (700 ma *2 / 2).
=> 700 milljarða skuld (auk vaxta og vaxtavaxta) og engar frekari eignir á móti.
Það er ekki skrítið þótt sumir kaupi ekki ábyrgðarlaust snakk um að þetta reddist allt saman.
Sigurgeir Jonsson (IP-tala skráð) 24.1.2010 kl. 19:21
Það er hægt að gefa sér margar forsendur og fá þannig út margar mismunandi niðurstöður.
Rétt fyrir hrun Landsbankans voru eignir hans metnar á nálægt 4500 milljarða og skuldir hans um 4000 milljarða.
Þegar bankinn hrundi kom í ljós að skuldirnar voru raunverulegar en eignirnar ekki.
Nú er verið að meta að um 80 % muni nást upp í forgangskröfur sem eru í kringum 1300 milljarðar. Nýtt mat gerir semsagt ráð fyrir að 4500 milljarða eignir séu orðnar að rúmlega 1000 milljörðum.
Þegar mið er tekið af því hversu eignasafn allra íslensku bankanna var alveg út í hött tekur maður öllum nýjum matstölum á eignasafninu með miklum efasemdum.
Því er nauðsynlegt að fella IceSave samningin sem kosið verður um í mars og semja upp á nýtt. Í nýjum samningi verða meðal annars að vera öryggisfyrirvarar sem taka gildi ef í ljós kemur að eignasafnið var rangt metið.
IceSave skuldin stendur í dag í 755 milljörðum og vex stöðugt.
http://www.iceslave.is/skuldaklukkan.php
Þórhallur Kristjánsson (IP-tala skráð) 24.1.2010 kl. 19:30
Í framhaldi af þessum umræðum setti ég saman nokkrar línur til að setja þessi mál í samhengi, og reyna að sýna að mikið af þessari umræðu virðist á villigötum.
Ímyndum okkur smá gedankeneksperiment: Ef ríkið skuldar 100% af þjóðartekjum á 4.5% raunvöxtum sem greiðast í jafngreiðslum á 30 árum, þá er greiðsla hvers ár aðeins yfir 6% af þjóðartekjum =PMT(4.5%,30,100) --> 6.14. Skoðum hvað þetta er í rauntölum, gefum okkur að þjóðartekjur per mann á Íslandi séu um 45.000 USD (þetta er miklu lægra en t.d., mælt hér: http://www.globalpropertyguide.com/Europe/Iceland/gdp-per-capita). Þá væri greiðslan sem svaraði uþb. 200 USD per einstakling per mánuð [þeas. 45.000*(6.14%/12)]. NB. Þetta er ekki Icesave, þetta væru allar skuldir íslenska ríkisins, miðað við eðlilega langtímafjármögnun. Í staðinn fyrir að einblína á upphæðir sem byggjast á óeðlilega hraðri endurgreiðslu lána, þá er miklu skynsamlegra að ímynda sér að ríkisskuldir séu að fjármagna langtíma fjárfestingar, ekki skammtíma neyslu.
Að þessu gefnu, til að setja þessa prósentu í samhengi, þá eyðir BNA um 5.8% af þjóðartekjum í hernaðar og þjóðaröryggi, Ísland eyðir innan við 0.5%. Algeng tala í löndum Evrópu er um 2-3% Eins þá hefur verið metið að Ísland spari um 5% af þjóðartekjum á ári með því að nýta orku sem fæst innanlands.
Ef við komum svo aftur að skuldum ríkisins og hagvexti. Það þarf engann hagvöxt sem slíkan til að standa undir skuldum ríkisins. Hagvöxtur er ekki mælikvarði á verðmætasköpun þjóðfélagsins. Hann er mælikvarði á hversu mikið umsvif þjóðfélagsins (þ.e., veltan) hafa aukist. Aukning á veltu er ekki það sama og aukning á verðmætasköpun. Þvert á móti, þá getur aukin velta verið varasöm ef sú veltuaukning kemur til með lántöku til að byggja óarðbær mannvirki (eins og göng sem ekki eru notuð, eða einkahúsnæði sem er dýrara og ríkulegra en þjóðin þarf). Auðvitað þurfa skuldir og verðmætasköpun að haldast í hendur, en það ætti enginn að efast enginn um að íslenskt þjóðfélag skapar næg verðmæti fyrir ríkið til að skattleggja svo greiða megi um 6-7% af þjóðartekjum í erlendan fjármögnunarkostnað ríkisins.
Það sem þarf að gerast, og hefur gerst s.l. 15 mánuði, er að sú verðmætasköpun (economic value add) sem verður til á Íslandi þarf að fara í að borga niður skuldir. Ástæðan fyrir atvinnuleysi og aðlögun í hagkerfinu er sú að innflutningur dregst saman og alls kyns starfsemi sem áður var lífvænleg er það ekki lengur (vegna þess að þjóðin er að spara og/eða breyta neyslumynstrinu). Á hinn bóginn opnast núna ný tækifæri fyrir útflutningsstarfsemi og fjárfestingu erlendra aðila. Þessi umbreyting hagkerfisins er mjög erfið og getur reynt mjög á innviði landsins. Við sjáum öll þess merki á Íslandi.
Niðurstaðan af þessari litlu hugleiðingu er einmitt ástæðan fyrir því að flestir sem hafa þekkingu á þessum málum telja að það sé óráðlegt að láta almenning kjósa um Icesave. Það hlutfallslega litla mál, sem krefst mikillar þekkingar og reynslu til að skilja það, er betur leyst af þeim sem hafa þá þekkingu sem þarf til að skilja málavöxtu og tíma til að koma sér inn í málið. Það er ekki hægt að reikna með því að almenningur, sama hversu vel meinandi og menntaður hann er, hafi slíkan tíma.
En, vegna þess hversu mikið óöryggið er á Íslandi, og vegna þess hversu stjórnmálaöflin hafa fyrirgert trausti sínu, þá stefna íslendingar nú í að gera það dýrara að fjármagna rekstur alls þjóðfélagsins. Og þar með gera fyrirtækjum og einstaklingum erfiðara með að ganga í gegnum þær breytingar sem verða að eiga sér stað eftir að neyslubólan sprakk. Það sorglegasta er að allt þetta mas mun aðeins áorka því að fresta um nokkra mánuði því sem er óumflýjanlegt: að íslenska þjóðin taki á sig Icesave skuldbindingarnar.
Andri Haraldsson (IP-tala skráð) 24.1.2010 kl. 19:31
Sigurgeir: Veiking krónu um allt að 11% (100/88) hefur ekki áhrif, því hún raskar ekki jafnvægi forgangskröfuhafa og verður ekki til þess að úthlutun færist yfir í almennar kröfu. Mér finnst það þá vera enn ein rökin fyrir að taka upp annan gjaldmiðil (helst evru) sem fyrst, að þá hverfur þessi áhætta af veikingu krónunnar úr myndinni.
Þórhallur: Bretar og Hollendingar bera reyndar klárlega ekki ábyrgð á gæðum eignasafns Landsbankans; það voru FME og Seðlabankinn sem klúðruðu eftirliti með lánastarfsemi bankans alveg hjálparlaust. Miklu nær er að reyna að semja um vextina og Ragnars Hall-ákvæðið, en endurheimtuhlutfall eignanna er ekki mál viðsemjenda okkar.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 24.1.2010 kl. 19:56
Hvers vegna skrökvar þú um lestur þinn á Mogga, Vilhjálmur? Það var nú ekki eins og grein Jóns hefði verið þöguð í hel í þjóðmálaumræðunni. En þú fylgist kannski ekkert með slíkri umræðu?
Gústaf Níelsson, 24.1.2010 kl. 21:01
Vilhjálmur, heiðarlegt svar. Af hverju ætti niðurstaða Jóns Danielssonar að vera frekar röng en þín eigin niðurstaða ?
Í öllu falli sýna ekki þær ólíku túlkanir sem menn hafa á kostnaði vegna Icesave einfaldlega að Íslendingar verði að semja um fasta greiðslu vegna Icesave ásamt tilheyrandi vöxtum í stað þess að vera hengja afrakstur úr eignsafni greiðslu Íslands.
Þannig mætti setja fram að greiðsla Íslands vegna taps á Icesave væri áþekk og bankabjörgunin í BNA sem var um og yfir 700 milljarðar USD. Þannig væri ásættanlegt að framlag Íslands væri um 1b USD eða um 125 milljarðar IKR. Er sanngjarnt að fara fram á hærri upphæð ?
Tel að lokum vafasamt að láta alla áhættu vegna greiðslu Íslands vegna Icesave lenda á okkur óháð skoðunum varðandi Icesave.
Björn Kristinsson (IP-tala skráð) 24.1.2010 kl. 21:32
Björn, heiðarlegt svar: niðurstaða Jóns er röng af því að hún er rangt reiknuð, það blasir við þegar maður skoðar skjalið sem að baki liggur. Það er ekki tilviljun að tala hans er miklu hærri en tala annarra sem um hafa fjallað, þ.e. Seðlabanka, AGS, Fjármálaráðuneytis, Icesave-reiknis mbl.is, og sjálfs mín. Það eru reyndar engin sérstök eldflaugavísindi að reikna þetta út, og breyturnar sem ráða niðurstöðunni eru ekki margar.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 24.1.2010 kl. 22:30
Mikið óskaplega væri heimurinn betri án þessa fjárans máls. Ég held svei mér þá að aldrei nokkru sinni í heimssögunni hafi jafn fáfrótt fólk tjáð sig jafn fáránlega mikið um jafn óskiljanlegan hlut og þennan hérna.
Þorsteinn (IP-tala skráð) 24.1.2010 kl. 22:46
Gústaf. Er ekki eðlilegt að kjölfestufjárfestirinn í Samfylkingunni og viðskiptafélagi Vilhjálms, Björgólfur Thor Björgólfsson ásamt karli föður sínum eru ekki lengur eigendur Morgunblaðsins að forkólfur flokksins segist ekki lesa blaðið? Þar jú ræður ríkjum pólitískur hugmyndafræðingur Samfylkingunnar Davíð Oddsson. Núna eru hagsmunir Björgólfsfeðga gríðarlega miklir að Ísland greiði Icesave falsreikninginn án nokkurra athugasemda. Þar kemur Vilhjálmur afar sterkt inn sem framámaður í Samfylkingunni. Passar Björgólfshagsmunina, sem eru ekki síður hagsmunir Samfylkingarinna. Ef að þjóðin tekur völdin, þá vita þesir aðilar að ekkert annað en dómstólarnir bíða, og þá er voðinn vís. Eitthvað sem hentar ekki Björgólfunum frekar en Samfylkingunni.
Sem alfræðingur valtar Vilhjálmur yfir virtustu lögspekinga þjóðarinnar, og í desert tekur hann enn virtari erlenda kollega þeirra í bakaríið. Flestir eg ekki allir eru hættir störfum vegna áfallsins. Honum ætti ekki að vera skotaskuld í að taka einn og einn hagfræðiprófessor í endurmenntunarnámskeið. Aðferðin er afar einföld. Gefa sér niðurstöðu dæmisins sem er einföld, eða að þjóðin á að borga myrkraverk stjórnmálaflokkanna og Björgólfanna. Síðan reikna í nokkra hringi til að sýna að fyrirfram ákveðin niðurstaða er sú eina rétta. Munurinn er á reiknikúnstum Vilhjálms og Jóns Daníelssonar og lögfræðikenningum tugi virtustu lagaspekinga innlendra sem erlendra, er að þeir eru að reyna að gera þjóðinni sem mest gagn. Hinn ver hagsmuni flokksins síns og viðskiptafélaga og faðir hans sem þjóðin fyrirlítur sennilega meiri en nokkuð annað, og sennilega ekki af ástæðulausu. Spunatrúður feðganna og flokksins, Samfylkingarþingmaðurinn Ásgeir Friðgeirsson, sem yfirgaf stólinn til að annast blaðafulltrúarstarf eða "Lier for Hire" og einkaþjónshlutverk Björgólfsfeðganna, hefur augljóslega lítið getað breytt þar um. Kannski hefði hann átt að getað bent alfræðingnum á að grein Jóns Daníelssonar er búin að standa á Eyjuni.is? Þetta er jú mál sem heldur betur varðar hagsmuni viðskiptafélgans, einn helsta fjárfesti í Samfylkingunni, og hvað þá flokksstjórnina sem Vilhjálmur á sæti í. Það er beinir hagsmunir á milli málssvara Samfylkingunnar og Björgólfsfeðga að þjóðin verði látina borga Icesave hroðan hvað sem það kostar og það steinþegjandi. Þess vegna eru þeir ekki í sama liði og mestur hluti þjóðarinnar.
http://lugan.eyjan.is/2010/01/15/ahaettan-af-icesave/
Guðmundur 2. Gunnarsson (IP-tala skráð) 24.1.2010 kl. 22:48
Andri - ágætt, einmitt þ.s. ríkið þarf á að halda, að skuldum þess sé umbreytt yfir í hagstæðari lán.
Höfum samband, við Parísarklúbbinn.
http://in.reuters.com/article/worldNews/idINIndia-45426420100115
Endurskipulagning skulda, er einmitt þeirra djobb.
Auðveldari í framkvæmd, en að fara fram á hreina lækkun þeirra.
Þeir hafa framkvæmt slíkt áður.
http://www.euronews.net/2004/11/22/iraq-hopes-arab-nations-follow-paris-club-debt-write-off/
Ekki endilega neitt elsku manna félag, en engin óargadýr heldur.
http://news.bbc.co.uk/2/hi/business/4926966.stm
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 24.1.2010 kl. 22:52
Vilhjálmur ég ráðlegg þér að lesa grein efir Einar Má Guðmundsson í Sunnudags Mogganum, þar sem hann er að segir frá, hvernig AGS hefur rústað Haítí
ala (IP-tala skráð) 24.1.2010 kl. 22:54
Þetta innlegg Guðmundar 2. Gunnarssonar stendur fyrir allt sem er að „umræðunni“. Engin rök, ekkert vitrænt lagt fram, bara persónuárásir á mann sem er að reyna að koma á framfæri staðreyndum. Ef eitthvað er til í mati Jóns Daníelssonar á greiðslubyrði ríkissjóðs vegna Icesave þá er hann fullfær að svara fyrir sig sjálfur og þarf ekki máttlausa aðstoð Guðmundar til þess.
Bjarki (IP-tala skráð) 24.1.2010 kl. 23:07
Vilhjálmur afhverju ætti þín skoðun á málinu að vera réttari en skoðanir annarra sem hafa komist að þveröfugri niðurstöðu í málinu. Það er ekki uppgjöf að flytja af landi brott heldur skynsamleg ákvörðun. Þegar stjórnvöld í landinu hafa ekki dug í sér að taka á skuldavanda heimila né fyrirtækja. Þegar rekin er gersamlega galin skattapólitík í landinu og ætlunin er að sækja klúður bankstera í vasa almennings. Þegar ekki er tekið á óstórn í opinberum rekstri og við sitjum uppi með sama liðið í bönkum og settu okkur á hausinn.
Hvernig er hægt að verja það að ríkisbanki standi í samkeppnisrekstri við önnur fyrirtæki á byggingamarkaði sem er deyjandi. Er nema von að manni fallist hendur. Síðan er þetta klikkaða Icesavemál þar sem ætlast er til þess að íslenskir skattborgarar taki á sig hundruði milljarað klúður og jafnvel þótt að klúður Davíðs hafi verið miklu skelfilegra í seðlabankanum þá er þetta eitthvað sem við eigum ekki að láta þvinga upp á okkur.
Mér er eiginlega nákvæmlega sama hvort að þetta sé ekki stærsti pósturinn í skuldavanda ríkissjóðs en þetta er klárlega sá ósanngjarnasti og ekki einu sinni klárt hvort að við eigum að standa skil á þessu.
Sigurður Sigurðsson (IP-tala skráð) 24.1.2010 kl. 23:11
Greining Jóns D er stud gögnum sem hægt er að legja vitrænt mat á.
Greinig Þín Vilhjálmur er jpg mynd sem er ekki einu sinni í boðlegri upplausn.
Guðmundur Jónsson, 24.1.2010 kl. 23:20
Sæll Vilhjálmur. Margur snillingurinn hefur skrifað hér við þessa færslu þína. Það er alveg frábært að þú skulir setja málið upp á skiljanlegu máli, takk fyrir það.
Enn og aftur þá tel ég þína útreikninga og þínar skýringar vera raunhæfar.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 24.1.2010 kl. 23:28
Bjarki. Icesave umræða Samfylkingarinnar hefur aldrei snúist um rök heldur hagsmuni hennar um vonlaust ESB ævintýrið og væntanlega að reyna að grafa glæpsamlegar aðgerðir eða aðgerðarleysi hennar og helstu fjárfesta flokksins varðandi hrunið. Og í þessu tilfelli er fáránlegt að skoða ekki öll Icesave skrif Vilhjálms út frá tengslum hans sem Samfylkingarmaður og ekki síst viðskiptafélagi þeirra sem bera að margara mati alla ábyrgðina á Icesave hörmungunum. Ég er nokk klár á að Jón Daníelsson eigi eftir að taka hann og rassskella ef hann fréttir af þessum skrifum. Samfylkingarliðar ljúga ennþá að minnismiði er stjórnarskrá æðri. Þó svo Ingibjörg Sólrún hefur opinberlega útskýrt að hann hafið enga lagalega þýðingu, sem og að deiluaðilarnir hafi sammælst að við Brusselviðmiðin hafi Icesave verið algerlega núllstillt. Sett á byrjunarreit. Lítið dæmi um heiðarleikan sem Samfylkingin sýnir þjóðinni með að ljúga að henni samviskulaust. Allir eru fífl og aular, og kunna ekkert í sínum fræðigreinum. Núna er það Jón og Vilhjálmur í hlutverki beturvitans. Eitthvað nýtt?
Ef Vilhjálmur hefur rétt fyrir sér að sínu mati, (hef ekki minnstu hugmynd um hvort hann gerir) þá er hann örugglega að vinna í að fá þetta birt í Morgunblaðinu á morgun. Annað er afar skítt. Er það ekki örugglega tilfellið? Það er ágætlega hrokafullt að bera uppá prófessor í hagfræði að hann kunni ekki að reikna. Hann á að takast á við atvinnumenn á þeim vettvangi sem það tíðakast, sem eðlilega nenna ekki elta upp einhverjar tilgangslitlar bloggfærslur á vefnum. Vilhjálmi sjálfum tókst að fara á mis við Morgunblaðsgreinina og Eyju birtinguna, svo varla býst hann við að einhverjir sérfræðingar reki inn nefið hér. Eða hentar betur að umræðan er inni á lokuðum vef þar sem einhverjir örfáir kverúlantar nöldra og hugsanlega 2 skilja út á hvað málið gengur?
Örugglega er blogghöfundur hinn mesti fræðingur og mætasti maður. En fyrir mér er hann í hlutverki bílasala notaðra bíla fyrir Samfylkinguna. Hann getur örugglega talið einhverjum trú um að eitthvað bíldrasl er í frábæru ásigkomulagi og virði að borga háar upphæðir fyrir. Bifvélavirkja sem á leið framhjá heldur hinu gagnstæða fram og gaf álit sitt endurgjaldlaust þegar honum leist ekkert á hverslag svínarí var á ferðinni. Bíllin er handónýtt rusl er dómur sérfræðingsins. Vilhjálmur er ekki bifvélavirki og bíllinn er í eigu viðskiptafélaga hans. Jón er í nákvæmlega sama hlutverki og bifvélavirkinn þegar hann skrifar greinar um Icesave, eins og tugir annarra sérfræðinga. Vilhjálmur er bílasali Samfylkingarinnar. Sjálfstæðisflokkurinn á einn slíkan sem heitir Hannes Hólmsteinn. Ég treysti þeim örugglega betur sem hafa engum pólitískum eða viðskiptalegum hagsmunum að gæta í Icesave umræðunni. Örugglega ekki sölumönnum á ESB. Held að afar stór hluti þeirra 70% landsmanna sem höfnuðu samningnum er á sama máli. Hefur einhver óháður virtur fræðimaður á einhverjum sviðum sem varðar Icesave málið, stigið fram og tekið undir málflutning Breta og Hollendinga og hagsmunagæslufólki þeirra hérlendis? Einhverjir sem eru ekki á launaskrá til þess frá stjórnvöldum, Bretum og Hollendingum? Einhver?
Hlakka til að sjá Vilhjálm og Jón Daníelsson takast á á síðum dagblaðana.
Guðmundur 2. Gunnarsson (IP-tala skráð) 25.1.2010 kl. 00:00
Getur verið að Jón Daníelsson, komi með svar hingað. Hann er búinn að veita þessum skrifum athygli, veit af þeim - get staðfest það; hvort hann svarar hér beint. Bíðum og sjáum.
Hann hefur hlekkinn á þessa síðu.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 25.1.2010 kl. 00:06
ala: Ef ég kemst einhvers staðar ókeypis í "sunnudagsmoggann" (sem kemur út á laugardögum) þá skal ég líta eftir grein Einars Más, en hann er reyndar fullmikill trotskíisti fyrir minn smekk.
Guðmundur 2.: Voðalega eru menn æstir í dag. Ég hlakka til að sjá skýringar Jóns Daníelssonar og vonandi geta menn sæst á forsendur og aðferðir, venjulega er ekki hægt að rífast lengi um stærðfræði. Ég hef ekkert annað markmið í málinu en að draga upp sem réttasta mynd, m.a. vegna þess að ég er að reyna að skýra heildarstöðuna varðandi afborganir og vexti af erlendum lánum á næstu 14 árum eða svo, tel það gagnlegt fyrir umræðuna.
En til áréttingar þá er ég ekki í flokksstjórn Samfylkingarinnar. Ég var hins vegar á framboðslista flokksins í öðru Reykjavíkurkjördæminu fyrir kosningarnar í apríl 2009. Og hef verið frjálslyndur jafnaðarmaður allt frá 1983 þegar ég gekk í Bandalag jafnaðarmanna, sem síðan gekk í Alþýðuflokkinn, sem síðan gekk í Samfylkinguna. Hef alltaf verið í réttum flokki og er það enn :-)
En þetta blogg er minn persónulegi vettvangur, ég spyr engan leyfis áður en ég skrifa hér og hef ekki hugmynd um hvort einstök skrif eru Samfylkingunni eða einhverjum þriðju aðilum þóknanleg eður ei (og er alveg sama). Það er vitaskuld hverjum lesanda í sjálfsvald sett hvort hann tekur mark á því sem hér er skrifað eður ei, menn eiga að meta það eftir gæðum rakanna hverju sinni.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 25.1.2010 kl. 00:40
VÞ@1736: um "...að standa við okkar lögfræðilegu, siðferðislegu og praktísku skuldbindingar."
Í dag snýst Icesave deilan um af finna praktíska pólitíska lausn. Ef þetta væri siðferðisleg krossferð ríkisstjórnar Íslands þá myndi hún ekki gera upp á milli innustæðueiganda á Íslandi, Bretlandi, á Mön o.s.frv.
Það sem er siðferðislega óásætanlegt er að láta almenning greiða fyrir risavaxið brask einkaaðila. Nógur er skaðinn samt.
NN (IP-tala skráð) 25.1.2010 kl. 00:52
Tjah, siðferðileg líka í þeim skilningi að ríkisstjórn og Alþingi eru margbúin að lýsa því yfir og álykta, allt frá sumri 2008, að við munum greiða lágmarkstrygginguna í samræmi við Evróputilskipunina. Það er m.a. siðferðileg spurning hvort menn telji að slík orð skuli standa. Einnig kann að vera siðferðileg spurning hvort við tökum ábyrgð á okkar eigin arfaslöku eftirlitsaðilum og Seðlabanka sem aflétti bindiskyldu af erlendum innlánum, til að auðvelda bönkunum að "gefa í".
Vilhjálmur Þorsteinsson, 25.1.2010 kl. 00:58
Vilhjálmur - slík ábyrgð getur ekki verið algerlega án takmarkana.
- Þ.e. raunveruleg hætta á því, að þessi kreppa leiði yfir okkur ástand, sem mjög erfitt getur verið að komast frá.
Kv.Einar Björn Bjarnason, 25.1.2010 kl. 01:56
Sælir Vilhjálmur,
Ég tók mig til og gerða nokkuð ítarlega greiningu af hverju það munar svona miklu á útreikningunum hjá ykkur, þér og Jóni Daníelssyni.
http://bjarnimax.blog.is/blog/bjarnimax/entry/1010045/
Ég fann þrjár mismunandi forsendur í útreikningunum hjá ykkur sem hafa stór áhrif á niðurstöðuna. Sú auðljósasta var náttúrlega mismunandi vextir, raunvextir (4.0%) hjá þér en nafnvextir hjá Jóni (5.55%).
En endurheimturnar frá Landsbankanum skipta líka miklu máli. Jón nýtir sér þar nýtt mat frá LBI um greiðsluflæði frá Landsbankanum sem birt var á vefsíðu Alþingis, en þú virðist ekki nota:
http://www.althingi.is/pdf/umsogn.php4?lthing=138&malnr=76&dbnr=842&nefnd=v
Síðasti punkturinn er hvort skilanefnd Landsbankans sé alltaf skylt að greiða fasta upphæð í krónum eða hvort greiða megi kröfurnar í upprunalegum gjaldmiðli sem þær eru gerðar í. Á blaðsíðu 47 í síðustu skýrslu skilanefndarinnar:
http://lbi.is/Uploads/document/LBI_skyrsla_um_greidslustodvun_021209.pdf
segir eftirfarandi:
"Samkvæmt FFL, eins og þeim var síðar breytt með lögum nr. 44/2009 sem gildi tóku 22. apríl sl., markar gildistaka síðari laganna skurðpunkt um rétthæð vaxta og kostnaðar. Kröfur í erlendum gjaldmiðli skal umreikna í kröfuskrá í íslenskar krónur eftir opinberlega skráðu sölugengi þann 22. apríl 2009."
Því virðist Jón hafa rétt fyrir sér hvað það atriði varðar. Þegar þessar þrjár mismunandi forsendur eru lagðar saman, er nokkurn vegin komin skýringin af hverju þú færð 290-300 milljarða á meðan Jón fær 507 milljarða.
Lokaniðurstaðan er því að þið báðir reiknuðu Icesave greiðslurnar rétt út, en notuðu einfaldlega mismunandi forsendur.
P.S. Það yrði mun auðveldara að staðfesta og meta útreikningana þína ef þú birtir töflureiknirinn og beinar tilvísanir í þær forsendur sem þú notar, eins og Jón gerði til dæmis hjá sér.
Bjarni Kristjánsson, 25.1.2010 kl. 09:37
Bjarni: Ég skal svara þér ítarlega á þínu bloggi, en ég vek athygli á því að ég póstaði reiknivangi Jóns með mínum breytingum og athugasemdum sem fylgiskjali með þessari bloggfærslu. Þar sérðu breytingarnar sem ég myndi gera á hans skjali og hvernig niðurstaðan breytist við þær - og verður mjög lík minni (sem er líka mjög lík niðurstöðu og útreikningi t.d. Seðlabankans). Ein stærsta breytingin er um gengisforsenduna, og ég er ósammála því að breyting á gengi hafi nokkur áhrif á endurheimtur TIF á meðan breytingin er ekki svo mikil að það fari að greiðast upp í almennar kröfur.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 25.1.2010 kl. 11:05
Bjarni: Aftur til að ítreka um gengið, þá er prinsippið auðvitað að allar eignir búsins ganga til forgangskröfuhafa, uns kröfur þeirra (í krónum) eru uppfylltar, en það gerist ekki fyrr en við 1.320 milljarða endurheimtur sem við erum varla að sjá fram á. Það er því ekki fast þak við 674 milljarða króna til TIF.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 25.1.2010 kl. 15:11
Vilhjálmur: Ég gæti alveg ýmyndað mér að við næðum upp í 100% kröfur (í íslenskum krónum), sérstaklega ef gengið fellur. Þó við losnuðum þannig við 10-12%, þá værum við líklega í erfiðari stöðu þar sem lánið og vextirnir af því hafa hækkað mun meira á móti.
Minn skilningur á skiftunum er: af 1320 milljörðunum (fest í krónum), endurheimtist frá LBI ákveðin prósenta, í dag metin 88% sem gefur af sér 1164 milljarða. Af þessum 1164 milljörðum fær TIF 51%, samkvæmt Icesave samningnum (ef Ragnar Hall ákvæði er ekki virkt), sem gerir 593 milljarða. Ef prósentan hækkar eða krónugengið fellur, þá hækkar þessi upphæð í íslenskum krónum. Ef prósentan lækkar eða krónugengið hækkar, þá lækkar þessi upphæð að sama skapi.
Allar endurheimtur sem TIF fær eru síðan greiddar áfram til FSCS og DNB sem greiðsla á Icesave lánunum sem eru í pundum og evrum.
Bjarni Kristjánsson, 25.1.2010 kl. 18:09
Bjarni: Þrotabúið á tilteknar eignir, og mest af þeim (nálægt 90%) eru í erlendum myntum. Þær eignir fara ekki neitt nema til forgangskröfuhafa og er skipt á milli þeirra í hlutfalli við upphæð forgangskröfu í ISK (á gengi 22.4.09) deilt með 1.320 milljörðum. Gjaldeyriseignum búsins verður þannig einfaldlega skipt milli allra forgangskröfuhafa og TIF fær væntanlega 51% (674/1320) af þeim eins og þær standa. (Það eru formlega séð FSCS og DNB sem fá úthlutun og taka 51% af henni og nota til niðurgreiðslu lánanna.) Íslenska krónan kemur nánast ekkert inn í þetta ferli nema sem mælieining á innbyrðis hlutfall krafna - og sem þröskuldur til að meta hvort almennir kröfuhafar eigi að fá eitthvað upp í sínar kröfur.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 25.1.2010 kl. 19:50
Vilhjálmur: Fór yfir hverja setningu hjá þér lið fyrir lið, og er samþykkur þeim öllum út frá mínum skilningi á skiptingu þrotabús Landsbankans. Ég held að við vorum alltaf meira og minna sammála um þetta ákveðna atriði, vorum bara að tala í víxl.
Það sem ég meinti með lækkun krónugengisins, er að ef við gefum okkur að krónan fellur til dæmis um 30% (evru-gengi 234) og það helst stöðugt eftir það, þá hækkar virði allra erlendu eigna Landsbankans sjálfkrafa um 30% miðað við krónuna. Í staðin fyrir 88% endurheimtur, þá erum við allt í einu líklega komin með 115% endurheimtur (88%+30*90%) og því farin að borga almennum kröfuhöfum, sem þeir yrðu örugglega ánægðir með.Icesave skuldin verður áfram 4B evra (4 * 234 = 936B ISK). Greiðslurnar úr þrotabúinu takmarkast ennþá við heildarkröfuna 2.9B EUR (674 / 234), sem er núna lægri upphæð heldur en það fékk áður 3.3B evra (593 / 180), en það munar greinilega ekki of miklu. Það er ótalið hérna hvaða áhrif þetta hefur á vextina í íslenskum krónum sem mundu hækka um 30% eins og hvert annað gengistryggð lán (vextirnir í evrum breytast auðvitað ekkert).
Þú varst greinilega búinn að gera ráð fyrir þessum möguleika þegar þú sagðir: "á meðan breytingin er ekki svo mikil að það fari að greiðast upp í almennar kröfur."
Vil taka það fram að ég er ekki að spá 30% gengisfellingu, valdi bara þá tölu til að niðurstaðan væri skýr.
Bjarni Kristjánsson, 26.1.2010 kl. 00:38
VÞ@00:58
Málflutningur Icesavesinna um siðferði heldur ekki vatni af margvíslegum ástæðum. Lög um ríkisábyrgð þurfa staðfestingu forseta eða þjóðarinnar. Orð þingmanna eða MoU um risavaxnar skuldbindingar duga ekki til að tryggja þá staðfestingu og hafa því takmarkað lagalegt og siðferðislegt gildi. Ríkisstjórnin lofaði allt of miklu upp í ermina á landsmönnum og "missti" trúverðugleika og umboð sitt í þessu máli. Í næstu samningalotu þá þarf ríkisstjórn Íslands að vera í fylgd með fullorðnum. Loksins.
Alltof margir gleyma því að stjórnmálamenn á Alþingi og ríkisstjórn starfa í umboði landsmanna. Þingmenn bera sjálfir siðferðislega ábyrgð á orðum sínum gagnvart viðmælendum og einnig siðferðislega ábyrgð á því að fara vel með umboð sitt. Því miður var 29 þingmönnum ekki ljóst að með Icesave2 lögunum skapaðist veruleg "hætta" á því að forsetinn vísaði lögunum til þjóðarinnar til staðfestingar. Ógleymanlegt fýlu- og frekjukast fylgdi í kjölfarið. Miklu flottara heldur en 2004.
Annars er það hættulegt hvað mörgum finnst sjálfsagt að stjórnmálamenn geti undir ruddalegum þvingunum skuldbundið landsmenn til þess að borga allt að 600 milljarða af gjaldeyri sem óljóst er hvernig á að afla. Svona ábyrgðarlaus skuldbinding minnir á byggingu sundlaugarinnar á Álftanesi. Einhverjir þingmenn sögðu lögin ekki skipta máli því að alltaf sé hægt að fella þau úr gildi! Einnig var hvíslað í eyru sakleysingja að Iceasve yrði aldrei borgað því landmenn gætu einfaldlega ekki staðið undir þessu og að Evrópusambandi myndi að seinna borga brúsann fyrir okkur. Allt í plati - Stóru gati!
Hver er siðferðin í því að lofa einhverju sem hæpið er að geta staðið við? Segja síðan við landsmenn: Ég lofaði 600 milljörðum og nú verður þú "bara" að borga milljón eða tvær af "siðferðislegum ástæðum".
NN (IP-tala skráð) 26.1.2010 kl. 03:46
1. Varðandi gengið þá er ekki hægt að gera bæði ráð dyrir 88% endurheimtum og sama gengi og var 22.4.2009. Endurheimtuhlutfallið lækkar ef krónan styrkist frá því gengi sem var síðast þegar skilanefndin birti áætlun um endurheimtur.
2. Það er ekki talað sérstaklega um skuldabréfið milli gamla og nýja bankans í útreikningum Jóns Daníelssonar en sem eign gamla bankans er það með í áætlunum skilanefndar og þar með í útreikningum JD.
3. Anniversary Date í samningnum miðast ekki við áramót heldur við 5. júní ár hvert. JD gerir ráð fyrir því að greiðslur sem bankinn fær á árinu 2012 verði greiddar út 5.6.2013. Það hefur verið rætt af lögfróðum mönnum að (almennir) kröfuhafar geti tafið útgreiðslur. Varðandi það hvenær útgreiðslur eiga sér stað þá er þetta forsenda sem er skýr og ekki er hægt að segja til um það með vissu hvenær útgreiðslur verða. Þó skilanefnd fái peninga til sín er ekki þar með sagt að þeir renni strax til kröfuhafa.
4. Seðlabankinn hefur ekki gefið upp hvaða dreifingu á endurheimtum bankinn notar í sínum útreikningum en ýmislegt bendir til þess að mat Seðlabankans sé of bjartsýnt og þar með skuldin metin lægri en hún verður. Icesave reiknir mbl reiknar ekki rétt þar sem dreifing endurheimta stenst ekki ásamt nokkrum öðrum þáttum sem eru ekki réttir.
5. Það liggur fyrir að kröfur í bú Landsbankans eru festar í krónum miðað við gengið 22.4.2009. Það þýðir þó ekki að greitt verði út í krónum heldur a) innbyrðis hlutföll hafa verið fest og b) ekki verður greitt út meira en 100% af forgangskröfum. Ragnar Hall hefur m.a. bent á að slitastjórn greiði út miðað við gengi útgreiðsludags en það dragist frá skuld bankans m.v. gengið 22.4.2009.
Dæmi: krafa upp á EUR 10, fest í kr 1688 m.v. gengi EURISK 22.4.2009. Árið 2011 er greitt út sem samsvarar EUR 5 eða kr 1200 (EURISK komið í 240). Árið 2012 er EURISK í 250. Bankinn á EUR 2 til að greiða viðkomandi kröfuhafa. Hann fær hins vegar EUR 1,95 og telst bankinn þá hafa gert upp við hann að fullu. Kröfuhafinn fær ISK 1688 en EUR 6,95 (af EUR 10).
Staðreyndir málsins verða ekki ljósar fyrr en síðar, s.s. hver dreifing endurheimtuferils verður, hve mikið fæst greitt og hvernig krónan mun þróast.
Sigurður (IP-tala skráð) 26.1.2010 kl. 11:49
Sigurður (IP-tala skráð) 26.1.2010 kl. 11:49
Nákvæmlega og það er einmitt þess vegna sem Íslendingar eiga að semja um greiðslu á fyrirfram skilgreindri tölu sem ber fasta vexti. Það er ekki hægt að greiðslu skattborgara standa og falla með heimtum úr þrotabúi óháð skoðun á Icesave.
Björn Kristinsson (IP-tala skráð) 26.1.2010 kl. 14:38
Ég hef engan hitt sem með sannfærandi rökum getur sagt:
a) af hverju Íslandi beri að greiða
b) ef Íslandi ber að greiða, þá hvers vegna Íslandi ber að greiða í gjaldmiðli sem það:
1. á ekki
2. getur ekki prentað
3. er annar en uppgjörsmynt í þrotabúi Landsbankans
4. er annar en lögeyrir Tryggingasjóðs Innistæðueigenda og eitthvað sem TIF var aldrei ætlað að tryggja
Hvernig í ósköpunum er sjálfsagt að Íslenska Ríkið taki ERLENT "kúlulán" til að borga óstaðfestan reikning ?
Styrmir Guðmundsson (IP-tala skráð) 26.1.2010 kl. 23:14
Nú kann einhver að segja að Ríkið sé ekki með alla gjaldeyrisáhættuna því eignirnar séu "að verulegu leyti í gjaldeyri".
Nú er væntanlega enginn nema örfáir innan LAIS og skilanefndar sem raunverulega geta fellt á þetta mat en í samhenginu langar mig að benda á nokkur atriði.
a) bankarnir, og sérstaklega LAIS, voru nær alíslenskir og þjónustuðu íslenska viðskiptavini úti um allt...fáir Íslendingar hafa aðgang að annari mynt en ISK í dag.
b) erlend lán voru uppistaðan í flestum áhættusæknum verkefnum (bókuð sem erlend eign í gjaldeyri hjá bankanu,) og flest stóru verkefnanna voru eignarhaldsfélög sem allir vita hvernig standa
c) lán sem veitt er Íslendingi í London er bókað sem fín erlend eign en áhættan í lánveitingunni veltur hugsanlega mikið á íslenska hagkerfinu sem er að jafna sig eftir kerfishrun
d) það sem heitir "erlend eign" í bókum bankans og er skuld í gjaldeyri við bankann verður hugsanlega greitt upp í ISK af viðskiptavin
Eðlilega voru miklar og beinar erlendar eignir inni í bönkunum en ég er að vekja athygli á því að málið sé hins vegar ekki svo einfalt að það sem hafi verið fært til bókar sem "erlend eign" skili sér til skilanefndar LAI í formi gjaldeyris.
Allt sem uppá vantar er gjaldeyrisáhætta sem Ríkisstjórnin er ólm í að ábyrgjast...það er skrýtinn raunveruleiki.
Styrmir Guðmundsson (IP-tala skráð) 26.1.2010 kl. 23:25
Þú getur reiknað fram og aftur en staðreyndin er sú að það veit enginn hve há þessi Icesave-upphæð verður að lokum eða hve lengi við þurfum að standa skil á greiðslum. Hver skrifar upp á samning með slíku ákvæði? Varla þú sjálfur Vilhjálmur? Af hverju ættu einhverjir embættismenn að gera það í nafni þjóðar sinnar? Þar held ég því miður að spili inn í umsókn í ESB og Brusselást samfylkingarmanna. En það er bara of miklu til kostað. Við verðum að segja nei.
Soffía (IP-tala skráð) 27.1.2010 kl. 14:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.