Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
7.10.2008 | 19:25
Klúðurlisti Seðlabankans
Listinn yfir risamistök Seðlabankans lengist stöðugt. Hversu langur þarf hann að verða áður en stjórnendur þar verða látnir sæta ábyrgð?
Hér eru nokkur atriði sem ég man eftir í svipinn, en áskil mér rétt til að bæta við listann:
- Að láta hjá líða að byggja upp gjaldeyrisforða meðan jöklabréfin hrönnuðust upp og fyrirsjáanlegt var að mikið magn gjaldeyris myndi hverfa aftur frá landinu
- Að skirrast við að nýta heimildir laga nr. 60/2008 sem Alþingi afgreiddi á leifturhraða í lok maí sl. til að taka allt að 500 milljarða lán til styrkingar gjaldeyrisforðanum
- Tímasetning og form Glitnisyfirtökunnar sem eyðilagði lánshæfismat ríkisins og varð til þess að erlendir bankar drógu til baka fyrri loforð um gjaldeyrislínu, á ögurstundu
- Ekkert samband við norræna seðlabanka varðandi það að draga á lánalínur
- Síendurtekin mistök í samskiptum við markaði og fjölmiðla, m.a. að vera með vefsíðu sem klikkar þegar mest liggur við
- Að gefa út fast gengi krónu með óljósum hætti svo enginn vissi hvort átt væri við evru eða gengisvísitölu
- Að gefa út fast gengi krónu án þess að geta staðið við það með nægilegu gjaldeyrismagni, og draga það svo til baka eftir að hafa valdið óþarfa ruglingi og óvissu
- Verulegar stíflur og markaðsbrestir á skuldabréfamarkaði vegna ófullnægjandi framboðs á innistæðubréfum eða öðrum ríkistryggðum aðferðum til að binda fé
- Ófullnægjandi rökstuðningur í beiðni til Seðlabanka Bandaríkjanna um skiptasamning
- Tilkynning um lánssamning við Rússa sem reyndist röng og þurfti að afturkalla, einmitt þegar trúverðugleiki skiptir öllu máli
- Að sjá ekki til þess að Tryggingasjóður innstæðueigenda yrði efldur í samræmi við gríðarlegan innlánavöxt
- Að herða ekki bindiskyldu eða grípa til annarra tiltækra ráða, ef áhyggjur voru af hröðum vexti viðskiptabankanna
- Að einblína allt of lengi á öfgakennda hreintrúarstefnu um hávexti í stað þess að hugsa um fjármálastöðugleika, annað aðalmarkmið Seðlabanka
- Að láta hjá líða að gera viðbragðsáætlun um hvað gera skyldi ef banki lenti í lausafjárkreppu, þannig að allir vinklar hefðu verið metnir fyrirfram og bestu leiðir lægju fyrir
- Að slá umræðu um ESB aðild og evruupptöku út af borðinu
Ég spyr aftur: hversu lengi á þessi listi að halda áfram að lengjast? Er hægt að bjóða þjóðinni, og umheiminum, upp á þessa hörmung öllu lengur? Halda þessir menn að þeir séu að reka sjoppu?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.10.2008 kl. 00:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
6.10.2008 | 21:53
Illskásti kosturinn
Aðgerðir ríkisstjórnarinnar sýnast mér talsvert skárri en þær hefðu getað orðið.
- Ríkið leggur bönkunum ekki til aukið hlutafé eða lánsfé með beinum hætti. Það er gott að stjórnmálamenn setji hag komandi kynslóða ofar hag hluthafa og lánveitenda bankanna, sem þrátt fyrir allt tóku meðvitaða áhættu.
- Áhersla er lögð á að vernda almenna sparifjáreigendur og eigendur innistæðna.
- Framkvæmdin hvílir á Fjármálaeftirlitinu og þar er stjórnarformaður Jón Sigurðsson fyrrverandi viðskipta- og iðnaðarráðherra og bankastjóri Norræna fjárfestingarbankans (NIB). Jóni treysti ég manna best til að fara með hið nýfengna vald FME af ábyrgð og gætni.
Það sem vantar er aðallega tvennt: að skýrt verði hvernig eigi að styðja við krónuna, og til lengri tíma, að undirbúa umsókn að ESB. Umsókn myndi draga fjárfesta að íslenskum skuldabréfum og inn í krónuna, vegna þess að þeir sæju fram á skipti yfir í evru, og agaðri hagstjórn í framtíðinni.
Svo þarf að finna leið til að vinda ofan af hlutafjárframlaginu í Glitni, sem var vanhugsuð aðgerð.
En þetta er illskásta byrjunin sem völ var á, á flóknu og erfiðu ferli.
4.10.2008 | 17:21
Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta
Til er fyrirbæri sem heitir Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta, sem er stofnaður skv. lögum nr. 98/1999 í samræmi við EES reglur.
Í innistæðudeild sjóðsins voru um síðustu áramót 8,3 milljarðar króna.
Til samanburðar þá voru innlán í íslensku viðskiptabönkunum á miðju ári sem hér segir:
Kauping 1848 milljarðar
Glitnir 710 milljarðar
Landsbanki 1617 milljarðar
Samtals 4175 milljarðar, meðan tryggingarsjóðurinn er rúmir 8 milljarðar. (P.S. 6. okt. Ég sé á vef talsmanns neytenda að tryggingasjóðurinn er sagður vera 13 milljarðar og hafa aðgang að 6 milljarða ábyrgðum til viðbótar.)
Tryggingasjóðurinn á að vera a.m.k. 1% af tryggðum innistæðum. Munurinn liggur sennilega í því að hluti innistæða i íslensku bönkunum er frá EES löndum þar sem þær eru væntanlega (vonandi) tryggðar í þarlendum tryggingarsjóðum.
Tryggingarsjóður innlána virðist samt tæplega duga upp í nös á ketti ef einhver bankanna lendir í þroti. Það hlýtur því að koma til viðbótarframlags úr ríkissjóði til að standa við orð forsætis- og viðskiptaráðherra um að allar innistæður séu tryggðar.
Ég tek fram að ég mæli ekki með því að taka innistæður út úr bönkum. En svör stjórnvalda í þessu efni mættu vel vera greinarbetri og skýrari, það er lágmarkskurteisi við almenning.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.10.2008 kl. 09:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.10.2008 | 14:20
Æ tóld jú só
Beturvitrungurinn í mér krefst þess að fá útrás, með því að endurbirta færslu af þessu bloggi sem upphaflega birtist 21. janúar síðastliðinn (fyrir rúmlega 8 mánuðum). Feitletranir eru nýjar:
Krísa í vændum; Seðlabankinn í vanda
Nú hrannast upp óveðursský á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Á eftir undirmálslánunum kemur skuldatryggingakrísa þar sem í ljós mun koma að ýmsir sem selt hafa slíkar tryggingar geta ekki staðið við þær þegar á reynir (sbr. AMBAC, MBIA o.fl. í Bandaríkjunum). Fleiri dómínókubbar munu falla, og valda bönkum búsifjum. Þeir hamstra lausafé á viðsjárverðum tímum og hætta að lána peninga, sem aftur kemur illa við fjölmörg fyrirtæki sem eru veðsett upp í rjáfur eftir skuldsettar yfirtökur. Bandarískir neytendur eru að vakna með timburmenn eftir eyðslugleði undanfarinna ára sem hefur verið fjármögnuð með ódýrum húsnæðislánum og glórulausum fjárlagahalla. Kreppa þar í landi smitar út frá sér og hefur áhrif á hagkerfi heimsins.
Á Íslandi þýðir þetta að aðgangur bankanna okkar að lánsfé erlendis verður erfiðari og lánin verða dýrari. Bankarnir draga þar með úr lánveitingum og vaxtamunur þeirra hverfur, verður reyndar neikvæður.
Krónunni hefur verið haldið uppi með hávöxtum en jafnvel það mun ekki duga þegar alþjóðlegir fjárfestar flýja yfir í öruggari hafnir.
Seðlabankinn er milli steins og sleggju; hann á erfitt með að lækka vexti án þess að styggja jöklabréfaeigendur og spákaupmenn enn frekar, sem veldur krónufalli og verðbólgu. Hins vegar er orðið verulega nauðsynlegt að huga að öðru markmiði bankans, sem er stöðugleiki fjármálakerfisins. Bankakerfið vantar aðgang að lausafé og það gerist ekki nema krónum verði dælt inn í kerfið og vextir verði lækkaðir.
Við endum í krísu og ég sé enga leið út úr henni nema að taka upp evruna eins og hratt og hægt er, enda var aðeins tímaspursmál hversu lengi krónan - þessi örmynt - gæti átt sjálfstætt líf á samtengdum fjármálamörkuðum heimsins.
Á meðan þetta gengur yfir ráðlegg ég engum að kaupa hlutabréf og allra síst í bönkum og fjármálafyrirtækjum, en bendi enn og aftur á ríkistryggð og verðtryggð skuldabréf (HFF). Þau eru langskynsamlegasti innlendi fjárfestingarkosturinn í þessari stöðu, og reyndar öfundsverður valkostur fyrir fjárfesta í alþjóðlegu samhengi. Vona að sjóðsstjórar lífeyrissjóða átti sig á þessu en er ekki bjartsýnn á það.
3.10.2008 | 14:33
Næsta kynslóð beðin afsökunar
Í fyrradag tók ég í hönd sonar míns, sem verður 21 árs í nóvember, og bað hann afsökunar fyrir hönd minnar kynslóðar á því að við skilum af okkur gjaldþrota þjóðarbúi.
Hann hefur góða dómgreind og er því að læra klassísk fræði, þ.m.t. grísku og latínu, í Háskóla Íslands. Það er menntun sem mölur og ryð fá ekki grandað.
Í sígildum bókmenntum er margur vísdómurinn um mannlegt oflæti og fall þeirra sem fara með himinskautum. Vængir úr vaxi bráðna jú þegar flogið er of nærri sólinni, eins og Íkarus fékk að reyna.
1.10.2008 | 22:28
Hefur Glitnir tapað 90 milljörðum á Stoðum?
Ég heyri ekki betur en að Sigurður G. Guðjónsson, stjórnarmaður í Glitni, segi í þessu viðtali á Stöð 2 að Glitnir tapi 90 milljörðum á greiðslustöðvun (og hugsanlegu gjaldþroti) Stoða?
Ef rétt er, þá er það grafalvarlegt mál.
1.10.2008 | 16:59
Evruskortur veldur búsifjum
Í umræðu um vandræði Glitnis kom fram lykilstaðreynd sem vakti samt ekki mikla athygli. Bankinn hefði hugsanlega getað skrapað saman krónum fyrir dollaraafborguninni sinni - en við það að kaupa dollarana hefði krónan látið undan. Krónumarkaðurinn hefði m.ö.o. ekki þolað þessa færslu.
Krónan er orðin svo veik að það er enginn reiðubúinn að taka hana í skiptum fyrir dollara eða evrur. Bankar hvarvetna liggja á reiðufé sínu eins og ormar á gulli, og lána það ekki einu sinni til annarra banka, hvað þá að láta það í skiptum fyrir örgjaldmiðil eins og íslenska krónu.
Íslenskir bankar, fyrirtæki og einstaklingar eru skuldsett í erlendum gjaldmiðli. Það á eftir að verða verulega vandasamt að finna einhvern til að selja okkur gjaldeyri fyrir krónur til að endurgreiða lánardrottnum erlendis. Þetta er ástæðan fyrir því að krónan hrapar ört þessa dagana. Það treystir henni enginn sem geymslumáta fyrir verðmæti (store of value), sem er eitt aðahlutverk gjaldmiðils.
Sú fixídea íslenskra stjórnmálamanna sumra, að halda í krónuna af forpokuðum smákóngaástæðum, veldur okkur núna verulegum búsifjum, umfram þær sem annars hefðu orðið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.10.2008 | 00:28
Enn um verðmæti Glitnisbréfa
Á föstudaginn var lokagengi hlutabréfa Glitnis 15,7 og útgefnir hlutir 14,9 milljarðar talsins, sem þýðir að markaðsverðmæti bankans var 234 milljarðar. Eigið fé hans var sléttir 200 milljarðar um mitt ár, þannig að fjárfestar voru tilbúnir að greiða 1,17 krónur fyrir hverja krónu eigin fjár á föstudaginn.
Í dag (þriðjudag 30. september) var lokagengi GLB 4,55 og útgefnir hlutir verða væntanlega 59,6 milljarðar ef díllinn hans Davíðs gengur í gegn. Markaðsverðmæti bankans er þá 271 milljarður, og eigið fé bankans væntanlega 286 milljarðar (200 plús nýja hlutaféð frá ríkinu). Nú eru fjárfestar þannig tilbúnir að greiða 0,95 krónur fyrir hverja krónu eigin fjár.
Þessa lækkun má skýra með því að fjárfestar telji að eitthvað hafi gengið á eigið fé bankans frá lokum 2. ársfjórðungs eða a.m.k. að líkur á afskriftum lána hafi aukist. Jafnframt hefur komið í ljós, með dramatískum hætti, að fyrri yfirlýsingar bankans um lausafjárstöðu og fjármögnun á þessu ári og næsta mörkuðust af óskhyggju, svo ekki sé fastar að orði kveðið.
Verðmatið hefur í þessum þrengingum færst nær því sem gengur og gerist um norræna og norður-evrópska banka um þessar mundir. Þannig er verð hverrar krónu eiginfjár 0,73 hjá Svenska Handelsbanken, 0,86 hjá DnB NOR og 0,85 hjá Danske Bank (skv Thomson Financial).
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.9.2008 | 15:33
Verðmæti Glitnisbréfa
Ríkið fær 75% hlut í Glitni fyrir 600 milljónir evra sem eru á dagslokagengi um 86,5 milljarðar króna.
"Á sléttu" þýðir það að 25% hlutur núverandi hluthafa er virði þriðjungs af þeirri upphæð eða 28,8 milljarðar. Útistandandi hlutir í Glitni eru 14,8 milljarðar að nafnverði (skv. Markaðsvakt Mentis) og því ætti gengi bréfa í bankanum að vera 1,94 þegar viðskipti hefjast. Gengið var 15,7 við lok viðskipta á föstudaginn.
Eignir Glitnis voru í lok 2. ársfjórðungs 3.863 milljarðar króna. Nýtt hlutafé ríkisins er 2,24% af þeirri upphæð. Með öðrum orðum dugir það til að verja bankann viðbótartapi upp á 2,24% af efnahagsreikningi.
Með þessari ráðstöfun um það bil tvöfaldast tapþol bankans, fer úr 87 milljörðum í 174 milljarða, miðað við hálfs árs reikninginn. Forsenda í þessum útreikninum er að CAD hlutfall fari ekki lægra en 8% sem er lágmark skv. reglum FME.
Málið er í reynd vitaskuld ekki svona einfalt. Forsendur og horfur hafa breyst frá lokum 2. ársfjórðungs, bæði til jákvæðrar og neikvæðrar áttar. Það verður því spennandi að sjá hvernig markaðurinn verðmetur Glitni þegar viðskipti hefjast á ný.
20.9.2008 | 23:39
Skortsala stuðlar að réttari verðmyndun á markaði
Yfirvöld í Bandaríkjunum og Bretlandi eru tilbúin að ganga furðu langt í því að fikta við gangverk markaðarins. Þau brúka fé skattborgara til að kaupa hlutafé og lánasöfn, og hjálpa þannig fyrirtækjum sem hafa komið sér í klemmu með óabyrgri og skammsýnni stjórnun. Nýjasta vendingin er að banna skortsölu (short selling) hlutabréfa í fjármálafyrirtækjum. Örlað hefur á slíkum hugmyndum í innlendri umræðu, m.a. í Fréttablaðinu í dag (laugardag).
Á markaði mætast mismunandi skoðanir og mat manna á verðmætum. Sumir kaupa meðan aðrir selja, á verði sem báðir telja viðsættanlegt. Um leið og krukkað er í þetta gangverk, verður verðmyndun óeðlileg, og það er engum til góðs til lengri tíma litið.
Á Íslandi hefði gjarnan mátt vera virkari skortsölumarkaður þegar mesta ruglið gekk yfir á hlutabréfamarkaði, þegar FL Group nálgaðist gengið 30 svo dæmi sé tekið. Skortsalar hefðu þá skipst á skoðunum við bolana með öflugri hætti og verð hefði náð jafnvægi á eðlilegri og skynsamlegri slóðum.
Skortsalar vigta sífellt vænta ávöxtun hlutabréfa á móti öðrum vöxtum sem bjóðast, t.d. á innlánum eða ríkisskuldabréfum. Með virkari skortsölumarkaði bíta vaxtahækkanir Seðlabanka mun betur á hlutabréfamarkaðinn en ella, og kæla hann niður, eins og til er ætlast.
Skortsölumarkaður á Íslandi hefur verið lítill, einkum vegna þess að lífeyrissjóðum er ekki heimilt að lána bréf úr söfnum sínum. Ég tel að það yrði til bóta, og vísa til reynslunnar af ítrekaðri ofhitnun markaðarins hér, að rýmka reglur um skortsölu frekar en að herða þær.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.9.2008 kl. 01:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)