15.11.2009 | 21:36
ESB umræða óbreytt í 14 ár
Árið 1995 var ég í kosningastjórn Alþýðuflokksins í Reykjavík. Flokkurinn fór þá fram með róttæka, frjálslynda jafnaðarstefnu þar sem m.a. var lögð áhersla á að sækja um aðild að ESB. (Einnig vildi flokkurinn að landið yrði eitt kjördæmi, gjörbylta landbúnaðarkerfinu, taka upp auðlindagjald í sjávarútvegi og sameina atvinnuvegaráðuneytin í eitt.) Ég var að fletta í gögnum sem ég fann úr þessari kosningabaráttu og get enn skrifað undir flest eða allt sem þar var sagt - og það hefði betur komist í framkvæmd árið 1995.
Hér eru til dæmis tvö fjórtán ára gömul málefnablöð sem mætti endurprenta og nota í ESB umræðu dagsins. Það hefur nákvæmlega ekkert gerst eða hreyfst á þessum 14 árum. Og Sjálfstæðisflokkurinn talar enn um að málið sé ekki tímabært!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:39 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Vilhjálmur,
Fór í svona 14 ára tímaflakk um daginn, og komst að sömu niðurstöðu og þú.
http://jennystefania.blog.is/blog/jennystefania/entry/972088/
Jenný Stefanía Jensdóttir, 15.11.2009 kl. 21:55
Sæll Vilhjálmur og þakka þér skjölin sem fylgja með færslunni, þau eru athyglisverð.
Alþýðuflokkurinn 1995 sagði að við ættum að tryggja forræði okkar yfir fiskveiðiauðlindinni. Samfylkingin 2009 er hjartanlega sama; Lissabonsáttmálinn segir ótvírætt að fiskveiðistjórnun sé alfarið mál Evrópusambandsins.
Alþýðuflokkurinn 1995 sagði að efna ætti til þjóðarsamstöðu um samningsmarkmið og fyrirvara í aðildarumsókn. Samfylkingin 2009 gerir hvorugt.
Við værum betur sett með Alþýðuflokkinn.
Páll Vilhjálmsson, 15.11.2009 kl. 22:13
Sammála Páli. Við værum betur sett með Alþýðuflokkinn. Flest skjól fokin út í veður og vind ef Sigmundur Ernir Rúnarsson, á að taka einn ESB hring á þjóðinni líka.
Jenný Stefanía Jensdóttir, 15.11.2009 kl. 22:30
Já umræðan er að mestu óbreytt hjá ykkur Vilhjálmur. Flestir ESB-menn halda ennþá að ESB sé efnahagsbandalag. Þið hafið ekki ennþá uppgötvað að EF breyttist í ESB 1989 og er ekki lengur efnahagsbandalag, heldur pólitískt bandalag sem er fyrst og fremst nýtt stórríki í smíðum. Þetta hefur gerst svo hratt að þið hafið ekki náð að fylgjast með. Þið ætlið ennþá að ganga í efnahagbandalagið. Sorry, en það er ekki til lengur. Nú er það stjórnarskráin væni minn. Heil ný stjórnaskrá ofaní kokið á 500 milljón manns. Enginn spurður um neitt. Efnahagsbandalög þurfa ekki stjórnarskrár.
Þið hafið heldur ekki enn áttað ykkur á að Íslendingar vilja ekki leggja niður Ísland og gagna í ESB, sem er forstofa United States of Europe.
EF virkaði aldrei. Það þarf því alltaf meiri og meiri samruna til að draumurinn gangi upp. Æ meiri samruna. Hann endar aldrei.
Gunnar Rögnvaldsson, 15.11.2009 kl. 22:32
Súrrealískt.
Menn hafa verið þokkalega paranojaðir varðandi sjávarútveginn.
Rómarsáttmálinn OMG. Yfirráð etc.
Hvað sagði svo þessi blessaði Rómarsáttmáli um hina hroðalegu sjávarútvegsstefnu ?
Jú þetta:
"Innri markaðurinn skal ná til landbúnaðar og verslunar með landbúnaðarafurði.
Til “landbúnaðar” teljast afurðir jarðræktar, búfjarræktar og fiskveiða,
sem og afurðir á fyrsta vinnslustig er tengjast þeim beint…"
Allt og sumt. Öll ósköpin. Öll voðalegheitin.
Þetta er í rauninni ekkert merkilegt. Ekkert eðlilegra í gjörvöllum heiminum. Að sjálfsögðu hafa evrópuríki samstarf og samvinnu um nýtingu fiskistofna. Nema hvað.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 15.11.2009 kl. 23:20
Ps. en það er ekki það, að athyglisvert hvernig sjávarútvegurinn er lagður upp þarna.
Í raunni verður afar fróðlegt að sjá útkomuna í samningnum.
En auðvitað veit meður það að ekkert verður "nógu gott" fyrir hörðustu Neiara. Þeir verða á móti sama hvað. Það er svo sem vitað.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 15.11.2009 kl. 23:32
Svo er það Ómar Bjarki Kristjánsson. Hann heldur ennþá að ESB sé frímúrararegla sem maður þurfi að ganga í til að fá að skoða ofaní gullkistuna. Leynifélagið. Ekkert hefur heldur breyst hér.
Gunnar Rögnvaldsson, 15.11.2009 kl. 23:45
Sammála Jenný. Við værum betur settari með gamla Alþýðuflokkinn, sem ég hægrimaðurinn kaus stundum, heldur en Samfylkinguna.
Gamli Alþýðuflokkurinn var heiðarlegur flokkur skipaður heiðarlegu fólki sem vildi þjóðinni vel. Það er annað en óværan, Samfylkingin, sem varð til úr leifunum af Alþýðuflokknum og svo öllu afturhaldsflokkunum lengst til vinstri.
Björn Gunnar (IP-tala skráð) 16.11.2009 kl. 21:26
Þetta eru óneitanlega skemmtileg skjöl. Ég sé reyndar lítið annað í þeim en útúrsnúninga og froðu og það hefur lítið breyst, nema að Evróputrúboðið sýnist mér vera orðið heldur harðsnúnara í rangfærslum, sbr. kver Samfylkingarinnar fyrir síðustu kosningar.
En annað hefur breyst, sem aðrir hafa bent á, og það er Evrópusambandið sjálft. Það er í þann veginn að taka stórt skref í átt að stórríki undir stjórn gömlu nýlenduveldanna. Hætt er við að þjóðir á borð við Svía hefðu seint gengið inn á sínum tíma ef þessi þróun hefði verið fyrirséð og í hámæli. En þrátt fyrir stöðuga þróun sambandsins boðar söfnuðurinn að hægt verði að semja um allt mögulegt og að slíkir samningar muni halda um aldur og ævi. Hvílík firra!
Það er dapurlegt að eiga sér þá hugsjón helsta að koma yfirvaldi á Íslandi í hendur óskyldra manna sem stendur hjartanlega á sama um hvort landið sekkur eða flýtur og gera annarra manna börn að þegnum í herveldi gömlu nýlenduveldanna. Þú átt ekki heima í þessum auma félagsskap Vilhjálmur!
Haraldur Ólafsson (IP-tala skráð) 17.11.2009 kl. 00:26
Það var vitaskuld ofsagt hjá mér að ekkert hefði gerst á 14 árum, því í vor var auðvitað tekin sú merka ákvörðun á Alþingi Íslendinga að sækja um aðild að Evrópusambandinu - loksins. Og nú skulum við bara fylgjast með því ferli og sjá hvað út kemur, eins og lýst er í ESB-blaðinu frá 1995.
Að mínu viti hefur þróun ESB síðustu 14 árin aðeins skýrt enn frekar að þar er á ferð samband og vettvangur nánast allra Evrópuríkja til að takast á við þau mál sem í eðli sínu spanna landamæri. Og slíkum málum fjölgar fremur en hitt, með áherslum t.d. á loftslagsmál og önnur umhverfismál, löggæslumál, fjármálaeftirlit og félagsleg réttindi ýmis konar í hnattvæddum heimi. Að ætla sér að standa utan slíks samstarfs er meiriháttar sérviska sem þarfnast góðs rökstuðnings.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 17.11.2009 kl. 12:06
Vilhjálmur, það kemur þarna fram í gamla kosningaplagginu ykkar tilvísun í að Svíþjóð og Finnland hafi fengið undanþágu frá landbúnaðarstefnunni hvað snertir nyrsta hluta sinna landa, þ.e. Lapplandssvæðin.
Nú skulum við átta okkur á því að það var ekki beinlínis erfitt fyrir Svíja og Finna að fá undanþágu fyrir þessum svæðum af nokkuð augljósum ástæðum. Svæðin eru landfræðilega mjög fjarlæg, erfið, hrjóstrug og nýtt fyrst og fremst sem beitisvæði fyrir hreindýr. Það voru litlar sem engar líkur á því að miðevrópskur bóndi hefði farið að krefjast þess að fá að flytja á norðurhjara veraldar til að ala hreindýr í samkeppni við Samana sem þar búa. Það vissi Evrópusambandi mæta vel og því lítil eftirgjöf fyrir þá.
Það getur aftur á móti hvaða fiskiskip sem er í Evrópu siglt hingað norður í ballarhaf og tekið smá skrens í þorskveiðum. Fiskimið okkar eru ekki landfræðilega né tæknilega einangruð á nokkurn hátt.
Bara hollt að hafa í huga þegar ESB sinnar reyna gera lítið úr áhuga ESB á fiskveiðum við Ísland.
Kolbeinn (IP-tala skráð) 23.11.2009 kl. 14:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.