18.10.2009 | 20:09
Ástarbréf og Reykjavíkurbréf
Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í dag skrifar Davíð Oddsson um gjaldþrot Seðlabankans og umfjöllun meintra "spunameistara Samfylkingarinnar" um það.
Þessi skrif Davíðs krefjast þrenns konar andsvara.
Í fyrsta lagi efnislega: Endurhverf viðskipti Seðlabankans, þar sem hann tók við skuldabréfum bankanna sem veði gegn því að lána þeim lausafé, jukust hratt frá 2007 til 2008. Í stað þess að vera eðlileg lausafjárfyrirgreiðsla, voru endurhverfu lánin orðin lykilstoð í fjármögnun bankanna; enda bauðst endurfjármögnun trauðla erlendis og lánalínur voru að lokast. Seðlabankinn, sem bar ábyrgð á fjármálastöðugleika, hefði átt að leita leiða til að koma fjármögnun bankanna á fastari grundvöll, og draga úr eigin áhættu með því að krefjast traustari veða. Þá var óráð að hefja samkeppni við bankana um lausafé með útgáfu innistæðubréfa, eins og Ármann Þorvaldsson hefur bent á.
Það hringdu allar viðvörunarbjöllur, en ekki verður séð að Seðlabankinn hafi brugðist við með neinum afgerandi hætti - hann lét einfaldlega skeika að sköpuðu.
Tap skattgreiðenda varð gífurlegt, og auðútreiknanlegt þrátt fyrir sjónhverfingar í Reykjavíkurbréfinu: 345 milljarðar króna (brúttóupphæð "ástarbréfanna") margfaldaðir með tapshlutfalli almennra kröfuhafa, sem verður varla mikið minna en 70-80% - eða 240-280 milljarða tap. (Hvernig tapið svo skiptist fyrir rest á milli ríkis og Seðlabanka er akademískt og skiptir ekki máli nettó fyrir skattgreiðendur.)
Í öðru lagi áferð og stíll í umræðu. Það er fullkomlega eðlilegt og sjálfsagt að fjallað sé um þetta stórtap skattgreiðenda, það greint og yfir því velt vöngum í almennri umræðu. Gauti B. Eggertsson og fleiri hafa velt þessu málefni fyrir sér á yfirvegaðan og málefnalegan hátt, og sett fram gagnrýni og andsvör, rök og mótrök eins og vera ber. Davíð telur hins vegar að umræða af þessu tagi hljóti að vera "samhæfð og æfð" af "spunameisturum ríkisstjórnarinnar", hún sé "sett á svið í annarlegum tilgangi". Kommon. Er þetta ekki dálítið gamaldags afstaða til opinnar og lýðræðislegrar gagnrýni? Árið 2009 þurfa menn einfaldlega að standa fyrir máli sínu og sæta því að þurfa að svara spurningum og færa rök fyrir afstöðu sinni. Gamli tíminn, þar sem menn voru skjálfandi hræddir við að móðga foringjann, er sem betur fer liðinn.
Í þriðja lagi staða Morgunblaðsins með Davíð sem ritstjóra. Nú er komið skýrt fram að Davíð leyfist að nota Reykjavíkurbréfið til að verja eigin fyrri störf, og blanda þannig beinlínis saman ritstjórnarstefnu blaðsins og vörn fyrir eigin feril og málstað. Eitthvað var verið að kvaka um að Davíð myndi ekki koma að umfjöllun blaðsins um skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Ég sé ekki betur en að þeir Kínamúrar séu þegar hrundir, áður en á þá reyndi. Hvað eiga nú blaðamenn Moggans að halda, sem "lenda í því" að skrifa um gagnrýni eða nýjar upplýsingar varðandi aðgerðir Seðlabankans og Davíðs í aðdraganda hrunsins? Ritstjóri þeirra er lagstur í hörku vörn með flestum sínum frægu skítkastsmeðulum; á hverju eiga þá blaðamenn von sem villast yfir hina ósýnilegu línu þar sem velþóknun ritstjórans endar?
Þetta er nú meiri farsinn, og auðvitað áfall fyrir endurreisnarferlið, þegar einn helsti fjölmiðill landsins færist aftur í svona gamaldags skotgrafahernað.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 19.10.2009 kl. 01:05 | Facebook
Athugasemdir
Ert þú ekki að sleppa einum stærsta punktinum í málflutningi hins "nafnlausa" bréfritara Morgunblaðsins?
Bréfritarinn heldur því fram að seðlabankinn hafi metið skuldabréf bankanna rétt sem veð, jafnvel þótt þeir hafi verið á barmi gjaldþrots og ekki lánað mikið meira en sem nemur því sem seðlabankinn hefði átt að fá út úr þeim út á kröfuna. Neyðarlögin hafi síðan breytt kröfuröðinni og gildi veðanna þá rýrnað mjög.
M.ö.o vill bréfritari meina að neyðarlögin séu ástæða "gjaldþrots" seðlabankans en ekki slæm stjórn bankans.
Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 18.10.2009 kl. 20:56
Ég er nú eiginlega hættur að nenna að eltast við spunann hjá þér en þetta blogg þitt krefst a.m.k. þrenns konar andsvars.
Í fyrsta lagi lýstir þú því yfir fyrir alþjóð að þú værir hættur áskrift að Morgunblaðinu þar sem ritsjórinn féll þér ekki í geð. Blaðið var bara orðið fyrir neðan þína virðingu eftir að Davíð Oddsson varð ritsjóri. Maður getur greinilega ekki treyst því að þú standir við það sem þú segir. Af hverju reynirðu bara ekki að vera samkvæmur sjálfum þér og lest það sem þínir skoðanabræður og systur vilja spinna. Hættu bara að lesa Morgunblaðið eins og þú útvarpaðir hér á blogginu.
Í öðru lagi þá er það vægast sagt hjákátlegt að sjá ykkur Samfylkingarmenn blindast af hatri út í Davíð. Hann greinilega stýrir ykkur og blindar. Það að tala um að stærstu mistökin séu ástarbréf Seðlabankans eins og þú og Gauti Dagsbróðir eru að reyna að spinna er vægast sagt sérstakt. Það er ekki sérstakt í ljósi þess að bankarnir fóru á hausinn enda geta menn þá verið "besserwiserar" líkt og þú núna. En það er nú einu sinni þannig að hlutverk SB er að vera banki bankanna og greiða fyrir ef lausafjárvandræði eru meðal bankanna. Það var það sem Seðlabankinn var að reyna að gera.
Í þriðja lagi þá væri ykkur Samfylkingarmönnum nær að velta fyrir ykkur hvort stærstu mistökin séu ekki þau sem Samfylkingin ætlar sér nú að keyra í gegnum þingið. Sá gjörningur að láta börn framtíðarinnar greiða fyrir gjaldþrot einkabanka og þar að auki að afsala sér réttinum geta leiðrétt svívirðuna ef niðurstaða dóms er á þá leið er hneyksli. Það er engum öðrum um að kenna en Samfylkungunni alveg sama hvaða spuna þú og aðrir hafa haft uppi um það mál. Síðan tel ég mig geta treyst því að þú munir spinna að það sé öðrum að kenna í framtíðinni. Sú forsenda sem þú þarft að þá að ganga út frá er að fólk sé fífl. Það er bara ekki málið. Aumingjaskapurinn er svo augljós.
M.ö.o. vandi Íslands eru duglaust lið Samfylkingarinnar. Lið sem semur af sér og lætur hagsmuni ESB framar hagsmunum Íslands. Það er löngu kominn tími á að losa þetta fólk út. Vonandi verður það sem fyrst - Íslandi til heilla.
Jón Helgi Egilsson (IP-tala skráð) 18.10.2009 kl. 21:44
Skín í gegn að þú ert skarpgreindur, og skjöplast sjaldan. Það sorglega er að sitja uppi með Davíð Oddson, sem dæma ætti sem landráðamann fyrir andvaraleysi í Seðlabankanum. Augljóst að þar hefur DO gleymt hinu fornkveðna, "Ósnotur maður, hyggur sér alla vera, viðhlægjendur vini".
Bjarni G. P. Hjarðar, 18.10.2009 kl. 22:15
Hans: Ég skil málflutning Davíðs einmitt þannig að tap skattgreiðenda var fasti; ef neyðarlögin hefðu ekki breytt forgangi þá hefði ríkið á móti þurft að bæta upp tap innistæðueigenda, um sömu upphæð. Ég er alveg sammála honum um þetta.
En þessi athyglisverði punktur vekur upp tvennt í viðbót.
Í fyrsta lagi er ljóst að Davíð telur (réttilega) óhjákvæmilegt að innistæðueigendum hefði verið bættur allur skaði úr ríkissjóði. Þetta hefur áður komið fram hjá honum. En þessi afstaða er þá, að því er virðist, á skjön við það hald margra (þar á meðal Hans og Jóns Helga) að menn hefðu komist upp með að tryggja innistæður aðeins með þeirri upphæð sem fyrir var í Tryggingasjóði innstæðueigenda. Nema þá að fara í massífa mismunun eftir staðsetningu útibús, þ.e. að bæta innistæður útibúa innanlands 100% en láta innistæður útibúa erlendis tapast nánast alveg.
Í öðru lagi má benda á, að Davíð lítur greinilega (og aftur réttilega) á ábyrgð ríkisins á innlendum innistæðum (a.m.k.), og ábyrgð Seðlabanka á endurhverfu viðskiptunum, sem tvo þætti í heildaráhættu ríkis og Seðlabanka af viðskiptabönkunum (total exposure). Neyðarlögin fluttu áhættu á milli þessara tveggja þátta en breyttu ekki summu þeirra. Seðlabankanum bar skv. þessu að horfa á heildaráhættuna og reyna að lágmarka hana, en gerði ekkert - hvorki á innistæðuhliðinni né á endurhverfu hliðinni.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 18.10.2009 kl. 22:32
Jón Helgi: Ég sagði upp áskriftinni að Mogganum rétt eftir mánaðamót og fæ hann því ennþá, enda búinn að greiða mánuðinn af krítarkorti. Biðst velvirðingar á að hafa ekki komið þessum mikilvægu og trúverðugleikamótandi upplýsingum skýrt til skila.
Þú mátt alveg benda mér á annað land þar sem endurhverf viðskipti (REPO) eða önnur lausafjárfyrirgreiðsla seðlabanka nema yfir 20% af VLF, og menn yppta bara öxlum og telja eðlilega lausafjárfyrirgreiðslu.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 18.10.2009 kl. 22:39
P.S. Afsakið, stærðfræðin var ekki alveg rétt hjá mér: Tap skattgreiðenda hefði orðið mun meira ef neyðarlögin hefðu ekki verið sett, vegna þess að innistæður sem bæta hefði þurft upp væru hærri upphæð en Seðlabankinn hefði grætt á breyttum forgangi.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 18.10.2009 kl. 22:42
P.P.S. Ummæli Davíðs um innistæður eru þessi: "Án neyðarlaganna hefði ríkissjóður þurft að verja fé beint til að verja innistæðueigendur í samræmi við loforð sem gefin höfðu verið."
Vilhjálmur Þorsteinsson, 18.10.2009 kl. 22:47
Sammála pistli þínum, Vilhjálmur.
Eins og þú bendir á í athugasemd þinni er í sjálfu sér ekki hægt að tala um milljarðana 300 sem bara tap Seðlabankans sem slíks, þeir höfðu tapast á annan veginn eða hinn.
Þetta er svipað og með milljarðana 80 sem fóru beint og óbeint úr ríkissjóði í peningamarkaðssjóðina, það hefði ekki þurft þá upphæð ef neyðarlögin hefðu ekki "víxlað" á forgangi skuldabréfa og almennra innistæðna, en þá hefði í staðinn þurft að borga miklu meira við endurfjármögnun bankanna til að bæta innistæður.
Menn vissu mætavel að það yrði ekki svo auðveldlega hlaupið frá ábyrgð á innistæðum í öðrum löndum. Í upprifjunum fjölmiðla hefur verið bent á að þeir sem komu að uppkasti neyðarlagafrumvarpsins göntuðust með það sem "Fuck the Foreigners " lögin. Þetta skín í gegn í "Guð blessi Ísland" ávarpinu:
Rétt er að segja Jóni Helga og öðrum Moggaaðdáendum frá því að öllum þeim sem sögðu upp blaðinu fyrir síðustu mánaðarmót var boðin ókeypis áskrift í mánuð í viðbót. Þetta Reykjavíkurbréf og annað ritstjórnarefni síðustu daga (t.d. Staksteinar) gerir hins vegar ekki annað en að sannfæra þá sem sögðu upp blaðinu um að sú ákvörðunin hafi verið rétt.
Einar Karl, 18.10.2009 kl. 23:01
Davíð er greinilega ekki að skilja þann birta sannleika að hans tími er liðinn. Það breytir því ekki að enn trúa einhverir á hann og svo einnig hitt að Mogginn er af mörgum talinn trúverðugur miðill, samanber mítuna "mogginn lýgur aldrei"
Það breytir ekki því að Davíð er greinilega að misnota aðstöðu sína eins og hann hefur raunar gert um árabil.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 18.10.2009 kl. 23:08
Kostulegir eruð þér Einar Karl og Þorsteinsson.
Þeir herramenn verða bara að lesa Moggann af því að hann berst ennþá! Ef það væri eitthvað í ykkur spunnið þá hefðuð þið þann manndóm að lesa ekki það sem er neðan ykkar virðingu. Það er það sem þið hafið útvarpað svo kyrfilega. Þ.e. ef þið viljið að tekið sé mark á ykkar hástemmdu yfirlýsingum. Hættið bara að lesa Moggann og í guðs bænum ekki vera að blogga um mál sem þið segið að þið lesið ekki - þið verðið bara að lesa um það í hljóði sem og að bölva.
Jón Helgi Egilsson (IP-tala skráð) 18.10.2009 kl. 23:33
Ha, ha, þú ert fyndinn í kvöld, Jón Helgi. En ég þakka viðbrögðin, þau eru mér vísbending um að til einhvers sé stritað.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 18.10.2009 kl. 23:55
Jón Helgi,
er það sem sagt þannig að maður má bara lesa greinar foringjans og andmæla þeim, af maður er enn áskrifandi að Mogganum?
Eða má maður yfirhöfuð ekki efast um hann og andmæla honum? Þó maður sé áskrifandi?
Er maður kannski sjálfvirkt bara meðlimur í spunahreyfingu Samfylkingarinnar ef maður efast um foringjann?
Fyrirgefðu, ég skrifaði víst alltaf foringjann þegar ég meinti vitanlega bara ritstjórann! Bjarni Ben er víst foringinn, eða er það ekki?
Karl Ólafsson, 19.10.2009 kl. 00:38
Takk fyrir ágætan pistil Vilhjálmur. Þegar ég las þetta Reykjavíkurbréf, játa ég að sömu líkamlegu og andlegu einkennin brutust fram og þegar ég hlustaði á fræga ræðu höfundar bréfsins, þar sem hann líkti sér við Jesú Krist.
Eftir lestur pistils Gauta B. sá sem Davíð er væntanlega að stinga til og telur að hljóti að hafa unnið í uppvaskinu í Seðlabanka Bandaríkjanna, velti ég fyrir mér því sem Dr. Gauti B Eggertsson segir um veðtöku Seðlabanka í innlánasafni bankanna, sem er eins og Davíð bendir á "skuld" bankanna en ekki eign.
Getur þú e.t.v. útskýrt hvað menn eru að meina með "veðhæfni" innlánasafns. Treysti þér vel til að útskýra á fumlausan hátt, svo hægt er sé að taka efnislega afstöðu til Reykjavíkurbréfsins.
Jenný Stefanía Jensdóttir, 19.10.2009 kl. 00:46
Gauti útskýrir þetta sjálfur í bloggi sínu, þetta var einföld innsláttarvilla sem var augljós af samhenginu. Hann skrifaði á einum stað "innlánasafn bankanna" þegar hann meinti "útlánasafn bankanna". Samhengið var sem sé að Seðlabankinn hefði átt að taka veð í útlánasafni bankanna, fremur en einföldum óveðtryggðum skuldabréfum þeirra, a.m.k. þegar magnið var orðið svona mikið. Hefði hann tekið slík veð, hefði tjón skattgreiðenda orðið miklu minna - en almennra kröfuhafa þá samsvarandi meira.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 19.10.2009 kl. 01:03
Já sé að Gauti er núna búinn að breyta þessu. Fyrir leikmenn er hins vegar ekkert samhengi augljóst, þegar bankar eru annars vegar, og jafnvel þeir sem eiga að vita betur, nýta sér innsláttarvillur, til að berja sig til riddara.
Jenný Stefanía Jensdóttir, 19.10.2009 kl. 01:29
Reykjavíkurbréfahöfundur MBL naut greinilega dyggilegrar aðstoðar þessa manns;http://www.pressan.is/pressupennar/Lesa_Hannes/gauti-hleypur-a-sig
Tek svo innilega undir með Karli Ólafssyni, það er ekki bara brýnt, heldur nauðsynlegt að virkja "ritstjórnarandstöðu" rétt eins og stjórnarandstöður gegna mikilvægu hlutverki í lýðveldisþjóðfélagi. Sér í lagi ef (rit)stjórnin sýnir gerræði, hroka og misnotkun á valdi.
Jenný Stefanía Jensdóttir, 19.10.2009 kl. 02:00
Karl og Jenný,
Það er einmitt kjarni málsins. Mikilvægt að kynna sér ólík sjónarmið. Ekki aðeins mikilvægt heldur nauðsynlegt. Morgunblaðið hefur ólíkar áherslur en t.d. Fréttablaðið. Kannski ekki þóknanlegt undirlægjuhætti sem hefur einkennt ríksisstjórnina í mörgum málum - en ólík sjónarmið. Það er mikilvægt fyrir lýðræðið. Því er það vægast sagt sérkennilegt að menn séu svo á móti því að önnur sjónarmið komi fram að með heift sé ráðist að þeim sem standa fyrir því og allt gert til að reyna að koma höggi á slíkan miðil.
Af yfirlýsingu Þorsteinssonar þegar hann með hástemmdum hætti útlistar andúð sína á fyrrum leiðtoga Sjálfstæðismanna í bloggi sínum þá var það andúð á manninum en ekki því sem hann skrifaði. Hann reyndi að koma höggi á Morgunblaðið væntanlega vegna þess að hann óttaðist að sjónarmið sem hann vildi ekki að kæmu fram - kæmu fram. En ... ólík sjónarmið eru til bóta. Uppsögn Þorsteinssonar var af pólitískum toga en ekki af umhyggju fyrir lýðræðinu.
Lesi sem flestir mbl hvort sem þeir eru áskrifendur eða ekki og hvort þeir séu sammála eða ekki. Verið endilega gagnrýnin. Það skýtur hins vegar skökku við að maðurinn sem úthúðaði Davíð Oddssyni í bloggi og lýsti því hvað þetta væri nú ómerkulegur pappir og mesti sökudólgur hrunsins - svo ómerkilegur að hann ætlaði nú að segja upp áskrift eftir 23 ár sé svona mikill áhugamaður um það sem hann skrifar. Af bloggi Þorsteinssonar að dæma er DÓ hinn mesti skaðræðismaður. Ef hann er hins vegar svona mikið dusilmenni og aumingi þá getur ekki verið að það skipti nokkru máli hvað hann skrifar ... en greinilega er það ekki svo. Líkt og er um marga meinta jafnaðarmenn (veit að vísu ekki um marga sem eru meiri kapitalistar í raun og Þorsteinsson þó svo að hann haldi öðru fram) þá rekst hvað á annars horn þegar DÓ er annars vegar ... slík er heiftin.
Jón Helgi Egilsson (IP-tala skráð) 19.10.2009 kl. 02:55
Ha, ha, ha. Þú tala um "meina" spunameistara Samfylkingarinnar eins og þessir spunameistarar séu ekki til.
Hvað ert þú annar en spunameistari Samfylkingarinar eins og Gauti B. Þið eruið báðir tveir af mörgum fótgönguliðum Samfylkingarinnar sem hafa það hlutverk að vera spunameistarar.
Spunameistarar Samfó hafa m.a. það hlutverk að búa til atburðarrás (eftirá) til að tala máli Samfylkingarinnar í hag . Sé þessi spuni kyrjaður nógu oft og lengi verður hann á endanum af "sannleika". Þetta er svona svipuð aðferð og Dr. Göbbels notaði, en hann sagði að sé eitthvað ákveðið mál (sem ekki endilega er satt) haldið nógu lengi á lofti, verður það loks að sannleika í eyrum fólksins.
Dr. Gauti ætlaði að veita aðgerðum eða öllu leiti aðgeðarleysi ríkisstjórnar Samfylkingarinnar ávkeðið "heilbrigðisvottorð" með þessum bloggskrifum sínum (til að hjálpa bróður sínum Bergþórusyni Eggertssyni), en hefur greinilega mistekist hrapalega og skotið sjálfan sig í fótinn, auk þess að skjóta niður þetta leikrit Samfylkingarinnar um sem nefnist: "Gjaldþrot Seðlabanka Íslands".
Nú er tjaldið fallið og leikritið floppaði á einum af lokaæfingunum leikritsins þannig að það mun aldrei ná þeirri metaðsókn sem stefnt var að.
Þú og annað Samfylkingarfólk verðið að fara fá lækningu á þessu "Davíðsheilkenni" sem þið þjáist af. Þetta er alveg að fara með ykkur og þið eruð alveg ómöguleg út af þessu. Heilt stjórnmálaafl, Samfylkingin, var alveg óstarfshæf allt sl. ár og langt fram í mars sl. sökum Davíðsheilkennisins. Þetta er alveg að fara með ykkur.
Ps. Mér finnst heimskulegt að segja upp Mogganum. Það bitnar bara á þeim sem það ætti ekki að bitna á, nefnilega hinum almenna starfsmanni Moggans. Þetta gæti orðið til þess að fleiri missi vinnuna á Mogganum og það fólk sem er bara þar í almennum störfum. Er eitthvað betra að einungis tvö blöð verði gefin út á Íslandi, þ.e sorpritið DV, og málgagn Samfylkingarinnar; Fréttablaðið, sem jafnframt er auglýsingabæklingur fyrir Bónus og Baug?
Pétur Ú. Kristjánsson (IP-tala skráð) 19.10.2009 kl. 09:01
Þetta eru réttmætar athugasemdir hjá Vilhjálmi. Mér er nokk sama í hvaða flokk hann er eða styður. Efnislega fór Seðlabankinn á hausinn. Við skulum ekki tala neitt í kringum það. Bankinn var fíflaður og lét fífla sig. Væri Vilhjálmur í pólitískum vígum að berja á Davíð Oddsyni væri þeim tíma illa varið. Davíð er hættur í pólitík og er nánast valdalaus maður. En Davíð verður að þola það að verk hans séu gagnrýnd og hann hafi gert mistök. ps. er ennþá áskrfiandi Moggans en það er í athugun að losa sig við hann um áramot.
Steinþór Jónsson (IP-tala skráð) 19.10.2009 kl. 09:26
Það er eitt stórt spurningamerki sem þú skilur eftir. Þú líkir Seðlabankanum við almennan kröfuhafa og gerir því ráð fyrir 240-280 tapi. Kannski er ég að misskilja eitthvað, en mér þykir það nokkuð hjákátlegt að þú talir um sjónhverfingar í Reykjavíkurbréfinu þegar þú ferð með slíkan þvætting sjálfur.
Þegar Seðlabankinn lánar bönkum er það lögbundið að hann taki traust veð fyrir sínum kröfum og er því um leið hættur að vera "almennur kröfuhafi" eins og þú orðar það. Þessi veð verða venjulega að uppfylla ákveðin ströng skilyrði en þegar vandi bankanna var ljós var Seðlabankanum gert heimilt að taka ótryggari veð (samt tryggari en gengur og gerist í almennum viðskiptum).
Seðlabankinn lánaði því bönkunum um 275 milljarða króna með stoð í þessari heimild, og hversu mikið af því verður endurheimt á alveg eftir að koma í ljós. Seðlabankinn er því ekki almennur kröfuhafi og hreint út sagt fáviska að jafna honum við þá, enda yfirleitt mun meiri trygging fyrir endurheimt krafna Seðlabankans.
Að segja þessa 275 milljarða tapaða er því ekki rétt. Þeir eru einngis óuppgerðir. Með hliðsjón af þessu er ekki furða að menn kalli þig "spunameistara Samfylkingarinnar", því að rangfærslur sem þessir geta varla verið annað en ásetningur.
Guðmundur (IP-tala skráð) 19.10.2009 kl. 10:18
Gauti hefur nú þegar orðið að augabragði.
Innsláttavilla líkt og sögubækurnar í Ísrael?
Hagfræðingar sem nú fara títt gegn fyrrum seðlabankastjórum, vegna of mikilla útlána til bankana voru áður öskrandi um að SÍ ætti að lána meir og enn meir.
Núverandi viðskiptaráðherra talaði á fundi forkólfa útrásarinnar, að hann vonaði að eftirlits-iðnaðurinn færi núi ekki að flækjast fyrir.
Nú hljómar annað úr hans munni.
Ef viðskiptavinur leggur bækur sínar ENDURSKOÐAÐAR af stóru nöfnunum útlendu, er svona ætlast til, að þar sé nokkuð satt ritað.
Vonandi munu höfuðstöðvar endurskoðunarfyrirtækjanna með stóru og löngu nöfnin vera gerð ábyrg fyrir gerðum sinna útibúa, líkt og Ríkissjóði er gert að greiða það sem ekki er að lögum hans að greiða fyrir einkafyrirtæki útí bæ.
Vinstra liðið er gersamlega úti á túni í flestu sem að þessum málum kemur og vill kyssa vendi Breta og ESB bara ef þeir vilji taka við okkur og við ,,eignast VINI" í útlöndunum.
Þjóðníðingar og lygamerðir flestir, hýenur að geði (bið dýrategundina afsökunar) undirlægjur að eðli.
mibbó.
Bjarni Kjartansson, 19.10.2009 kl. 10:38
Það verður ætíð lífleg umræða í kringum gagnrýni á störf Davíðs Oddssonar.
Eftir lestur langhundanna eftir Jón Helga, þá sé ég hvergi örla fyrir andmælum við efnistök Vilhjálms. Það eina sem eftir situr er að Jón Helgi gerir ekki greinarmun á því að lesa pistla eftir Davíð og þess að borga fyrir þá. Þetta Reykjavíkurbréf barst fjölda manns ókeypis og virðist hverrar krónu virði.
Sjálfstæðisdúman með Björn Bjarnason í fylkingarbrjósti hefur úthúðað svokölluðum Baugsmiðlum vegna þess að þeir eru taldir draga taum Bónusfeðga. Nú virðist Sögufölsunarfélagið Árvakur ætla að bæta um betur í áróðurslistinni, en eru að uppgötva að ekki eru allir tilbúnir til að greiða fyrir guðspjallið.
Sigurður Ingi Jónsson, 19.10.2009 kl. 10:54
Sigurður, lestu aftur það sem ég skrifaði.
Guðmundur (IP-tala skráð) 19.10.2009 kl. 11:30
Já, það er nú ekki mikið málefnalegt til að svara hér að ofan, en þó sem betur fer eitthvað.
Guðmundur: Þetta er ekki rétt hjá þér. Reglur Seðlabankans um veðhæfni bréfa í endurhverfum viðskiptum eru skýrar (sjá 11. gr., þetta eru reglurnar sem giltu 2008). Þær byggja fyrst og fremst á lánshæfismati frá alþjóðlegum matsfyrirtækjum. Svo lengi sem skuldabréf bankanna héldu tilteknu lánshæfismati ("A-" lungann úr árinu 2008), tók Seðlabankinn þau sem veð. Þessi skuldabréf voru sjálf ekki veðtryggð heldur eru almennar kröfur í þrotabú bankanna. Og á því varð engin breyting 2008, fram að hruni. En það er reyndar rétt að það var ekki lánað 100% á móti nafnvirði bréfanna heldur var tekið frádrag (haircut) upp á 2-7% eftir tímalengd bréfanna. Þetta frádrag dregst frá tapi Seðlabankans en því miður munar ekki mikið um það.
En varðandi "Samfylkingarspunann", þá má alveg koma fram að ég hef aldrei, fyrr eða síðar, verið beðinn um að skrifa bloggpistil, eða mér lagðar einhverjar línur. Ég skrifa um það sem mér sýnist, þegar mér sýnist.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 19.10.2009 kl. 11:32
Ég vildi hrósa þér Vilhjálmur fyrir góð skrif á bloggið undanfarið. Þú ert málefnalegur og tekur þarfa hluti fyrir.
Magnús Þorlákur (IP-tala skráð) 19.10.2009 kl. 11:50
Ég spái því að tíminn muni leiða það í ljós að eini seðlabankastjórinn í Evrópu með "balls" eftir fall Lehman Bros 15. september 2008 hafi verið Davíð Oddsson. Mat hans á stöðunni var eflaust það að bankakerfi Íslands væri orðið of stórt til þess að vera viðbjargandi og ákvað því að henda ekki góðum peningum á eftir slæmum. Allir aðrir seðlabankar og ríkisstjórnir í Evrópu björguðu sínum bönkum; í Írlandi fengu bankarnir peninga í þremur lotum og var sú ákvörðun verulega kostnaðarsöm fyrir skattgreiðendur þar í landi. Allir sem vit hafa á fjármálamörkuðum vita að lánið sem Davíð Oddsson veitti Kaupþing að fjárhæð 500 milljónir evra var gert í góðri trú. Kaupþingsmenn voru búnir að halda flotta glærukynningu þar sem bent var á að þeir gætu þraukað af sér stormviðrið enda Kaupþing líklega best rekni banki landsins. Seðlabankinn fékk veð í FIH bankanum sem er verulega öflugur og skilaði hann t.a.m. hagnaði á öðrum ársfjórðungi þessa árs. Það eru góðar líkur á að Seðlabankinn muni endurheimta þessar 500 milljónir evra þegar skilanefnd Kaupþings selur bankann.
Flestir vita að viðskipti með ástarbréf bankanna voru vafasöm þar sem litlu bankarnir breyttu Seðlabankanum í raun í hraðbanka. Bréfin voru gefin út til að stunda þennan leik þar sem litlu bankarnir fengu bréfin korteri áður en þeir fóru niður í Seðlabanka til að REPO-a skuldabréfin og fengu í staðinn peninga (90% af nafnvirði skuldabréfanna) sem var svo skilað aftur til stóru bankanna, eftir að litlu bankarnir höfðu tekið dágóða þóknun fyrir þennan ljóta platleik sinn. Mér þykir ólíklegt að seðlabankastjóri hafi verið að vasast í REPO-inu en tel þess í stað líklegt að það hafi verið þeir menn sem fengu „uppfærslu“ í kjölfar brotthvarfs Davíðs í boði Samfylkingarinnar.
ragnar (IP-tala skráð) 19.10.2009 kl. 11:56
Þeir sem hér móðgast fyrir hönd Davíðs Oddssonar og úthrópa pistlahöfund fyrir gagnrýnin skrif um störf fyrrverandi seðlabankastjóra staðfesta svo óyggjandi sé, að umdeildur stjórnmálamaður á ekkert erindi í formennsku bankastjórnar seðlabanka.
Það er ekkert við það að athuga að viðkomandi setjist í ritstjórastól hjá flokkspólitísku málgagni. Það er, hins vegar, ekki forsvaranlegt að ætlast til þess að fólk trúi því að málgagn undir ritstjórn Davíðs Oddssonar sé hlutlaus fréttamiðill.
Sjálfur sagði ég upp minni áskrift þegar Davíð var ráðinn ritstjóri, en ég les áfram Moggann þegar ég kemst yfir hann á Fréttablaðskjörum. Það er engin hræsni fólgin í því.
Sigurður Ingi Jónsson, 19.10.2009 kl. 12:15
Þú ættir að edurskoða greinin hans Gauta Vihjálmur hún er þér ekki samboðin.
Gauti skrifaði innlánasöfn og meinti kannski útlánsöfn sem er ágæt byrjun á að fá botn í hans skrif en það þarf að leiðrétta fleiri rökvillur þessari grein hans svo ég fá bot í hana.
Til dæmis segir hann að SB hafi átt að vita að öll bankabréf væru ónýt. Til þess að þetta fá staðist þaf að gefa sér að allir bankarnir færiu í þrot. en Gauti var sjáfur á þessum tíma að mæla með að lána þeim meira ????.
Þú veist líka jafn vel og ég Vihjálmur að útlánatap SB hefðu auðveldlega getað talist í þúsundum miljarða hefði bankinn tekið öll útlánasöfn gömlu bankana sem fullgild veð, á þessum tíma leit SB á stór útlan til útrásarvíkinganna sem eitraða pappíra og það voru einu útlánin sem bankarnir áttu eftir að veðsetja og sjáðu til að allt sem kom ofan á þau var 100% tapað því það sem fyrir var innheimtist ekki að fullu.
Eftir stendur að SB bjó til eina miljón ISK á hvern íslending með því að taka veð í ástarbréfum í sinni viðleitni til að koma í veg fyrir algert hrun bankann sem því miður mistókst. Að finna út eftirá að það hefði verið betra að vera með veðin eihverstaðar annarstaðaðar heitir að vera vitur eftirá en að toppa það svo með því að benda líka á ónýt veð eftirá er hrein heimska.
Guðmundur Jónsson, 19.10.2009 kl. 12:21
Ábending Jón Steins stendur alveg söm eftir sem áður. Það hafa engin rök verið færð fyrir öðru. Jú, hugsanlega að etv. hefði Seðlabankin kannski ekki orðið eins mikið gjaldþrota ef Neyðarlögin hefðu ekki komið til. En engin gögn eða tölur færðar fram til að styðja það.
Allt bendir því til að ábending Jóns Steins sé því rétt.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 19.10.2009 kl. 12:34
Markverðasta andsvarið sem ég hef heyrt við gagnrýni á ástarbréfamagnið er þetta: "Hvað hefði Seðlabankinn átt að gera í staðinn?"
Það er auðvitað mikill mergur málsins. Þegar komið var fram á sumar 2008 var bankanum orðinn mikill vandi á höndum, sem engar patentlausnir voru við. Þó áttu bankarnir eignir sem hefði verið hægt að láta þá veðsetja eða jafnvel selja, t.d. FIH, BNBank og Heritable, auk útlánasafna.
En rót vandans liggur dýpra og mun fyrr í tíma. Í smáu hagkerfi sem hið íslenska var, og sérstaklega með svo smáan gjaldmiðil, átti Seðlabankinn að fara miklu varlegar en hann gerði. Vandinn vatt upp á sig á nokkrum árum, og reyndar allt frá 2003, þegar krónunni var leyft að styrkjast of mikið og ónógum gjaldeyrisforða var safnað miðað við vöxt bankakerfisins og erlendra skuldbindinga.
Ekki síðar en eftir "litlu kreppuna" í febrúar 2007 hefði bankinn þurft að eiga fundi með viðskiptabönkunum og krefjast þess, í nafni fjármálastöðugleika, að þeir styrktu fjármögnun sína. Hugsanlega einnig að herða reglur um endurhverf viðskipti og bindiskyldu; sem sagt styrkja grundvöll kerfisins og hægja á vexti bankanna sem þá voru orðnir allt of stórir fyrir hagkerfið og sérstaklega gjaldmiðilinn.
Eitt lykilatriði sem hefði hjálpað töluvert, er að leyfa Kaupþingi að færa sig yfir í evru sem uppgjörsmynt. Að sama skapi hefði verið ráðlegt að hvetja bankana til að færa meiri starfsemi í dótturfélög erlendis, sérstaklega innlánastarfsemina.
En ég er auðvitað bara amatör úti í bæ, meðan við vorum með lögfræðing sem aðalbankastjóra Seðlabankans og hagyrðing sem formann bankaráðs. Á þeim hvíldi sú skylda að tryggja fjármálastöðugleika ríkisins - ekki mér.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 19.10.2009 kl. 13:25
Mér blöskrar smjörklípan sem nú er beitt - Gauti veit ekki muninn á inn- og útlánum og í hverju veð eru tekin!! Þetta er dæmi um heldur barnaleg og lúgaleg málfundatrix. Að snúa út úr augljósum innsláttarvillum í stað þess að svara gagnrýninni. Það má hadla því fram að Gauti sé hlutdrægur en að halda því fram að hann viti ekki hvaða inn- eða útlán sé er náttúrlega algerlega fráleitt. Enn aftur grípa menn til slíkra ómálefnalegra smjörklípa til að draga athyglinni frá aðalgagnrýninni.
Það er augljóst að Viljhálmur, Gauti og Jón Steinsson hafa komið með málefnalega gagnrýni. Hana á auðvitað ekki að taka sem stóradómi heldur með því að taka undir eða mæla þeim í mót með málefnalegum hætti. Enn... í guðanna bænum hættum að þrýsta umræðunni um þessi mikilvægu mál niður á það lága plan að saka gagnrýnendur og fræðimenn um að hafa ekki grundvallar-menntaskólaþekkingu (debet vs kredit) á þeirra eigin fræðigrein. Slíkt er ekki trúverðugt og umræðunni ekki til framdráttar.
Magnús (IP-tala skráð) 19.10.2009 kl. 13:42
Vil bara minna á það, að Jón Steinsson sagði þann 19. ágúst 2008, "Mjög langt í að allt fari til fjandans hér á landi", og átti við fjármálakerfið.
Og þetta sagði "hinn mikli og óhlutdrægni" hagfræðingur rúmum mánuði fyrir hurn þess sama kerfis sem hann gaft út "heilbrigðisvottorð" á í Vísi þann 19. ágúst 2008. Greinina mátti nálgast hér;www.visir.is/article/20080819/VIDSKIPTI06/.../1212 en hefur nú verið fjarlægð. Líklega af tillitssemi við "hinn mikla hagfræðing".
Valgaður H. Kjartansson (IP-tala skráð) 19.10.2009 kl. 14:00
Markaðurinn, 19. ágú. 2008 10:00
Mjög langt er í að allt fari til fjandans
Jón Steinsson, lektor í hagfræði, segir vöxt bankanna undanfarin ár skrifast að hluta á að erlend matsfyrirtæki hafi litið svo á að bankarnir hefðu ríkisábyrgð. Gagnrýni á ríkisstjórnina fyrir að bíða með erlenda lántöku vegna bankanna er ósanngjörn. Vafamál hvort skattgreiðendur eigi að bera kostnaðinn af þrautarvörn erlendrar starfsemi þeirra.
„Það er mjög langt í að allt sé að fara til fjandans á Íslandi” sagði Jón Steinsson, dósent í hagfræði við Columbia háskóla, í fyrirlestri í Háskóla Íslands í gær. Jón sagði þó að það væru alvarleg vandamál sem krefðust aðgerða: Koma yrði böndum á verðbólguna og eyða áhyggjum af lausafjárstöðu bankanna.
„Þeim mun lengur sem við bíðum með að koma böndum á verðbólguna, þeim mun dýrara og sársaukafyllra verður að ná stöðugleika á ný.” Óumflýjanlegt sé því að halda vöxtum áfram háum. Jón sagði ennfremur að verðbólgumarkmið Seðlabankans mætti alls ekki veikja. Til langs tíma litið væri besta lausnin þó að taka upp evruna, því tíðar gengissveiflur skytu upp verðlagi sem gerði að verkum að erfitt væri að hafa hemil á verðbólguvæntingum.
Jón taldi að íslenskt efnahagslíf myndi koma vel út úr yfirstandandi þrengingum, en helsta áhyggjuefnið væri að bankarnir rötuðu í alvarleg vandræði. Ríkið og Seðlabankinn yrðu því að eyða áhyggjum af lausafjárstöðu þeirra á erlendum mörkuðum. Til skamms tíma litið gæti ríkið þurft að gefa út skuldabréf í erlendri mynt, sem bankarnir gætu fengið í skiptum fyrir innlend skuldabréf. Ríkissjóður væri með því að taka á sig gengisáhættu, „en eins og staðan er í dag væri ríkið líklega að græða á því, enda gengið mjög lágt.” Vafamál væri hins vegar hvort ríkið ætti að taka 500 milljarða lán til að styrkja gjaldeyrisvaraforðann, enda yrði vaxtakostnaður af slíku láni um 15 milljarðar á ári og í raun dulbúinn ríkisstyrkur.
Til langs tíma litið væri eðlilegt að bankarnir bæru sjálfir kostnað af þrautarvörn á þeim hluta starfseminnar sem væri erlendis. Jón sagði afleiðingarnar verða þær að það yrði ekki eins hagstætt fyrir bankana að vera á Íslandi og þeir kynnu að flytja erlenda starfsemi sína úr landi. „Samkeppnishæfni Íslands byggist þar með á fólkinu í landinu, skattaumhverfi og því að stjórnkerfið sé gott og skilvirkt, en ekki á einhvers konar niðurgreiðslu.”
G (IP-tala skráð) 19.10.2009 kl. 15:51
Af hverju er Jón Steinsson allt í einu orðinn miðpunktur? Hvernig kom hann inn í málið? Eigum við ekki að halda okkur við umræðuefnið?
Vilhjálmur Þorsteinsson, 19.10.2009 kl. 15:59
Takk fyrir skrifin Vilhjálmur
Það er afar nauðsynlegt að gera upp mistök Seðlabankans í aðdraganda hrunsins. Bæði geta verið um að ræða mistök sem stafa af því að menn vissu ekki betur á þeim tíma, svo og mistök sem stafa af því að rangar ákvarðanir voru teknar af mönnum sem áttu að vita betur. Í fyrra tilvikinu má auðveldlega ásaka gagnrýnendur fyrir að vera vitrir eftir á. En það skiptir þó í reynd engu máli. Hvorutveggja má læra af.
Á það hefur verið bent að formaður bankastjórnarinnar hafði hvorki reynslu né fagþekkingu til að bera við rekstur seðlabanka og framkvæmd peningastefnu. Þó eru ekki öll kurl komin til grafar. Að hve miklu leyti fékk hann að hafa síðasta orðið, því hann hafði þó fagmenn sér til hliðar í bankastjórninni. Hér hefur hins vegar verið settur varnagli og vonandi til frambúðar, með því að breyta lögum um Seðlabankann.
Ég tek hins vegar undir með málshefjanda að Morgunblaðið virðist nú hafa engan áhuga á því að reyna að kryfja mistökin til mergjar. Aðalatriðið í umræddu Reykjavíkurbréfi virðist vera að klína pólitískum stimpli á þá sem reyna að kafa ofan í málin og saka þá um að veitast ómaklega DO, jafnvel um vanþekkingu. Sama má sjá í ýmsum áköfum kommentum hér á undan. Einkum er djúphugsuð sú skoðun að menn megi ekki gagnrýna moggann nema hafa keypt hann.
Það er hins vegar umhugsunarvert hvort ástæða sé til að gauka einhverju að slíkum málefnafátæklingum. Aðvörunarskiltið "Don't feed the trolls" á hér við eins og víðar.Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 19.10.2009 kl. 22:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.