200 milljarðar tuggðir 200 sinnum

Loksins virðist vera búið að fá á hreint hvað gerðist varðandi peningamarkaðssjóði bankanna þriggja.

  • Stjórn (gamla) Glitnis keypti bréf Stoða (áður FL Group) út úr Sjóði 9 fyrir um 11,9 milljarða.  Sú ákvörðun var á ábyrgð og kostnað gamla bankans og kröfuhafa hans.  Peningarnir komu ekki úr ríkissjóði.
  • Nýju ríkisbankarnir keyptu hver um sig skuldabréf úr peningamarkaðssjóðum, fyrir 63 milljarða í tilviki Landsbankans, 12,6 milljarða hjá Íslandsbanka, og 7,8 milljarða hjá Kaupþingi.  Samtals eru þetta 83,4 milljarðar.  Skv. fréttum má reikna með að 50 milljarðar af þeim verði afskrifaðir, dragist þar með frá eigin fé bankanna og lendi á eigendum þeirra (þ.e. skattgreiðendum).

Þetta er vissulega ekki gott mál, en þó verður að hafa í huga að neyðarlögin breyttu forgangsröð krafna í þrotabú banka þannig að skuldabréf þeirra urðu verðlítil, en það bitnaði harkalega á peningamarkaðssjóðunum.  Má því segja að ákveðnar bætur hafi verið greiddar með þessum hætti.

Það er síðan sérstakt umhugsunarefni, að það hefur nú gengið ljósum logum í umræðunni í næstum ár, að ríkissjóður hafi lagt 200 milljarða í peningamarkaðssjóðina.  Með hjálp Google sýnist mér að aðeins á eyjunni.is hafi yfir 200 sinnum verið minnst á 200 milljarða og peningamarkaðssjóði í samhengi.  Margur skríbentinn hefur þar verið afar reiður og sár, yfir meintri staðreynd sem var röng og tilhæfulaus.  Þetta ætti að vera áminning um að fara varlega með ályktanir af ótraustu tilefni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Þetta er enn ein hliðin eða flöturinn á setningunni, "margur verður af aurum api".

Góður pistill og vel skiljanlegur fyrir okkur sem erum ekki með sérmentun á hag- og fjármálasviði. Þakkir fyrir Vilhjálmur

Hólmfríður Bjarnadóttir, 8.10.2009 kl. 18:00

2 identicon

Ég er einn þeirra sem hef talað um 200 milljarðana og trúði henni, m.a. vegna þess að hún hefur ekki verið leiðrétt. En ef sú tala er röng hefði verið hægðarleikur að segja frá því með því að gefa upplýsingarnar strax, en ekki láta menn toga þær út með töngum ári síðar.

Mér finnst reyndar líklegast að öll fjárhæðin verði afskrifuð, en það er erfitt að segja til um það því að upplýsingar eru ekki gagnsæjar. Það hefði engu breytt um umræðuna (einkennilegar fjárfestingar sjóðanna) þó að talan sé 80 milljarðar, þó að auðvitað sé það best að hún sé sem allra lægst.

Lærdómurinn er að stjórnvöld eiga að hætta að pukrast með upplýsingar af þessu tagi.

Benedikt Jóhannesson (IP-tala skráð) 8.10.2009 kl. 18:29

3 identicon

,,Mér finnst reyndar líklegast að öll fjárhæðin verði afskrifuð"

Er ekki einhver sem borgar ?

Tölur hverfa bara ekki, er það ?

JR (IP-tala skráð) 8.10.2009 kl. 23:01

4 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Rétt, Benedikt, gagnsæið hefði þurft að vera fyrir hendi, bæði hjá sjóðunum sjálfum og hjá ríkinu.  Gagnsæi hjá sjóðunum hefði veitt nauðsynlegt aðhald, og gagnsæi hjá ríkinu hefði sparað miklar vangaveltur og gnístran tanna.  Bendi á pistla Hjálmars Gíslasonar um vægðarlaust gagnsæi.

JR: Það kemur fram í pistlinum, að í tilviki nýju bankanna og þeirra 50-80 milljarða sem þeir afskrifa, er tjónið skattgreiðenda.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 9.10.2009 kl. 00:12

5 Smámynd: Sigurður Ingi Jónsson

Það er eðlilegt að þessi upphæð, 200 milljarðar, sé búin að vera í umræðunni. Morgunblaðið hélt þessu fram í frétt í byrjun nóvember í fyrra án þess að mig reki minni til að hún hafi nokkru sinni verið borin til baka eða leiðrétt.

Farir þú rétt með tölur hér að ofan, sem ég hef engar forsendur til að efast um, má til sanns vegar færa að betra sé að skattgreiðendur þurfi að taka á sig 50-80 milljarða króna afskriftir en 200 milljarða,  þótt mér þyki það engu að síður bita munur en ekki fjár.

Sigurður Ingi Jónsson, 9.10.2009 kl. 01:29

6 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Sæll Vilhjálmur,

Viðurkenni að mig skortir þennan eiginleika að skilja á milli það sem þú kallar "kröfuhafar gömlu bankanna" sem bera einir og óstuddir tapið af hruni þeirra, og síðan ríkissjóðs (Seðlabanka og almennings), virði samt prinsipp og rétt skal vera rétt.

Er það samt ekki rétt að endurhverf lán til fjármálastofnana á Íslandi frá Seðlabanka námu um 500 milljörðum í byrjun október 2008 (fyrir hrun) gegn veðum í skuldabréfum sem eru nú einskis virði.  Það setur Seðlabankann (ríkissjóð og almenning) í stöðu þessara kröfuhafa gömlu bankanna, sem þú vilt taka út fyrir sviga og telja að komi almenningi eða ríkissjóði ekkert við.

Ef ég er að misskilja þetta, þætti mér vænt um að heyra á hvern hátt, því svo lengi lærir sem lifir. 

Jenný Stefanía Jensdóttir, 9.10.2009 kl. 02:54

7 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Jenný, endurhverfu lánin eru annar hlutur: þau eru tap Seðlabankans og urðu til þess að ríkissjóður þurfti að leggja honum til nýtt eigið fé.  Það lenti sem sé á skattborgurum og eru stórar upphæðir, væntanlega stærri en nettótapið á Icesave.

Almennir kröfuhafar gömlu bankanna eru einna helst erlendir bankar, Seðlabanki Evrópu (í gegn um Seðlabanka Lúxemborgar), Seðlabanki Íslands, og svo lífeyrissjóðir, þrotabú Sparisjóðabankans, VBS, Saga Capital og ýmsir aðrir innlendir sjóðir (m.a. peningamarkaðssjóðir).  Aðallega er um að ræða þá sem áttu skuldabréf bankanna eða höfðu lánað þeim peninga í millibanka- og sambankalánum.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 9.10.2009 kl. 14:28

8 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

My point exactly. Svo allt tal um að almenningur / ríkissjóður / Seðlabanki tapi ekki á gömlu bönkunum er rangt, enda meðal langstærstu kröfuhafa, forgangs og almenns.

Er að hraða mér á fyrirlestur hér fyrir vestan;  "Iceland in Crisis: From Boom to Bust, Big Time"  fyrirlesari er Þorvaldur Gylfason.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 9.10.2009 kl. 14:56

9 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Vilhjállmur, ég lít svo á að þessi 95,3 milljarðar séu gólfið á þessum uppkaupum.  Það hefur ekkert komið fram hvort Landsbankinn eða Kaupþing hafi keypt eitthvað út úr sjóðunum.  Það leggst vissulega bara óbeint á skattgreiðendur.  En rétt er að upphæðin er líklegast mun lægri en menn hafa nefnt, en hún er himin há.  Hún væri þriðji hæsti útgjaldaliður á fjárlögum næsta árs!  Hún myndi dekka eiginfjárframlag ríkisins fyrir bæði Íslandsbanka og Nýja Kaupþing.  Hún er nóg til að leiðrétta stærstan hluta af gengisbreytingum gengistryggðra húsnæðislána, þannig að hægt væri að færa höfuðstól lánanna niður í stöðu miðað við gengi 10. mars (eða svo) 2008.  Hún er nógu há til að leiðrétta drjúgan hluta höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána heimilanna.

Marinó G. Njálsson, 9.10.2009 kl. 17:51

10 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þegar ég segi Landsbanki og Kaupþing, þá er ég að tala um gömlu bankana.

Marinó G. Njálsson, 9.10.2009 kl. 18:15

11 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

En á móti bendi ég á, Marinó, að ágiskunin um 50 milljarða afskriftir er bara ágiskun, þær gætu orðið minni.  Maður ætti að læra af reynslunni að gefa sér ekki of mikið fyrr en traustar upplýsingar liggja fyrir.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 9.10.2009 kl. 21:50

12 identicon

Sæll Vilhjámur.

Eftir að hafa lesið grein á netinu langar mig að spyrja þig hvort þú hafir, og ef svo er þá hver þau eru, einhver tengsl við Teton ehf. og/eða Teton fjárstýring ehf.?

Þórhallur (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 09:40

13 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Þórhallur: Ég er meðeigandi í Teton ehf., sjá nánar heimasíðu félagsins (sem reyndar er að hluta úrelt).

Vilhjálmur Þorsteinsson, 10.10.2009 kl. 11:40

14 identicon

Takk fyrir þær upplýsingar Vilhjálmur.

Mætti ég spyrja þig næst hvort þú tengist á einhvern hátt Boresa Capital og ef svo er, þá á hvaða hátt?

Einnig langaði mig að forvitnast um fjárfestingastefnu Teton ehf. Á heimsíðu fyrirtækisins er henni m.a. lýst á eftirfarandi hátt:

Teton fjárfestir aðallega í skuldabréfum, einkum ríkistryggðum, í gjaldmiðlum og í afleiðum. Fjárfestingarstefna þess byggir annars vegar á mati á efnahagshorfum, á tímabilum frá þremur mánuðum til 2-3 ára, og hins vegar á að nýta högnunartækifæri (arbitrage) sem skapast á markaðnum. Félagið tekur bæði gnóttar- og skortstöður (long og short).

Má ég í því samhengi spyrja hvort Tenton ehf. hafi einhvern tímann tekið stöðu gegn íslensku krónunni?

Þórhallur (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 18:54

15 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Nei, ég tengist ekki Boreas Capital á neinn hátt, annan en þann að þeir leigja hæð í sama húsi og ég er með skrifstofu.  Sá ráðahagur kom til af tilviljun.

Ég svara að sjálfsögðu ekki spurningum sem varða fjárhagsmálefni mín eða önnur einkamálefni, þau eru öðrum óviðkomandi, nema að því marki sem um er að ræða opinberar upplýsingar.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 10.10.2009 kl. 19:02

16 identicon

Þórhallur, hvernig tengjast fjárfestingar félaga sem Vilhjálmur á hluti í umræðunni um peningamarkaðssjóði?  Skiptir máli hvort þessi félög hafa einhvern tímann  tekið stöðu með eða á móti krónunni?

Haraldur Ólafsson (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 19:04

17 identicon

Vilhjámur: Takk.

Haraldur: Það vildi bara svo til að þessi grein var sú nýjasta þegar mig langaði til að spyrja Vilhjálm að þessu. Vil ég biðja þig, Vilhjálm og aðra sem áhuga hafa á þessu máli afsökunar á að hafa leitt efni óviðkomandi umræðunni hingað inn.

Að lokum vil ég útskýra hví ég spyr þessa spurninga. Það er nú bara svo að í almennri umræðu um hin ýmsu mál hér og annarsstaðar koma fram skoðanir og/eða fullyrðingar (oft) jafn margar þeim sem tjá sig. Vilhjámur er mikilsmetinn maður, fjölhæfur og klár. Ég vildi eingöngu athuga hvort hann væri til í að upplýsa mig um verk hans, eða félaga tengdum honum, svo ég geti metið skrif hans út frá þeim forsendum. Ég er þannig úr garði gerður að þegar skoðanir/fullyrðingar eru settar fram, vil ég vita hvort það er gert út frá eiginhagsmunum þess sem það gerir eða hvort sá hinn sami sé að hugsa um hagsmuni heildarinnar eða hvort hann vilji bara láta það líta þannig út.

Ég vil með engu kasta rýrð á nafn Vilhjálms enda hef ég ekkert fyrir mér í því. Mér þykir gaman að velta hugmyndum hans og skoðunum fyrir mér, líkt og margir aðrir, og vil bara vita hvort þar búi að baki sérhagsmunir eða hvort hann hafi í alvörunni eitthvað raunverulegt til málanna að leggja fyrir almenning. Hér er ég að vísa til eldri greina hans um t.d. gjalmiðils- og efnahagsmál, efni sem ég hér að ofan óskaði eftir upplýsingum um, einmitt til að meta á sem réttasta hátt.

Þakka annars fyrir pistlana Vilhjámur og vona að ég fái botn í þankagang minn.

Þórhallur (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 20:59

18 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Þórhallur: Það getur verið gilt sjónarmið að hagsmunir þeirra sem koma fram í opinberri umræðu liggi ljósir fyrir.  Sú krafa á þó mismikinn rétt á sér, t.d. er eðlilegt að hún sé sterk þegar kemur að frambjóðendum til þings, alþingismönnum og ráðherrum, en veikari þegar um er að ræða bloggara út í bæ sem menn lesa bara ef þeim sýnist svo.  Ég tel almennt að málflutning eigi að meta eftir eigin verðleikum og að rök eigi að setja fram og ræða málefnalega, helst þannig að ekki skipti miklu máli hver talar, heldur frekar hvað sagt er.  Ad hominem er of algeng kappræðubrella hér.

En að því sögðu, þá liggur fyrir að minn bakgrunnur er annars vegar í 25 ára stjórnmálaafskiptum sem hófust í Bandalagi jafnaðarmanna, og hins vegar í atvinnulífi, aðallega á sviði upplýsingatækni og tengdum greinum.  Ég er þessa stundina fjárfestir og stjórnarmaður í nokkrum félögum, þar eru helst CCP, Gogogic, Gogoyoko, DataMarket, Verne Holdings og Teton.  En eins og ég hef áður tekið fram í svipaðri umræðu, þá eru þær skoðanir sem settar eru fram á þessu bloggi mínar eigin og koma þessum fyrirtækjum ekki við; enda samstarfsmenn mínir á þeim vettvangi með alls kyns skoðanir og sumar þvert á mínar, eins og gengur.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 10.10.2009 kl. 21:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband