6.10.2009 | 14:30
Uppsögn áskriftar að Morgunblaðinu
Neðangreindan póst sendi ég áskriftardeild Morgunblaðsins í gær:
Ástæða þess að ég segi upp áskriftinni er ráðning Davíðs Oddssonar sem ritstjóra blaðsins, en sú niðurstaða byggir nánar til tekið á tvennu.
Í fyrsta lagi tel ég Davíð vera í hópi þeirra sem mesta ábyrgð bera á hruni gjaldmiðilsins og bankakerfisins. Hann var forsætisráðherra þegar bankarnir voru einkavæddir og þegar ráðist var í stóriðjuframkvæmdir við Kárahnjúka. Hann var Seðlabankastjóri 2005-2009 og bar sem slíkur ábyrgð á fjármálastöðugleika í landinu. Engum blöðum er um það að fletta að margvíslegar ákvarðanir Davíðs, og aðgerðaleysi á öðrum sviðum, undirbjuggu bæði jarðveginn fyrir hrunið og gerðu það verra en annars hefði orðið.
Í öðru lagi álít ég stíl og aðferðir Davíðs engan veginn henta hjá ritstjóra nútíma fjölmiðils, hvað þá í andrúmslofti Íslands í dag. Davíð sér heiminn í svart-hvítu, menn eru annað hvort vinir hans eða svarnir óvinir. Þá er hann langrækinn og erfir sakir í stóru samhengi við meinta andstæðinga. Og eins og kunnugt er skirrist hann ekki við að kalla fólk, sem honum mislíkar við, inn á teppið og lesa því pistilinn í löngum einræðum. Ekkert af þessu eru eftirsóknarverðir eiginleikar hjá ritstjóra fjölmiðils sem vill vera í þokkalegu jafnvægi, og geta fjallað um menn og málefni af hlutlægni. Jafnvel þótt Davíð tækist að hemja sig, gagnvart blaðamönnum og öðrum, þá væri grunurinn um hlutdrægni og eltingarleiki við óvini ætíð til staðar, og trúverðugleiki blaðsins eftir því laskaður.
Þessi ákvörðun eigenda og útgefanda Morgunblaðsins er bæði sérkennileg og vond, en eina leið viðskiptavina blaðsins til að bregðast við henni er að nota skilaboð markaðarins og segja upp áskriftinni að blaðinu. Jafnvel þótt það sé óljúft, eins og eftir 23ja ára ágæt viðskipti í mínu tilviki.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Davíð var víst nokkuð góður í útvarp Mathildi þó ég muni ekki mikið eft því en það finnst mér að bendi til að hann gætti alveg verið nothæfur ritstjóri. Ég sé ekki hvernig hægt er að tengja hæfileika til ritstjórnar starfa svona beint við pólitískar skoðanir, maður les bara herlegheitin með þeim gleraugum. Mér finnst Laxsnes til dæmis ekki verri þó hann hafi verið kommi.
Guðmundur Jónsson, 6.10.2009 kl. 15:10
Ég tengi hæfileika hans sem ritstjóra hvergi við pólitískar skoðanir, heldur annars vegar við starfsferilinn og hins vegar við persónulegan stíl og aðferðir.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 6.10.2009 kl. 15:18
Það eina skrýtna við þetta er hvað þú ert seinn til.
Gunnar (IP-tala skráð) 6.10.2009 kl. 16:03
Sjálfur sagði eg upp áskrift að Morgunblaði jafnskjótt og ljóst var að þessi möguleiki var staðreynd. Sama dag og Davíð settist við annan mann í ritstjórnarstól voru um 40 blaðamönnum mörgum með áratuga starfsreynslu sagt upp störfum.
Mér fannst þetta vægast sagt mjög einkennilega ákvörðun Óskars Magnússonar eiganda blaðsins. Með þessu var hann ekki að styrkja fjárhagslegan grundvöll blaðsins, heldur taka mjög mikla áhættu að fæla þúsundir áskrifenda frá mjög góðu blaði sem þeir félagar Styrmir og Matthías áttu megin þátt að gera.
Nú er Morgunblaðið komið í stöðu flokksblaðs eins og þau tíðkuðust fyrrum. Þetta er því grafalvarleg tímaskekkja sem ekki er unnt að fyrirgefa.
Auðvitað hefði verið eina rétta leiðin að auglýsa eftir ritstjóra. Það eru tugir vaskra og varkárra blaðamanna og annarra vel færa einstaklinga sem hefðu verið betri og hæfari en Davíð.
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 6.10.2009 kl. 16:05
Gunnar, ég var erlendis í rúma viku og kom þessu ekki í verk fyrr en í gær. En hefði annars brugðist við strax.
Guðjón: sammála, það er nóg af ágætu fólki sem hefði getað stýrt Morgunblaðinu farsællega og í sátt við áskrifendur.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 6.10.2009 kl. 16:10
Sæll Vilhjálmur
Ég skil afstöðu þín mjög vel þar sem verið er að breyta ritstjórn Morgunblaðsins töluvert mikið. Einnig skil ég afstöðu þína er varðar afstöðu þína gagnvart DO. Það er eðlilegt þó að ég telji DO nær þér í skoðunum og vinnubrögðum heldur en þú gerir þér grein fyrir. Það er bara mín skoðun.
Ekki get ég skilið þig Guðjón. Til hvers heldur þú að fjárfestar kaupi blöð? Vegna hagnaðarins? Þá ert þú frekar barnalegur. Það hefur ekki verið alvöru hagnaður af fjölmiðlum á Íslandi í áratugi. Þetta snýst um að hafa áhrif á skoðanir. Það er staðreyndin. Seguðu mér frá einum fjölmiðli sem ekki hefur verið gefinn út með það markmið frá fæðingu þinni og ég skal sanna fyrir þér að þú þarft ný gleraugu.
Kv.
Sveinbjörn
Sveinbjörn (IP-tala skráð) 7.10.2009 kl. 14:52
Mér þykir verst að þessi ráðstöfun, að segja upp blaðinu, þurfi að bitna á blásaklausum starfsmönnum blaðsins. Starfsöryggi þeirra er í hættu vegna þessarar vanhugsuðu ráðningar ritstjóra. En erfitt er að sjá hvaða skilaboðum eigendur og útgefandi taka mark á, ef ekki þessum.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 7.10.2009 kl. 19:07
Sveinbjörn:
Frjáls fjölmiðlun var útgáfufyrirtæki sem gaf út fjölda tímarita þar á meðal Frjálsa verlun, Vikuna og fleiri blöð. Þegar blað stóð ekki undir rekstri var reynt að aðlaga það væntingum kaupenda og lesenda til að tryggja betur´rekstrargrundvöllinn. Ef það tókst ekki, voru blöð sameinuð eða jafnvel lögð niður.
Þá má hins vegar nefna mörg blöð og tímarit sem gefin eru út af áhuga einum saman. Þeim er ekki ætlað að græða fé, heldur dreifa fróðleik og þekkingu.
Mér finnst því gagnrýni þín Sveinbjörn vera nokkuð flaustursleg.
Sjálfur sé eg eftir gamla Mogganum. Á honum hafa orðið breytingar en kannski ekki eins greinilega miklar og ef blaðið væri flokksmálgagn. Breytingarnar koma einkum fram í leiðuraskrifum og aðsendu efni. Greinilegt er að margir sem ekki eru hallir undir Sjálfstæðisflokkinn, sendi ekki greinar núna.
Sjálfur sendi eg Morgunblaðinu töluvert af efni en síðasta árið hafa það aðallega verið minningagreinar! Mér finnst blaðið hafa dottið niður um mörg þrep með þessari umdeildu ákvörðun því það er fjöldinn allur af mjög hæfum og góðum blaðamönnum sem hafa öll skilyrði að halda áfram farsælu starfi Styrmis og Matthíasar.
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 12.10.2009 kl. 13:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.