Krónan: Vond, góð og aftur vond

Um daginn skrifaði ég heilmikinn langhund um krónuna þar sem ég minnti m.a. á að á 90 árum, síðan íslenska krónan var skilin frá þeirri dönsku, hefur hún rýrnað svo gagnvart sinni gömlu systur að vera orðin 1/2430-asti partur af henni.  Það eru sem sagt 2430 upphaflegar íslenskar (gamlar) krónur í einni danskri.

Krónan átti verulegan þátt í að valda hruninu. Stóriðjuframkvæmdir á árunum 2002-2006 höfðu í för með sér þenslu sem vitað var að Seðlabankinn yrði að svara með háum vöxtum.  Þetta gaf spákaupmönnum og öðrum færi á hagnaði með lágmarksáhættu í gegn um vaxtamunarviðskipti, þar sem tekin voru ódýr lán í jenum og svissfranka, sem breytt var í krónur á háum vöxtum.  Að sama skapi leituðu innlend heimili og fyrirtæki í erlend lán með lágum vöxtum enda þótti ólíklegt að krónan myndi veikjast í bráð.  Almenningur var sáttur við gríðarlegan (sýndar-)kaupmátt og lágan fjármagnskostnað, og fyrirtæki skuldsettu sig upp í rjáfur, enda nóg til af ódýru fé.  Þeir sem gíruðu sig mest "græddu" líka mest.  Hvatarnir í hagkerfinu skekktust og útkoman varð eftir því.

Auðvitað endaði þetta með skelfingu, enda ekki til innistæða fyrir bólunni, sem þandist út í boði okkar skrýtnu örmyntar (og galinnar peningamálastefnu).

En úr því að kreppan þurfti að verða, vegna ofurútslags krónunnar í styrkingarátt, þá er krónan ágæt til síns brúks akkúrat núna með ofurútslagi sínu í veikingarátt.  Vitaskuld styrkir slíkt útflutning og minnkar innflutning; eflir þar með vöruskiptajöfnuðinn og lækkar laun í samanburði við nágrannaþjóðir.

Krónan má hins vegar ekki veikjast mikið meira en orðið er.  Lán Íslendinga eru að miklu leyti verðtryggð og gengistryggð, og heimili og fyrirtæki þola ekki enn frekari ágjöf.  10% veiking krónu hækkar höfuðstól verð- og gengistryggðra lána um 4-10%, en það er áfall sem hagstæðari vöruskiptajöfnuður er lengi að vinna upp.  Þetta þarf að kynna rækilega fyrir erlendum hagfræðingum sem hingað koma, því þetta er óvenjulegt einkenni á hinu íslenska hagkerfi og fækkar þeim ráðum sem unnt er að grípa til í stöðunni.

Þótt krónan sé góð til síns brúks núna, þá verður ekki búið við hana til frambúðar.  Til þess er hún of smá, sveiflukennd og dýr.  Utanríkisviðskipti Íslendinga eru að nærri 2/3 við evrusvæðið og tengdar myntir.  Það er því borðleggjandi að stefna á evruna, enda leiðir hún til lægri vaxta, minni verðbólgu, meiri stöðugleika og afnáms verðtryggingar.  Aðrir trúverðugir valkostir eru ekki fyrir hendi, að mínu mati.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kostir og gallar eins og á öðru, kannski aðal málið að umræðan haldi ekki áfram í farveginum "ég held með þessum eða hinum".

Fólk heldur með stjórnmálaflokkum eins og íþróttaliði, er krónuvinur eða -óvinur og síðan hrikalega reitt út í allt og alla (nema sjálft sig) þegar kreppir að. Slæm blanda þegar þarf að taka stórar málefnalegar ákvarðanir.

Ágæt grein hérna síðan í gær t.d. http://www.economist.com/blogs/freeexchange/2009/09/in_and_out_of_the_eurozone.cfm

Kveðja,

SF

Sveinn (IP-tala skráð) 9.9.2009 kl. 20:08

2 identicon

Sæll Vilhjálmur,

Ég get ekki tekið undir það með þér að Ísland eigi að taka upp Evruna. Máli mínu til stuðnings bendi ég á afdrif Argentínu frá árunum 1991 fram til 2001 þegar yfirvöld þar festu gengi argentíska pesósins við bandarískan dollar. Þrátt fyrir að festa gengið þá varð verðbólga í landinu, eitthvað sem við getum alls ekki útilokað að gerist á Íslandi þó við tækjum upp Evru.

Um daginn skrifaði ég um ástæður þess hvers vegna Ísland ætti að halda krónunni þar sem ég segi m.a.:

En hvers vegna er ég fylgjandi krónunni? Paul Krugman, nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, tekur þetta ágætlega fyrir í bók sinni "The Return of Depression Economics and the Crisis of 2008". Þar tekur hann tilbúið dæmi (sjá hér að neðan í grófri þýðingu og endursögn undirritaðs) um einn allsherjar gjaldmiðil fyrir allan heiminn sem hann kallar "Globo". Þessum gjaldmiðli er vel stýrt af seðlabanka heimsins með því að auka peningamagn í umferð þegar kreppan lætur á sér kræla og minnka það þegar verðbólga er í aðsigi. Viðskiptalífið elskar þennan gjaldmiðil því hann gerir þeim kleift að kaupa og selja vörur sína hvar sem er í heiminum.

En Adam var ekki lengi í paradís. Globo virkaði mjög vel fyrir heiminn í heild sinni en ekki jafn vel fyrir einstaka heimsálfur. Oftar en ekki kom upp núningur milli heimsálfa um hvernig stýra átti efnahagnum. Þegar heimsseðlabankinn jók peningamagn í umferð því Evrópa og Asía voru á barmi kreppu þá skapaði það þenslu í Bandaríkjunum. Svo þegar heimsseðlabankinn minnkaði peningamagn í umferð til að slá á verðbólgu í Bandaríkjunum skapaði það kreppu í Suður Ameríku. Vegna þess að það var enginn gjaldmiðill í heimsálfunum sjálfum þá voru yfirvöld þar máttlaus og gátu ekkert aðhafst til að lagfæra vandamálið. Að lokum varð núningurinn svo mikill að kerfið liðaðist í sundur.

Dæmið hér að ofan, um Globo gjaldmiðilinn, er að sjálfsögðu uppspuni en sýnir vel galla eins gjaldmiðils, þ.e. að erfitt sé að stýra efnahag stórs svæðis sem hefur ekki sömu þarfir. Þá komum við aftur að íslensku krónunni og evrunni. Evrusinnar vilja einmitt fella niður krónuna og taka upp evruna því gallar krónunnar séu svo miklir.

Ég vil hins vegar benda á að efnahagur Íslands er mjög svo frábrugðinn þeim Evrópuþjóðum sem hvað mest tekið er mark á, þ.e. Þýskalandi, Frakklandi, Hollandi, Ítalíu og fleiri stórþjóðum Evrópu. Ekki þarf annað en að bera saman helstu kennistærðir þessara landa og Íslands til að sjá hvað löndin eru ólík.

Ef Ísland tæki upp Evru þá kæmumst við fljótlega í vandræði. Þegar auka þarf peningamagn í umferð á Evrusvæðinu vegna þess að Þýskaland stefnir í kreppu þá gæti það ýtt undir þenslu og óðaverðbólgu á Íslandi sem mun knésetja landið. Og ef einhver heldur að Seðlabanki Evrópu muni taka mark á eða taka tillit til efnahagsvandamála á litla Íslandi þá er viðkomandi að blekkja sjálfan sig. Seðlabanki Evrópu mun ekki láta 300 þúsund hræður hafa áhrif á yfir 300 milljóna samfélag, það held ég að sé fráleitt.

Magnús B Jóhannesson (IP-tala skráð) 9.9.2009 kl. 22:01

3 Smámynd: Kolbeinn Pálsson

Vilhjálmur

Ef Davíð,þegar hann fór í Seðlabankann  hefði borið gæfu til að setja Íslenska vexti til jafns við Evrópuvexti og halda þeirri stefnu værum við með okkar krónu í þokkalegum málum. (Sá maður sem hefði keyrt svo mikilvæga ákvörðun í gegn án þess að vera talinn brjálaður er hinsvegar vandfundinn)

Ef við eigun á annað borð að skipta um gjaldmiðil er USD eða CAD það eina sem er raunhæft.

Kolbeinn Pálsson, 9.9.2009 kl. 23:00

4 identicon

Það er gott að velta fyrir sér hvort rétt sé að taka upp annan gjaldeyri í stað Íslensku krónunnar, kosti og galla. Ef við teljum að krónann sé ekki ásættanlegur kostur, þarf að velta fyrir sér hvaða gjaldeyri sé hentugast að taka upp, hvers vegna og kosti og galla viðkomandi gjaldmiðils.  Svo er hinn kosturinn að taka upp tvöfallt hagkerfi, sem sé að við höldum í krónunna sem bak minnt, sem ekkert er notuð og fær ekki að vera sem flæði mynnt í samfélaginu, en tökum upp aðra mynnt sem verði notuð úti í hagkerfinu. Með tvöfalda hagkerfinu kemst straks á stöðuleiki á fjármálamarkaði, og það setur kröfu á stjórnmálamenn og eftirlits aðila að þeir verða að fara að vinna vinnuna sína.  Þá er ekki lengur hægt að láta reika á reiðanum, því þeir verða einnig að stilla eiðslu sinni í hóf, þar sem aukin skatt heimta leiðir einungis til meira atvinnuleysis og því minna í kassan.  Með þessu móti væri undirstöðum atvinnulífsins borgið, hægt væri að lækka vexti og grunnur heimilinna fengi stöðuleika. 

Ég geri mér grein fyrir að það þarf kjark til að fara í slíka aðgerð og vandlega þarf að fara yfir hvaða gjaldeyri skildi taka upp.  Þetta myndi leysa þjóðinna undan þeirri ánauð að eyða peningum í EB-aðildarumskókn.

Hver er þá hin lausnin.  Er virkilega krónan svo afleid, eða sitjum við bara uppi með handónýta stjórnmálamenn og eftirlits bákn, sem enn eru ekki farnir að setja lög til að tryggja þjóðinni vörn gegn fjármálaglæpa mönnum.  Það er sama hvað við gerum í mynntbreytingum eða ekki mynnt breytingum, við þurfum að taka til heima hjá okkur fyrst, setja grunninn hvernig við ætlum að standa að málum, þannig að heimurinn viti að við höfum lært eitthvað af þeim hamförum sem yfir okkur hafa gengið.

Guðmundur Karl (IP-tala skráð) 10.9.2009 kl. 08:39

5 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Krónan er bara verkfæri sem gott er að eiga út í skúr og grípa í þegar á þarf að halda.

Krónan er því hvorki verri eða betri en þeir sem með hana versla.

Krónan er verkfæri sem var lykillin að hagsæld íslands á síðustu öld þar sem eignir íslendinga fóru úr því að vera tíundi partur að eignum Dana í það að vera til jafns við eða meira en eignir Dana sem nota hina stöðugu dönsku krónu.

Til hvers er gjaldmiðill í hagkerfi nútíma þjóðar.

Guðmundur Jónsson, 10.9.2009 kl. 09:52

6 identicon

Árinni kennir illur ræðari Villi.

Þeir sem gerðu krónuna að útflutningsvöru gerðu verkfærinu okkar mestan skaða.

Krónan var tekin upp sem hagstjórnarverkfæri fyrir okkur íslendinga, ekki sem útflutningsvara.

Greppur Torfason (IP-tala skráð) 10.9.2009 kl. 15:47

7 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Það er ekki inni í myndinni að skipta út krónunni fyrir neinn annan gjaldmiðil en evru.  Það er enginn annar tilbúinn að leggja út sem nemur tugum milljarða bandaríkjadala til að kaupa upp krónur, sem síðan yrðu teknar úr umferð, nema ECB.  Norðmenn hafa þegar sagt að útskipting ISK fyrir NOK komi ekki til greina af þeirra hálfu.  Og af hverju ættu Bandaríkjamenn eða Kanadamenn að slaka út risaupphæðum af gamni sínu, nema að fá þá eitthvað í staðinn?

Þetta tal um upptöku einhvers annars gjaldmiðils en EUR er algjörlega úr lausu lofti gripið og er álíka raunhæft og að tala um að létta á þyngdaraflinu eða auka sólskin.  Það er enginn gjaldeyrisforði til og enginn annar seðlabanki en ECB er tilbúinn að skipta krónum út fyrir annan gjaldmiðil á "eigin kostnað".

Vilhjálmur Þorsteinsson, 10.9.2009 kl. 22:34

8 identicon

Hefurðu engar áhyggjur af því að við lendum þá í svipuðum vandamálum og t.d. Spánn sem virðist mun verr sett en Ísland í augnablikinu með skuggalegu atvinnuleysi og GDP lækkun ... svipað er jafnvel að gerast í Finnlandi sem og Þýskalandi.

Valdi (IP-tala skráð) 11.9.2009 kl. 10:18

9 identicon

'i mínum huga er bara eitt það er að halda í kr. þessi gjaldmiðill endurspeiglar hagkerfi þjóðar vorrar og að fara í einhverja Brussel samkundu er bara fráleitt, það er ekki hægt að kenna kr um að við vorum og erum ennþá rænd af hvítflibbamonnum, Við eigum að hlúa að okkar kr og nota þær auðlindir sem við fengum í gjöf frá móðurlandi voru handa okkur og nýta þessa Guðsgjöf vel.

já ég er Íslendingur og ef þeir landar vorir sem eru ekki ánægðir með okkar gjaldmiðil og veðurfar geta bara farið. þið vitið ekki hvað þið hafið aðgang að, og erum öfunduð af okkar náturu auðlindum, hjá öðrum þjóðum.

Hermann Hinriksson (IP-tala skráð) 11.9.2009 kl. 15:08

10 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Þú segir Vilhjálmur, að það sé ekki inni í myndinni að skipta út ISK fyrir annað en euro sem þv að engin nema ECB séu tilbúin til að slaka út þessum risa upphæðum sem þarf. ÞAð fer bara eftir því á kvað gengi ISK er keypt.

Þeir dolarar eða evrur sem fara í þessi gjaldmiðlaskipti eru í reynd eiganda myntarinnar að kostnaðarlaus séu krónurnar keyptar á einhverju raunhæfu gengi því það fást jú krónur í staðin sem er fargað. Sé krónan keypt á yfirgengi þá tapar sá sem gefur út sína mynt í staðin því þá lækkar raungengi þerrar mynntar og öfugt ef krónan væri keypt á undirgengi.

Guðmundur Jónsson, 11.9.2009 kl. 18:54

11 Smámynd: Karl Ólafsson

Vilhjálmur, þessi grein þín er góð og málefnaleg, eins og við var að búast frá þér. Ekki get ég sagt að ég sé alltaf sammála málflutningi þínum, en engu að síður má alltaf treysta því að það sem frá þér kemur er málefnalegt.

 Hvað varðar greinina hnýt ég reyndar bara um þetta atriði: "Því miður ekki horfur á – úr því sem komið er – að traust aukist á næstu árum eða áratugum, þannig að talið verði óhætt að hverfa frá verðtryggingu langra fjárskuldbindinga í krónum. Verði slíkt reynt, t.d. með valdboði, er einsýnt að framboð lánsfjár mun þorna upp, og á hinn bóginn að langir óverðtryggðir vextir verði mjög háir, þ.e. innifeli hátt álag vegna verðbólguáhættu. "

Þessu er ég ekki alveg sammála. Verði verðtrygging tekin af með valdboði er án efa rétt að langir óverðtryggðir vextir yrðu háir, í byrjun. Lögmál markaðar ættu þó að hafa þar áhrif því ef enginn hefur efni á að taka lán (og hver hefur það akkúrat núna; nú er því tækifærið að fella niður verðtrygginguna) hlýtur að skapast þrýstingur á að vextir lækki. Að auki hljóta þá að koma inn á markaðinn nýjar vörur eins og lán til langs tíma með breytilegum vöxtum, eins og vel þekkt er í nágrannalöndunum, t.d. Bretlandi. Þannig mætti hugsa sér að maður tæki t.d. lán til 25 ára á t.d. 6,5% vöxtum föstum fyrstu 2-5 árin en breytilegum vöxtum (til 3ja mánaða í senn) upp frá því. Fari vextir úr böndunum eiga menn þess þá kost að endurfjármagna (re-mortgage) eftir upphaflegan binditíma, bjóðist betri lánakjör á markaðnum annars staðar. Við einfaldlega verðum að læra að búa við þær sveiflur sem af þessu skapast og stýra málum þ.a. þær verði ekki of stórar. Ég hef oft vitnað til reynslu minnar af kerfinu í Bretlandi þar sem vextir sveifluðust frá því að vera 4,7% og upp í ca. 8%. Þegar vextir hækkuðu byrjuðu afborganir fljótt að stinga, en fyrir bragðið voru líka áhrifin á neysluvenjur almennings og eftirspurn eftir lánsfé mjög snögg, sem olli því að vaxtalækkun kom í flestum tilfellum fljótt aftur og verðbólguþrýstingur minnkaði. Stýrivextirnir virka þá eins og þeim er ætlað. Af hverju ætti ekki slíkt kerfi að virka hér, til lengri tíma litið og þá er ég að hugsa til kynslóðar barna okkar?

Síðan er hinn flöturinn sá að ef verðtryggð langtímalán standa ekki til boða fyrir fjárfesta, hlýtur lánsfé engu að síður að leita inn á þá markaði sem í boði eru. Ég er kannski einfeldningur og draumóramaður en langtímalán með þeim hætti sem ég lýsti hér að ofan hljóta þá á endanum að verða einn af þeim kostum sem ábyrgir fjárfestar myndu horfa til. Verðtryggingin er eingöngu til þess að skapa leti og hugmyndafátækt meðal fjárfesta!

Karl Ólafsson, 15.9.2009 kl. 09:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband