18.6.2009 | 23:33
Ráð í ríkisfjármálum
Verkefnið framundan í ríkisfjármálum er risavaxið: að ná niður - á þremur árum - halla sem stefnir í 170 milljarða króna í ár.
Í dag voru kynntar ráðstafanir og áætlanir varðandi þetta ár og næsta. Á næsta ári þarf að laga afkomu ríkissjóðs um a.m.k. 56 milljarða, með skattahækkunum og niðurskurði.
Þetta sést vel á eftirfarandi línuriti, sem sýnir tekjur og gjöld ríkissjóðs undanfarin ár, á föstu verðlagi (eins og það var í ársbyrjun 2009). Til frekari glöggvunar hafa vaxtagjöld verið tekin "út fyrir sviga", þ.e. bæði út úr tekjum og gjöldum. Þau er hvort sem er ekki hægt að skera niður og skýrara að horfa á myndina án þeirra.
Eins og sjá má á grafinu má orða verkefnið þannig að samneysluna (gjöldin) þurfi að færa niður í það sem þau voru sirka á árabilinu 1998-2001, að því gefnu að einhverjar skattahækkanir komi á móti.
Í þessu sambandi hefur mjög athyglisverð hugmynd verið nefnd í umræðunni, m.a. í efnahagstillögum þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Hún er sú að skattleggja iðgjöld lífeyrissjóða, en gera útgreiddan lífeyri skattfrjálsan. Inngreiðslur í lífeyrissjóði á þessu ári verða nálægt 150 milljörðum, en útgreiddur lífeyrir um 50 milljarðar. Ef stofnuð er ný deild með skattlögðum iðgjöldum, en skattfrjálsum útgreiðslum, myndar sú deild skattstofn upp á 150 milljarða króna á ári og má áætla að tekjuskattur af þeim peningum gæti numið 35-50 milljörðum eftir því hvernig persónuafsláttur kemur á móti.
Það kemur í sama stað niður fyrir lífeyrisþega hvort skattarnir eru teknir af inngreiðslum í sjóðinn eða af útgreiðslum. Hins vegar er þetta fyrirkomulag aðeins hagstæðara fyrir ríkissjóð meðan inngreiðslur eru meiri en útgreiðslur, þ.e. meðan aldurspýramídinn er "réttur". Þegar þjóðin eldist verður fyrirkomulagið smám saman óhagstæðara.
En í ljósi efnahagsástandsins í dag, og þess að það er öllum í hag að lágmarka skuldir ríkisins, styðja lánshæfismat ríkissjóðs og verja hag heimilanna um þessar mundir, þá er þetta ráðstöfun sem ég tel borðleggjandi að grípa til í stöðunni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég tek undir með þér um tillögu Sjálfstæðisflokksins um að skattleggja inngreiðslur í Lífeyrissjóði. Ég skildi tillögu þeirra svo að skattleggja inn greiðslur í stað útgreiðslna og finnst raunar að það sé sanngjörn aðgerð þar sem stór hluti þeirra inngreiðslna sem skapa réttindi þeirra sem nú fá útgreiðslur, hefur þegar verið skattlagður. Það eru til þess að gera fá ár síðan skattlagning inngreiðslna var afnumin. Einnig hefur verið lagt til að útgreiðslur bæru fjármagnstekjuskatt.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 19.6.2009 kl. 00:02
Hólmfríður: einmitt, útgreiðslur úr "eldri deildinni" yrðu áfram skattlagðar (eins og nú er), en ekki úr "nýju deildinni". Svo má athuga að skipta aftur yfir í fyrra fyrirkomulag seinna, þegar betur árar í þjóðarbúskapnum.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 19.6.2009 kl. 00:05
Aldurspíramída íslensku þjóðarinnar (og þróun hans síðustu 170 árin) má sjá hér.
Hér má svo sjá myndir af sambærilegum píramídum fyrir Ísland, Evrópusambandslöndin og Bandaríkin eftir 40 ár skv. upplýsingum frá Bandarísku manntalsskrifstofunni (US Census Bureau).
Þetta er okkur býsna hagstætt og ætti að vera óhætt að setja það fyrirkomulag sem Sjálfstæðismenn stinga upp á á í a.m.k. 20 ár án þess að það valdi teljandi vandræðum.
Hjálmar Gíslason (IP-tala skráð) 19.6.2009 kl. 00:10
Vextirnir af sköttunum skipta máli í þessu. það er, fái lífeyrissjóðirnir skattana að láni vaxtalaust eins og nú er geta þeir ávaxtað þá á tímabilinu sem þýðir þá að þetta er lítilsáttar skerðing á raun lífeyrisréttindum. En má ekki bara rukka lífeyrissjóðina líka um skatt af því sem þar er og snú þannig öllu kerfinu yfir í fyrirfram greidda skatta á nokkrum árum ?
Reyndar fæ ég ekki séð að það skipti miklu máli þegar á heildina er litið hvor ríkissjóður sé rekin með halla sem sköttunum af þessu nemur núna eða seinna.
Guðmundur Jónsson, 19.6.2009 kl. 00:42
Guðmundur: Nei, "vextirnir af sköttunum" skipta ekki máli. Það kemur í sama stað niður hvort margfaldað er með 0,7 í upphafi eða í lok, sbr. grunnskólastærðfræðina: a * b * c = c * b * a. Og skattarnir sem ríkissjóður fær eru einfaldlega innheimtir fyrr. Það munar verulega um það fyrir þjóðina að fá allt að 50 milljarða aukalega í skatttekjur núna, fremur en á löngum tíma eftir áratugi.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 19.6.2009 kl. 00:54
a * b * (c-d) <> a * b * c - d
d= rekstur sjóðs.
stærra er betra þegar talað er um pening.
Guðmundur Jónsson, 19.6.2009 kl. 09:59
Spyr sá sem ekki veit?
Greiða menn ekki skatt af þeim tekjum sem renna til lífeyrissjóðanna?
Minnist þess að sjóðsfélagar hafa álitið greiðslur frá lífeyrissjóðum tvískattaðar.
hágé
Helgi Guðmundsson (IP-tala skráð) 19.6.2009 kl. 13:53
Því miður munu sérhagsmunir samtaka eins og LL, ASÍ og SA verða ofan á í þessu og þetta mun ekki fá brautargengi.
Staðreyndin er sú að fjárfestingar lífeyrissjóðanna hafa verið með ólíkindum undanfarin ár. Meirihluti eigna í erlendum og innlendum hlutabréfum, og fyritækjaskuldabréf á sömu innlendu banka og hlutafélög sem nú eru verðlaus. Ávöxtun sjóðanna er amk verri sem nemur 10% út af vantöldum afskriftum af þessum bréfum. Gleymdist einhvers staðar á leiðinni að skuldbindingar lífeyrissjóða eru verðtryggð löng skuldabréf með hæsta mögulega lánshæfi.
Og nú er talað um þarflausar ríkisframkvæmdir eins og tvöföldun ganga þar sem umferð er að snarminnka, háskólasjúkrahús og tónlistarhöll?
Má ég þá frekar biðja um lægri skatta en að setja meira fé í spilavíti lífeyrissjóðanna?
Karl Magnús
Karl Magnús (IP-tala skráð) 19.6.2009 kl. 17:57
Þetta er smá ljós í myrkrinu þegar kemur að halla ríkissjóðs. Þá er ekki eftir nema gat upp á hvað, ríflega 120 milljarða?
Ólafur Eiríksson, 19.6.2009 kl. 19:13
Karl Magnús: þú hefur mikið til þíns máls!
Ólafur: jamm, en þó er það ekki verra en svo að við förum með samneysluna aftur til þess sem hún var sirka 2001, og landsframleiðslan hefur aukist síðan þá. Þannig að þetta er ekki eins slæmt og það virðist við fyrstu sýn. Við höfum leyft okkur ýmislegt á síðustu árum í samneyslunni sem markast af gróðærinu og verðum að sjá á bak núna.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 21.6.2009 kl. 17:55
Sæll Vilhjálmur,
þetta er mjög góð hugmynd sem ætti að koma til framkvæmda sem fyrst. Eini galli hennar er að nýting persónuafsláttar, þ.e. hann nýtist varla við skattgreiðslu við innborgun en er mun líklegri að nýtast við skattgreiðslu á útborgun.
Ég myndi hins vegar vilja ganga lengra og ganga að skattstofni í sjóðum lífeyrissjóða. Þetta yrði framkvæmt þannig að eignum Lífeyrissjóða yrði skipt í tvo flokka, Lífeyrir og skattur, eignasamsetning yrði þannig hin sama hjá báðum flokkum. Síðan þegar kæmi að endurfjárfestingu eða gjalddögum þessa eigna yrði 63% haldið eftir í lífeyri en skatturinn færi í ríkissjóð. Með þessu væri komið í veg fyrir að lausafjárskortur myndaðist auk þess sem stór hluti eigna lífeyrissjóða eru ríkisskuldabréf (þannig að ríkishlutinn væri að stórum til skuld við ríkið)
Veit að þetta flækir málin verulega en þetta myndar 660 ma.kr. eign hjá ríki og sveitarfélögum og flýtir fyrir tekjumyndun hjá hinu opinbera.
Miðað við vænt útgjöld okkar vegna IceSave veitir víst ekki af því :)
Kveðja
Pétur
Pétur Richter (IP-tala skráð) 21.6.2009 kl. 21:43
Mér hugnast þessi hugmynd betur eftir því sem ég velti henni meira fyrir mér. Nú er það á okkar ábyrgð að kynna hana fyrir okkar fólki Vilhjálmur.
Þau munu vafalaust þurfa einhverja aðstoð til að hlusta á tillögur frá Sjálfstæðisflokknum. Hann er ekki sérlega hátt skrifaður hjá mér og mínum þessi misserin, en við höfum ekki efni á að skoða ekki allar góðar hugmyndir.
Baldvin Jónsson, 22.6.2009 kl. 23:02
Þórarinn var sorglega lélegur í Kastljósi í kvöld en að sama skapi var Tryggvi ekki nógu góður. Sennilega af því að Þórainn talar mikið þegar hann talar ...
Þetta er leið sem þarf að skoða í botn og sennilega hjálpar þetta til við endurreisnina. Þó þarf að tryggja að sparnaðurinn sem fer inn í þessa sérstöku sjóði verði ekki skattlagður aftur síðar meir.
Villi, er hægt að treysta á því að á þessa tillögu verði hlustað? Mun Jóhanna og hennar þýði vilja taka við svona tillögum frá Sjöllunum? Eða dettur hún í frasasmiðjuna aftur?
Árni (IP-tala skráð) 22.6.2009 kl. 23:59
Hallarekstur ríkisjóðs vegna sparnaðar er allt annað en hallrekstur sem fer í neyslu og er jafnvel til bóta fyrir hagkerfið, til dæmis vegna þess að á lífeyrisjóðunum er kvöð um fjárfestingar í atvinnulífinu og sem er eitt lykil atriðið í háu atvinnustigi á íslandi.
Þegar ég sagði hér ofar að ég sæi ekki að það skipti miklu máli hvort ríkisjóður sé rekinn með halla sem sköttunum nemur, nú eða seinna. Þá átti ég við að peningar sem lífeyrissjóðirnir taka til sín eru þess eðlis að fara að undir koddann (ríkisskuldabréf) og eru því ekki jafn virkir í hagkerfinu í samtímanum eins og til dæmis beinar launagreiðslur og útgjöld ríkissjóðs til framkvæmda. Það er því að nokkru hægt að líta á frestun skatta nú af lífeysjóðsgreiðslum sem prentun á peningum sem ekki eru settir í umferð fyrr en lífeyrinn kemur til útgreiðslu. Niðurstaða mín er því sú að þetta sé lagfæring á bókhaldi sem vissulega er til bóta ef eingöngu er rýnt í bókhald en skiptri litlu eða engu máli fyrir raun hagkerfið.
Ég er samt ekki að segja að þetta sé afleit, aðeins að benda á að þetta er ekki það sama og að skera niður í ríkisrekstrinum jafnvel þó þetta lækki hallan á ríkissjóði mörgum sinnum meira.
Guðmundur Jónsson, 23.6.2009 kl. 09:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.