Dauði af þúsund sárum

Umræðan er um þessar mundir í millibilsástandi.  Meðan beðið er eftir niðurstöðum rannsóknarnefndar, FME og sérstaks saksóknara, leka fréttir út í dropatali, og valda hneykslan og reiði, en viðföngin reyna að svara eftir föngum með yfirlýsingum. Andrúmsloftið einkennist af tortryggni og vantrausti, sem er lamandi fyrir uppbyggingu og nýsköpun.

Dropatalsfréttamennskan hefur marga óæskilega vinkla.  Hver velur dropana sem leka út?  Vald þess sem því stjórnar er mikið.  Og það er mjög erfitt að verjast slíkri taktík, að því marki sem málsvarnir eru til staðar.  Þá heldur hún við ástandi svartsýni og reiði svo mánuðum skiptir.  Blaðamenn þurfa ef til vill að spyrja sig, hvort verið sé að nota þá í eigingjörnum tilgangi, og hvort þeir séu að gegna þeirri skyldu að draga upp heildarmynd þar sem jafnvægis er gætt.

Það er klárlega öllum í hag að rannsóknir og upplýsing þess sem hér gerðist gangi hratt og vel, svo skapa megi traust á ný.  Þá er líka nauðsynlegt að rannsóknaraðilar upplýsi eftir föngum, með reglubundnum og hlutlægum hætti, hvernig rannsóknum miðar, svo fólk missi ekki þolinmæðina.

Ég hef áður stungið upp á því að settur verði upp nokkurs konar sannleiksvettvangur að suður-afrískri fyrirmynd, t.d. á vegum Alþingis og/eða rannsóknanefndar.  Þar verði kallaðir fyrir allir lykil-leikendur í atburðarásinni, úr viðskiptalífi, embættismenn og stjórnmálamenn, og spurðir út úr fyrir opnum tjöldum og í beinni útsendingu.  Markmiðið væri að leiða sannleikann í ljós og að bregða upp heildstæðri mynd af því sem gerðist, í formlegum farvegi, sem væri miklu betri en dropafréttamennskan.

Á meðan millibilsástandið varir, er hætta á að viðskiptalífið (og hagkerfið) deyi drottni sínum af þúsund sárum - það sem á ensku heitir death by a thousand cuts. Það væri sorglegt ef svo færi, því þá er skaðinn, fyrir allan almenning, meiri en hann þyrfti að vera.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það á einfaldlega að setja upp heimasíðu með debet og kredit fyrir hverja einustu fjármálastofnun sem ríkið yfirtekur.

Ég sting upp á þér sem yfirumsjónarmanni og forritara fyrir slíka síðu. Nú er lag að koma í veg fyrir kjaftasögur með góðri upplýsingagjöf.

Það er óþolandi að þeir (skattgreiðendur) sem eiga að borga allan óskundann megi ekki fá að vita neitt um hvert peningarnir fara.

Theódór Norðkvist (IP-tala skráð) 23.3.2009 kl. 14:42

2 identicon

"Það er klárlega öllum í hag að rannsóknir og upplýsing þess sem hér gerðist gangi hratt og vel, svo skapa megi traust á ný."

Það má vel vera. Hins vegar væri barnalegt að ætla að allir væru áfram um að upplýsa og rannsaka.

Þá er trú manna á sérstakan saksóknara ráðgáta út af fyrir sig.

http://larahanna.blog.is/blog/larahanna/video/7472/

Mér sýnist vandamálið ekki aðeins vera skortur á fjölmiðlaþjálfun. Því miður. 

Rómverji (IP-tala skráð) 23.3.2009 kl. 17:59

3 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég tek undir með þér varðandi sannleiksnefndina, enda mælt margoft með þeirri leið.  En við skulum þó vara okkur á því, að sú leið er mjög seinfarin.

Marinó G. Njálsson, 24.3.2009 kl. 00:31

4 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Sæll Villi,

ég hef kallað þessa dropatalningu; " að tilkynna um lát ástvinar í þrepum" og allir vita að það er grimmd og skortur á mannréttindum og kærleik.

Hefði viljað að hleypt hefði verið frá krönum strax í haust, og er sannfærð um að andleg heilsa og sálarástand þjóðarinnar væri betra.

Þú þarft að vita sannleikann, hversu sár sem hann er, til þess að geta tekist á við afleiðingarnar, og byggja upp á nýju.  

Þessar smáslettur eru einfaldlega verri píning en Guantanamo, sem öll heimsbyggðin formælir og á nú að loka endanlega.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 24.3.2009 kl. 02:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband