9.3.2009 | 21:46
Þvílíkur munur...
... að hlusta á ópólitískan fagmann í hlutverki ráðherra, eins og Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra er, í viðtölum á borð við Kastljósið í kvöld.
Viðtalið er afslappað og málefnalegt, staðreyndir á hreinu, ráðherrann þekkir sitt svið, og áhorfendur eru blessunarlega lausir við hundleiðinlegt stagl um hvaða flokkur gerði hvað og hvenær í fortíðinni.
Við gætum fengið meira af svona ef við breytum stjórnarskránni og förum að kjósa framkvæmdavaldið í beinni kosningu. Ég geri mér grein fyrir að þar mun fleira en faglegheit koma við sögu, því miður, en stjórnsýslan verður samt verulega betri með því móti. Og eins og Obama sýnir í Bandaríkjunum, er ekki útilokað að ráðherrar verði í einhverjum tilvikum valdir þvert á flokkslínur, til að skapa sátt og auðvelda ríkisstjórninni að vinna stuðning Alþingis sem verður vonandi sjálfstæðara en nú er.
Nú er bara að bretta upp ermar og drífa í að halda stjórnlagaþing. Ég hef að vísu efasemdir um að það þurfi 41 fulltrúa í 18 mánuði til þess að laga stjórnarskrána, en það er aukaatriði í stóra samhenginu. Aðalatriðið er að bæta grunn íslenska stjórnkerfisins. Án þess munum við sækja aftur í sama farið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Við erum sammála þessu með stjórnlagaþingið og það er nokkuð sem hreinlega verður að gera. Aftur á móti hef ég efasemdir ákveðnar efasemdir um að verið sé að ganga til verks að heildinum. Samkvæmt aðila sem hefur séð frumvarpsdrög um stjórnlagaþing, þá er gert ráð fyrir að kosið verði um 41 fulltrúa og 41 til vara. Gott og vel, má deila um fjöldann svo sem en það er ekki aðalvandamálið. Það sem plagaði þennan aðila og veldur mér áhyggjum, er að í þessum drögum, þá þurfa þeir sem bjóða sig til fram til stjórnlagaþings, að hafa þó nokkra meðmælendur hver og hver meðmælandi þarf að að vera vottaður af tveimur aðilum til viðbótar.
Það má því segja að ef maður ætlaði að bjóða sig fram til stjórnlagaþingsins, þá þyrfti maður annað hvort að boða til ættarmóts eða vera með öfluga maskínu á bak við sig. Hverjir hafa þá maskínu? Eru það ekki einmitt fjórflokkarnir eða öflugir þrýstihópar? Og hversvegna eiga þeir einir að koma að þessu?
Ég hræðist meira það að þetta verði í valdi fjórflokkanaa og lobby-istana á bak við þá, að semja stjórnarskrána en að stjórnlagaþnigið verði ekki. Við þurfum því að þrýsta á að þetta verði ekki efitr þeim leikreglum sem þeir vilja setja til að drottna yfir þinginu, heldur fremur að þarna verði frekar dregið út með hlutkesti eða á annan hátt, sem gerir þjóðinni kleyft að setja sína eigin stjórnarskrá en ekki pólitískt baktjaldamakk sem skilar okkur enn fastar í krumlu flokksræðisns.
AK-72, 9.3.2009 kl. 22:41
Það er rétt að samkvæmt frumvarpinu um stjórnlagaþingið, sem sjá má hér, þarf frambjóðandi að safna 50 meðmælendum, og hver undirskrift þarf að vera vottuð af tveimur vottum. En það er ekkert sem bannar sömu vottana á fleiri en einni undirskrift (jafnvel öllum!).
Mér finnst þetta svo sem ekki óhóflegt, það er varla líklegt að frambjóðandi sem á í erfiðleikum með að safna 50 meðmælendum hljóti kosningu.
Mér líst ekki á að allir þingfulltrúar verði valdir með hlutkesti; þetta er einmitt sú tegund verkefnis sem fulltrúalýðræði hentar ágætlega til að leysa.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 9.3.2009 kl. 23:47
Það er ekki nema von að tortryggni gæti varðandi framboðið til Stjórnlagaþings eins og AK bendir á. Ég er í þeim hópi sem stendur að síðunni www.nyttlydveldi.is og gleðst yfir því að frumvarp um málið sé komið fram á Alþingi.
Efnislega gangrýni ég ekki frumvarpið og vona að það fái afgreiðslu. Fjöldi þingfulltrúa og lengd þingsins held ég að sé ekki hindrun og ekki heldur fjöldi meðmælenda.
Ef einhver tregða verður á málinu, þá er síðan til staðar og þá er bara að spýta í lófana og skrifa undir áskorun sem þar er að finna.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 9.3.2009 kl. 23:48
Það má nota bæði úrtak, tilnefningu og kosningar til að velja á þingið. Með tilnefningu á ég við að hægt sé að tilnefna einhvern sem maður vill sjá á þinginu, þó viðkomandi hafi ekki boðið sig fram, einhver sem maður þekkir persónulega sem dæmi, eða þekkir bara ekki neitt. Síðan er hverjum og einum frjálst að bjóða sig fram. Þetta eru 3 aðferðir og 3 hópar. Úr hverjum hópi gætu komið 14 - 15 fulltrúar.
Bara hugmynd, við þurfum ekki að fara bara eina leið til að ná takmarkinu, það liggja allar leiðir til Rómar.
Toni (IP-tala skráð) 10.3.2009 kl. 00:46
Munurinn á milli viðskiptaráðherra fyrr og nú er ekki svo mikill, þar sem Björgvin G Sigurðsson er sérlega kurteis og prúður viðmælandi og lætur þrasið um hver gerð hvað, að mestu vera.
Dómsmálaráðherrann fyrr og nú eru eins og svart og hvítt að þessu leiti. Þau Gylfi og Björg eru bæði afar málefnaleg og tala um málin án stjórnmálaþvaðurs.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 10.3.2009 kl. 09:48
Björgvin er vissulega afar skýr og greinargóður, Hólmfríður, en það verður ekki undan því vikist að hann hafði ekki reynslu, menntun eða annan bakgrunn sem æskilegt hefði verið að hafa í þessu sérhæfða og krefjandi starfi. En það hafði sennilega enginn í þingflokki Samfylkingar, að þeim alveg ólöstuðum sem stjórnmálamönnum, og jafnvel enginn á þingi ef út í það er farið. Sem er akkúrat minn punktur.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 10.3.2009 kl. 10:36
Toni, fólk getur vel "tilnefnt" eða skorað á einstaklinga að bjóða sig fram til stjórnlagaþings - það er ekkert sem kemur í veg fyrir það, svo sem.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 10.3.2009 kl. 10:37
Það er rétt hjá þér Vilhjálmur en kannski ekki kjarni málsins. Sú hugmynd að velja fólk með hlutkesti hefur komið fram því margt fólk hefur áhyggjur af áhrifum stjórnmálahreyfinga og "valdamanna" á þingið. Tilnefning opnar fyrir eina leið enn á þingið. Framboð gefur síðan þeim sem telja sig verðuga til að starfa á þessu þingi. Fjölbreytileikinn mun sennilega hafa áhrif á hvernig til tekst.
Ég nota orðið verðuga því að ég tel að þeir sem veljast á þingið þurfa að hafa það í huga að þetta er þjónusta. Þingið mun vinna fyrir komandi kynslóðir en ekki þær sem lagt hafa landið í rúst í enn eitt skiptið. Þess vegna erum við ekki þess verðug að sitja á þessu þingi. Og við verðum að hafa í huga hvernig komandi kynslóðum mun reiða af með þá stjórnarskrá sem verður afrakstur þessa þings, frekar en hvernig okkur mun reiða af.
Toni (IP-tala skráð) 10.3.2009 kl. 12:00
Sammála VIlla í öllum aðalatriðum.
Finnst þó líka að við ættum að hafa einungis eitt kjördæmi og möguleika á einstaklingskosningum - þvert á lista. Mér hefur fundist það skelfilegt að þurfa að styðja "ónýta" frambjóðendur vilji maður styðja suma sem og hin afleiddu og afleitu áhrif af "uppbótarsætum" og misvægi atkvæða.
Vilji flokkarnir stilla upp lista í kosningum í einu kjördæmi, geta þeir tekið tillit til "kjördæma" í sinni heimavinnu, prófkjörum, uppstillingum o.þ.h.
Í núverandi kosningakerfi hefðu flokkarnir getað still upp málsvörum málaflokka sem svo væru ráðherraefni en því miður var það aldrei gert (af neinni alvöru) þannig að við höfum aldrei vitað hverskonar lið sæti í ráðherrastólum fyrr en eftir á.
Kristinn Örn Jóhannesson, 10.3.2009 kl. 12:15
Þó ég sé sammála um nauðsyn breytinga á kosningalöggjöf og um nauðsyn stjórnlagaþings þá sá ég ekki þennan jákvæða mun sem Villhjálmur talar um ég horfði á viðskiptaráðherra án framtíðarsýnar, sveigja hjá flestum spurningum þ.e. svaraði eins og atvinnupólitíkus/embættismaður án jarðtengingar. Þær hugmyndir sem eru uppi um stjórnlagaþing eru að mínu mati fáránlegar þ.e. að menn eigi að bjóða sig fram og fara í einhvern kosningaslag til að komast á það þing. Þá fáum við ekki þann þverskurð af þjóðinni sem við þurfum. Eina skynsamlega leiðin er að velja slembiúrtak + kannski 10 ráðgjafa sem hefðu ekki kosningarétt.
Gunnar Hermannsson (IP-tala skráð) 10.3.2009 kl. 14:35
Faglegu ráðherrarnir eru að standa sig!
Himin og haf skilur á milli flokkseignarráðherra sl. ríkisstjórna og þeirra tveggja sem gegna nú stöðu dóms- og viðskiptaráðherra. Ekkert gaspur í gangi þar heldur verkin látin tala. Þessi ráðning Evu Joly gerir rannsókn á því sem gerðist í fyrsta sinn trúverðuga og faglega.
Það væri aldeilis munur ef við gætum ráðið svona fólk í ráðherrastólana í staðinn fyrir vanhæfa framapotara allra flokkeigendafélaganna.
Ævar Rafn Kjartansson, 10.3.2009 kl. 15:27
Sæll Vilhjálmur.
Ég held að það þurfi ekki endilega ópólitískan ráðherra til að hann geti tjáð sig afslappað og málefnalega, hafi staðreyndir á hreinu og þekki sitt svið. Við þurfum til þess fólk á Alþingi með þekkingu og reynslu. Slíkt fólk í ráðherrastólum getur þetta allt saman, alveg jafn vel og ópólitísku ráðherrarnir.
Verð hins vegar seint sammála þér um mikilvægi stjórnlagaþing - nema við getum sameinast um að telja það eiga að vera tiltölulega fámennt - yfir fjörutíu manns finnst mér fráleitt - og að það eigi að ganga vasklega og hratt til verks.
Bestu þakkir fyrir góða pistla.
Dögg
Dögg Pálsdóttir, 10.3.2009 kl. 16:16
Vilhjálmur, ég er svo sammála þér...og það eina sem í raun kemur í veg fyrir að maður sé hreinlega viti sínu fjær vegna vantrausts á misvitrum stjórnmálamönnum er nærvera Gylfa Magnússonar.
Ég ætla rétt að vona að sá tími sé liðinn að tilteknir pólitíkusar séu taldir eiga rétt á ráðherraembætti, viðkomandi sé talinn hafa unnið fyrir því, röðin sé kominn að honum, eða vegna þess að tiltekið kjördæmi sé talið eigi tilkall til ráðherraembættis.
Atli Hermannsson., 10.3.2009 kl. 19:40
Faglegt fólk er æskilegt í alla stólana að mínum dómi. Hvaða gagn gerir póslistískur ráðherra? Fólk þarf að hafa vissan lærdóm og þekkingu til að geta unnið hluti af viti. Og í þokkabót mun verða minna, mun minna, um blekkingar sem pólitíkusar oft valda.
EE elle (IP-tala skráð) 10.3.2009 kl. 20:50
Ekki póslistíkur, heldur pólitískur.
EE elle (IP-tala skráð) 10.3.2009 kl. 21:06
Kristinn Örn, ég er sammála þér um að það er ekki nóg að flokkar geti stillt upp óröðuðum lista eins og nú stendur til. Ég vil að kjósendur geti valið einstaklinga á milli lista, það er grundvallarbreyting sem mun veikja flokksræðið, styrkja sjálfstæði þingsins, og hleypa nýjum hópi hæfra einstaklinga inn á þing.
Gunnar og Toni, það mætti vel hugsa sér að stjórnlagaþingið hefði frumkvæði að því að safna áliti og skoðunum fólks úr öllum áttum í samfélaginu á stjórnskipaninni og hvað betur mætti fara.
Dögg, við verðum bara að vera sammála um að vera ósammála ;-)
Atli og EE, pólitískir ráðherrar henta misvel eftir embættum, og kannski síst í hrein fagráðuneyti eins og viðskiptaráðuneytið er. En best væri að fá ákveðna blöndu pólitíkur og faglegheita, sem ég tel að náist með beinu kjöri framkvæmdavaldsins.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 10.3.2009 kl. 22:01
"Ég vil að kjósendur geti valið einstaklinga á milli lista" Ég hef sagt það sama við fólk og skrifað um það og það hefur verið skotið niður. Hins vegar finnst mér það samt. Og held að þannig náist að veikja flokksræðið eins og þú lýsir.
EE elle (IP-tala skráð) 10.3.2009 kl. 22:38
Eitt það mesta hugrekkisverk sem var unnið á síðustu mánuðum var að ráða fagmenn í ráðherraembætti.
Klingjandi tær skilaboðin frá þeim grafa nefnilega undan öllum atvinnupólítíkusum fyrr og síðar, með sína einkennilegu hálfíslensku.
Kristleifur Daðason (IP-tala skráð) 11.3.2009 kl. 11:06
Í Noregi eru ráðherrar ekki þingmenn. Ef þingmaður verður ráðherra afsalar hann sér þingsæti og varamaður kemur inn. Annars er algegnt að ráðherrar eru flokksmenn sem kallaðir verða til. verksins.
Jónas Skar Störe var að vinna hjá Rauða Krossinn þegar hann var beðin um að verða úranríkisráðherra.
Það er mjög goð reynslu af þessu fyrirkomulagi.
Heidi Strand, 18.3.2009 kl. 16:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.