Hrunið í máli og myndum

Á morgun, laugardag 21. febrúar, verður Hjálmar Gíslason hjá DataMarket með afar áhugaverða kynningu á fundi Hugmyndaráðuneytisins.  Uppleggið er svohljóðandi:

Gegnsæi, óhindrað aðgengi að upplýsingum og nýting gagna við upplýsta ákvarðanatöku eru allt lykilatriði fyrir Næsta Ísland og raunar heiminn allan við að vinda ofan af vantrausti í stjórnmálum, fjármálum og fyrirtækjarekstri.

Farið verður í gegnum hvernig hægt er að breyta þurrum gögnum í gagnlegar upplýsingar og jafnvel hreina afþreyingu með myndrænni framsetningu og bættu aðgengi.

Hugmyndaráðuneytið sjálft verður krufið til mergjar og skoðað hvernig sprotafyrirtæki og frumkvöðlar geta nýtt og miðlað upplýsingum sér til framdráttar.

Fjallað verður um nýstárlegar aðferðir við “algert gegnsæi” í fyrirtækjarekstri og að lokum kafað ofan í gögn sem varpa ljósi á ris og fall íslenska hagkerfisins - gögn sem hefðu getað varað við þróuninni miklu fyrr ef einhver hefði verið að horfa á mælana.

Fundurinn verður haldinn á veitingastaðnum Balthazar við Ingólfstorg (áður Victor, sjá kort). Fundurinn hefst kl 16:30 og er öllum opinn, en gott ef þeir sem ætla að mæta skrá sig á Facebook síðu samkomunnar.

Ég  veit að þetta verður mjög myndrænt og sláandi.  Hjálmar hefur gert upplýsandi líkön af fjárlögum 2009 og af staðgreiðslukerfi tekjuskatta, og ég veit að hann er með margt fleira í farteskinu sem við fáum að kíkja á á morgun.  Mæli með þessu.

P.S. Til hamingju Ísland með það mat skilanefndar Landsbankans að reikningur skattborgara vegna Icesave verði "aðeins" 72 milljarðar króna!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Frosti Sigurjónsson

Þetta verður mjög fróðlegt. Mæti!

P.S. Villi, frábærar samantektir um skuldir þjóðarinnar. Hefur þú annars nokkuð náð að giska á heildarverðmæti eigna þjóðarinnar? Fiskur, orka, vatn, menntun,... etc.

Frosti Sigurjónsson, 20.2.2009 kl. 16:15

2 identicon

Villi, ég hlakka sömuleiðis til að fá þessa kynningu á laugaradginn. Vona að salurinn þarna verði nægjanlega stór fyrir alla!

Frosti, það væri afar áhugavert að giska á þessi heildarverðmæti! Hinsvegar að þá varpaði ég upp þessari umhugsun varðandi íslenska nýsköpun og þá eign þjóðarinnar í mannuðnum, sjá: http://www.hugmyndaraduneytid.is/?p=394

Guðjón Már Guðjónsson (IP-tala skráð) 20.2.2009 kl. 18:42

3 identicon

Vilhjálmur.

Ættir þú ekki að segja: Til hamingju Bjöggar með það mat Skilanefndar Landsbankans að reikningurinn ykkar vegna Icesave verði aðeins "72" milljarðar króna.

Ekki ætlist þið Lárus Finnbogason hjá Skilanefndinni til að íslenskir skattgreiðendur borgi brúsann?

Fyrri eigendum, forstjórum og stjórnarmeðlimum ber skylda til að setja hverja einustu krónu sem þeir eiga í púkk til að mæta þessum útgjöldum.

Maður vonar náttúrulega að reikningurinn verði sem lægstur - þeim mun minna lendir á íslenskum skattgreiðendum.

TH (IP-tala skráð) 21.2.2009 kl. 23:11

4 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Torfi, eins og þú veist mætavel snýst þetta mál um Tryggingasjóð innstæðueigenda sem er skuldbundinn skv. lögum (a.m.k. að margra mati) til að greiða eigendum Icesave reikninga 20.887 evrur á hvern reikning.  Eins og skilanefnd Landsbankans metur stöðuna núna, eftir mat á eignum og skuldum bankans eftir afskriftir, lendir nettókrafa upp á 72 milljarða á þeim sjóði.

Svo geta menn deilt um hvernig á endanum eigi að gera upp þessa skuldbindingu.  Ég hef hvatt til þess að í samningum við Breta og Hollendinga verði leitast við að deila tapinu í einhverjum hlutföllum milli þjóðanna enda sé skaðabótaskylda ekki ótvíræð umfram upphæðina sem í Tryggingasjóðnum er (ca. 19 milljarða), og hins vegar vegna þess að aðgerðir Breta hafi skaðað hag Landsbankans.

Ábyrgðin á því að þessi tryggingaskuldbinding varð svo stór sem raun ber vitni, liggur vitaskuld að verulegu leyti hjá stjórnendum Landsbankans, en einnig hjá íslenskum yfirvöldum og eftirliti sem hefðu átt að grípa inn í atburðarásina og gæta með því hagsmuna Tryggingasjóðsins og skattgreiðenda.  Þá er mjög mikilvægt að rannsakað sé og fram komi hvað stóð í vegi fyrir að ábyrgðin á Icesave flyttist í breska lögsögu eins og viðræður voru um allt síðasta sumar og með endurnýjuðum krafti síðustu vikurnar fyrir hrun.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 22.2.2009 kl. 16:57

5 identicon

Fyrir þá sem hafa áhuga eru glærurnar með fyrirlestri mínum sem þú minnist á í færslunni orðnar aðgengilegar hér: http://www.slideshare.net/hjalli/ggn-gagnsemi-og-gegnsi

Hjálmar Gíslason (IP-tala skráð) 22.2.2009 kl. 23:58

6 identicon

Sæll Vilhjálmur,

vil benda þér á eftirfarandi fréttaskýringu: http://www.pbs.org/wgbh/pages/frontline/meltdown/view/ Sérstaklega fróðlegt og vel unnið (eins og flest sem kemur frá PBS). Hún sýnir Hrunið í máli og myndum.

Jón (IP-tala skráð) 24.2.2009 kl. 09:29

7 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Sæll Jón, og þakka tengilinn.  Er búinn að skoða þetta og tek undir meðmæli þín.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 24.2.2009 kl. 23:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband