29.1.2009 | 12:47
Eignafrysting og lögfræði
Var að lesa grein Álfheiðar Ingadóttur þingkonu VG í Mogganum í morgun og fannst lögfræðin dálítið vefjast fyrir henni eins og fleirum í umræðunni um eignafrystingu "auðmanna" og ábyrgð.
- Það þarf að gera greinarmun á einkaréttarlegri ábyrgð og refsiréttarlegri ábyrgð. Álfheiður vitnar í málaferli nafna míns Bjarnasonar gegn stjórn Glitnis vegna mismununar hluthafa, þegar bankinn keypti bréf af Bjarna Ármannssyni á hærra verði en gerðist á markaði, og hneykslast á FME og efnahagsbrotadeild og fleirum fyrir að hafa ekki gripið inn í það mál. Þar var um að ræða brot (skv. héraðsdómi) á ákvæðum hlutafélagalaga um bann við mismunun hluthafa (76. gr. laga nr. 2/1995). Það er ekki refsiréttarbrot. Sama gildir um alls kyns gjörninga sem bankarnir lögðust í á síðustu vikum sínum: ef ekki er um að ræða fjárdrátt eða stuld, heldur einfaldlega vondar viðskiptaákvarðanir, þá heyra þær ekki undir refsirétt - hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Hluthafar og lánardrottnar gætu á hinn bóginn átt einkaréttarlegar skaðabótakröfur á bankann, stjórn hans og/eða stjórnendur, ef þeir hygluðu stórum hluthöfum á kostnað annarra eða brugðust í því að gæta hagsmuna félagsins með tilhlýðilegum hætti. (En reyndar er bannað að fara í mál við gömlu bankana skv. neyðarlögunum!)
- Eðli hlutafélags er að eigendur þess, hluthafarnir, bera aðeins ábyrgð á félaginu með hlutum sínum í því. Þetta er lánardrottnum og öðrum fullkunnugt um þegar þeir ákveða að lána félaginu eða eiga við það viðskipti, og er ástæða þess að hlutafélögum er gert að einkenna sig með skammstöfuninni hf. Það er því ekki unnt að sækja meintar skaðabætur vegna reksturs bankanna til hluthafa þeirra. Það er hægt að draga stjórnarmenn persónulega til ábyrgðar en ekki hluthafana sem slíka. Það er því afar hæpinn lagafótur fyrir því að kyrrsetja eigur hluthafa vegna þess sem kann að hafa gerst innan hlutafélags - hvort sem mönnum líkar betur eða verr.
- Og svo er lífseigur misskilningurinn sem ég hef áður fjallað um í bloggi, að ríkið eða almenningur beri beina ábyrgð á skuldum eða skuldbindingum gömlu bankanna. Svo er ekki, fyrir utan Icesave sem gerði út á Tryggingasjóð innstæðueigenda eins og kunnugt er. Tap af kjánalegum ákvörðunum í Kaupþingi og Glitni bitnar harðast á hluthöfum bankans (sem tapa öllu sínu), og næstharðast á lánardrottnum (sem tapa næstum því öllu sínu). Vissulega eru Seðlabanki og lífeyrissjóðir í þessum hópi og óbeint tap almennings er gríðarlegt. En því miður hefðu bankarnir hrunið hvort sem er, þeir voru dauðadæmdir í þessari stærð með engan lánveitanda til þrautavara í erlendum gjaldeyri. Og, sannast sagna, telja jafnvel milljarðatugir aðeins í brotum úr prósenti í skilum þrotabúanna til lánardrottna. Skaðinn var skeður - hvort sem mönnum líkar betur eða verr.
Þrátt fyrir reiðina, sem er skiljanleg, verður að leyfa réttarríkinu að hafa sinn gang. Rannsóknir á refsiréttarbrotum verða að fara fram með öruggum hætti þannig að þær spillist ekki af óvönduðum vinnubrögðum eins og dæmi eru um. Rannsóknanefndin nýstofnaða, sem ætlað er að gera upp við hrunið að öðru leyti en því sem heyrir undir refsirétt, verður vonandi eins og sannleiksnefndin sem reyndist vel í Suður-Afríku. Aðalatriðið er að fá fram rétta heildarmynd af því sem gerðist og siðferðilegt uppgjör í kjölfarið. En tilraunir til afturvirkra lagabreytinga, eða eignafrysting án þess að rökstuddur grunur um brot á gildandi lögum liggi fyrir, enda bara með skömm fyrir Hæstarétti eða Mannréttindadómstóli Evrópu, og það ætti þingmaðurinn Álfheiður Ingadóttir að vita.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:51 | Facebook
Athugasemdir
Það væri nú óskandi að bæði fjölmiðlafólk og þingmenn kynntu sér nú aðeins staðreyndir málsins áður en þau vaða með svona vitleysu í fólk. Við (Ísland og Íslendingar) erum í nógu erfiðum málum, svo við búum ekki til frekari misskilning sem eykur enn meira á reiðina.
Takk fyrir góð og skýr skrif.
-jas (IP-tala skráð) 29.1.2009 kl. 14:45
Sæll Vilhjálmur.
Bara til að upplýsa þig þá verður hér ekkert réttarríki ef ekki verður farið í frysta eignir þeirra sem settu þjóðina á hausinn á meðan rannsóknarnefndin er að störfum. Málið snýr að innan við 30 aðilum (stærstu bankaeigendunum) sem fengið hafa sérmeðferð umfram aðra landsmenn. Minni á eftirfarandi staðreyndir:
Sett voru neyðarlög og gjaldeyrishöft á almenning á Íslandi í október. Með því voru stjórnvöld að tryggja að eignir landsmanna (í formi gjaldeyris) yrðu ekki fluttar úr landi - sem sagt frystar. Neyðarlög. Stærsta fangelsi í Evrópu.
Bretar settu lög á Landsbankann og tóku yfir Kaupþing í Englandi í október. Með því voru bresk stjórnvöld að tryggja að eignir (í formi gjaldeyris) yrðu ekki fluttar úr landi - sem sagt frystar. Neyðarlög. Fjöldi manns á peninga þarna inni og hefur enn ekki fengið þá.
Hollendingar, Norðmenn, Þjóðverjar, Luxemburgarar, Belgar o.fl. hafa með einum eða öðrum hætti tekið yfir eða lokað útibúum og starfsstöðvum íslensku bankanna í þessum löndum. Með því eru viðkomandi stjórnvöld að tryggja að eignir séu ekki fluttar úr landi - sem sagt frystar. Fjöldi manns á peninga þarna inni og hefur enn ekki fengið þá.
Grunur um að eigendur bankanna (sem lánuðu sjálfum sér peninga annarra m.a. án veða og eru enn fremur eru ábyrgir fyrir hruni bankanna og skuldasúpu landsmanna) hafi komið stórum fúlgum undan (sem þeir t. Ekkert gert til að koma höndum yfir verðmæti - ekkert fryst - engin neyðarlög. Geta spókað sig eins og kóngar um allan heim.
Það gildir einu hvort þetta þjóðfélag var rænt og sett á hausinn með lögmætum hætti eða ekki. Landráð með rænu eða í ógáti. Þessir menn löguðu lögin að sinni starfsemi með hjálp stjórnvalda. Menn verða að sæta ábyrgð annars verður hér ekki byggilegt.
TH (IP-tala skráð) 29.1.2009 kl. 15:28
Sad, but true, Vilhjálmur!
Flosi Kristjánsson, 29.1.2009 kl. 16:10
Ég datt hér inn í fyrsta sinn um daginn og verð að fá að þakka Vilhjálmi fyrir góða pistla. Þessi pistill um "frystingu eigna auðmanna" er einmitt dæmi um það sem okkur vantar meira af inn í þjóðfélagsumræðuna, kjarni málsins krufinn á skýran og auðskiljanlegan hátt. Ég spyr: Hvernig getum við nýtt hæfileika Vihjálms betur?
PSP (IP-tala skráð) 29.1.2009 kl. 16:17
Þetta eru fín komment Vilhjálmur, ég er samt með eina pælingu: Þú hefur lagt áherslu á ábyrgð stjórnvalda á hruninu og klárlega er þar af nógu að taka, takk fyrir það. Hins vegar er svo ábyrgð bankamanna og útrásarmanna, um það hefurðu minna fjallað nema að benda á hversu erfitt er að lögsækja þá, og leiðrétta misskilning í þeim sem vilja afhausa þá sem fyrst á Austurvelli... aftur eru þetta góðir punktar sem eru þakkar verðir, en gaman væri að sjá frá þér samantekt sem tæki á þessum 30 ríkisbubbum sem mest hafa verið í umræðunni. Ég efast ekki um að þú lumir á ýmsum fróðleiksmolum þar.
Viðar (IP-tala skráð) 29.1.2009 kl. 20:24
Já þetta er áhugaverð pæling en ég vil horfa á þetta með þessum gleraugum.
Persónulega finnst mér ótrúleg sú staðreynd að ég sem einstaklingur þarf að borga upp skuldahala fyrir óábyrga viðskiptamenn sem mér komu ekkert við. Með orðinu ég á ég við ég sem íslendingur, hluti af þjóðarbúi, þjóðarauð okkar Íslendinga. En af því að þessir einstaklingar/fyrirtæki ráku fjármálafyrirtæki þá þarf ég að borga en ef þeir hefðu átt pizza staði þá þarf ég ekki að borga.
Manni sýnist skuldapakkinn á hvert mannsbarn sé um 7-8 milljónir sem hver og einn þarf að standa skil á, að því gefnu að meðaltal fjárlagahalla næstu þriggja ára fari ekki yfir 100 milljarða á ári. Þá vona ég að eignir Landsbankans dugi fyrir vaxtagreiðslum lána og verðmæti bankana sem einhverntíman verði seldir komi þar líka við sögu.
Þess vegna finnst mér sem Íslendingi algjörlega ótækt að einhverjir "náúngar út í bæ" geti sett þennan skuldaklafa á mig. Hvort sem það er gert "löglega" eða ekki. Og með þessari röksemdafærslu vil ég í raun frysta eigur þeirra og hneppa þá í stofufangelsi á meðan rannsókn fer fram. Það eru klár fordæmi fyrir því að einstaklingar hafi verið í einangrun mánuðum saman í íslenska réttarríkinu. Þeir hafa einfaldlega gengið svo langt í sínum viðskiptum að það varðar þjóðarhag.
Ég vil líka taka mjög mikinn vara af þeim upplýsingum sem koma mjög tilviljanakennt út úr skilanefndum og FME og virðast vera "plantaðar" fréttir. Þess vegna er svo mikilvægt að frysta allt og láta það svo koma í ljós hvað er lögfræðilega rétt og rangt, hvort það séu hluthafar eða þjóðin sem á kröfur á þessa menn eða ekki eða hvort þeir hafa bara ekkert brotið af sér.
Þetta er mín skoðun, hvort sem hún stenst lögfræðina eða ekki.
Árni (IP-tala skráð) 30.1.2009 kl. 00:07
Þakka viðbrögðin, ég bjóst ekki endilega við að þau yrðu svona málefnaleg, enda fjallað um "eldfimt" efni.
TH, greiðslustöðvun banka er ekki alveg sambærileg við frystingu eigna eins og verið er að ræða hér. Enda má ætla af fréttum að talsvert margir "auðmenn" eigi einmitt eignir fastar í Kaupþingi Lúxemborg, en það er annar hlutur. Sem leiðir reyndar hugann að því að frysting eigna í erlendum bönkum er torsótt mál, nema farið sé eftir þeim lögformlegu leiðum sem til eru (og sama myndi gilda fyrir erlenda ríkisstjórn sem myndi vilja frysta eignir viðskiptavinar í íslenskum banka).
Árni, einmitt vegna sérstaks eðlis fjármálastofnana eru þær hvarvetna undir mjög ströngu eftirliti og miklu regluverki. Eftirlitið brást hér, eins og Seðlabankinn; það vanmat greinilega áhættur af krosseignatengslum, eignarhaldspýramídum, og hættu á lausafjárþurrð í erlendri mynt.
Viðar, tek undir að full ástæða er til að velta fyrir sér hvernig taka eigi á hinni viðskiptalegu ábyrgð ("30 ríkisbubbum"), sem Árni vísar líka til. Ljóst er að fólk upplifir í því efni mikið ranglæti, sem kannski verður ekki leiðrétt nema að litlu leyti í gegn um lög og rétt, a.m.k. ekki refsirétt. Þá finnst mér athyglisvert að skoða leiðir á borð við áðurnefnda sannleiksnefnd sem leitaðist við að fá fram sannleikann og að þátttakendur viðurkenndu hlutdeild sína og öxluðu siðferðilega ábyrgð gagnvart samborgurum sínum. Kannski er það heilladrýgri leið til uppgjörs (og kristilegri) en hefndir og refsingar.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 30.1.2009 kl. 00:29
... en ef menn halda að ég hafi hlíft bankamönnum við gagnrýni, þá er um að gera að rifja upp þennan texta úr fyrra bloggi mínu:
Svo var ég með stutta samantekt á því sem miður fór hjá bönkunum í þessari bloggfærslu frá 12. október 2008.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 30.1.2009 kl. 00:43
Ég sé það núna að þú hefur tekið prýðilega á þeim, hef lesið bloggið þitt svona óheppilega selektíft! Maður er annars bara svo á verði þessa dagana þegar þessir tveir hópar (stjórnmálamenn+embættismenn vs. viðskiptalífið) eru að benda á hvorn annan, það þarf að halda hvoru tveggja til haga.
Viðar (IP-tala skráð) 30.1.2009 kl. 02:58
Sæll Vihjálmur og þakkir fyrir málefnalega og rökstudda færslu. Með tilliti til þess að kosningar eru í námd, þá eru frystingartillögur VG skiljanlegar og "góð beita", en rökfræðilega mjög slakar.
Önnur "góð beita" kom svo frá formanni VG í gær varðandi kísilþynnuverksmiðju á Húsavík með vinnu fyrir ca 300 manns. Steingrímur J Sigfússon talaði jákvætt um málið, hefur lækkað röddina, reiðitónninn farinn og bros í augunum.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 30.1.2009 kl. 07:06
Já, Hólmfríður, það er gott að fá á hreint að Steingrímur er ekki á móti stóriðju, og þá tilheyrandi virkjunum, ef um er að ræða umhverfisvænni starfsemi en álver.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 30.1.2009 kl. 10:21
Já það er stór munur á siðferðislega röngu og lögfræðilega röngu.
Þó er enginn huggun í þeirri staðreynd að þeir embættismenn sem áttu að gæta hags okkar þ.e.a.s. N-30 þýðisins stóðu sig enganveginn. Það er heldur ekki okkur að kenna að virtar endurskoðunarskrifstofur hafi leikið þennan leik með þeim o.s.frv. Samt situr maður uppi með reikninginn eftir partý sem manni var ekkert boðið í. Þó finnst manni mjög eðlilegt, hvernig svosem lögfræðin snýr, að þeir sem vitað er að snéru upp á kerfið og svindluðu(lugu) upp hinar ýmsu loftbólur borgi meira. Þess vegna styð ég heilshugar eignafrystingu og stofufangelsi. Ef það reynist svo ólöglegt má bara setja lögin eftirá, afturvirkt og bara fyrir nafngreinda djammara
Árni (IP-tala skráð) 30.1.2009 kl. 11:36
Ólögfræður sem ég er en langar að spyrja. Nú hafa slík eignafrystingaákvæði verið tekin upp hjá breskum og bandarískum. Kannski erfitt að rökræða um breska stjórnarskrá en eignarréttur í þeirra bandarísku er hann ekki varinn meira, ef slíkt má segja, en sá íslenski...Spyr sá sem ekki veit.
Ykkar ilmandi Síðuhaldari
Gunnar Sigurðsson (IP-tala skráð) 30.1.2009 kl. 12:25
Sæll Vilhjálmur,
Mjög góð grein.
En er ekki málið að hið svokallaða mikilhæfa regluverk hefur bara ekki virkað um allann hinn vestræna heim í ansi langan tíma. SEC viðurkennir að það hafi engan möguleika á að fylgjast með þessu í USA að nokkru viti. Sjá Madoff málið t.d.. Alþjóðavæðingin gékk í raun endanlega frá regluverki bankamála heimsins. Það getur engin fylgst með þessu.
Hvað eiga þessar eftirlits stofnanir að vera með mikið af starfsfólki?.
Hvar á að skera á endanlega ábyrgð þjóðar þegar fyrirtæki fá að lifa bara í krafti stærðar. Sjá RBS, Citigroup, AIG, o.fl. ofl..
Ég get ekki annað séð en að snillingarnir okkar ( útrásarvíkingarnir ) hafi verið með lögmenn sér við hlið allar vakandi stundir til að sjá við nákvæmlega þessari stöðu sem við erum komin í.
Fólk í þessum bransa vissi mæta vel í hvað stefndi, bara ekki hversu stórt áfallið yrði,.
Nú síðan virðist manni að nánast sé sénslaust að dæma nokkurn mann hér á landi fyrir nokkuð annað en eiturlyfja smygl.
itg (IP-tala skráð) 30.1.2009 kl. 12:56
Sú hugmynd að gera Ísland að fjármálamiðstöð og hella sér í bankarekstur var galin frá upphafi. Við höfðum engar hefðir sem heitið geta í bankarekstri og sáralítið stofnanaminni, óburðugan Seðlabanka undir pólitískri stjórn, örmynt og allt of mikla áhættusækni. Sviss kemst upp með að vera bankaland af því að þeir hafa verið í bransanum síðan á 18. öld og lifað í gegn um styrjaldir og kreppur, og eru taldir reka einn albesta seðlabanka heims. En meira að segja þeirra stærstu bankar eru í vandræðum.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 30.1.2009 kl. 14:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.