Getum við prentað peninga?

Ég hét sjálfum mér því fyrir skemmstu að koma mér upp meiri þekkingu á peningahagfræði en formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands.  Nú hef ég lesið og meðtekið nokkrar síður um málefnið á Wikipediu og tel markmiðinu hafa verið nokkuð örugglega náð.

Ein af grundvallarsetningum peningahagfræðinnar (Quantity Theory of Money) lítur svona út:

M * V = P * Q

Eða, á "mannamáli": peningamagn í umferð (M) margfaldað með veltuhraða peninganna (V), er jafnt verðlagi (P) margfölduðu með magni undirliggjandi gæða (vöru og þjónustu) sem skipta um hendur í hagkerfinu (Q).

Þetta á ekki að vera nákvæm stærðfræði, frekar en flest annað í hagfræði.  Kenningin segir þó t.d. að ef peningamagn í umferð tvöfaldast, ætti verðlag einnig að tvöfaldast, að öðru óbreyttu.  Þetta er fræg ályktun Miltons Friedmans og fleiri um að verðbólga sé fyrst og fremst peningalegt fyrirbæri.

Ef setningunni er beitt á íslenska hagkerfið fyrir hrun kemur í ljós að peningamagn í umferð (M) var mjög mikið, verðlag (P) var fremur lágt vegna sterkrar krónu, raunverðmæti í hagkerfinu (Q) voru lítil miðað við peningamagnið, og þá fæst sú niðurstaða að veltuhraði peninga (V) hljóti að hafa verið mjög lágur (V=P*Q/M).  Það getur reyndar staðist ef maður gefur sér að mikill hluti peninga hafi verið bundinn utan við raunverðmæti í hagkerfinu, þ.e. í eignarhaldspýramídum, jöklabréfum og öðrum skuldabréfum.

Núna eftir hrun viljum við væntanlega halda Q (magni vöru og þjónustu) eins ósköðuðu og hægt er. Við viljum líka halda P stöðugu, því við viljum ekki verðhjöðnun, þ.e. lækkandi P, þar sem hún hefur mjög óæskileg áhrif á fjárfestingu og áhættusækni - þá geyma allir peninga undir koddanum.  V er óljósara og þarf örugglega að hækka frá því fyrir hrun til móts við minnkun M, en það hljóta að vera til "eðlileg" gildi á V úr öðrum hagkerfum sem hægt er að nota til viðmiðunar.  M (skilgreint vítt) hefur væntanlega minnkað talsvert við hrun bankanna, við brotthvarf veðlána Seðlabanka ("ástarbréfa") og töp í sjóðum og fyrirtækjum.

Þá er það stóra spurningin:  Hvað má og á peningamagnið (M) að vera mikið?  Með öðrum orðum: getum við, og ættum við að, hreinlega prenta peninga á réttum tímapunkti og dreifa þeim um hagkerfið með sem skilvirkustum hætti (framlag til eiginfjár nýrra banka, auknar vaxtabætur, hærri atvinnuleysisbætur, o.s.frv.)?  Ef séð væri fyrir endann á verðbólgu (þ.e. ef krónan helst stöðug) og jafnvel talin hætta á verðhjöðnun (að M*V færi lækkandi), væri þá rétt að auka peningamagnið fyrirfram, halda uppi Q og milda þar með áhrif kreppunnar?

Þessu verða alvöruhagfræðingar að svara; ég er kannski á villigötum, enda bara amatör og beturvitrungur sem er búinn að lesa nokkrar síður á Wikipediu.  En þó skárri en Halldór Blöndal.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Ég er ekki hagspekingur, en mér þykir nokkuð ljóst að formaður stjórnar Seðlabankans hefi ekki verið skipaður út á sérfræðiþekkingu á peningamálum, heldur út á flokksskírteinið sitt og "vel unnin störf" við að kasta fram pólitískum stökum og háðsádeilum á Alþingi um áratugaskeið.

Það hafa greinilega verið mistök að mennta þjóðina svona mikið, því nú eru svo margir komnir með þekkingu til að sjá í gegnum fúskvinnu við ýmsa þætti í stjórnun landsins.

Harðstjórum hefur ætíð gengið betur að halda niðri fólki með takmarkaða menntun og þekkingu á réttarstöðu, fjármálastjórn og mörgu fleiru sem getur gert þá bera að spillingu og mistökum. Nú er ég kannski full stórorð, en manni getur nú blöskrað

Hólmfríður Bjarnadóttir, 28.1.2009 kl. 00:32

2 Smámynd: Baldvin Jónsson

Með mína afskaplega litlu þekkingu á þjóðhagfræði eftir ekki nema einn kúrs í faginu, að þá tel ég líklegt að þessi kenning gæti mögulega gengið ef gerðar eru ráðstafanir til þess að minnka snarlega peningamagnið í umferð aftur, þegar að peningamagnið sem þegar er til staðar fer að skila sér inn á markaðinn með hraði og stýrivextir hafa einnig lækkað mikið.

Gæti hæglega gengið með öryggisventli sem sagt - tel það líklegt.

Baldvin Jónsson, 28.1.2009 kl. 00:43

3 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Smá P.S.: Í Bandaríkjunum og Evrópu keppast nú seðlabankar við að pumpa upp M með því að dæla peningum inn í hagkerfið.  Vandinn er sá að V er gríðarlega lágt, enda gírun í kerfinu mikil, áhættusækni engin og allt frosið.  En um leið og V tekur við sér, ef/þegar kreppunni linnir, springur P upp og við fáum mikla verðbólgu í vestrænum gjaldmiðlum. Q.E.D.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 28.1.2009 kl. 00:45

4 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

P.P.S.: Hættumerkin hér voru algjörlega augljós, og mér er sagt að hagfræðingar Seðlabankans hafi vissulega séð þau og tekið undir áhyggjur erlendra kollega.  En skilaboðin voru hunsuð af bankastjórninni enda var hún ekki að fást við peningamálastjórn heldur pólitík.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 28.1.2009 kl. 00:50

5 identicon

Flottr pistill, vantar þó niðurstöðu, kannski ekki hægt að finnar niðurstöðu.

Það væri að skemmta skrattanum að fjalla um Seðlabankastjórann, hann ætti að vera í sérstakri hljóðlausri einangrun.

En það er hagfræðin. Hún ætti að flokkast sem trúarbragðarfræði frekar en raungrein eins og stærðfræði.  Þú getur beitt stærðfræðinni á biblíuna eða hagfræðina og færð jafngáfulegar niðurstöður.

Peningamálin sveiflast eftir trúnni og predikun hagfræðingaprestanna.  Og auðvitað hafa þeir áhrif bæði til góðs og ills. 

Ýmsir peningaprestar töldu þjóðinni trú um að hinn alvitri mammon leysti allt með frjálshyggjunni. Margir settu trú sína á hann en hann var bara blekking og því fór sem fór.

Tel samt að hugsuður á borð við  Vilhjálm Þorsteinsson geti með góðri áætlanagerð fundið út hvað sé best að gera í þessari ógnarkrísu sem við erum komnir í.

Kristján Sveinbjörnsson (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 00:52

6 Smámynd: Baldvin Jónsson

Þarna hittirðu samt naglann á höfuðið. Það lá fyrir allt aftur til a.m.k. október 2007 við værum komin í strand. Höfðinu var bara stungið í sandinn.

Vinnuveitandi þinn Björgólfur Thor, getur eflaust sagt þér betur frá því en ég. En sagan segir að málið sé svo einfalt að lánalínur byrjuðu að lokast á Landsbankann snemma árs 2007 og það var þess vegna og upp úr því sem Icesave hugmyndin vaknaði.

Icesave hugmyndin var eflaust vel meint, en endaði bara sem stærsta bankarán Íslandssögunnar. Davíð á stóra sök, en ekki þá stærstu að virðist.

Þú heldur að ég sé að meina Landsbankann? Nei, alls ekki. Stærsta sökin hvílir á herðum þeirra ráðamanna og stjórnsýslustofnana sem áttu að bregðast við og verja landsmenn. Það hyski horfði bara í hina áttina.

Baldvin Jónsson, 28.1.2009 kl. 01:00

7 identicon

Ég vildi óska að ráðamenn hefðu lesið sér til um hlutina á Wikipedia

Finnur (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 01:03

8 identicon

Nú nýlega kom í fréttum að vextir bandaríska seðlabankans hafa verið lækkaðir í um nánast núll prósent....... Á "mannamáli" þýðir það að USA er að auka peningaprentun....sem þýðir að dollarinn mun falla í verði sem þýðir "verðbólga"....

Jú jú við getum bara prentað krónur en það mundi þýða það að verðbólgan færi af stað í vitlausa átt og krónan mundi FALLA í verði......sem er EKKI það sem við viljum.

Hvað á að prenta mikið? Ef við viljum styrkja krónuna þá þarf að hægja á prentuninni, að öðru óbreyttu. Ef við viljum veikja krónuna nú þá setjum við bara prentvélarnar á full speed.....

NEI, við getum ekki minnkað áhrif kreppunar nú með meiri prentun, því við viljum ekki frekara fall krónunar eða meiri verðbólgu.

P hefur nú fallið eftir hrun sem hjálpar til við að lokka gjaldeyrir til landsins og þar með að viðhalda atvinnu í landinu á meðan við löppum uppá gömlu stoðirnar.

Raunverðmæti í landinu voru lág fyrir hrun miðað við peningamagn m.a. vegna þess að peningarnir voru lánsfé sem var notað í einkaneyslu í stað þess að byggja upp atvinnuvegina.....örugglega eithvað heimsmet í gangi hjá landanum þar!

Gott hjá þér að pæla í þessu, það mættu fleiri gera...

magus (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 01:07

9 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Baldvin, smá athugasemd vegna orða þinna um meinta "vinnuveitandann" Björgólf Thor, af því að í andrúmslofti dagsins finnst einhverjum svona lagað skipta máli.  Ég er stjórnarformaður CCP fyrir hönd frumkvöðlanna í því félagi.  Tveir aðrir stórir hluthafar eru Novator og General Catalyst Partners, og fulltrúar þeirra eru í stjórn félagsins ásamt mér.  Verne Holdings, sem reisir gagnaver í Keflavík, er í eigu þessara sömu tveggja hluthafa og þeir báðu mig að vera stjórnarformaður þar einnig, enda vanir mér sem hlutlausum "milligöngumanni" og þekkja minn stíl.  Þar með er það upptalið.  Ég er því ekkert sérstaklega tengdur Björgólfi Thor, þekki hann ekki persónulega, og er ekki á launum frá honum eða Novator.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 28.1.2009 kl. 01:32

10 identicon

Svarið er einfalt: Það á aldrei að prenta peninga. Það eiga ekki að vera til neinir seðlabankar til að ráðskast með verðmæti gjaldmiðla þannig að fáir, sérvaldir aðilar hagnist en allir aðrir tapi. Það er nákvæmlega það sem gerist þegar seðlabankinn prentar peninga - verðmæti hvers penings minnkar svo það þarf fleiri peninga til að kaupa sama magn af vörum. Þeir sem fá nýju peningana fyrst (ríkisstjórnin, bankarnir) geta notað þá til að kaupa vörur á "gamla verðinu" en þegar ég og þú fáum þá hefur allt hækkað í verði. Við endum á því að borga það sem fyrstu handhafarnir keyptu fyrir nýju peningana. Peningaprentun er ekkert annað en falin skattheimta. Gjaldmiðlar eiga ekki að vera verðlaus pappír sem er hægt að framleiða fyrir brotabrot af "verðmæti" þeirra. Gjaldmiðlar eiga að vera raunveruleg verðmæti. Fiskur, salt og kaffi eru betri gjaldmiðlar en íslenska krónan.

Hugsaðu þér að þrátt fyrir stöðugar tækniframfarir sem hafa gert okkur kleift að framleiða vörur betur og ódýrar, þá hækkar verð samt stöðugt. Það er bara talið gott ef verðbólga er undir 4%. Þetta er algjörlega fáránlegt. Verð ætti í rauninni stöðugt að vera að lækka. Ekki vegna verðhjöðnunar í nútímaskilningi, þar sem peningamagn dregst saman, heldur vegna þess að peningamagn helst stöðugt á meðan verðmæti aukast.

Hulda (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 04:53

11 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Ég er alveg sammála þér í prinsippinu, Hulda, og held að það sem þú nefnir sé (stór) hluti af skýringunni á óförum vestrænna hagkerfa um þessar mundir.  Ég held að það þurfi að skoða grundvöll fjármálakerfisins og finna nýjar undirstöður fyrir gjaldmiðla (og banka) þannig að blaðran blásist ekki bara aftur upp með sama hætti og fyrr.

En spurningin er hvað við ættum að gera akkúrat núna á Íslandi, til skamms tíma uns við fáum varanlegri lausnir, evru eða eitthvað enn nútímalegra.

Þrátt fyrir allt er raunhagkerfið í krónu að mestu óskaddað.  Það er helst byggingariðnaðurinn sem á sér varla viðreisnar von í bili.  Þess vegna er spurningin hvort ekki sé ráð að reyna að takmarka fyrirsjáanlegan skaða á raunhagkerfinu sem gæti orðið ef peningaskortur skellur á og/eða verðhjöðnun.  Þetta er taktík en ekki strategía.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 28.1.2009 kl. 10:43

12 identicon

Sæll Vilhjálmur og takk fyrir pistilinn. Þjóðfélagið þarf í dag menn eins og þú varst þegar þú varst ungur, menn sem framleiða vörur á heimsmælikvarða sem hægt er að selja erlendum aðilum, ég held að fáir vita hversu mikið afrek það var hjá þér að gera ADA þýðandann og fá hann vottaðann til notkunar í hernaði, en það er annað mál.

Prentun peninga er eitthvað sem verður gert í stórum stíl núna reikna ég með. Öllum niðurskurði verður kastað á hafshauga, þ.m.t. vel ígrunduðum sparnaðaráformum í heilbrigðiskerfinu, sem þó beinast ekki að heilbrigðisstarfsfólki heldur að stjórnendum í heilbrigðiskerfinu. Þú getur ímyndað þér Vilhjálmur sem dæmi, á Vesturlandi eru 9 stofnanir með tilheyrandi yfirbyggingu, hver stofnun með 4 - 6 netþjóna (samtals um 40), hver stofnun með þjónustusamning út og suður varðandi rekstur þeirra og hugbúnaðarleyfin hér og þar. Ávísun á óhagræði.

Nú, við getum gefið okkur að peningar verða prentaði í stórum stíl (vinstri stjórn í kosningashowi). Það getur frestað nokkrum vandamálum sem við þurfum að glíma við, til að mynda að hagræða í kerfinu okkar. Það getur aukið á verðbólguna talsvert, það er mikil verbólga ennþá í pípunum v/gengisfalls sem hefur enn ekki komið fram í verðlagi, það bætist þá ofan á peningaprentunina. Einnig verður miklu af því óhagræði sem verður yfirleitt til í opinbera geiranum, áfram til staðar. En það er engum til góðs og leiðir að lokum til þess að einkageirinn tekur yfir opinbera þjónustu, þeir geta auðveldlega gert hlutina með meira hagkvæmni. Ég segi að við eigum að gera opinberga geirann sambærilega hagkvæmann og einkageirinn getur best orðið, þannig komum við líka í veg fyrir einkavæðingu.

Agnar (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 12:03

13 identicon

Ég held að undirliggjandi verðmæti (Q) hafi þvert á móti verið mjög mikil .. Íslendingar neituðu sér ekki um neitt.

En svarið við spurninguni er auðvitað "nei', það verða engin verðmæti til við það að prenta peninga.

Þetta mun allt verða augljóst í í tíð næstu ríkisstjórnar, og auðvitað eins og endranær þá verður einhverju allt öðru og tilfallandi kennt um ófarirnar sem fylgja seðlaprentun..

Fransman (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 14:32

14 identicon

Ég er sammála því að það eigi að prenta peninga og dreifa þeim. Það sem þeir eru að pæla með því að sleppa því er að halda genginu uppi og vinna bug á verðbólgu, en mitt álit er (ásamt mörgum hámenntuðum sérfræðingum) að það séu ekki nógu góð rök gegn því að einfaldlega prenta peninga.

Þetta endar á því að vera spurning um hvort sé mikilvægara, að halda niðri verðbólgu eða halda uppi atvinnustigi. Mér finnst atvinnustigið umtalsverðu mikilvægara sjálfum því efnahagurinn heldur áfram að kólna á meðan atvinnuleysi er hátt.

Helgi Hrafn Gunnarsson (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 15:20

15 identicon

Ömm, sem þýðir að ég er hlynntur því að prenta peninga á fullu. Ég hélt að þeir myndu auka ríkisútgjöld og ég skil ennþá ekki hvernig mönnum detti í hug að skera niður ríkisútgjöld undir þessum kringumstæðum, og þó þyki ég grimmur þegar það kemur að ríkisútgjöldum, ég vil einkavæða hálft ríkið, bara alls ekki núna. Núna þarf að gera hið þveröfuga.

Helgi Hrafn Gunnarsson (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 15:22

16 identicon

Mikið væri gaman að sjá lært svar á mannamáli við þessari spurningu frekar en pólitískar yfirlýsingar um ástandið og notagildi seðlabanka. 

Takk fyrir samantektina,
  -Stefán 

Stefan (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 15:37

17 identicon

Örfáar athugasemdir:

Afstemmingu jöfnunnar má mun fremur rekja til aukningar á Q en minni veltuhraða peninga sem er tiltölulega stabíl stærð skv. hagrannsóknum. Q endurspeglar framleiðslustigið sem var hátt, m.a. vegna kaupmáttaraukningar umfram framleiðniaukningu.

Seðlabankar hafa kosið að nota stýrivexti fremur en peningamagn í hagstjórn sinni, en hugmyndafræðin þar að baki er sú sama...

Við mikinn framleiðsluslaka er almennt talið æskilegt að lækka vexti (auka peningamagn) til að draga úr fórnarkostnaði fjármagns og auka umsvif eins og þú bendir réttilega á.

Ekki nóg með að slík aðgerð auki umsvif heldur getur hún einnig gagnast við aðstæður þar sem æskilegt er að draga úr skuldabagga heimila og fyrirtækja, en með því að lækka nafnvexti verulega yrðu raunvextir neikvæðir með þeim afleiðingum að "hagstætt" væri að skulda.

Ástæður þess að þetta gengur ekki upp hérlendis eru tvíþættar, og ástæðurnar innbyrðis tengdar. Annars vegar er erlend skuldsetning hagkerfisins er veruleg og því væri frekari gengisveiking mjög skaðleg. Hins vegar er meginþorri skuldbindina í ISK verðtryggðar og því vonlaust að ná raunvöxtum niður á útistandandi kröfum. Þvert á móti myndu auknar verðbólguvæntingar og kaupmáttarrýrnum samhliða líklega gera skuldsettum heimilum enn erfiðara fyrir. Ef horft er til fyrirtækja myndi aukin gengisveiking og hækkandi nafnvextir skuldabréfa (vegna aukinna verðbólguvæntinga) leiða til þess að fjármagnskostnaður þeirra myndi aukast enn frekar. Íslenskt hagkerfi er því þannig uppbyggt að einskonar "Catch 22" aðstæður ríkja í peningamálum.

Það er alltaf fólgin eignatilfærsla í peningahagstjórn. Nú þarf í raun að ákveða hver er optimal tilfærsla, m.t.t. þess að viðhalda framleiðslustigi, hvetja til sparnaðar og draga úr langtímaverðbólguvæntingum. Þessi markmið stangast vissulega að ýmsu leyti á en ætli við verðum ekki bara að treysta arftaka Davíðs til að taka réttar ákvarðanir.

Hagfræðingur (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 15:41

18 identicon

Hér er smá innlegg frá Josiah Stamp;

The modern banking system manufactures money out of nothing. The process is perhaps the most astounding piece of sleight of hand that was ever invented. Banking was conceived in inequity and born in sin . . . . Bankers own the earth. Take it away from them but leave them the power to create money, and, with a flick of a pen, they will create enough money to buy it back again. . . . Take this great power away from them and all great fortunes like mine will disappear, for then this would be a better and happier world to live in. . . . But, if you want to continue to be the slaves of bankers and pay the cost of your own slavery, then let bankers continue to create money and control credit.

Hérna er svo rúmlega 40 mín heimildarmynd sem ég mæli með: Money as debt

http://video.google.com/videoplay?docid=-9050474362583451279

Gullvagninn (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 16:41

19 identicon

Þetta er líka fróðleg lesning: http://vald.org/falid_vald/kafli08.htm

Stefán (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 17:28

20 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Þakka gott innlegg, Hagfræðingur.  Ég er fyrst og fremst að vekja athygli á því að það eru ýmis verkfæri í kistunni, þar á meðal peningaprentun (sem er massíf þessa dagana í löndunum í kring um okkur).  Kannski er hún ekki skynsamleg en það þarf að hugsa sig skipulega í gegn um stöðuna og markmiðin og komast að rökstuddri niðurstöðu.

Annars til glöggvunar: með peningaprentun er ekki verið að meina bókstaflega prentun seðla á pappír, heldur að ríkissjóður og Seðlabanki "búi til peninga" með því t.d. að ríkissjóður selji Seðlabanka skuldabréf sjálfs sín og slaki út peningunum í hagkerfið.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 28.1.2009 kl. 18:11

21 Smámynd: Halldóra Halldórsdóttir

Stundum finnast ári góðar tilvitnanir sem eiga við.

"Capitalism is the astounding belief that the most wickedest of men will do the most wickedest of things for the greatest good of everyone". Keynes

og...

"If you want to see what God thinks of money, just look at all the people He gave it to".

Dorothy Parker

Halldóra Halldórsdóttir, 28.1.2009 kl. 18:42

22 Smámynd: Baldvin Jónsson

Vilhjálmur, biðst velvirðingar á þessum ummælum mínum um ætlaðan yfirmann. Skildist að þið væruð að krúnka ykkur saman varðandi netþjónabúið á Suðurnesjum. En ummælin áttu alls ekki að vera hlaðinn einhverjum meiningum öðrum en bara orðanna hljóman.

Örvun hagkerfisins í gegnum útgáfu ríkisskuldabréfa er hugmynd sem mér líkar vel, það þarf þó þá líka að stýra því að lánastofnanir láni þá peningana raunverulega áfram.

Eins og kerfið er í dag er allt frosið. Þeir segjast vera með opið en samt fær enginn fjármögnun vegna mjög stífra skilyrða.

Baldvin Jónsson, 28.1.2009 kl. 18:48

23 Smámynd: Viggó H. Viggósson

Er ekki einfaldlega búið að riðlast svo á ýmsum þáttum jöfnunar með inngripum í gegnum tíðina - sem sjálfsagt voru vel rökstudd þá og þegar, en hafa ekki gengið til baka. Verðtrygging er dæmi um slík inngrip. En "sumir" vilja ekki sjá villuna sem verðtryggingin er; sbr. þín eigin orð: "... yfir í snargalna (afturvirka frystingu gengis eða algert afnám verðtryggingar)".

Við þær aðstæður sem ríkja kann það að vera skynsamlegt að grípa til ráðstafana sem að jafnaði væru taldar óskynsamlegar, jafnvel snargalnar?

Eitt er víst að við leysum ekki vanda okkar með "meira af því sama", fólk verður að að komast út úr boxinu - viðjum vana og sjálfgefina viðbragða, sem oftar en ekki eru byggðar á miss útjöskuðum kenni/trúarsetningum og taka svo sannarlega ekki til okkar raunveruleika.

Viggó H. Viggósson, 28.1.2009 kl. 18:57

24 Smámynd: Baldvin Jónsson

Langtíma lausnin hlýtur þó að vera samstarf um sterkari gjaldmiðil og aflagning verðtryggingar.

Baldvin Jónsson, 28.1.2009 kl. 18:59

25 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Baldvin og Viggó, eins og ég hef áður lýst á þessu bloggi þá tel ég verðtrygginguna vera óumflýjanlegan fylgifisk krónunnar, en vonandi losnum við við hvort tveggja.

Er búinn að hugsa aðeins meira um M*V og Q.  Ég held, öfugt við Hagfræðing og Fransman, að stór hluti peningamagnsins sem var í umferð hafi ekkert haft með neyslu almennings að gera.  Við hefðum aldrei komist yfir að eyða eða velta þeim gríðarlegu fjármunum sem hér söfnuðust í krónu, m.a. úr jöklabréfum, í íslenska raunhagkerfinu.  Ég held mig við að V hafi lækkað, þar sem féð sat í alls kyns ávöxtunarturnum án þess að fara út í raunhagkerfið.  Svona mikil aftenging peningamagns og raunhagkerfis er klárlega alvarlegt sjúkdómseinkenni.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 28.1.2009 kl. 21:03

26 Smámynd: Viggó H. Viggósson

Höfum við ekki verið að "prenta"pening og það í stórum stíl, m.a. í gegnum verðtrygginguna?

Viggó H. Viggósson, 28.1.2009 kl. 22:51

27 identicon

Er ekki auðveldara að sjá þetta fyrir sér ef við minnumst þess að peningar eru ekki verðmæti í sjálfu sér heldur einungis ávísanir á verðmæti. Það er aukninging á Q sem er eftirsóknarverðust. Meira Q, meiri auðævi. Það er auðvelt að auka V og telja sér trú um að maður sé ríkur.

Björn Jónasson (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 23:35

28 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Einmitt, Björn.  Hins vegar getur of lágt M í sjálfu sér lækkað Q.  Það má líkja því við að ef það vantar smurolíu á vél þá fer hún að erfiða og hökta og bræðir loks úr sér.  Það er það sem við þurfum að fyrirbyggja, og það er hætta á að þetta gerist síðla vors ef allir eru á hausnum og fjársveltir ríkisbankar lána ekkert: þá hríðfellur M, V, og P, og Q með.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 28.1.2009 kl. 23:43

29 Smámynd: Baldvin Jónsson

Þannig endum við þá aftur í sannleika Bandaríkjamanna eftir 911, eða eins og ágætur þáverandi borgarstjóri NY sagði: "Just go shopping"

Baldvin Jónsson, 28.1.2009 kl. 23:51

30 identicon

Vandinn er sá að ef þú eykur M (eða V) þá geturðu ekki vitað hvort þú munt hækka P eða Q? Þú þyrftir að vera nokkuð viss um að Q-ið "ætti eitthvað inni" eða með einum eða öðrum hætti að með þvi að dreifa fleiri eða stærri ávísunum, að það hefði áhrif til framleiðsluaukningar. Ef við tvöföldum hringveginn eykur það Q?

Björn Jónasson (IP-tala skráð) 29.1.2009 kl. 00:32

31 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Ég held að það sé ekki hægt að auka Q með því að bæta við M, en það er kannski hægt að draga úr minnkun Q sem annars yrði vegna hraðs samdráttar M.  Og það er einmitt punkturinn, að komast hjá því að standa frammi fyrir orðnum hlut.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 29.1.2009 kl. 10:45

32 identicon

Weimar lýðveldið hringdi, það vill fá hugmyndina sína til baka.

Loki (IP-tala skráð) 29.1.2009 kl. 17:32

33 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Góður, Loki

Er búinn að hugsa þetta enn meira og kominn að þeirri niðurstöðu að V hljóti að hafa minnkað eftir hrun, ekki aukist.  Það er þá ljóst að M er að dragast gríðarlega saman og það er óhætt að blása því eitthvað upp aftur.  En vitaskuld innan skynsamlegra marka, eins og Weimar lýðveldið og Zimbabwe minna okkur glögglega á...

Vilhjálmur Þorsteinsson, 1.2.2009 kl. 15:42

34 identicon

Hvaða áhrif hefur  "verðtryggingin"  sem er lítið annað en "tilbúningur peninga á pappír"  en ekki "bein seðlaprentun" á "raunverðmæti" í hagkerfinu ?

Í "hagkerfinu" liggja hundruðir milljarða í formi "verðtryggingar", eru þessir milljarðar ekki bara ímynduð verðmæti,  "bóla sem að lokum springur" ?

Gott væri fyrir fáfróða að fá svar við því   ;-)

Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 8.2.2009 kl. 10:43

35 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Verðtryggingin er reyndar athyglisverð leið til að sporna við peningaprentun, þ.e. hún bætir sjálfkrafa upp rýrnun peninga.  Samkvæmt sumum þeim peningafræðiteóríum sem nú eru í gangi í umræðunni, m.a. hjá Gunnari Tómassyni, mætti ætla að framtíðargjaldmiðillinn ætti einmitt að vera... (trommusláttur)... verðtryggð króna!

Ef tekinn væri upp strangur agi í stjórnun peningamagns, og það ætíð látið fylgja nákvæmlega eftir vexti raunhagkerfisins, væri gjaldmiðillinn í reynd með fastan kaupmátt (verðtryggður).  Þá yrðu allar skuldir og skuldbindingar sjálfkrafa verðtryggðar, eða með öðrum orðum: verðbólga leggðist af.

Þetta er reyndar efni í heilan bloggpistil við tækifæri.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 8.2.2009 kl. 14:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband