Tíðindalaust í Seðlabankanum

Í viðskiptablaði Morgunblaðsins á fimmtudaginn var rætt við Eirík Guðnason seðlabankastjóra.  Þar viðhafði hann eftirfarandi ummæli, sem vöktu athygli mína:

"Það er sannarlega kominn tími til að skynja betur þörfina fyrir útlendinga að komast með peningana frá landinu," segir Eiríkur [...] um stöðu erlendra fjárfesta sem eru fastir með fjárfestingar sínar á Íslandi því þeir geta ekki skipt krónum yfir í erlenda mynt sökum gjaldeyrishafta.  Aðspurður segir hann ekki verið að ræða við þessa fjárfesta um hugsanlega útgöngu.  "Það er ekki verið að semja um það, nei." [leturbr. mínar]

Bíddu nú aðeins við.  Það eru 100 dagar frá hruninu, og Íslendingar búa við gjaldeyrishöft og manndrápsvexti, vegna einmitt þessara útlendinga sem sitja fastir með krónurnar.  Og Seðlabankinn "er ekki að ræða við þessa fjárfesta"(!) en - Guð láti gott á vita - það er að hans mati "sannarlega kominn tími til að skynja betur (!!) þörfina"!

Þessum mönnum er ekki viðbjargandi.

Kæri forsætisráðherra.  Það verður að skipta um þessa Seðlabankastjórn ekki seinna en strax.  Hún er svo gjörsamlega vanhæf, rúin trausti innanlands sem utan, og úti að aka, að það hálfa væri nóg fyrir tvo.

Svo legg ég til að sett verði saman aðgerðateymi 3-5 skuldabréfasérfræðinga úr bankakerfinu (já, úr gömlu bönkunum þess vegna) sem gangi í það mál að ræða við útgefendur og eigendur helstu krónustaða, kortleggi vandann, og leggi til lausnir á honum.  Til þessa hefði teymið 2-3 vikur.  Það mætti hugsa sér röð uppboða eða útboða á gjaldeyriskvótum, útboð á löngum kúlubréfum ríkissjóðs í evrum, prógramm um sérstök ríkisbréf í krónum með breytanleika í evrur við ákveðin skilyrði o.s.frv.  Í kjölfarið væri svo krónunni fleytt á ný, enda eru höftin byrjuð að leka eins og við mátti búast.

En, eins og innheimtufyrirtækið segir: ekki gera ekki neitt - í 100 daga í viðbót.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Hefð náttúrlega átt að vera löngu búið að því, en fyrst svo er ekki þá hlýtur það að vera fyrsta verk Geir H H þegar hann vaknar í fyrramálið. Þetta er skelfilegt að enn skuli vera stjórnað með tilskipunum af Svörtu loftum.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 18.1.2009 kl. 00:57

2 identicon

Hárrétt, skandall!

PS (IP-tala skráð) 18.1.2009 kl. 12:28

3 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Vilhjálmur, ég hef haft það sterklega á tilfinningunni að lykilaðilar innan stjórn- og embættismannakerfisins hafi einfaldlega fengið taugaáfall við hrun bankanna og verið úr leik í vikur og mánuði á eftir.  Hér er einn sem greinilega hefur gert það.  Hann er seðlabankastjóri og hefur ekki komið því í verk að ræða við þá aðila sem eiga hundruðir milljarða inni í bankakerfinu og halda í raun á fjöreggi þjóðarinnar.

Ég hef oft bent á það, að best er fyrir þjóðina að losna við allan þann pening sem vill úr landi á sem lægstu gengi.  Þannig fer sem minnstur gjaldeyrir úr landi.  Ég er líka þeirrar trúar að eigendur jöklabréfanna vilji ekkert endilega rjúka úr landi með peningana sína.  Besta mál.  Vilji þeir vera um kyrrt, þá eigum við að bjóða þeim tvo kosti: 

A.  Að taka þátt í uppbyggingu þjóðfélagsins með því að leggja peningana sína í þá uppbyggingu. 

B.  Ríkisskuldabréf með 2% verðtryggðum vöxtum.

Við eigum ekki að bjóða þeim 17,5% vexti sem gera ekkert annað en að blóðmjólka ríkissjóð.  Ríkissjóður á ekki að bjóða lengur ríkisskuldabréf með himinháum vöxtum.  Það tefur fyrir uppbyggingunni og eykur skuldabyrðina á komandi árum, að ríkissjóður sé að bjóða svona fáránlega háa vexti.

Marinó G. Njálsson, 18.1.2009 kl. 13:31

4 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Marinó, vextir ríkisskuldabréfa eru um þessar mundir frá 9,5% (lengstu bréfin) til 13,5% (stystu bréfin).

Heimildamenn mínir á skuldabréfamarkaði, sem hafa skoðað málið vel, telja að "hræddu" peningarnir kunni að vera mun færri en áður var talið, jafnvel innan við 200 milljarðar í stað 400-600 sem nefndir hafa verið.  En þetta verður að fá á hreint og taka svo ákvarðanir byggðar á réttum upplýsingum.  AGS mun láta okkur halda háum stýrivöxtum meðan erlendum fjárfestum er haldið í gíslingu í krónunni, vegna þess að AGS ver alþjóðlega fjárfesta gegn tapi ef hægt er, það er prinsipp.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 18.1.2009 kl. 14:36

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Það er tvennt sem ég hef aldrei áttað mig nógu vel á varðandi þessi jöklabréf.  Kannski þú getir skýrt þetta nánar út. 

1.  Er vitað hve stór hluti þeirra fór til innlendra fjárfesta (og er því ekki á leið út úr landi) og hver stór fór til erlendra fjárfesta (sem vilja gjarnan nota peninginn annars staðar).

2.  Er vitað hve stór hluti þeirra endaði í vaxta- og gjaldmiðlaskiptasamningum við íslensku bankana?

Annars er gott að vextirnir eru ekki eins háir og komið hefur fram í fjölmiðlum.  Hitt er annað mál að 9,5% og 13.5% er allt of hátt.  Með verðbólguna á mikilli niðurleið, þá þýðir þetta 6-10% raunvexti í vor sem er allt of mikið.  Þá er ég að miða við verðbólguhraðann framundan.  Mér sýnist sem 3 mánaðaverðbólga mun verða á bilinu 5,5 - 7,5% í mars og niður í 3% í maí.  Vissulega verður 12 mánaða verðbólgan ennþá yfir 10%, en það er verðbólgan að baki og mun ekki skipta máli vegna ávöxtunarkröfu næstu mánaða.  Ríkissjóður á ekki að bjóða hærri vexti en svo að ávöxtun ríkisskuldabréfa sé ekki nema örfá prósent umfram þá verðbólgu sem menn búast við næstu 12 mánuði.

Marinó G. Njálsson, 18.1.2009 kl. 15:31

6 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Jöklabréfin sjálf, þar sem útgefendur voru erlendir (Toyota, Rabobank, KfW o.s.frv.), voru aðallega seld til erlendra fjárfesta - hinna frægu belgísku tannlækna og ítölsku ekkna.  En útgefendurnir gerðu strax skiptasamninga við milligönguaðila, enda voru þeir fyrst og fremst að sækjast eftir ódýrri fjármögnun í evru.  Þessir milligönguaðilar baktryggðu sig svo með samningum við íslenska banka.  Í mörgum tilvikum eru þessar baktryggingar orðnar að engu með falli bankanna, en í öðrum tilvikum sitja þær í innistæðubréfum og ríkisbréfum.  Það er erfitt að átta sig á hvernig nettóstaðan er eftir allt saman, en hitt er ljóst að belgísku tannlæknarnir hefðu ekkert á móti því að fá evrur en ekki krónur fyrir bréfin sín, þannig að það er ekki víst að greiðslur til þeirra þurfi að fara í gegn um krónumarkaðinn.  Í öllu falli er gott að menn átti sig á að jöklabréfin eru ekki skuldir ríkisins.

Vextir (ávöxtunarkrafa) ríkisbréfa ræðst á markaði.  Ef þú ert þeirrar skoðunar, Marinó, að krafan sé of há, skaltu endilega drífa þig í næsta banka og kaupa ríkisbréf.  Ef krafan lækkar færðu ágætis gengishagnað á bréfunum.  En markaðurinn er sem sagt annarrar skoðunar um þessar mundir.  Þar ræður meðal annars útlit fyrir mjög mikið framboð skuldabréfa á árinu og takmörkuð eftirspurn.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 18.1.2009 kl. 17:50

7 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ef ég hefði lausafé til að setja í svona fjárfestingu, þá gerði ég það vafalaust.  Minn vandi er ég er að byggja og get ekki selt.  Þannig að það er ekki króna laus.

Ef jöklabréfin eru ekki með kröfu hér á landi, þá get ég ekki séð að það sé eitthvað vandamál með þau.  Fyrir hverja evru sem vill út, þarf evra að koma inn.  Þ.e. erlendi skuldarinn þarf að greiða í sinni mynt, fá henni skipt yfir í krónur sem þá eru greiddar til eigenda bréfanna og loks er krónunum skipt yfir í erlenda mynt.  Mér sýnist sem meiri peningur verði eftir í landinu en fer út.

Ef jöklabréfin eru með kröfu hér á landi eins og Gylfi Magnússon skýrir út á Vísindavefnum, þá er staðan allt önnur.  Hvor thún er endilega verri veit ég aftur ekki.

Spurningin er bara hvar liggur krafan um greiðslu á jöklabréfunum.

Marinó G. Njálsson, 18.1.2009 kl. 19:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband