4.12.2008 | 12:31
Nýjustu vendingar í gjaldeyrismálum
Ég fór og hitti aðstoðarmann viðskiptaráðherra, tvo lögfræðinga úr ráðuneytinu og fulltrúa Seðlabankans á fundi síðdegis sl. þriðjudag (2. des.). Þar voru gjaldeyrislögin og -reglurnar til umræðu og sérstaklega hvernig þær snerti sprotafyrirtæki með erlenda fjárfesta og fyrirtæki með alþjóðlega starfsemi.
Í stuttu máli er það lögskýring ráðuneytisins að svokölluð "bein fjárfesting" útlendinga á Íslandi sé leyfð í upphaflegu gjaldeyrislögunum frá 1992 og sé ekki bönnuð aftur í nýju lögunum, þannig að reglurnar taki ekki til hennar. Hins vegar er eftir sem áður ljóst skv. 5. mgr. 1. gr. Seðlabankareglnanna, að útlendingar geta ekki skipt krónum sem þeir fá fyrir sölu beinnar fjárfestingar hér, aftur yfir í erlendan gjaldeyri. "Bein fjárfesting" telur ráðuneytið merkja kaup á eignarhlut þannig að kaupandinn eigi a.m.k. 10% hlut eftir þau.
Lögmaður Verne Holdings mun senda ráðuneytinu og Seðlabankanum bréf með spurningum og óskum um skýringar, sem ég hef góð orð um að verði svarað fljótt og vel.
Nýjar og ítarlegri spurningar og svör en hin fyrri varðandi þessi mál er að finna á vef Seðlabankans.
Enn er mikil óvissa um lagatúlkun, merkingu og framkvæmd reglnanna, og um áhrif þeirra á erlenda fjárfesta, sem eru vitaskuld ekki spenntir fyrir að koma inn með peninga nema ljóst sé að þeir komist út með þá aftur. Að mínu mati þarf viðskiptaráðherra að vinna áfram í málinu til að lágmarka óæskileg hliðaráhrif hinna nýju reglna; þar er enginn "misskilningur" á ferð.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Er það ekki nokkuð ljóst að þessi gjaldeyrislög eru ónothæf? Myndi einhver leggja pening inn á bankareikning ef lögin heimiluðu ekki að tekið væri út, þó svo að einhverjir starfsmenn bankans teldu að reglurnar væru túlkunar atriði.
Magnús Sigurðsson, 4.12.2008 kl. 22:08
Athyglisvert.
"Óbein fjárfesting" er þá væntanlega undir 10%. Hvaða reglur gilda þá um "óbeinar fjárfestingar", ekki leyfðar ?! Skiptir "krónueignin" ekki máli ? Ef við viljum fá erlenda aðila til að eignast hlut í bönkunum eru þeir þá fastir eða munu ekki verða til neinir íslenskir bankar ??
Ég er kannski að "misskilja" þetta allt saman ?!
Þetta þarf að skýra betur út.
Guðni B. Guðnason (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 22:13
Ég er búinn að vera að lesa lögin og fæ ekki lagatúlkun Seðlabankans og ráðuneytisins til að ganga upp, en ég er auðvitað bara amatör í þessum fræðum. Alvörulögfræðingur er að fara yfir málið og vonandi skýrist lagatúlkunin í skriflegum svörum sem við vonumst eftir að fá fljótlega.
Eitt af því sem er mjög óljóst í málinu er skilgreiningin á beinni fjárfestingu. 10% talan á sér enga lagastoð, og ég sé ekki betur í lagatextanum en að öll fjárfesting sem fer beint inn í fyrirtækið (þ.e. hlutafjáraukning/útboð) sé bein fjárfesting, óháð stærð eignarhlutar sem seldur er. Þar að auki eru kaup á hlutabréfum á eftirmarkaði í þeim tilgangi að öðlast "virkan eignarhlut" (en ekki aðallega til að ávaxta fjármuni) talin vera bein fjárfesting. Laganördar geta lesið þetta sjálfir í 1. gr. laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál (sem voru nóta bene sett í ráðherratíð Jóns Sigurðssonar krata og núverandi stjórnarformanns FME).
Vilhjálmur Þorsteinsson, 4.12.2008 kl. 22:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.