30.11.2008 | 02:04
Svona á kjörseðillinn að vera
Vilmundur Gylfason lagði til á sínum tíma að kjósendur fengju að velja flokkalista og/eða einstaka frambjóðendur í alþingiskosningum. Slíkt kosningafyrirkomulag hefur m.a. verið notað í breska samveldinu allt frá lokum 19. aldar. Hér er dæmi um kjörseðil úr kosningum til öldungadeildar ástralska þingsins. Kjósa má annað hvort lista í heild sinni, eða einstaka frambjóðendur með því að númera þá í töluröð, eins marga og kjósandinn vill - og þvert á flokka ef óskað er.
Nánar má lesa um kosningakerfið, "færanleg atkvæði", á Wikipediu. Takið eftir dálkinum lengst til hægri, "Ungrouped" - óflokksbundnir frambjóðendur sem treysta á einstaklingsatkvæði en ekki flokka.
Er þetta ekki akkúrat það sem við þurfum núna á Íslandi? Flokkarnir hafa of mikil völd til að velja fólk inn á Alþingi, og margt af besta fólkinu nennir ekki að vinna sig í gegn um flokksapparötin.
Þetta er alveg málið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:07 | Facebook
Athugasemdir
Þetta líst mér vel á. Bæði flokkar og einstaklingar!
Hekla Arnardottir (IP-tala skráð) 30.11.2008 kl. 03:06
Þetta er mjög álitlegur kostur og hann þyrfti að lögleiða sem fyrst.
LÁ
lydur arnason (IP-tala skráð) 30.11.2008 kl. 04:38
Þetta er mjög sniðugt, það er hárrétt sem þú segir með flokkskerfið. Núverandi fyrirkomulag er búði að ganga sér til húðar, tími til kominn að reyna eitthvað nýtt.
Brynjólfur Þorvarðsson, 30.11.2008 kl. 08:42
Þetta er skref í rétta átt Vilhjálmur. Hins vegar velti ég því alvarlega fyrir mér hvort fulltrúalýðræðið, í einni eða annarri mynd, sé ekki gengið sér til húðar. Við þurfum virkt lýðræði sem endurspeglar vilja fólksins í landinu hverju sinni, en ekki gervilýðræði sem er viðrað á fjögurra ára fresti (6 í Rússlandi).
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 30.11.2008 kl. 09:00
Laukrétt Hilmar, þar hefur netið að sjálfsögðu ýmsa möguleika sem hafa ekki verið áður fyrir hendi í mannkynssögunni. Stefnumótun með hjálp Wiki, umræður með DebatePedia, kannanir og atkvæðagreiðslur með rafrænu auðkenni, o.s.frv.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 30.11.2008 kl. 10:44
Gott innlegg!
Hagbarður, 30.11.2008 kl. 12:01
Þetta er góð hugmynd og raunhæf aðferð til að losna undan hagsmunagæslu flokkanna sbr. skipanir þeirra í embætti ríkisins. Íslenska stjórnkerfið er veikt vegna valdagæslu stjórnmálaflokkanna og það réð því ekki við verkefni sitt þrátt fyrir fjölmargar viðvaranir og langan aðdraganda. Flokkarnir eru uppteknir af því að raða sínu fólki á jöturnar í stað þess að einbeita sér að umbótum. Við eru sammála um að ekki er þörf á 12 ráðherrum á jötunni. Hvers vegna hefur ekki tekist að fækka þessum embættum?
Það er tilefni og tækifæri til þess að auka lýðræðið í landinu. Segðu okkur meira frá þeim möguleikum sem Wiki og DebatePedia bjóða upp á.
Borgari (IP-tala skráð) 30.11.2008 kl. 13:08
Það blasir við að lýðræðið virkar best svona!
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 30.11.2008 kl. 13:11
Ef allir væru sáttir við þetta, hversu langan tíma tæki að koma breytingu á. Ég sé ekki að breytingar verði lagðar fram á núverandi þingi. Ef þetta kallar á breytingu á stjórnarskrá þurfa tvö þing að samþykkja breytinguna.
Ef við gefum okkur að næstu tvær stjórnir sitji heil kjörtímabil verður nýtt kerfið komið á árið 2019. Nema þessi stjórn geri það eina rétta og boði til kosninga í vor, þá þurfum við ekki að bíða nema til 2017. En einhvers staðar þarf að byrja.
Haraldur Hansson, 30.11.2008 kl. 15:08
Alveg málið, algerlega.
Þrándur (IP-tala skráð) 30.11.2008 kl. 15:49
Kíkið á www.lydveldi.is - við viljum vinna einstaklingsframboðum brautargengi og erum komin með hugmynd að framkvæmd á því við næstu kosningar.
Ástþór Magnússon Wium, 30.11.2008 kl. 15:54
gaman að sjá þig í silfrinu:)
katrín atladóttir, 30.11.2008 kl. 17:25
Alveg sammála þér Villi, þetta er málið. En til að þetta virki þannig að við fáum hæfari einstaklinga á þing og í framhaldinu í stjórnsýsluna, verður að vekja þjóðina af þeim lýðræðisblundi sem hún hefur verið í. Jarðvegurinn til þess ætti reyndar að vera frjór eftir hamfarirnar sem nú geisa og fyrirkomulagið sem Vilmundur heitinn mælti fyrir er án nokkurs vafa betur til þess fallið að gera fólk þátttakendur í lýðræðinu heldur en núverandi kerfi.
Helgi Örn Viggósson (IP-tala skráð) 30.11.2008 kl. 18:23
Þetta er góð hugmynd hjá Vilhjálmi og mikilvægt að finna leiðir til að koma þessu í framkvæmd.
Egill Jóhannsson, 30.11.2008 kl. 19:02
Þetta er gott mál sem ég hef reifað sjálfur nokkrum sinnum. Sendi þingmönnum bréf um þetta haustið 2006 og aftur núna nýlega. Ræddi þetta eins og þú Villi í silfri Egils í febrúar 2007 fyrir kosningarnar. Í síðustu viku ræddi ég þetta við Valgarð Guðjónsson, sem unnið hefur við kosningaspákerfi og hann hefur áhuga á að skoða þetta líka.
Það er gott að þeim fjölgar sem vilja sjá tæknina nýtta til að við fáum hæfari einstaklinga á þing því það eru ekki allir færir um að kjósa bara eftir flokkslínum og eins og staðan er t.d. fyrir mig þá er ekki til jafnaðarmannaflokkur sem er andvígur inngöngu í ESB. Hvað kýs maður þá?
Það eru hæfir þingmenn í öllum flokkum, af hverju má maður ekki skipta atkvæði sínu á milli þeirra sem maður vill styðja?
Þingmenn hafa ekki mikið svarað manni með þessi mál enda eru þeir sitjandi og vilja trúlega flestir ekki vilja rugga sínu eigin atvinnuöryggi af skiljanlegum ástæðum.
Auk þess að breyta kosningalögum þurfum við líka að koma ríkisstyrkjum til stjórnmálaflokka út, enda eru þeir andstæðir jafnræðisreglunni og vinna klárlega á móti þeirri sjálfsögðu nýliðun sem þarf að eiga sér stað bæði meðal flokka sem og þingmanna.
Miðað við núverandi stöðu þjóðarbúsins erum við flest sammála um að nú megi skipta út talsverðum hluta þessa fólks.
Haukur Nikulásson, 30.11.2008 kl. 20:39
Það má bæta því við Vilhjálmur að við eigum að sjálfsögðu að gera kosningarnar að fullu rafrænar.
Haukur Nikulásson, 30.11.2008 kl. 20:45
Áhugavert. Vilmundur Gylfa vissi hvað hann söng. Held að það geti allir verið sammála (flestir allavega) um að það megi stokka aðeins upp kerfið hér. Tímarnir hafa breyst og tæknin býður okkur uppá leiðir sem voru ekki færar áður.
Hvað varðar ríkisstyrki til stjórnmálaflokka þá tel ég að við ættum að fara svolítið varlega og skoða allar hliðar þess máls. Stjórnmál kosta peninga eins og allt annað í þessu samfélagi og án opinberra styrkja þá þurfa peningarnir að koma annarstaðar frá. Hagsmunatengsl eru eitthvað sem við höfum ekki haft góða reynslu af. Við erum nýbúin að setja ný lög um fjármál stjórnmálaflokka og fyrir þeim hafði verið barist lengi. Þau þarf að bæta eitthvað og skerpa á reglunum en að kasta þeim alveg og hætta að styrkja stjórnmálin held ég að yrði stórt skref aftur á bak.
Gunnar Axel Axelsson, 30.11.2008 kl. 21:00
Haraldur, stjórnarskrárbreytingar eru jafnan samþykktar rétt áður en þingi er slitið fyrir kosningar (enda verður að rjúfa þing um leið og stjórnarskrárbreyting hefur verið samþykkt). Ef nýkjörið þing staðfestir breytinguna, tekur hún strax gildi, og kosið yrði eftir henni í næstu kosningum þar á eftir. Þannig að ef við kjósum, segjum í apríl nk., þá gæti nýtt kosningakerfi verið virkt í síðasta lagi í reglulegum kosningum í apríl-maí 2013. En auðvitað gæti nýr forsætisráðherra séð sóma sinn í því að boða strax til nýrra kosninga 2009 eftir nýja kerfinu - maður getur alltaf vonað!
Vilhjálmur Þorsteinsson, 30.11.2008 kl. 21:39
Haukur, þú varst alveg með þetta, afsakaðu að ég var ekki búinn að koma auga á það!
Vilhjálmur Þorsteinsson, 30.11.2008 kl. 21:41
Þetta yrði mjög mikið til bóta - EN - svona breyting mun því miður líklega aldrei ná í gegn, jafnvel þó að 90% þjóðarinnar finnist þetta líklega vera góð hugmynd.
Til þess er samtrygging flokkanna og flokksræðið of sterkt, og of mikið í húfi fyrir óhæfa og óvinsæla stjórnmálamenn sem eru búnir að eyða miklu púðri í að vinna sig upp metorðastigann innan síns flokks.
Ef þetta kemst einhvern tíma á dagskrá munum við sjá þingmenn rjúka upp í pontu á Alþingi og flokksgæðinga skrifa greinar þar sem hugmyndin er afskrifuð á þeim forsendum að þetta sé "of mikið vesen" eða eitthvað álíka.
Baldur (IP-tala skráð) 30.11.2008 kl. 23:02
Ágætur ópuz þetta hjá þér ..
Steingrímur Helgason, 30.11.2008 kl. 23:48
Algjörlega tímabært og nauðsynlegt. Hefur þú einhverja hugmynd um það hvernig hægt væri að fá hæfari ráðherra líka?
Sigurður Hrellir, 1.12.2008 kl. 01:04
Sigurður, það þarf að kjósa forsætisráðherra beinni kosningu, og hann tilnefnir svo ráðuneyti sitt, en þó þannig að stjórnin njóti meirihlutastuðnings á Alþingi. (Franska og bandaríska kerfið.)
Vilhjálmur Þorsteinsson, 1.12.2008 kl. 13:33
Hvernig er það með ráðherrana Vilhjálmur. Eru þeir einfaldlega skipaðir af forsætisráðherra? Og það skiptir engu hvort þeir séu þingmenn eður ei?
Egill M. Friðriksson, 1.12.2008 kl. 20:50
Þeir eru einfaldlega skipaðir af forsætisráðherra, já, og ef þingmenn verða fyrir valinu þá ættu þeir að mínu viti að láta af þingmennsku á meðan þeir gegna starfi ráðherra. Það er betra að löggjafar- og framkvæmdavaldi sé ekki krullað saman.
Forsætisráðherra er þá ábyrgur fyrir framkvæmdavaldinu og verður ekki endurkjörinn nema hann og allt hans ráðuneyti njóti trausts kjósenda. En vitaskuld þurfa stjórnarfrumvörp eftir sem áður að fá stuðning meirihluta þingmanna.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 1.12.2008 kl. 22:49
Ég var að gera mér vonir um að hér tæki utanþingsstjórn við völdum þangað til kosið yrði með vorinu. Sú stjórn gæti mögulega endurskoðað þetta kosningakerfi með hagsmuni kjósenda að leiðarljósi auk þess að undirbúa nauðsynlegar stjórnarskrárbreytingar. En það er spurning hvort að stuðningurinn við núverandi stjórn þurfi að fara niður fyrir fylgi Framsóknarflokksins svo að Geir og Ingibjörg skilji hvað klukkan slær.
Sigurður Hrellir, 2.12.2008 kl. 00:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.