11.11.2008 | 16:46
Ofhitnunin var augljós
Hér er graf yfir peningamagn í umferð (M1, M2 og M3) sl. átta ár skv. gögnum frá Seðlabankanum:
Athyglisvert er hið gríðarlega stökk sem verður um og upp úr áramótum 2006-2007. Í febrúar 2007 verður "litla kreppan" þar sem krónan veikist og erlendar greiningardeildir lýsa ítrekuðum efasemdum um íslenska hagkerfið. Peningamagnið heldur samt áfram að vaxa hröðum skrefum, m.a. vegna jöklabréfa, og langtum hraðar en landsframleiðsla.
Hafa verður í huga að ávöxtunarkrafa til fjármuna í ISK var á þessum tíma a.m.k. 13-15%. Segja má að bankarnir hafi mátt hafa sig alla við að koma hinu sívaxandi peningamagni í vinnu, sem hefur beinlínis kallað á aukna áhættusækni (gírun). Öðruvísi var ekki unnt að skila 13-15% ávöxtun, jafnvel þótt nafnávöxtun væri. (Hinn möguleikinn var að stíga út úr dansinum, eins og ábyrgir bankamenn áttu að gera, en hlutabréfamarkaðurinn hefði refsað fyrir það!)
Jafnvel fyrir amatörhagfræðing eins og mig er kýrskýrt af þessu grafi að þenslan og veislan í krónunni gat ekki haldið áfram til lengdar. Það var stærðfræðilega ómögulegt, hvað þá hagfræðilega eða raunverulega.
Hvað voru þeir sem báru ábyrgð á efnahagsmálum og peningamálastefnu, og þáðu laun fyrir að reikna út, spekúlera í, og bregðast við þessum tölum, að hugsa?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 12.11.2008 kl. 00:31 | Facebook
Athugasemdir
Athyglisverð gröf Vilhjálmur. Hver er svo þróunin núna?
Fróðlegt væri að sjá ágúst, september, október svo ekki sé talað um nóvember.
Eyþór Laxdal Arnalds, 11.11.2008 kl. 21:46
Síðasti punkturinn á grafinu er ágúst 2008; nýrri tölur liggja ekki fyrir hjá Seðlabankanum. En vissulega verða þær fróðlegar. Meðal annars munu endurhverf viðskipti (REPO) hverfa að mestu úr M3 tölunni, en þau hafa aukist gríðarlega síðustu mánuðina.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 11.11.2008 kl. 23:00
Tja, hvað voru þeir að hugsa? Þú ert ekki sá eini sem spyrð.
Þeir komu af fjöllum virtist vera þegar menn áttuðu sig á því að það var búið að skuldsetja landið upp í rjáfur með ónýtri krónu og engri efnahagsstefnu ... eins og þú og ég höfum bent á. Þeir meira að segja gerðust svo bíræfnir ef ég man þetta rétt, að fá Kjararáð (Kjaradóm) til að hækka við sig launin af því að þeir voru svo "sveltir" m.v. aðra bankastjóra.
Nú sumir af þeim, voru svo uppteknir, af því að komast í Öryggisráðið .. að þeir misstu af þessu.
Nú svo til að toppa þetta með ónýtan gjaldmiðil þá taka þeir yfir allar skuldir Glitnis og eru svo undrandi á því að lánshæfismat hrundi og ... (need I say more).
En þeir réðu fjölmiðlafulltrúa í dag í vinnu. Lagast þetta þá ekki bara allt saman af sjálfum sér?
Árni (IP-tala skráð) 11.11.2008 kl. 23:28
Vegna þessara talna fór ég að velta fyrir mér hvort vaxtahækkanir í litlu hagkerfi eins og okkar, hafi ekki margföld þveröfug áhrif á við það sem hreintrúarfræðin segja.
Í fyrsta lagi hvetja þær til erlendrar lántöku í stað innlendrar, sem eykur áhættu í kerfinu en lækkar vaxtastig til skamms tíma, öfugt við tilætlun.
Í öðru lagi leiða þær beinlínis til innstreymis erlends fjár, sem leitar hæstu ávöxtunar (vaxtamunarviðskipti, carry trade). Þetta eykur peningamagn í umferð, sem aftur eykur verðbólgu og þenslu, öfugt við tilætlun.
Í þriðja lagi þýðir vaxandi peningamagn í umferð, margfaldað með hærri ávöxtunarkröfu, að enn sterkari krafa er gerð til undirliggjandi hagkerfisins um afköst peninga. Það eykur áhættusækni og gírun, sem enn er verðbólguvaldandi, og hvetur til myndunar lánapýramída sem "búa til peninga" úr engu (skapa M3).
Í fjórða lagi er allt ofangreint sjálfeflandi spírall, sem fljótlega verður stjórnlaus og endar með ósköpum, eins og dæmið sannar.
Erum við kannski öll fórnarlömb einhverrar furðulegrar hreintrúartilraunar í peningahagfræði, sem sprakk í loft upp í rannsóknastofunni?
Vilhjálmur Þorsteinsson, 12.11.2008 kl. 00:43
Blessaður Vilhjálmur.
Þessi gröf liggja víða hjá fólki sem kann að lesa úr þeim og það eru margir ábyrgir. Fólk verður að fara átta sig á því að fagfólk sem vann í háskólunum , hjá Alþýusambandinu og vinnuveitendum hafði þekkingu og skilning á svona grafi og frá þessum aðilum átti að heyrast hærri gagnrýnsraddir. Í augnablikinu man ég ekki eftir háværri gagnrýni nema frá vinnuveitendum. Allan tímann sem þessi hávaxtastefna var framkvæmd þá var stuðningur ASÍ algjör. Lærra gengi þýðir kjaraskerðingu var alltaf sagt þar á bæ og núna þegar KJARASKERÐINGIN er raunveruleg þá virðist þetta fólk ekki kunna að skammast sín. Það styður björgunarpakka þar sem grunnatriðið er hávaxtastefna, þrautreynd vitleysa á Íslandi og hefur ekki án undantekninga leitt til dýpri kreppu og hrun lífskjara þar sem IFM hefur knúið þessa stefnu í gegn. Er þessu fólki ekki sjálfrátt?
Kveðja að austan
Ómar Geirsson (IP-tala skráð) 12.11.2008 kl. 10:43
Ef M3 er 1.400 milljarðar króna, myndi það þá ekki þýða að með 6 milljarða dollara lán til stuðnings er algert fræðilegt hámarksgengi dollars 1400/6 = 233 kr? Á því verði væri hægt að skipta út öllum mögulegum og ómögulegum krónum fyrir dollara. Sá litli gjaldeyrisforði sem til er í Seðlabankanum ætti að koma þessu niður í 200 kall eða svo. Allar krónur sem eru til í að sitja eftir myndu svo virka til styrkingar.
Mjög líklega er þetta þó utan þess sem mín hagfræðikunnátta dekkar, þannig að leiðréttingar eru vel þegnar.
Verst er þó að það grillir ekkert í þetta lán.
Hjálmar Gíslason (IP-tala skráð) 12.11.2008 kl. 19:04
Ég hef heyrt að Bandaríkjamenn séu hættir að birta M3 grafið, það sé orðið svo rosalegt.
Jón Gunnar Bjarkan, 13.11.2008 kl. 08:29
Jón Gunnar, það er einmitt tilfellið, að Bandaríkin og evruland eiga við svipaðan vanda að glíma, þ.e. að peningamagn í umferð og þar með skuldir hafa vaxið gríðarlega og langt um fram landsframleiðslu á síðustu árum. Ísland er kanarífuglinn í kolanámunni - við erum með lítið hagkerfi og örgjaldmiðil og þess vegna verður atburðarásin hröð hjá okkur.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 13.11.2008 kl. 18:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.