Fleyting krónunnar

Svona held ég að fleyting krónunnar verði:

Graf fyrir blogg

Fyrst eftir að krónunni er fleytt flýja dauðhræddu peningarnir út úr landinu (rauði ferningurinn).  IMF og Seðlabankinn munu leyfa krónunni að veikjast á meðan á því stendur, en þó ekki úr hófi.  Þeir munu koma á móti eftirspurninni með passlegu framboði gjaldeyris sem gefur hinum dauðhræddu (t.d. jöklabréfaeigendum) séns á að sleppa út hratt en með nokkrum skaða.

Þegar hinir hræddu eru farnir, taka hinir skynsömu við.  Það eru þeir sem vilja út úr krónunni en eru tilbúnir að bíða meðan hinir dauðhræddu hlaupa út.  Hinir skynsömu stjórnast að hluta af vöxtum Seðlabankans.  Meðan vextir (og raunvextir) eru háir, geta hinir skynsömu hugsað sér að staldra við og bíða með krónurnar sínar á vöxtum innanlands.  Á þessu stigi munu IMF og Seðlabankinn slaka út gjaldeyri þannig að krónan styrkist mjúklega.  Vaxtahækkunin í dag er hugsuð til þess að hafa hemil á skynsömu peningunum og er góð til þess brúks.

Þegar þeir sem vilja flýja krónuna (þ.e. allir sem hyggja á langtíma geymslu verðmæta) eru einnig farnir, tekur við jafnvægisástand þar sem gengið stjórnast af "náttúrulegum" inn- og útflutningi og viðskiptajöfnuði almennt.  Gera má því skóna að krónan endi veikari en hún var í "góðærinu" en sterkari en hún hefur verið undanfarnar vikur.

Þegar fjaðrafokinu slotar hefur talsvert gengið á gjaldeyrisforða og lánalínur.  Áfram mun þurfa að viðhalda hærri vöxtum í krónu en í nágrannalöndum til að halda krónum í landinu, enda mun taka mjög langan tíma að byggja aftur upp trúverðugleika krónunnar, ef það er þá yfirleitt mögulegt (sem ég held ekki).  Það má því enn og aftur árétta að skynsamlegt er að huga strax að umsókn um aðild að ESB og aðlögun að evru skv. ERM II sem gæti tekið 3-4 ár en að minnsta kosti myndi slíkt ferli róa krónumarkaðinn og auka vilja til að fjárfesta í krónu til lengri tíma.

Tími skoðana Björns Bjarnasonar á þessu máli er liðinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Tek undir þetta, af minni takmörkuðu þekkingu...en hvað ætli "náttúrulegt jafnvægi" krónunnar sé? 

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 28.10.2008 kl. 22:33

2 Smámynd: Ellert Júlíusson

Svona 140-155

Ellert Júlíusson, 28.10.2008 kl. 23:32

3 identicon

Þetta myndi kallast á fræðimáli "game theory" eða Leikjafræði. 

Ég held að hluti að pakkanum sem samþykktur var, er ESB aðild og í framhaldinu aðild að evrópska myntbandalaginu (EMU).  Á meðan EMU aðlögunartíma gildir, þarf Seðlabankinn (fíflabúntið) að setja krónunni vikmörk m.t.t. Evru sem síðan þrengist með tímanum.  Nóg er að líta til Danmerkur í því sambandi, þar sem flökt á milli DKK og Evru er c.a. 0,4% áður en stóra fjármálakreppan skall á.

Eins og menn hafa sagt, næstu 3-6 mánuðir verða mjög erfiðir. 

Síðan tekur væntanlega við 5-8 ára tímabil þar sem við verðum að ná skuldum fyrir neðan ákveðna prósentu af þjóðarframleiðslu, stöðugleika, verðbólgumarkmiðum o.s.frv i ef ég man rétt 3 ár til að öðlast fulla EMU aðild.  Ath ég geri ráð fyrir að það taki um 1 ár að verða fullgildur aðili að ESB.  Þannig að, 2013-215 höfum við kvatt krónuna og þurfum ekki að vökva fíflana á Arnarhóli.

Árni (IP-tala skráð) 29.10.2008 kl. 00:13

4 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

Getur Björn Bjarnason ekki bara hætt í stjórnmálum og flutt úr landi, ég gjörsamlega þoli ekki manninn.

Jón Gunnar Bjarkan, 29.10.2008 kl. 10:37

5 identicon

Takk fyrir góða útskýringu.  Það er einmitt svona útskýringar sem almenningur þarf á að halda, manni finnst stjórnmálamenn ekki nógu oft tala á mannamáli fyrir fólk svo að það skilji hlutina.  Það eru nefnilega ekki allir með háskólapróf eða þekkingu á fjármálum.

Kristín Hildur Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 29.10.2008 kl. 11:12

6 Smámynd: Héðinn Björnsson

Þetta virkar sem algert vanmat á alvarleika stöðunar í mínum augum. Verði aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar og alþjóðagjaldeyrirssjóðsins fylgt mun stór hluti landsmanna hætta að fá greitt út laun. Ábyrgðarsjóður launa mun hrynja. Fólk hættir að greiða af lánum sínum, víxlverkun efnahagshruns og landsflótta hefst og óeirðir fara að brjótast út. Verði ekki bráðlega boðað til kosninga er hætt við að næstu valdaskifti verði ekki friðsamleg hér á landi.

Það þarf að búa til traustvekjandi aðgerðaráætlun sem miðar að því að halda friðinn í samfélaginu. Slík aðgerðaráætlun þarf að innihalda rétlátt uppgjör við auðmennina og koma í veg fyrir stórfeld gjaldþrot heimilana í landinu.

Héðinn Björnsson, 29.10.2008 kl. 11:16

7 identicon

Það er mikið til í þessu hjá þér, Vilhjálmur.  Þetta er sennilega leiðin til jafnvægis. 

Ef við ákveðum að Evran sé besti kosturinn fyrir okkur, þá er afar mikilvægt að krónan verði tekin upp í Evruna á eðlilegu gengi, en ekki á einhverju afsláttargengi.  T.d. tel ég að gengið 90 kr. pr. Evru sé eðlilegt fyrir okkur.  Að öðrum kosti erum við að semja okkur inn í Evru með miklum afslætti sem gæti leitt til þess að Ísland yrði láglaunaríki innan ESB.  Slík afglöp eru að sjálfsögðu óafturkræf, því maður tryggir ekki eftir á í ESB.

Úlfar Þ. Lýðsson (IP-tala skráð) 29.10.2008 kl. 11:40

8 identicon

Gott innlegg. Nú gengur á með upphrópunum um að hoppa (eða skríða) inn í ESB og henda krónunni út í hafsauga. Helst í gær. Hvoru tveggja óraunhæft með öllu. En að setja sér raunhæf markið þar sem útgangspunkturinn er að taka upp gjaldmiðil til framtíðar er svo allt annað mál.

Þá á ég við að gera þetta af skynsemi, sjá að þetta er ferli sem tekur 3-4 ár (kannski fimm) en koma á ró með því að hefja gönguna. Að allir viti hvert er gengið og til hvers. Tíminn sé nýttur til að taka til eftir hrunið og ná sátt um áfangastðinn. (Sé samt ekki að þetta sé alfarið andstætt því sem Björn Bjarnason sagði í Kastljósinu um daginn, en það er annað mál.)

Gestur H (IP-tala skráð) 29.10.2008 kl. 13:16

9 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Árni, þetta er ekki leikjafræði.  A.m.k. ekki þeirri sem stúderaði í Operations Research við Stanford háskóla á sínum tíma og John Neuman var síðar þekktur fyrir.

Marinó G. Njálsson, 29.10.2008 kl. 13:43

10 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Þakka jákvæðar athugasemdir.  Ég tek fram að þetta er mín spá um framvinduna sem byggð er á mati á því hvernig IMF/Seðlabankinn hugsa.

Héðinn, staðan er vissulega alvarleg og það sem hér er rætt er aðeins hluti af dæminu, þ.e. það sem snýr að gengi krónunnar.  Þá er eftir að taka á atvinnuleysi, greiðsluerfiðleikum, gjaldþrotum og mörgu fleiru.  Að mínu mati er vandinn vegna bankahrunsins mun meiri en ella hefði orðið, af því að við erum með krónuna.  Bankarnir hefðu að öllum líkindum farið á hausinn hvort eð var, en afleiðingarnar fyrir almenning hefðu verið mun viðráðanlegri í evruhagkerfi.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 29.10.2008 kl. 15:09

11 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Vilhjálmur, ég held þú vanmetir hve óskynsamlega fjárfestar hegða sér þegar þeir upplifa öryggisleysi. Fjármagn sogast til hinna stóru, bara af því þeir eru stórir. 

fólk hegðar sér ekki skynsamlega í panikástandi eða þar sem hugsanlega getur aftur komið panikástand.  bankar á Íslandi voru þjóðnýttir og það er ekki til að skapa traust fjármagnseigenda. 

það er eins og það sé haldið áfram að spila rúllettu um Ísland með aðstoð IMF. Er ríkisrekstur eins og matador?  

vextir lækka alls staðar nema hérlendis hækka vextir. það er sagt út af því að annars muni fé flæmast héðan og krónan hrynja fremur, það þarf háa vexti til að verja krónuna.

en atvinnurekstur þarf að vera ábatasamur ef hann getur borgað vexti. er atvinnulíf á íslandi í dag svo ábatasamt að það geti borgað hærri vexti en atvinnulíf annars staðar? 

eða eru vextir og peningar orðnar stærðir sem eru ekkert í samræmi við hversu ábatasamar fjárfestingar og atvinnulíf er - er þetta bara kerfi sem heldur áfram að snúast um sjáft sig með spákaupmennsku?

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 29.10.2008 kl. 16:11

12 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

http://news.bbc.co.uk/2/hi/business/7658908.stm

grein Jóns Danielssonar á bbc.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 29.10.2008 kl. 16:12

13 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Nýja Ísland: Hlutföllin í grafinu eru handahófskennd og það er viljandi engin merking á x eða y ásunum.  Ég treysti mér ekki til að spá um þróunina í smáatriðum, heldur aðeins í stórum dráttum.

Salvör: Vaxtahækkunin er vonandi bara tímabundin aðgerð meðan verið er að vinda ofan af hræddu (og kannski skynsömu) krónunum, til að varna því að gengi krónunnar falli of mikið og of hratt.  Vissulega ekki gott fyrir skuldara, en það er ekki eins og við eigum marga valkosti í stöðunni.  (Athugaðu samt að margir skulda verðtryggt og/eða gengistryggt og þessi vaxtahækkun er beinlínis góðar fréttir fyrir þá, þar sem hún dregur úr verðbólgu og styrkir gengið.)

Vilhjálmur Þorsteinsson, 29.10.2008 kl. 16:49

14 Smámynd: Gísli Tryggvason

Þakka málefnalegar og vel grundaðar færslur í gegnum tíðina; gætirðu hugsað þér að spá um jafnvægis-/framtíðargengisvísitölu - sbr. fyrstu tvær athugasemdirnar - þ.e. þá sem notuð verður þegar við tökum upp evru?

Gísli Tryggvason, 29.10.2008 kl. 19:59

15 identicon

Vilhjálmur, það er virðingarvert hvað þú leggur þig í líma við að koma skoðunum þínum skilmerkilega á framfæri. 

Hins vegar, hræddir peningar, skynsamir peningar.. eins og staðan er í dag, hverjum er ekki sama um þá?  Það hefði átt að húrra vöxtunum niður, taka verðbólguskotið, krónan hefði tekið dýfu sem hefði jafnað sig þegar innflutningur á öðru en nauðsynjum hefði lagst af.  Við þurfum að læra að lifa meira á sjálfum okkur, kæfa óþarfa innflutning.  Með öðrum orðum er ég að segja að jafnvæginu verði náð þar sem komið er úr hinni áttinni.  Grunnur alls hér á landi er að fyrirtækin haldi velli svo fólk haldi vinnunni, jafnvel þótt lán fólks hækki um stundarsakir.  Þessi vaxtahækkun lamar mörg fyrirtæki og það er algerlega óskiljanlegt að beita eigi sama meðali og búið er að beita undanfarin ár.  Ef markmiðið er að halda gengi krónunnar sterku mun taka lengri tíma að vinda ofan af innflutningi, þar sem sterk króna þýðir hagkvæmara verð á influttum vörum. 

Staðan er slæm og allar leiðir úr henni eru slæmar, en skömminni skárra hefði verið að taka vextina niður og skapa svigrúm fyrir fólk og fyrirtæki.

Kv. S.

S (IP-tala skráð) 29.10.2008 kl. 23:54

16 identicon

Vilhjálmur þakka þér fyrir mjög gott blogg, það eina sem ég les utan við eyjuna.is

Skil vel að þú hafir ekki merkingar á ásunum, og hlutföllin óljós, skal ekki biðja þig um spádómstölu, en hið mikilvæga á myndinni er upphaf og endir bláu línunnar.

Telur þú virkilega að náttúrulega jafnvægið verði neðan við gengið fyrir upphaf panikkástandsins?

Ef svo er þá væri mjög áhugavert að sjá rök þín fyrir því.

PS

Héðan frá Gotham City sýnist okkur vera allt annað gengi á "svarta" markaðinum heldur en birtist hjá ykkur.

Asgeir i Gautaborg (IP-tala skráð) 30.10.2008 kl. 00:34

17 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

S: Vandinn er sá að hræddu peningarnir þurfa að komast út, áður en náttúrulega jafnvægið skapast.  Það er betra að hleypa þeim út fljótt heldur en að láta þá mjatlast á löngum tíma og halda krónunni veikri um langa hríð, sem dregur úr lífskjörum almennings.  Svipað og það er betra að kippa plástrinum af handleggnum, en að taka hann hægt.

Ásgeir: Lárétta línan til vinstri á grafinu á að tákna handstýrða gengið hjá Gjaldeyrisnefnd alþýðu, sem er núna rétt yfir 150 krónum fyrir evruna.  Ég held að krónan gæti veikst frá því gildi meðan ofurhræddu peningarnir fara út, en náttúrulega jafnvægið held ég að sé undir þeirri tölu.  Einhvers staðar á milli góðærisgengis upp á 85 kr/evru og mosdalsgengis upp á 150 kr/evru.  Breitt bil, en einhvers staðar þarna á milli endar krónan.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 30.10.2008 kl. 01:03

18 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Gísli: Er ekki 100 kr/evru það sem enskumælandi kalla "nice round number"?

Vilhjálmur Þorsteinsson, 30.10.2008 kl. 01:15

19 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Ég var alltaf að vonast eftir "a nice round number"...and i will keep on dreaming!

ps;

Takk Vilhjálmur!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 30.10.2008 kl. 01:35

20 identicon

Þakka fyrir svarið en ég veit ekki hvað dregur úr lífskjörum almennings ef það eru ekki 18% stýrivextir.

S.

S (IP-tala skráð) 30.10.2008 kl. 10:12

21 identicon

Jæja, ég fór á ansi áhugaverðan fund úti í Norræna húsi og sá mæta menn og konur ræða ástandið, afleiðingar og aðgerðir. Fundurinn var mjög upplýsandi fyrir mig og líka áhugaverður um það hvernig akademísk umræða er. 

Eiríkur Evrusinni vildi meina að Ísland kæmist í evruskjól eftir 4 mánuði, ef allt gengi eftir sem ég læt vera.  Of útópískt að mínu mati.   Allir eru sammála um að traust á krónu er þrotið og það þarf að koma okkur í skjól, næstum því hvað sem það kostar. 
Veturinn verður ansi langur og kaldur með gjaldmiðil í lagi, en ef við þurfum að þreyja þorrann án trausts gjaldsmiðils er þetta sennilega vonlaus barátta.  En það eru tveir menn sem halda ennþá að krónan sé sexý sem þarf að koma frá. 

Hinsvegar hugleiðir maður, hvert verður hið náttúrulega gengi þegar af evruvæðingu kemur, þ.e.a.s. "target" gengið.  Þetta var rætt í lok fundar og þá vildi í raun hvorki Eiríkur né Katrín svara þeirri spurningu. Þó var bent á eftirfarandi staðreyndir:

- hvert er markaðsgengi gjaldmiðils?
- hvert er eðlilegt gengi m.v. kaupmátt?
- hvert er sögulegt gengi?

Það leiddi huga minn að einu alþjóðlegu vísitölunni sem er í gangi, en það er hin stórsmellna BigMac vísitala sem The Economist tekur saman á hverju ári.  Sjá hér. Ég gef mér að verðið á BigMac sé það sama og í júlí, þá kemur fram að 1 USD á að kosta 131 krónu og 1 Evra á að kosta 139 krónur. 
Ég nenni svosem ekki að reikna þetta allt út, sjálfsagt þarf að taka tillit til skatta og annað og ég gluggaði ekki það mikið í þessa greiningu, þó ég eigi eftir að gera það pottþétt síðar.  En allavega, ég held að ef þetta verður ofaná eða í líkingu við þetta, þá munu ansi margir skuldarar eiga bágt.

Árni (IP-tala skráð) 31.10.2008 kl. 00:48

22 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Hagfræðikenningar segja einmitt að gengi eigi að leita jafnvægis þar sem vöruverð er hið sama (eða svipað) milli landa, að teknu tilliti til skatta og kostnaðar við inn- og útflutning (flutningskostnaðar, tolla).  Á Íslandi verður vöruverð sennilega alltaf eitthvað hærra en annars staðar vegna smæðarinnar, hás flutningskostnaðar, og hærri fjármagnskostnaðar í krónu.

Það stenst ekki stærðfræðin í því að dollar sé á 131 krónu og evra á 139 krónur, einfaldlega af þeirri ástæðu að EUR/USD er 1,3 eða þar um bil.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 31.10.2008 kl. 10:03

23 Smámynd: Skeggi Skaftason

Takk fyrir góða pistla, Vilhjálmur.

S: Þakka fyrir svarið en ég veit ekki hvað dregur úr lífskjörum almennings ef það eru ekki 18% stýrivextir.

"Meðal"-yfirdráttur Íslendings ku vera 350.000 kr (sem ég hef aldrei skilið!) Stýrivaxtahækkunin þýðir að vaxtakostnaður þeirrar skuldar eykst úr ca. 87 þús í 105 þús. eða um ca. 18.000 þúsund kr á ári.

Óðaverðbólga í fleiri mánuði eða ár þýðir að verðtryggð húsnæðislán hækka um fleiri miljónir og greiðslubyrði eykst hæglega um tugi þúsunda króna á mánuði.

Ekki spurning í mínum huga hvort sé verra.

Skeggi Skaftason, 2.11.2008 kl. 12:02

24 identicon

Takk fyrir greinagóða pistla Viljálmur

Langar að bæta við mínum 10 aurum af skoðunum

1. BigMac visitalan gefur vísbendingu um það hvert krossgengið ætti að vera, ekki hvert það er, Samkv útreikningi Árna ætti því EUR = 1.061 USD. en ekki 1,28 sem það er í dag

2. Allt frá fullveldi höfum við Íslendingar deilt um það hvert gengi krónunar ætti að vera. Bók Ásgeirs Jakobssonar Þjóð í hafti er þörf lesning fyrir alla Íslendinga. Hvaðan kemur krafan um sterka krónu? Gamall foringi okkar sjálfstæðismanna, Jón Þorláksson kvað einhvernvegin svona "Kotungskrónu enga viljum vér hafa". Jón "efnahagsfrömuður" Sigurðsson stjórnaði í Þjóðhagsstofnun til margra ára og reiknaði gengið útfrá þeirri forsendu að meðalhagnaður íslenskra sjávarútvegsfyrirtæki ætti að vera NÚLL!! Nú erum við búinn að veðsetja væntanlega tekjur okkar af fiskveiðum svo rosalega að skuldir sjávarútvegisns eru nær 5 falldar tekjum hans,sem er upphafið af vanda okkar, veðsetningarhæfi veiðiheimilda sem rústaði landsbyggðinni og ýtti undir kröfurnar um sterka krónu. Baráttan stendur á milli borgríkisins og landsbyggðarinnar og hefur alltaf gert það. Borgríkið hefur nær undantekningarlaust komið sínu fram.

3. Jón Daníelsson hefur rétt fyrir sér. Við höfum lítið að óttast, Ódýr orka, fengsæl fiskimið, ef við fáum að veiða, og svo náttúrulega verða allir að koma sér upp grænmetisgörðum aftur.

4. Ég sem Íslendingur búsettur erlendis á í miklum viðskiptum við Ísland. Gerir fólk sér grein fyrir því að það tekur einn dag að senda USD frá Afríku til íslands en yfir 6 daga að senda EUR frá Spani til íslands!! Í dag mun ég senda 1.000 USD, 1.000 GBP og 1.000 EUR héðan til reikning fyrirtækis míns á Íslandi. Þannig mun ég geta mælt áhrif seðlabankanna í Evrulandi og Stóra Bretalandi á streymi peninga til Íslands. Ég tel að það sé verið að þröngva/neyða okkur til að afsala 64 ára fullveldi okkar.EU mun eignast auðlindir okkar,orku og fisk, og við sem þjóðarbrot munum halda eftir skuldunum, nema að við sættum okkur við þá einföldu staðreynd að lífið er erfitt, og hefur verið Það fyrir okkur í þessi u.þ.b 1134 ár sem við höfum hýmt á okkar ástkæra skeri. Varanleg veiking krónunar mun auka útflutningstekjur okkar, auka ferðamannastraumin til okkar og setja okkar krónu út af borði spekúlanta.

5.Seðlabanki átti að lækka vextina í mars 2006 og taka uppsafnað verðbólguskot, sem í raun var ekki verðbólga heldur hækkun á fasteignum í borgríkinu, útþanið vegna veðsetningarinnar á fiskveiðikvótum. Í stað þess hóf hann vaxthækkunarferli sem viðhjelt straumi ódýrra peninga í formi lána og bjó til falska tilfinningu fyrir alla um að við værum auðugri, líkt of dópistinn, sem líður vel eftir að fá skot í æð, en þarf síðan að fá annað og annað og annað, þar til að hann annaðhvort deyr eða tekur út "cold Turkey". Skuldir heimilanna á Íslandi eru 213% af tekjum en 100% í USA, 13% í Kína. Það er kominn tími til að allir fari að vinna og borga niður skuldir sínar, þær borgast ekki með því að framlengja lánum eða taka ný,heldur, eins og Vagnstjórinn orðaði það, með því að bretta uppá handleggina!!!

Íslandi allt!

Kristján í Afríku (IP-tala skráð) 7.11.2008 kl. 11:12

25 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

Kristján....

"Ég sem Íslendingur búsettur erlendis á í miklum viðskiptum við Ísland. Gerir fólk sér grein fyrir því að það tekur einn dag að senda USD frá Afríku til íslands en yfir 6 daga að senda EUR frá Spani til íslands!!"

Þetta er held ég út af því að öll utanríkisviðkipti íslendinga fara í gegnum JP morgan í Bandaríkjunum. Bankastjóri einhvers sparisjóðs var einmitt að tala um þetta í fréttunum fyrir minna en viku síðan og var hann að vara við þessu og hvetja Ríkið og Seðlabanka til að reyna opna fleiri línur.

Jón Gunnar Bjarkan, 7.11.2008 kl. 12:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband