Plottið er flóknara en ég hélt

Ég hélt að ég skildi plottið með neyðarlögunum og skilanefndunum og gömlu/nýju bönkunum.  Innlán væru forgangskröfur, þau væru flutt yfir í nýja banka ásamt tilsvarandi eignum, og rest skilin eftir.  Engin mismunun eftir þjóðerni innlánseigenda, né innbyrðis milli kröfuhafa.

En nú er ég búinn að lesa ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins (t.d. um Kaupþing) og sé að þetta var rangur skilningur.  Plottið er miklu flóknara en ég hélt.

Í grunninn eru allar eignir fluttar úr gömlu bönkunum yfir í nýja, en svo eru taldar upp undantekningar.  Innlán í erlendum útibúum sitja eftir í gömlu bönkunum, en innlend innlán fara í þá nýju.  Sérstakt utanaðkomandi mat á að fara fram á eignum og skuldum sem fluttar eru, og nýju bankarnir skulda þeim gömlu upphæð sem nemur eignum umfram skuldir.

Ég er bara plebbi og beturvitrungur úti í bæ (sem samt varaði við yfirvofandi hættum t.d. í upphafi þessa árs), en ég sé ekki betur en að þetta plott bjóði heim hættunni á lögsóknum þvers og kruss.  Ef ekki verður samið sérstaklega við alla erlenda innistæðueigendur gætu þeir lögsótt íslenska ríkið vegna mismununar innistæðueigenda eftir þjóðerni, sem ekki er heimil samkvæmt EES.  Og kröfuhafar geta einnig haldið því fram að þeim sé mismunað þegar eignir eru fluttar milli gamalla og nýrra banka umfram það sem þarf vegna forgangskrafna (innistæða).

Hvað segja mér lögfróðari menn um þetta?

En að minnsta kosti er ljóst miðað við þetta upplegg að ekki hefur verið einfalt að útskýra málið fyrir Bretum.  Þó var engin ástæða til að missa þau samskipti út í beitingu hryðjuverkalaga.

P.S.: Ég er enn búinn að bæta við klúðurlista Seðlabankans.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég veit ekki hvort það er relevant en svo virðist sem bankakrísa Bandaríkjamanna sé í raun ekki vegna lausafjárskorts heldur vegna skorts á gagnsæi á stöðu fyrirtækja.  Þetta kom í ljós þegar Paulson grýtti fleiri hundruð milljörðum dollara í 9 stærstu bankana í síðustu viku og skipaði þeim að senda þá áfram út á markaðinn. 

 Þeir sátu hins vegar á aurnum þar sem ekki var verið að leysa hið raunverulega vandamál, sem er að vita hver er greiðslugeta hvers og eins.

Þetta þýðir að ef þessir nýju bankar eiga að eiga séns í framtíðinni verður allt ógagnsæi á bókunum til verulegs ógagns.

Vidar Masson (IP-tala skráð) 23.10.2008 kl. 01:14

2 identicon

Mismunun er væntanlega bara til umræðu varðandi innlánsreikninga hjá erlendum útibúum en ekki erlendum dótturfélögum.

buroclass (IP-tala skráð) 23.10.2008 kl. 08:45

3 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Ég er þér ekki lögfróðari en það breytir ekki því að ég hef af þessu verulegar áhyggjur. Mér virðist að við öll þau risaskref sem tekin hafa varið í þessu afdrifaríka máli hafi menn ekki hugsað og greint helstu afleiðingar. Allt frá því að leyfa Icesavereikningunum að verða til og vaxa, bæta við nýjum í Hollandi í vor, taka ekki risalán í vor, neita Glitni um aðstoð og yfirtaka hann í staðin, - og svo ekki síst neyðarlögin sem slík og framkvæmd þeirra. - Ekkert af þessu virðist hafa verið greint eðlilega með hliðsjón af fyrirsjáanlegum afleiðingum.

Helgi Jóhann Hauksson, 23.10.2008 kl. 13:08

4 identicon

Ég er sammála Helga, nema að ég er ekki viss um að þessi risaskref hafi verið tekin að óhugsuðu máli, ég tel það óhugsandi að þetta gerist fyrir "tilviljun", ég bara er ekki "tilviljunarkenningamaður".

Gullvagninn (IP-tala skráð) 23.10.2008 kl. 14:17

5 Smámynd: Magnús Birgisson

Ekki er ég lögfróðari en aðrir athugasemdaskrifarar en ég sef alveg á nóttunni yfir þessu.

Ástæðurnar eru þessar:

Varðandi eignirnar (og skuldirnar í formi innlána)  sem færast yfir í nýja bankann þá eru fengnir sérfræðingar til þess að meta þessar eignir og skuldir og fyrir mismuninum gefið út skuldabréf sem er lagt inn í gamla bankann.  Þannig hafa kröfuhafar í raun aðgang að öllum eignum til skiptana.  Burtséð frá því hvort kröfuhafinn er innlendur eða erlendur. Það er hinsvegar mikilvægt að matsaðilinn sé hafinn yfir allan vafa, t.d. erlend endurskoðunarstofa, annars gæti stefnt í áralöng málaferli.

Varðandi mismunandi meðferð erlendra og innlendra innlánseigenda. Ég hugsa að þegar málin eru skoðuð þá sé til staðar neyðarréttur sem leyfir þjóðum að grípa til viðeigandi ráðstafana til þess að vernda meiri hagsmuni gagnvart minni. Þegar raunveruleg hætta á hruni hagkerfis með svelti og hörmungum heillar þjóðar vs. hagsmunir innlánseigenda sem eru 0,5% sinnar þjóðar og síðan vegið og metið hvort aðgerðirnar hafi verið innan eðlilegra marka þá trúi ég ekki öðru en að við sleppum með þetta. Nota bene....eignir erlends fólks í íslenskum útibúum eru t.d. tryggðar, það eru gerð landfræðileg mörk en ekki þjóðernisleg.  Inní þetta mat myndi líka verða tekið samskonar yfirlýsingar annarra þjóða, aðgerðir sem bretar hafa gripið til eða hefðu getað gripið til osfrv...

Einsog ég segi...ég kýs að vera bjartsýnn að þessu leiti. 

Magnús Birgisson, 23.10.2008 kl. 16:46

6 Smámynd: Björn Heiðdal

Menn þurfa ekki að vera sérstaklega lögfróðir til að sjá að þetta er algjör djöfulsins della.  Svo heimta landráðamenn og konur aðkomu IMF.  Eftir þá shock meðferð á síðan að henda okkur inn í ESB með látum.  Kannski ætti Sjálfstæðisflokkurinn að skipta um nafn og kalla sig Aulaflokkinn.  Samfylkingin gæti líka kallað sig Landráðaflokinn.  Kannski mætti líka bæta við smá ehf fyrir aftan.  Svona til að undirstrika góðan vilja.

Björn Heiðdal, 23.10.2008 kl. 21:20

7 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Jæja Björn, ef þú vilt hvorki IMF né ESB, hvað viltu þá gera til að endurreisa hagkerfið og krónuna?  Það þýðir ekki að brigsla mönnum um landráð (sem er nóta bene alvarlegur glæpur skv. hegningarlögum) en benda ekki á aðrar færar leiðir.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 23.10.2008 kl. 23:49

8 identicon

Ég er ekki mjög lögfróður en málið lítur svona út fyrir mér:

Íslenska ríkisstjórnin ábyrgðist innistæður í útíbúum á Íslandi úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna en ekki í Bretlandi eða Hollandi.

Breska ríkisstjórnin ábyrgðist innistæður í útibúum Íslenskra banka (en ekki annarra banka) á Bretlandi úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna. Hún ábyrgðist ekki innistæður á Íslandi eða í Hollandi.

Mér sýnist þetta snúast um það hvort að útibúin eru innan eða utan landamæra ríkja og sérstakar aðstæður, ekki þjóðerni innstæðueigenda.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 24.10.2008 kl. 01:49

9 identicon

Einmitt Hans, Vilhjálmur þú ert að rugla saman hugtökunum landamæri og þjóðerni, og ég skil ekki alveg hvernig það er hægt.

Konan mín, sem er bandarískur ríkisborgari hélt allri sinni inneign í Kaupþingsútibúinu í kringlunni, en ef ég hefði átt pening hjá Icesave í Bretlandi, þá hefði það verið dekkað að €20.000.

Þetta er afskaplega einfalt og kemur þjóðerni ekkert við. 

Brjánn (IP-tala skráð) 24.10.2008 kl. 19:50

10 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Brjánn, það er alveg kýrskýrt að EES samningurinn leyfir hvorki mismunun í lögum eftir landamærum né þjóðernum á EES-svæðinu, þ.e. á þeim sviðum sem samningurinn nær til yfirleitt (sem eru aðallega "fjórfrelsið").

Vilhjálmur Þorsteinsson, 26.10.2008 kl. 11:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband