4.10.2008 | 17:21
Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta
Til er fyrirbæri sem heitir Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta, sem er stofnaður skv. lögum nr. 98/1999 í samræmi við EES reglur.
Í innistæðudeild sjóðsins voru um síðustu áramót 8,3 milljarðar króna.
Til samanburðar þá voru innlán í íslensku viðskiptabönkunum á miðju ári sem hér segir:
Kauping 1848 milljarðar
Glitnir 710 milljarðar
Landsbanki 1617 milljarðar
Samtals 4175 milljarðar, meðan tryggingarsjóðurinn er rúmir 8 milljarðar. (P.S. 6. okt. Ég sé á vef talsmanns neytenda að tryggingasjóðurinn er sagður vera 13 milljarðar og hafa aðgang að 6 milljarða ábyrgðum til viðbótar.)
Tryggingasjóðurinn á að vera a.m.k. 1% af tryggðum innistæðum. Munurinn liggur sennilega í því að hluti innistæða i íslensku bönkunum er frá EES löndum þar sem þær eru væntanlega (vonandi) tryggðar í þarlendum tryggingarsjóðum.
Tryggingarsjóður innlána virðist samt tæplega duga upp í nös á ketti ef einhver bankanna lendir í þroti. Það hlýtur því að koma til viðbótarframlags úr ríkissjóði til að standa við orð forsætis- og viðskiptaráðherra um að allar innistæður séu tryggðar.
Ég tek fram að ég mæli ekki með því að taka innistæður út úr bönkum. En svör stjórnvalda í þessu efni mættu vel vera greinarbetri og skýrari, það er lágmarkskurteisi við almenning.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.10.2008 kl. 09:44 | Facebook
Athugasemdir
Frábært innlegg hjá þér, og haltu þessu á lofti.
Ingibjörg Magnúsdóttir, 4.10.2008 kl. 22:50
Egill Helga margspurði einmitt Pétur Blöndal um þetta í Silfrinu í dag, hvort allar innistæður væru tryggðar, háar sem lágar. Pétur svaraði þessu ekki beint heldur vísaði bara til orða Forsætisráðherra, hann hafði sagt þetta og þá þá væri það þannig...
Ekki fannst mér þetta skýr svör frá þingmanninum margreynda og tryggingastærðfræðingnum.
Skeggi Skaftason, 5.10.2008 kl. 23:11
Það eru ekki taldar með innistæður hjá Sparisjóðunum hjá þér. Ég tel að við nálgumst þetta ekki með þessum hætti. Í fyrsta lagi eru neyðarlögin að gera ráð fyrir því að Tryggingarsjóðurinn fjármagni sig með m.a.eignum bankanna og þá bætist vonandi vel í hann. Þar eru miklar eignir. Í öðru lagi eru ákvæði í neyðarlögunum um að Tryggingarsjóður virði binditíma og fleira þannig að þetta færi aldrei allt út í einu. Í þriðja lagi er sem betur fer og vonandi líklegt að ekki reyni á þetta gagnvart öllum bönkunum. Dæmið er ekki alveg einfalt.
Valborg Kjartansdóttir (IP-tala skráð) 7.10.2008 kl. 15:19
Mér finnst einmitt óöryggi falið í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Til að taka af allan vafa hefði mátt taka fram að átt væri við "allar upphæðir" eða "hvaða upphæð sem er". En skv. yfirlýsingunni, 6.10.08 segir "Með innistæðunm er átt við allar innstæður almennra sparifjáreigenda og fyrirtækja sem trygging innstæðudeildar Tryggingasjóðs innstæðueigenda tekur til"
Og skv. því sem ég best veit tryggir sjóðurinn, tæpar 21 þúsund evrur. Telst yfirlýsingin vera skýr skilaboð???
Ragnheiður (IP-tala skráð) 8.10.2008 kl. 14:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.