18.9.2008 | 17:59
Tapþol íslenskra banka
Forstöðumaður greiningardeildar Glitnis lét hafa eftir sér í gær að hann teldi að íslenskir bankar þyrftu samtals að afskrifa rúma 100 milljarða á þessu ári og því næsta.
M.a. í tilefni þessara orða gluggaði ég í árshlutareikninga bankanna og tók saman tapþol þeirra þriggja sem virkastir eru á innanlandsmarkaði og gera upp í krónum. Lágmarks eiginfjárhlutfall fjármálastofnana (CAD) eftir FME/Basel reglum er 8%. Á miðju ári var CAD hlutfall Kaupþings 11,2%, Glitnis 11,2% og Landsbankans 10,3%.
Tapþol Kaupþings var, skv. mínum útreikningum, á miðju ári 180 milljarðar króna, Glitnis 87 milljarðar og Landsbankans 78 milljarðar. Það eru sem sagt upphæðirnar sem eignir þeirra í útlánum, og eigið fé, má lækka um, án þess að CAD hlutfall fari niður fyrir 8% lágmarkið.
Það verður forvitnilegt að sjá hvernig þróunin verður í uppgjörum eftir þriðja ársfjórðung. Einhver töp hafa fallið á bankana í millitíðinni, en að sama skapi hefur eiginfjárstaða þeirra styrkst í krónum vegna veikingar krónunnar (bankarnir eru sem kunnugt er "langir" í gjaldeyri á móti krónu). Svo geta menn velt fyrir sér hversu mikil töpin eru líkleg til að vera á þessu og næsta ári.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Eins og einhver sagði : "Ef þú ert með 10 milljónir í vanskilum í bankanu eryu í vandræðum...ef þú ert með 10 milljarða í vanskilum er bankinn í vandræðum". Það sem ég er hræddur um er að gjaldþrot og erfiðleikar stórra aðila geti valdið bönkunum verulegum erfiðleikum - og já, rekið þá niður fyrir 8% mörkin.
Púkinn, 18.9.2008 kl. 18:25
Skuldbindingar vega misþungt í CAD útreikningum þannig að það fer eftir eðli skuldbindinga sem tapast hvernig slíkt hefur áhrif á þetta hlutfall. Svigrúmið í krónum er meira eftir því sem áhættustuðull tapaðra eigna er hærri þannig að þetta er ekki alveg svona einfalt.
Jón Helgi (IP-tala skráð) 19.9.2008 kl. 09:21
Góð ábending Jón Helgi, en þær eignir sem ég er einkum að tala um - dæmigerð lán til íslenskra fyrirtækja og eignarhaldsfélaga, sem eru ekki með lánshæfismat eða lægra en A- - telja 100% inn í "credit risk" samkvæmt CAD/Basel. Afskrift slíkra lána kæmi m.ö.o. 100% til frádráttar í Tier 1 eiginfjárgrunni (og jafnframt úr vigtuðum eignum fyrir neðan strik).
Fyrir þá sem vilja kynna sér aðferðafræðina er ágætis yfirlit hér.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 19.9.2008 kl. 12:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.