Tekjublöð Frjálsrar verslunar og Mannlífs

Ósköp er það skrýtið fyrirbæri í íslensku þjóðlífi að hafa skattskrár opinberar, og enn skrýtnara að út komi "tekjublöð" sem selja má í 12 daga samkvæmt leyfi Tölvunefndar, með listum yfir nöfn og tekjutölur.  Ég skammast mín það mikið fyrir þennan furðulega sið að ég hef ekki mannað mig upp í að segja erlendum samstarfsmönnum mínum frá honum, enda væri það til að styrkja þá trú þeirra að landið sé bananalýðveldi.

Ég er enda allnokkuð argur út í sjálfan mig fyrir að hafa asnast til að kaupa tekjublað Frjálsrar verslunar um helgina, en mig vantaði lesefni í sumarbústaðnum og lét freistast til að punga út heilum 949 krónum fyrir herlegheitin.

Nú er ekki nóg með að  hugmyndafræðin í þessu sé óviðkunnanleg og vafasöm, heldur er útfærslan líka með eindæmum hroðvirknisleg.

Í fyrsta lagi getur í mörgum tilvikum verið um áætlanir skattstjóra að ræða og enginn greinarmunur gerður á þeim tölum og eiginlegum framtölum.

Í öðru lagi eru bara gefnar upp launatekjur (væntanlega byggðar á útsvari) en fjármagnstekjur vantar.  Ef einhverjir telja svona útgáfu hafa "eftirlitshlutverk" þá fellur það um sjálft sig með þeim ágalla, því launin segja aðeins hálfa söguna.

Í þriðja lagi er listinn vaðandi í villum, þ.m.t. innsláttar- og stafsetningarvillum og því lítt traustvekjandi sem heimild.  Nefna má að í upphafi er áréttað að um sé að ræða skattskyldar tekjur á árinu 2006, en á væntanlega að vera 2007. Augljóst er að yfirlestur er allur í skötulíki.

Í fjórða lagi er val nafna á listann í meira lagi sérkennilegt í mörgum tilvikum.  Til dæmis birtir Frjáls verslun fjölda nafna erlendra starfsmanna Alcoa og Bechtel (sem reyndar er stafsett Bectel í blaðinu) ásamt tekjum þeirra, án þess að þessir starfsmenn hafi nokkuð til frægðar unnið eða útskýrt sé af hverju þeir verðskulda pláss á listanum - starfsheiti þeirra er ekki einu sinni birt, aðeins nafn.  Hvurn fjárann varðar mig um tekjur einhvers "Clyde Hammud Craig, Alcoa"?  Er FV að leggja lykkju á leið sína til að bjóða þessa ágætu starfsmenn velkomna til bananalýðveldisins Íslands?

Að sama skapi vantar ýmis nöfn, til dæmis forstjóra nýjasta fjárfestingarbankans, meðan nokkrir ágætir bændur ná inn á lista yfir "ýmsa menn úr atvinnulífinu" með sínar 300 þúsund krónur á mánuði, og verður að teljast ófréttnæmt með öllu. Þá veit ég ekki hvort Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson er með réttu með 758 eða 1.748 þúsund á mánuði, því hann er tvisvar á lista með sitt hvora töluna.  Svona gæti ég haldið áfram og þreytt lesendur með fleiri dæmum, en læt staðar numið.

Sem sagt: er ekki í fyrsta lagi tóm vitleysa að halda áfram að birta skattskrár, og í öðru lagi fyrir neðan virðingu tímarita á borð við FV og Mannlíf að vera að eltast við að birta hroðvirknislega lista yfir persónulega hagi fólks sem valið er með höppum og glöppum?  Og erum við svo sem mikið skárri, sem kaupum þennan fjára fyrir 949 krónur?  Aldrei aftur!

Væri ekki fínt nýársheit fyrir fjármálaráðherra að binda enda á þessa leiðindahefð, og að öðrum kosti fyrir okkur hin að hætta að kaupa svona blöð?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

    he, he....   

Edda (IP-tala skráð) 5.8.2008 kl. 01:18

2 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

ÞÚ keyptir blaðið! (Ég reyndar líka) Er það ekki það sem útgefendurnir eru að reyna að græða á? Uppsetning, heimildir, stafsetning, vandvirkni, metnaður og annað í þeim dúr, er löngu horfið úr hérlendri útgáfustarfsemi. Nægir að benda á hroðvirknislega unnar fréttir og pistla hér á mbl.is því til sönnunar

Halldór Egill Guðnason, 5.8.2008 kl. 01:28

3 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Ekki keypti ég blöðin.  Ég fletti FV í bústað um helgina og gluggaði í Mannlíf í 10-11 í gær.  Tók eftir tvennu.  Í FV er eiginmaður Menntamálaráðherra með tæpar tuttugu milljónir á mánuði en í Mannlífi er sami maður með rétt rúmlega hundrað þúsund. Þarna munar dálítið miklu!

Sá líka að biskup var ekki með sömu laun í báðum blöðum þó það munaði ekki miklu, í FV var hann rétt undir milljón en í Mannlíf rétt yfir henni.

Fleiri tölur gat ég ekki borið saman eftir minni en mér finnst a.m.k. ekkert rosalega traustvekjandi ef tölurnar eru svo ólíkar.

Matthías Ásgeirsson, 5.8.2008 kl. 02:14

4 Smámynd: Einar Þór Strand

Það er rétt hjá þér þetta er ekki vitrænt það væri miklu eðlilegra að þessar upplýsingar ásamt framtölum væru aðgegnilegar á netinu hjá ríkisskattstjóra og það allt árið og aftur í tímann með leiðréttingum og öllu.  Málið er að þetta eru ekki einkagögn heldur opinbergögn og upplýsingar sem gefnar eru að viðlögðum drengskap og misskilningur hjá persónuvernd að það eigi að takmarka aðgengi að þessum upplýsingum.

Einar Þór Strand, 5.8.2008 kl. 09:05

5 Smámynd: Dunni

Veit ekki menn eru að ergja sig út af opinberun skattskrárinnar.  Þetta eru opinber gögn en ekki einkamál hver og eins. Enda liggja þessar upplýsingar á lausu í mörgum löndum Evrópu og sum þeirra eru alls ekki bananalýðveldi heldur konungsveldi.

Dunni, 5.8.2008 kl. 09:15

6 identicon

Ég held að munurinn felsit í því að mannlíf kann ekki að reikna inn persónuafsláttinn... þess vegna munar alltaf einhverjum þúsundköllum á áætlðuðum launum.

Davíð (IP-tala skráð) 5.8.2008 kl. 10:04

7 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Þeir hljóta að byggja á útsvarinu, og deila með útsvarshlutfalli viðkomandi sveitarfélags, það er einfaldast.  En hvernig Mannlíf og FV fara að því að fá mismunandi útkomu, veit ég ekki, en það er í samræmi við annað í þessum hroðvirknisfræðum.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 5.8.2008 kl. 10:23

8 Smámynd: Sverrir Einarsson

Ekki kaupi ég þetta blað, þannig að ríkið fær ekki neinn vask frá mér né FV eða Mannlíf einhverjar krónur en þetta selur (upplýsingar um náungann) sér Íslenskt fyrirbrygði nei held ekki.

Mig minnir hins vegar að þeir hafi rifist um þetta í sjónvarpinu í fyrra FV og Mannlíf hvor væri með "réttari" útreikning eða reiknikúnstir.

Rétt það vantar í þetta fjármagnstekjur ansi margra, þar sem fram mætti koma hvað þeir fá í fjármagnstekur og hvað þeir greiða í fjármagnstekjuskatt. Eða  hvað þeir hefðu greitt í skatt hefðu þeir þessar krónur sem beinar tekur og sýna mismuninn........þá kemur ósanngirnin í ljós.

Sverrir Einarsson, 5.8.2008 kl. 12:02

9 identicon

Ekki skil ég þennan árlega gauragang. Ef ég veit rétt fjallar þetta tölublað eingöngu um tekjur einstaklinga og hverjum í frjálsvald sett hvort hann kaupir.

 Þú hefur ekki áhuga en kaupir blaðið! Þú skoðar það nógu vel til að taka eftir rangfærslum og þú telur að vanti upplýsingar um ákveðna einstaklinga! Mig grunar að þú myndir eiga svefnlausar nætur ef þessi blöð væru ekki gefin út.

Í Noregi getur þú farið inn á heimasíðu t.d. VG (dagblað) og fundið tekju- og eignaskatt allra einstaklinga. Gæti hentað þér vel ef þetta skyldi bannað á Íslandi.

Daníel Thorarensen (IP-tala skráð) 5.8.2008 kl. 15:47

10 Smámynd: Óskar Þorkelsson

ekkert athugavert við þetta og í raun virkar þetta líka sem aðhald gagnvart skattsvikum..

eins og Daníel segir hér að ofan þá er þetta opið í noregi og að ég held örugglega svíþjóð líka því skattar eru opinberir en ekki þitt einkamál eins og sumir stuttbuxnadeildastrákar virðast halda  

Óskar Þorkelsson, 5.8.2008 kl. 18:08

11 Smámynd: tatum

Ég fagna því að búa í landi þar sem skattskráin er opin almenningi!  Það var upphaflega ákveðið að hafa þetta svona til að veita aðhald... en ég held að við þessir afkomendur þeirra sem virkilega þurftu að hafa fyrir lífinu, skiljum ekki orðið "aðhald" því hér virðist enginn vera maður með mönnum nema svíkja sem mest undan skatti..... og ætti þá helst að nefna fjármagnseigendur.... sem ekki greiða krónu til síns sveitafélags... nota þó alla þjónustu sem þar býðst án þess svo mikið sem skammast sín.... einnig mætti nefna hér nokkur nöfn sem eru langt langt langt undir framfærslutekjum... og lifa á okkur hinum..... án þess að skammast sín...... ég held við ættum að fara að taka forfeður okkar til fyrirmyndar og tilkynna óviðeigandi lifnað miðað við tekjur..... en þess vegna var skráin höfð opin í þá daga.... þeir vildu jafnrétti... að allir tækju þátt í samfélagsrekstrinum!!!!!og skattsvik væri ekki einkamál skattsvikarans!   Því þau bitna á okkur, skattsvikarinn notar göturnar, skólana, heilsugæsluna, starfsmenn sveitarfélagsins, og allt hitt en kemst undan því að greiða krónu!  Og hver borgar þetta þegar upp er staðið?  þeir sem telja tekjur sínar "rétt" fram.  Mér finnst gott að fá svona blöð til að sjá hver er heiðarlegur og hver ekki.... það er alveg hægt að lesa það í þessum blöðum.  Að bjóða manni uppá að fullorðin karlmaður hafi 67.000 kr. í mánaðarlaun og keyri um á margra milljóna bíl og búi í tugmilljóna hæð og dvelji stóran hluta í sumarhúsi sínu á flórida eða sumarbústað.... segir mér að hann er að svíkja undan skatti!!!!

tatum, 5.8.2008 kl. 20:48

12 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Tatum er einmitt dæmi um það hvernig menn misskilja tekjublöðin.  Það getur vel staðist að einhver hafi 67.000 kr í launatekjur en 500.000 í fjármagnstekjur, en aðeins fyrri talan kemur fram í listunum.  Og það er þá ekki um nein skattsvik að ræða.

Svo er skattgreiðandanum ekki um að kenna ef hann "greiðir ekki krónu til síns sveitarfélags", skattalögin eru einfaldlega eins og þau eru og nær fyrir þingmenn að breyta þeim; skattar af fjármagnstekjum ættu að renna til sveitarfélaga í einhverjum mæli.

Daníel, gagnrýni mín beinist annars vegar að því að skattskrár séu opinberar yfirleitt (finnst eftirlitsrökin léttvæg og reyndar óviðfelldin), og hins vegar að því að tekjublöðin séu hroðvirknislega unnin og ofmetin sem heimildir.  Áfellist vissulega sjálfan mig fyrir að hafa fallið í þá freistni að kaupa þessa dellu.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 5.8.2008 kl. 22:38

13 Smámynd: Davíð Þór Kristjánsson

Ég er sammála Vilhjálmi í alla staði, að birta svona upplýsingar er með öllu óviðeigandi og hefur engan tilgang. Þau rök að segja að þetta þjóni eftirlitshlutverki fellur um sjálft sig vegna þess að skattpeningar okkar fara að stórum hluta í eftirlitsstofnanir sem hafa þann tilgang að rannsaka skattskil. Birtingin er því með öllu tilgangslaus og í raun persónunjósnir á háu stigi.

Svo ekki sé talað um að þessar upplýsingar eru kolrangar eins og Vilhjálmur bendir á....

Hættum þessari vitleysu hið fyrsta.

Davíð Þór Kristjánsson, 17.8.2008 kl. 09:06

14 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Svo ekki sé talað um að þessar upplýsingar eru kolrangar eins og Vilhjálmur bendir á..

Upplýsingarar eru rangar EF viðkomandi aðili hefur ekki gefið rétt upp til skatts.

Það segir mér mjög mikið um fólk ef það vill halda þessum OPINBERU tölum leyndum.  

Óskar Þorkelsson, 17.8.2008 kl. 10:10

15 Smámynd: Davíð Þór Kristjánsson

Rangar í merkingunni að fjármagnstekjur eru ekki inní myndinni fyrir það fyrsta, svo ekki sé talað um túlkun blaðanna eins og bent hefur verið á.

Opinberar tölur eru líka heimilisföng fólks, kennitölur, fæðingardagar barna, búseta og svona mætti lengi telja. Það gilda strangar reglur um meðferð þeirra "opinberra upplýsinga"

Davíð Þór Kristjánsson, 17.8.2008 kl. 10:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband