15.7.2008 | 01:26
Verkefni næstu kynslóðar: að vinda ofan af olíuhagkerfinu
Ég á tvítugan son og átján ára gamla dóttur. Þeirra bíður það tröllaukna verkefni á starfsævinni að takast á við umbreytingu hagkerfisins frá olíu til annarra orkugjafa.
Margt mun breytast og sumt af því verður dýrt og sársaukafullt. Til dæmis er næsta víst að lífsgæði munu minnka á ýmsum sviðum áður en þau geta batnað aftur. Borgir sem eru hannaðar fyrir bíla munu eiga í erfiðleikum, því akstur einkabíla verður svo dýr að þeir verða aðeins notaðir "spari". Staðsetning verslunar og þjónustu mun breytast, og verðmunur á vel og illa staðsettum lóðum mun aukast. Ferðalög verða dýrari og meiri lúxus. Bandaríkjamenn munu þurfa að skipta út bílaflota sínum, sem er of eyðslufrekur, á allra næstu árum. Nýtt dreifikerfi fyrir orku þarf að koma í stað bensínstöðva og olíudreifingar. Til lengri tíma litið (en þó aðeins 20-30 ára) þarf að endurnýja alla bíla, flugvélar og skip og finna nýjar aðferðir til að beisla, geyma og flytja orku.
Allt útheimtir þetta miklar fjárfestingar og athygli mannkyns á næstu áratugum. Synir okkar og dætur munu því þurfa að bretta upp ermar og sætta sig við erfiðari kjör en foreldrar þeirra, nokkuð sem við erum óvön í ljósi nýlegrar sögu og almennrar trúar á framfarir.
Á Íslandi eigum við afar mikilvæga auðlind í hreinni og grænni orku, sem við þurfum að fara vel með og nýta á skynsamlegan hátt fyrir þessa sömu kynslóð. Ekki mun af veita.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:28 | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir frábæran pistil. Ég er einnig þeirrar skoðunar að þetta verði eitt megin vandamál okkar í framtíðinni. Nýverið las ég grein í Bloomberg Markets þar sem kemur fram að árið 2018 muni framleiðsla olíu ná hæstu hæðum (e. peak oil). Árið 2030 muni hvern einasta dag vanta 28 milljón tunnur af olíu til að fullnægja eftirspurn. Til samanburðar má nefna að núverandi eftirspurn í Bandaríkjunum einum nemur rúmlega 21 milljón tunna á dag.
Í greininni er greint frá því að í dag sé verið að vinna olíu úr mettuðum sandi og að það þurfi að jafnaði tvö tonn af slíkum sandi til að framleiða eina tunnu af olíu. Á því sést best að framboð olíu er að skreppa saman því þarna kostar kostar hver tunna $50 í framleiðslu í stað $10 með hefðbundnum leiðum. Það eru margir sem spá því að þessi vinnsla olíu úr sandi eigi eftir að hafa skelfilegar afleiðingar í umhverfinu og þurfum við ekki að horfa lengur en til Ingólfsfjalls til að sjá hvernig sandmokstur á tómstundakvarða getur leikið náttúruna. Ef þarna væri olíumettaður sandur væri Ingólfsfjall löngu horfið og risa svarthol komið í staðinn.
Ekki er ráð nema í tíma sé tekið og við Íslendingar eigum að ganga á undan með djörfu fordæmi. Við eigum að verða 95% rafmagns- og vetnisþjóð og afla okkur þannig reynslu sem við getum síðan flutt út. En það virðist ekki vera uppi á borðinu í dag hjá ráðamönnum sem láta sér nægja að hafa hér 2-3 hrörlega strætisvagna og telja að með því skipum við okkur í fremstu víglínu. Það þarf bara ögn meiri dirfsku og dáð en það! Jafnvel töluvert mikið meiri.
Óli Jón, 15.7.2008 kl. 10:12
Við eigum það forskot á bandaríkin að við hitum okkar hús að mestu með jarðvarma. En það verkefni að hætta olíukyndingu og færast yfir í umhverfisvænni hitun er eitt af þeim verkefnum sem er einnig aðkallandi. Um átta milljón hús nota olíukyndingu í bandaríkjunum og að skipta þessum heimilum yfir í umhverfisvænni kyndingu er stærðarverkefni.
En ég er sammála þessum pistli, þetta er stórt en mikilvægt skref sem við verðum að hefja og börn okkar munu líkast til ljúka því.
KveðjaHlini Melsteð Jóngeirsson, 15.7.2008 kl. 13:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.