Trú og kærleikur

Guðmundur í Byrginu var í síðustu viku dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir brot sín gegn skjólstæðingum Byrgisins.

Ég velti af því tilefni fyrir mér hinni hlið peningsins, þ.e. hvernig á því stóð að skattgreiðendur stóðu straum af rekstrarkostnaði Byrgisins, með þeim ömurlega árangri sem fyrir liggur.

Fyrir allmörgum árum var ég akandi heim á leið að kvöldlagi.  Bílútvarpið var stillt á Rás 1.  Þar stóð yfir útvarpsmessa, að þessu sinni send út frá Rockville, áðurnefndur Guðmundur predikaði.  Varð mér af skammri hlustun á útleggingar hans um sauði, hafra og eigið hlutverk ljóst að maðurinn gekk ekki heill til skógar, eða var að minnsta kosti langt frá því að vera "eins og fólk er flest".

Hvernig gat nokkrum manni dottið í hug að láta Guðmund hafa peninga skattgreiðenda til að sinna viðkvæmu og brothættu fólki sem þurfti alvöru aðhlynningu og stuðning?

Ég held að svarið liggi í einhvers konar deyfiáhrifum eða þoku sem myndast í kring um trú, þ.m.t. Guð, Jesú og Biblíuna.  Af því að starfsemi Guðmundar var sögð "kristileg" þurfti ekki að beita á hana heilbrigðri gagnrýni.  Enda dugir rökhugsun og almenn skynsemi sem kunnugt er skammt þegar trúin er annars vegar.

Þeir stjórnmálamenn sem að þessu máli komu eiga að velta ábyrgð sinni vel fyrir sér.  Guðmundur hefði að öllu eðlilegu aldrei átt að komast í þá stöðu sem hann komst, með hörmulegum afleiðingum fyrir okkar minnstu bræður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Svo er líka miklu ódýrara fyrir ríkisvaldið að styrkja svona starfsemi en að standa fyrir henni sjálft. Því miður! Vona að þetta Byrgismál hafið verið það sem þurfti til að vekja liðið! Ég set mjög stórt spurningamerki við að blanda trú inn í meðferð fíkniefnasjúklinga, sem ætti að vera fagleg, alveg sama hversu meiningin er góð.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 12.5.2008 kl. 21:56

2 identicon

Auðvitað eiga þeir stjórnmálamenn sem klúðruðu þessu máli að taka ábyrgð á dæminu, einn af þeim mönnum lætur hátt hér á blogginu og talar mikið um sparnað og annað fokk, sem mér finnst eins og að henda kjarnorkusprengju úr glerhúsi.
En hann var víst kosinn aftur af sveitungum sínum, tsk tsk

DoctorE (IP-tala skráð) 13.5.2008 kl. 09:42

3 identicon

Það var mér alltaf undrunarefni á sínum tíma þegar Byrgið heimtaði að ríkið leysti húsnæðisvandamál þess og fjölmiðlur hjálpuðu til með að stilla ráðherrum og þingmönnum upp við vegg þar sem hnípnir þeir sögðust vera að vinna í málinu.  Frekjan fannst manni með ólíkindum og undanlátssemi ráðherra einnig.  Maður spurði sig af hverju í ósköpunum.

Örn (IP-tala skráð) 13.5.2008 kl. 11:21

4 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Ég held að svar þitt sé rétt, lengi hefur ekki mátt gagnrýna neitt sem gert er á kristilegum forsendum.

Matthías Ásgeirsson, 13.5.2008 kl. 14:09

5 Smámynd: Haukur Nikulásson

Villi, þessari trúarvitleysu er sífellt framhaldið hjá þingmönnunum sem koma eins og búfénaður í röð út úr Dómkirkjunni þegar þing er sett. Þegar á reynir trúa fæstir þingmanna á Guð, Jesú og Biblíuna ekkert frekar en við.

Óttinn við hið óþekkta gerir það að verkum að fæstir þora að andæfa trúarbullinu og útgjaldasukki kirkjunnar af ótta við að verða refsað eftir jarðvistina. Ég er búinn að sjá við þessu. Trúi með sjálfum mér að maður eigi að lifa til góðs en ekki ills og gera öðrum það sem þú vilt láta gera þér. Þetta er einföld og góð siðfræði óháð trúarbrögðum. Ef til er önnur tilvera eftir dauðann er ég sannfærður að ég sé á réttri braut með þetta og þetta á að vera mitt einkamál án þess að samfélagið þurfi að borga með því.

Haukur Nikulásson, 13.5.2008 kl. 14:26

6 Smámynd: Einar Sveinn Hálfdánarson

Tenging deyfiáhrifa eða þoku sem myndast í kring um trú, þ.m.t. Guð, Jesú og Biblíuna, sem sé að þeir sem trúa þessu séu ekki með sjálfum sér er góður og gegn Marxismi; ekki væri verra að tenging fylgdi ,,rökunum". Hvaða þingmenn beittu sér, deyfðir af Kristi,  í málinu? Hverjir studdu Guðmund mest og best utan þings? Viltu ekki leggja staðreyndirnar á borðið úr því að þú hefur haft svona mikið fyrir að kynna þér málið?

Einar Sveinn Hálfdánarson, 13.5.2008 kl. 18:03

7 Smámynd: Kristján Hrannar Pálsson

Hér er naglinn hittur þráðbeint á höfuðið. Menn gleyma oft því að stofnanir og samtök sem eru rekin á trúarlegum forsendum leiða ekki alltaf til góðs þrátt fyrir oftast góðan ásetning. Þar með skapast gríðarlegt skálkaskjól fyrir hluti á borð við þessa.

Kristján Hrannar Pálsson, 13.5.2008 kl. 19:25

8 identicon


Þarna var maður sem var reiðubúinn að fjarlægja af götum borgarinnar 40-50 drykkjumenn og fíkla ... og ríkið var reiðubúið að greiða fyrir það.  Ósköp einfalt mál.  Og ekki spillti fyrir að þeim var úthýst svona einn, tveir og þrír frá Rockville. 

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 13.5.2008 kl. 20:18

9 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Einar Sveinn: Fjölmiðlar reyndu t.d. mikið á sínum tíma að eltast við Birki Jón Jónsson, þáverandi formann fjárlaganefndar, til að fá skýringar hans á fjárframlögum til Byrgisins, og jafnframt eftirlitsleysi við meðferð fjármuna þar og hversu lítið mark fjárlaganefnd virtist taka á aðvörunum Ríkisendurskoðunar.  En mun fleiri komu að því að styðja Byrgið, og þá þingmenn úr flestum flokkum.

Byrgið hefur væntanlega sýnst vera auðveld og þar af leiðandi freistandi lausn á erfiðum vanda, þ.e. hvað gera eigi í málefnum langt leiddra áfengis- og eiturlyfjafíkla.  Lausn sem enskumælandi fólk myndi kalla "cop out".  En eins og Breiðavíkurheimilið sýnir einnig, eru slíkar lausnir eins og að pissa í skóinn sinn: skammgóður vermir.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 14.5.2008 kl. 00:01

10 Smámynd: Arnar Sigurðsson

Þetta mál undirstrikar jafnframt enn og aftur mikilvægi þess að skera niður opinberan rekstur.  Úr því hið opinbera getur ekki séð betur um hluti sem flestir eru sammála um að hið opinbera eigi að sjá um væri ráð að skera niður óþarfa rekstur og skerpa sýn á það sem eftir stendur. 

Arnar Sigurðsson, 14.5.2008 kl. 21:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband