Barnalega spurt í forystugrein Morgunblaðsins

Í forystugrein Moggans í dag er spurt í frekar ráðvilltum, en jafnframt ásakandi, stíl hver það sé sem hagnist á því að selja krónur og græði á gengishruni.

Svarið er augljóst.  Vegna hávaxtastefnu Seðlabankans hefur krónan verið notuð í vaxtamunarviðskiptum ("carry trade").  Spákaupmenn víða að úr heiminum hafa tekið lán í jenum, svissneskum frönkum og öðrum lágvaxtamyntum, breytt peningunum í krónur og geymt þær á háum vöxtum hér, og hirt vaxtamuninn á milli.  Meðan krónan hefur haldist nokkuð stöðug, hefur verið fínn hagnaður af þessum viðskiptum, og þau í raun haldið sjálfum sér uppi.

En um leið og eitthvað kemur upp á, og fjárfestar taka að forðast áhættu, flýja þeir vaxtamunarviðskiptin, selja krónurnar sínar og borga upp jenalánin.  Þetta gera þeir annað hvort beint eða óbeint, þ.e. með því að bæta við öfugum samningum á við þá sem upphaflega voru gerðir.

Það er því enginn sérstakur bakari sem ráðvilltir ritstjórar Morgunblaðsins geta hengt fyrir smið.  Ástandið er því að kenna að Seðlabankinn hélt uppi hávaxtastefnu of lengi og gaf vaxtamunarviðskiptum of frítt spil.

Nú virðist Seðlabankinn enn í afneitun og telja að hann geti barist við olíuverðshækkanir og hækkanir á hrávörum á alþjóðamörkuðum með því að halda uppi háum vöxtum á Íslandi, þegar reyndin er sennilega þveröfug: hann veldur verðbólgu en afstýrir henni ekki úr þessu.

Ég spái því að í stað krónu verði fiskibolludósir orðnar gjaldmiðill Íslendinga áður en árið er liðið.  Mæli með því að menn verði langir í ORA (og verðtryggðum skuldabréfum!).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

ORA fiskibollur eru þungur gjaldmiðill, nema matvælaskortur fylgi þessum ósóma, þá getur ein dós dugað fyrir talverðri þjónustu eða öðrum vörum.  Mæli samt með einhverju án MSG sem nýum gjaldmiðli, en alls ekki með að taka upp Evru með inngöngu í nýju ráðstjórnarríkin.

Gullvagninn (IP-tala skráð) 15.3.2008 kl. 13:46

2 Smámynd: Hagbarður

Vel mælt hjá þér Vilhjálmur. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að peningamálastefna Seðlabankans hafi verið biluð stefna. Með stefnu bankans hafi verið unnið að því að gera gjaldmiðilinn "spekúlatívan" og virði hans hefur ekki endurspeglast af grunnþáttum hagkerfisins heldur hafi hann sótt virði sitt í ákvarðanir aðila sem sóst hafi eftir því að nýta sér vaxtamuninn. Sjóðstjórar hjá erlendum vogunarsjóðum hafa því að verulegu leyti ákvarðað virði gjaldmiðilsins. Ríkisfjármálin hafa heldur ekki tekið mið af þessu og þeirri ógn sem felst í ofskráðum gjaldmiðli. Góð afkoma rískissjóðs er ekkki að þakka því að sýnd hafi verið sérstök fyrirhyggja í rekstri. Góð afkoma er vegna "ofneyslu" innanlands og meiri vörugjalda af kaupsýkinni sem fylgir rangskráðum gjaldmiðli.

Skellurinn sem almenningur þarf að taka á sig er óhjákvæmilegur. Fyrir utan það að hafa greitt eina hæstu vexti á jarðkringlunni í góðærinu, þurfa landsmenn núna að undirbúa sig undir stórt verðbólguskot sem kemur í kjölfar lækkandi krónu. Undirmarkmið Seðlabankans um stöðugt gengi hefur ekki haldið. Bankinn gætti ekki að sér við ákvarðanir varðandi vaxtastigið, hundsaði undirmarkmiðið og hleypti krónunni yfir í þann fasa að ákvarðanir fárra erlendra aðila ráða nú verðlagi hér á landi og hvað skuldir heimilanna eiga að hækka mikið. Biluð vaxtastefna sem styrkti krónuna langt umfram það sem "eðlilegt" getur talist er búin að koma okkur í þá stöðu að flótti úr krónunni (innleyst Jöklabréf) auka verðbólguna þó að Seðlabankinn haldi ofurvöxtunum óbreyttum. Góðærinu þurfum við líklega að skila til baka á næstu mánuðum vegna óstjórnarinnar og taka á okkur líklega 20 til 30% hækkun á húsnæðislánunum okkar. Frábær stjórn á peningamálum hjá Seðlabankanum! Eina þjóðin sem hefur þrjá Seðlabankastjóra, en líklega eru þeir ekki nægjanlega margir, það gefur árangurinn til kynna.

Hagbarður, 15.3.2008 kl. 22:20

3 Smámynd: haraldurhar

   Sammála ykkur Viljálmi og Hagbarði,að  glórulaus penigamálastefna Seðlabankans, er rót vandans er við okkur blastir í dag.

   Þar sem styttist í ársfund Seðalbankans geri ég það að tillögu minni að fjölgað verið í stjórn bankans, og leitað sérstaklega eftir hagyrðingum og öðrum er aldrei hafa nálægt efnahagsstjórn komið.  Fjölgað Bankastjórum, og laun þeirra er fyrir sitja hækkuð verulega umfram verðbólgu, þannig við njótum starfskrafta þeirra sem lengst.

haraldurhar, 16.3.2008 kl. 01:03

4 Smámynd: Johnny Bravo

Margt gott hjá þér í þessu. En þetta með að vera alltaf að kenna erlendum spákaupmönnum um gengið er þreytt.

Gengi krónunnar (sem og allra annarra hluta) fer eftir því hvað kaupandi vill greiða fyrir hana.

Það hlustar engin á rök þín um að háir vextir búi til verðbólgu nema að þú rökstyðjir það betur. Þú átt valla við að það lækka vaxtakostnað evrulána og ekki að það hækki húsnæðiskostnað sem er inní VNV. Einstaklingar skulda 1M og fyrirtæki 4M og það er mikilvægt að hafa áhrif á fyrirtækin, það halda alltaf allir að það séu einstaklingarnir.

En þú ert kannski að gefa í skin, sem er alveg rétt að hækka vexti styrkir gengi og kemur því á móti hækkun á bensíni og hrávörum, en það kemur inní verðlagið með tíð og tíma þegar vextir lækka og gengið veikist.  En kerfið er náttúrulega gert þannig að það á að halda verðlagi stöðugu, svo það sé hægt að semja um laun og ekki þurfi að prenta peninga einu sinni á ári hehe

Johnny Bravo, 16.3.2008 kl. 09:44

5 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Jónsi góði, ég tel að með því að halda vöxtum of háum of lengi hafi Seðlabankinn safnað upp verðbólguspennu (í reynd frestað verðbólgu).  Krónan hefur í reynd verið of sterk og verðbólguviðnám bankans verið í gegn um gengið frekar en með því að slá á innlenda eftirspurn eins og ætlast er til að háir vextir geri.  Íslenska hagkerfið er óvenjulegt að því leyti að stór hluti neyslu er innfluttur og að í landinu eru tveir gjaldmiðlar, óverðtryggð og verðtryggð króna, en Seðlabankinn hefur lítil áhrif á síðarnefnda gjaldmiðilinn.  Þá eru landsmenn afar viljugir að taka erlend neyslulán og fara þannig fram hjá vaxtaaðhaldi bankans.  Allt leiðir þetta að því að Seðlabankinn átti að byrja að lækka vexti fyrr, og hleypa verðbólgunni í smáskömmtum út í kerfið í stað þess að það gerist með hvelli eins og nú er reyndin.  Svo eigum við náttúrulega að hætta með krónuna, þessa örmynt sem kostar okkur allt of mikið.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 17.3.2008 kl. 18:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband