10.2.2008 | 22:54
Enn um lífeyrissjóði og fjárfestingar
Nú er rúmur mánuður síðan ég skrifaði um lífeyrissjóði og hagfræði 101, þar sem ég spurði m.a. hvers vegna sjóðirnir hefðu ekki breytt fjárfestingaráherslum sínum frá hlutabréfum yfir í skuldabréf. Það hefðu þeir getað sagt sér að væri skynsamlegt allt frá fjórða ársfjórðungi síðasta árs.
Á þessum rúma mánuði hafa íslensk hlutabréf fallið um u.þ.b. 13%, vitaskuld mismunandi mikið eftir fyrirtækjum, Exista t.d. 20% og FL Group nálægt því. Á meðan hafa verðtryggð ríkistryggð skuldabréf haldið sjó og rúmlega það, en eiga mikið inni. Bréfin gefa nú frá 4,5 til 6,0% ávöxtun umfram verðtryggingu, sem er vel umfram tryggingafræðilega ávöxtunarkröfu sjóðanna. Sjóðirnir geta því ekki tapað á að eiga þessi bréf.
Í dag skrifar framkvæmdastjóri Gildis - lífeyrissjóðs grein í Morgunblaðið, sem ætlað er að svara gagnrýni á fjárfestingarstefnu sjóðanna. Í greininni fer framkvæmdastjórinn nokkuð ítarlega yfir laga- og reglugerðarumhverfi sjóðanna og talar almennt um fjárfestingarstefnu en svarar gagnrýninni hvergi efnislega. Sjóðunum er fullkomlega heimilt samkvæmt reglum að eiga ríkistryggð skuldabréf í hvaða hlutfalli sem þeir kjósa. Vissulega gefa hlutabréf sögulega betri ávöxtun til langs tíma en það er ekki þar með sagt að það sé alltaf skynsamlegt að eiga hlutabréf frekar en skuldabréf, t.d. óháð vaxtastigi eða ástandi efnahagsmála.
Þegar horft er fram á fjármálakreppu, lokaða fjármögnunarmarkaði, frystingu útlána frá bönkum, og líkur á harðri lendingu krónunnar, myndi ég draga úr áherslu á hlutabréf hjá lífeyrissjóði, ef ég væri þar sjóðsstjóri. Þótt vera kunni að hlutabréf muni rétta úr kútnum eftir einhver ár og fyrir rest ná skuldabréfunum aftur, er varla ábyrgt að grafa höfuðið í sandinn í þessari stöðu.
P.S. Ég var að lesa spá Greiningardeildar Kaupþings um ávöxtun skuldabréfa á næstu 12 mánuðum. Deildin spáir ávöxtun HFF44 upp á 21,9% miðað við grunnforsendur um vaxtalækkunarferli Seðlabankans; enn meiri ávöxtun ef verðtryggðir vextir leita í átt til þess sem þeir eru í Svíþjóð, og 33,8% ef markaðurinn sannfærist um að evra verði tekin upp innan 5 ára. Hér er sem sagt verið að ræða um verðtryggð, ríkistryggð skuldabréf. Munu hlutabréf keppa við þetta? Ekki held ég það.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:53 | Facebook
Athugasemdir
Er stöðutakan hjá þér í skbr. e-ð að lokast inni?
Gunnar (IP-tala skráð) 11.2.2008 kl. 09:14
Nei, öðru nær
Vilhjálmur Þorsteinsson, 11.2.2008 kl. 10:03
Veist þú hvernig lífeyrissjóðir hafa staðið sig á hlutabréfamarkaðinum í samanburði við vísitöluna (meðalávöxtun markaðarins)?
Ég hef persónulega illan bifur á að minn lífeyrissjóður er rekinn af Kaupþingi, finnst þar vera nokkur hagsmunaárekstur (Frjálsi Lífeyrissjóðurinn).
En ég færði mig um flokk þar fyrir nokkrum árum, yfir í minnstu áhættuna sem er mest skuldabréf og samkvæmt "ráðgjöfum" gott fyrir þá sem eru á síðustu árum sínum á vinnumarkaðnum, en það virðist samt bara gilda um nýjar greiðslur, eldri iðgjöld malla enn í áhættusamari flokkunum.
Gullvagninn (IP-tala skráð) 11.2.2008 kl. 10:07
Gullvagn, þetta var skynsamlegt hjá þér og ég held að fleiri ættu að fara að þínu dæmi varðandi séreignasparnað, þ.e. velja ávöxtunarleiðir sem byggja á skuldabréfum frekar en hlutabréfum. Ef mig misminnir ekki þá var mun betri ávöxtun á "íhaldssömu" leiðinni en "hávöxtunar" leiðinni í Frjálsa lífeyrissjóðnum á síðasta ári.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 11.2.2008 kl. 11:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.