Lífeyrissjóðir, markaðir og hagfræði 101

Frá sjónarhóli almennings er ein athyglisverðasta efnahagsmálafrétt ársins 2007 ekki REI-málið eða gengi FL Group, heldur sú staðreynd að lífeyrissjóðir voru flestir með nánast enga raunávöxtun eða jafnvel neikvæða.

Lífeyrissjóðir eru sem kunnugt er stærstu fjármagnseigendur landsins og gæta fjármuna fyrir hönd almennings sem á hvern landsmann eru sambærilegir við hina nafntoguðu olíusjóði Norðmanna.

Sjóðirnir hafa tekið þann pól í hæðina að fjárfesta töluvert í innlendum og erlendum hlutabréfum, og vísa þá til sögulegrar reynslu um að ávöxtun hlutabréfa sé til lengri tíma betri en ávöxtun skuldabréfa.

Þótt þetta séu viðtekin sannindi og óumdeild, þá er það engu að síður þannig að ávöxtun hlutabréfa er mjög sveiflukennd og það koma löng tímabil inn á milli þar sem þau gefa mun minna af sér en skuldabréf.  Við erum klárlega komin inn í slíkt tímabil núna.

Í hagfræði 101 er kennt að það eru öfug tengsl milli vaxta og gengis hlutabréfa.  Ef áhættulausir vextir hækka, eiga hlutabréf að lækka.  Nú um skeið hafa boðist 14-15% vextir í krónu, sem hlaut fyrir rest að valda lækkun hlutabréfa, enda þurfa þau að keppa við vextina.  Jafnframt hafa undanfarið boðist 5-7,5% verðtryggðir vextir til langs tíma á ríkistryggðum skuldabréfum Íbúðalánasjóðs (HFF bréfum).  Slík raunávöxtun er langt umfram það sem lífeyrissjóðirnir þurfa til að mæta framtíðarskuldbindingum sínum.  Þá er ekki nema von að spurt sé: af hverju fóru sjóðirnir ekki af krafti yfir í verðtryggð skuldabréf t.d. á síðasta ársfjórðungi 2007?  Hlutabréf á niðurleið, skammtímavextir mjög háir, en ótrúlega góð örugg raunávöxtun í boði til langs tíma.

Spyr sá sem ekki veit.  En mér finnst þetta ekki endilega minna mál en REI-málið, til dæmis ef litið er á fjárhæð almannahagsmunanna sem í veði eru.

P.S. Svo upplýsingaskyldu sé gætt, tek ég fram að ég fylgi eigin ráðum og hef verið stuttur hlutabréf og langur HFF bréf um nokkurt skeið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórir Kjartansson

Tímabær umræða Vilhjálmur. Ætli að  þeir sem stýra fjármagni lífeyrissjóðanna hafi ekki verið, eins og svo margir aðrir, blindaðir af þeim ranghugmyndum að hlutabréfaverð á Íslandi færi alltaf upp en aldrei niður.  Þess er skemmst að minnast hverslags rasskell greiningardeildir bankanna fengu í sínum spádómum á s.l. ári.

Þórir Kjartansson, 7.1.2008 kl. 17:55

2 Smámynd: Theódór Norðkvist

Lífeyrissjóðirnir eru farnir að haga sér eins og ríki í ríkinu. Af hverju fá þeir að stunda áhættufjárfestingar með framtíðarellilífeyri okkar?

Þeim hefur veirð falið að gæta lífeyrisgreiðslna landsmanna og ávaxta þær. Hafa lífeyrissjóðirnir leyfi til að leika sér með þær og líta á þær sem sitt eigið fé?

Theódór Norðkvist, 7.1.2008 kl. 20:59

3 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Vandamál margra lífeyrissjóða undanfarin ár hafa verið að ávöxtun hlutabréfa hefur verið of mikil!  Hafa því margir þeirra neyðst til að selja bréf í gullkálfunum sínum til að hlutfall hlutabréfa í eignasafni fari ekki upp fyrir leyfileg mörk samkvæmt lögum.  Mér vitanlega hafa margir þeirra leitað inn á skuldabréfamarkaðinn. 

Það verður þó að hafa í huga, að eignakarfa lífeyrissjóðanna þarf að vera í samræmi við samþykktir sjóðanna, ákvæði laga og ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins.  Þeim er því jafn óheimilt að færa of mikið af fjárfestingum sínum yfir í skuldabréf og að eiga of mikið í hlutabréfum.  Vegna þessara kvaða dugar ekki að ná inn 15% ávöxtun á skuldabréfasafninu, þó það vegi segjum 40% - 50% af eignum, ef hlutabréf sem vega segjum 20 - 25% eru að rýrna um 40% - 60% í verði.  Eina leiðin fyrir lífeyrissjóðina að verjast svona niðursveiflu á verði hlutabréfa, er að eiga mikið í félögum sem hafa lækkað lítið.  Því miður eru þau félög fá og stærð þeirra ekki næg til að hægt sé að skipta á stórum hlutum í Kaupþing eða Glitni og félögunum sem siglt hafa lygnan sjó (ef þau eru þá nokkur).

Marinó G. Njálsson, 8.1.2008 kl. 00:27

4 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Þetta er ekki alveg rétt hjá þér Marínó.  Í 36. gr. laga um lífeyrissjóði er kveðið á um að hámark 35% fjárfestinga sjóðanna megi vera í hlutabréfum en það er ekkert hámark á ríkistryggðum skuldabréfum, sem mega vera 100% þess vegna.

Í þeirri stöðu sem nú er á mörkuðum er full ástæða til að fjárfesta fremur í verðtryggðum skuldabréfum en í hlutabréfum, íslenskum eða erlendum.  Ávöxtunarkrafa skuldabréfanna er talsvert umfram það sem sjóðirnir þurfa til að mæta skuldbindingum sínum og reyndar er líklegt að krafa þeirra lækki (sem er það sem gerst hefur í gær og í dag) sem gefur ennþá meiri ávöxtun en krafa þeirra segir til um.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 8.1.2008 kl. 11:25

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Besta mál, Vilhjálmur, en eru næg ríkisskuldabréf á markaðnum til að gefa öllum lífeyrissjóðum kost á að skipta út hlutabréfaeign sinni fyrir verðtryggð eða óverðtryggð ríkisskuldabréf á þeim vöxtum sem þú nefnir?  Og hvaða áhrif hefði það haft á gengi hlutabréfanna, ef lífeyrissjóðirnir hefðu sett hlutabréf að verðmæti 4-500 milljarða í sölu í sumar eða á haustmánuðum?  Hefði það ekki ýtt undir ennþá meiri verðlækkun bréfanna?  Hugsunin er skynsöm en óframkvæmanleg að mínu áliti.

Marinó G. Njálsson, 8.1.2008 kl. 12:28

6 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Það er ekki hlutverk lífeyrissjóða að halda uppi hlutabréfaverði, heldur að ávaxta lífeyri sjóðfélaga með góðum og ábyrgum hætti.  Og ég er ekki að tala um svart/hvítt, heldur áherslur.  En það er ljóst af ávöxtun síðasta árs að eignasamsetningin var ekki rétt, ég þekki það vel að það var hægt að ná fínni ávöxtun á síðasta ári með réttri samsetningu hlutabréfa og skuldabréfa.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 8.1.2008 kl. 14:13

7 Smámynd: Theódór Norðkvist

Nákvæmlega, Vilhjálmur. Lífeyrissjóðirnir eiga ekki að spila rússneska rúllettu með afkomu lífeyrisþega framtíðarinnar. Þeir eiga ekki þessa peninga og eiga ekki að geta leikið sér með þá eins og þeim sýnist.

Theódór Norðkvist, 8.1.2008 kl. 16:27

8 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Nú voru orð mín misskilin.  Ég er alveg sammmála því að lífeyrissjóðirnir eiga ekki að halda uppi hlutabréfaverði, en þú getur ekki, Vilhjálmur, í einu orðinu sagt að þeir eigi að fjárfesta viturlega og í hinu sagt að þeir eigi að stuðla að lækkun eigna sinni með skipulagðir (og jafnvel óðagots-) sölu hlutabréfa.  Sölu sem myndi valda ennþá meiri lækkun og því fengju lífeyrissjóðirnir ennþá lægra verð fyrir bréfin.  Það er alveg ljóst, að ef hlutabréf að markaðsvirði 4-500 milljarðar króna væru sett í sölu á markað í kreppu, þá myndi þetta markaðsverð lækka hraðar en ella.  Fyrst að sjóðirnir seldu ekki á hæsta gengi og áður en lánsfjárkreppan skall á til kaupenda sem þá biðu í röðum, þá voru þeir að verja hagsmuni sína með því að fara varlega í söluna á haustmánuðum.

Annars tel ég að mikil kauptækifæri séu að skapast á markaði um þessar mundir.  Ef ég ætti pening sem ég gæti notað til fjárfestinga, þá myndi ég skoða að kaupa í Exista, Straumi, Kaupþingi, Glitni, Landsbankanum og þess vegna SPRON og FL Group.

Marinó G. Njálsson, 8.1.2008 kl. 18:29

9 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Ég get gefið þér mótrök skortsalans

Öll fyrirtækin sem þú nefnir eru fjármála- eða fjárfestingarfyrirtæki.  Lausafjárkreppan veldur samdrætti í virkni fjármálamarkaða; það verða færri skuldsett fyrirtækjakaup, samrunar og ný verkefni.  Áhættufælni eykst og áhersla verður á traustari eignir.  Hávextirnir hérna á Íslandi eru farnir að bíta og gjaldþrotum mun því miður fjölga á nýju ári, en þau hafa dómínó-áhrif.  Fyrirsjáanleg er kólnun á fasteignamarkaði og við eigum eftir að sjá meiri áhrif undirmálslánakreppunnar á alþjóðlega markaði og skuldatryggingakreppu sem er næsta mál á dagskrá.

Sem sagt, ef ég get valið að eiga hlutabréf í íslenskum fjármála- og fjárfestingarfyrirtækjum, eða fá 14% vexti (eða 7,5% verðtryggt) þá vil ég heldur vextina, takk fyrir.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 8.1.2008 kl. 23:14

10 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Það verður fróðlegt að sjá hver áhrifin af versnandi stöðu Gnúps verða.  Ég held að vísu að flestir í fjármálaheiminum hafi verið að fylgjast með gangi mála hjá þeim síðustu vikurnar.  Þó ég sé utan hans, þá er ég búinn að vita af þessu í rúmar 3 vikur.  Annars var Sigurjón Árnason að lýsa því í hádegisviðtalinu á Stöð 2 í dag, að spyrnan væri best næst botninum og því er gott fyrir þá sem eiga einhvern pening að vera tilbúnir þegar þeir finna fyrir föstu landi undir fótum sér.

Marinó G. Njálsson, 9.1.2008 kl. 00:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband