21.1.2008 | 23:23
Krísa í vændum; Seðlabankinn í vanda
Nú hrannast upp óveðursský á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Á eftir undirmálslánunum kemur skuldatryggingakrísa þar sem í ljós mun koma að ýmsir sem selt hafa slíkar tryggingar geta ekki staðið við þær þegar á reynir (sbr. AMBAC, MBIA o.fl. í Bandaríkjunum). Fleiri dómínókubbar munu falla, og valda bönkum búsifjum. Þeir hamstra lausafé á viðsjárverðum tímum og hætta að lána peninga, sem aftur kemur illa við fjölmörg fyrirtæki sem eru veðsett upp í rjáfur eftir skuldsettar yfirtökur. Bandarískir neytendur eru að vakna með timburmenn eftir eyðslugleði undanfarinna ára sem hefur verið fjármögnuð með ódýrum húsnæðislánum og glórulausum fjárlagahalla. Kreppa þar í landi smitar út frá sér og hefur áhrif á hagkerfi heimsins.
Á Íslandi þýðir þetta að aðgangur bankanna okkar að lánsfé erlendis verður erfiðari og lánin verða dýrari. Bankarnir draga þar með úr lánveitingum og vaxtamunur þeirra hverfur, verður reyndar neikvæður.
Krónunni hefur verið haldið uppi með hávöxtum en jafnvel það mun ekki duga þegar alþjóðlegir fjárfestar flýja yfir í öruggari hafnir.
Seðlabankinn er milli steins og sleggju; hann á erfitt með að lækka vexti án þess að styggja jöklabréfaeigendur og spákaupmenn enn frekar, sem veldur krónufalli og verðbólgu. Hins vegar er orðið verulega nauðsynlegt að huga að öðru markmiði bankans, sem er stöðugleiki fjármálakerfisins. Bankakerfið vantar aðgang að lausafé og það gerist ekki nema krónum verði dælt inn í kerfið og vextir verði lækkaðir.
Við endum í krísu og ég sé enga leið út úr henni nema að taka upp evruna eins og hratt og hægt er, enda var aðeins tímaspursmál hversu lengi krónan - þessi örmynt - gæti átt sjálfstætt líf á samtengdum fjármálamörkuðum heimsins.
Á meðan þetta gengur yfir ráðlegg ég engum að kaupa hlutabréf og allra síst í bönkum og fjármálafyrirtækjum, en bendi enn og aftur á ríkistryggð og verðtryggð skuldabréf (HFF). Þau eru langskynsamlegasti innlendi fjárfestingarkosturinn í þessari stöðu, og reyndar öfundsverður valkostur fyrir fjárfesta í alþjóðlegu samhengi. Vona að sjóðsstjórar lífeyrissjóða átti sig á þessu en er ekki bjartsýnn á það.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég hef lengi talað um að taka upp evru, en verðbólgan hér á landi er alltof há til þess að það sé hægt
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 22.1.2008 kl. 09:55
Já, það er mikið af matadorpeningum að hverfa og margir sem voru ríkir fyrir stuttu verða það ekki áfram.
Ég hef hins vegar mestar áhyggjur af því hvað gerist ef bankarnir lenda í enn meiri vandræðum með aðgang að lánsfé en þegar er orðið.
Púkinn, 22.1.2008 kl. 10:54
Góð grein hjá þér og fasteignasalar segja mér að íbúðir hætti nánast að seljast og að íbúðaverð muni hrynja á árinu. Atvinnuleysi mun stóraukast og innflytjendur munu flytja til baka í stórum stíl. Það mun myndast ansi mikil kreppa á Íslandi.
Stefán (IP-tala skráð) 22.1.2008 kl. 11:07
Ekki sýnist me´r Evrulöndunum vegna sérlega vel hvað lækkanir á Hlutabréfamörkuðum sýna okkur. Verðbólga okkar er í hæstu hæðum vegna ,,kostnaðar við íbúðarhúsnæði" inni í verðtryggingu okkar.
Öll Evruumræðan er byggð á afar veikkum grunni, það hafa jafnvel hinir sanntrúuðustu Evrópusinnum viðurkennt.
EF og AÐEINS EF við skiptum um gjaldmiðil, er gersamlega grundvallaratriði, að við þurfum EKKI að ganga í ríkjasamband á borð við Evrópusambandið. Það er bjargráð okkar og hefurverið í gegnum áratugina, að geta beint verslun okkar inn á þr brautir, sem okkur hentar í það og það skiptið, jafnvel var það hagfellt, að geta átt viðskipti við Sovétið, þegar markaðir hrundu fyrir okkar afurðir annarstaðar. EInungrunarsinnar, (sem ég tel EB sinna vera) ættu að viðrukenna þessa vankanta, í stað þess, ð ljúga ætíð að borgurum landsins um Gósentíð við inngöngu í EB.
Nei þá er miklu klárara að taka upp svissneskan franka.
Miðbæjaríhaldið
Bjarni Kjartansson, 22.1.2008 kl. 13:53
Ganga í Evrópusambandið sem fyrst og taka upp Evru. Núverandi stefna stjórnvalda hefur verið fullreynd, og landið hefur ekki efni á því að reka í strand áður en stjórnvöld átta sig á hvað er að gerast.
Ég veit ekki hverju Bjarna miðbæjaríhaldi hefur fundist vera logið, en 70% viðskipta Íslendinga er við Evrópusambandið og því skiptir sá markaður okkur mestu máli. Nær allir viðskiptasamningar sem gerðir eru hér á landi eru í gegnum Evrópskt samstarf og við því ekki að ná að nýta þetta meinta viðskiptafrelsi okkar í neitt! skiljanlega, þar sem Evrópusambandið er einn stærsti markaður í heiminum, og nær því alltaf betri samningum en við.
Þú verður líka að horfa til þess Bjarni að húsnæðisverð hækkar vegna verðtryggingar, því verðbólgan skrúfar upp íbúðarlán. Verðtrygging verður ekki afnumin nema á minnst 40 árum, og margir eru á því að það sé mjög vond hugmynd að afnema hana. Það hefur sýnt sig að vextir lækka mjög hratt við inngöngu í ESB og upptöku Evru (sjá http://www.ru.is/?PageID=2587&NewsID=1627). Það reynd og góð leið til að leysa þau vandamál sem við stöndum í frammi fyrir.
Þjóðarstolt íhaldsmanna sem misskilja ESB og halda að við séum að missa sjálfstæði má ekki standa í veg fyrir framförum. Það eina sem breytist við inngöngu í ESB er að matarverð lækkar og við getum kastað krónunni.
Jónas Tryggvi Jóhannsson, 22.1.2008 kl. 14:36
Þakka þér Vilhjálmur fyrir góða samantekt. Bjarni hefur rétt fyrir sér, að ef Evran verður tekin upp, þá er aðalatriðið að ganga ekki í batteríið. Verslunarfrelsi er ein af undirstöðum íslensks sjálfstæðis.
Fasteignafallið verður erfitt í vor.
Ívar Pálsson, 22.1.2008 kl. 17:55
Jónas, ég man nefnilega þá tíma, þegar markaðir okkar, sem áður voru taldir ,,einu"markaðir okkar fyrir sjávarafurðir lokuðust.
Ég er ekkert viss um, að verðtryggingin verði viðvarandi í einhver 40 ár. Til þess meru okkar fólk einfaldlega of snjallir. Þekki menn sem hafa komist undan verðtyrggingu með erlendri lántöku, raunar úr japönskum og sissneskum bönkum.
Viðskiptafrelsið er brúkað út í eitt í Kína, Kanada, USA og að ekki sé talað um önnnur Asíuríki en Kína.
Ástæður þess, að margir samningar eru gerðir í Evrum er frekar, að margir sem áður gerðu í US$ eru hræddir við stöðu hans einmitt núna og kjósa að gera samningana í evrum.
Þetta þekktist áður, þegar Bretar voru að missa Heimsveldið, hölluðu þjóðir sér að US $ í stað Sterlingspunds. Dæmi um hnignun pundsins er, að í lyklum allra ritvéla var tákn fyrir pundið en er nú ekki finnanleg á takkaborðum tölva, þar er $ tákn enn það algengasta.
Nei vinur minn, hið tímanlega er breytingunum undirorpið, líkt og holdið. Því verðum við að vanda okkur mjög, þegar FRAMTÍÐARHAGSMUNIR OG AÐSTÆÐUR HEILLAR ÞJÓÐAR ER UNDIR.
Með virðing fyrir skoðunum allra en varkárni með fjöregg afkkomenda minna.
Miðbæjaríhaldið
Bjarni Kjartansson, 22.1.2008 kl. 18:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.