14.9.2007 | 00:42
Ekkert samkomulag um olíuauðlindirnar í Írak
Lykilatriði í uppbyggingu Íraks eftir stríðið er að komast að niðurstöðu um hvernig fara eigi með olíuauðlindir landsins og hvernig eigi að skipta arði af þeim. Íraska þingið hefur rætt þetta mál fram og aftur og ekki komist að niðurstöðu. Nú síðast skrifar New York Times um málið og rekur hvernig það hefur enn eina ferðina stöðvast án samkomulags í þinginu.
Kúrdar hafa verið Íraka sáttastir við stríðið enda líta þeir á það sem skref í átt til sjálfstæðs Kúrdistans, sem hefur lengi verið draumur þeirra. Fyrir því hefur m.a. verið barist með hryðjuverkum í Tyrklandi, en á móti hafa tyrknesk stjórnvöld eldað grátt silfur við Kúrdíska Verkamannaflokkinn, sem berst fyrir því að kúrdahéruð í suður-Tyrklandi gangi inn í sjálfstætt Kúrdistan. Kúrdar hafa því veitt Bandaríkjunum ýmsan stuðning í orði og verki en hafa jafnframt hvergi vikið frá eigin ætlun um að enda með stofnun Kúrdistans. NATÓ-ríkinu Tyrklandi er þetta mikill þyrnir í augum en Bandaríkjamenn hafa látið draumana óáreitta enda talið mikilvægara að eiga þó einhverja bandamenn í Írak.
Kúrdar hafa þegar stofnað Kúrdistan-svæði og reka þar eigin stjórnarstefnu sem í orði á að vera í samræmi við írösku stjórnarskrána. Þeir hafa nú gengið svo langt að semja við erlend olíu- og gasfyrirtæki um vinnslu í Kúrdistan, óháð tilraunum íraska þingsins til að setja heildarlög um auðlindirnar.
Það kemur engan veginn á óvart að olíufyrirtækið sem þeir hafa samið við er Hunt Oil frá Dallas í Texasfylki Bandaríkja Norður-Ameríku.
Eins og ég hef áður bent á í bloggi mínu eru engar vísbendingar um að Bandaríkjastjórn hafi minnstu hugmynd um hvað þeir eru að gera í Írak, til hvers eða hvernig.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:48 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.