16.5.2007 | 14:52
Maður líttu þér nær
Björn Bjarnason dómsmálaráðherra kveinkar sér í dag í yfirlýsingu í framhaldi af umræðu um útstrikanir af lista Sjálfstæðismanna í Reykjavík Suður, og auglýsingu Jóhannesar í Bónus. Svo virðist sem 18% kjósenda D-listans í kjördæminu hafi strikað yfir nafn Björns.
Þessar yfirstrikanir eru ekki Jóhannesi í Bónus að kenna. Þær lýsa raunverulegri afstöðu kjósenda í leynilegri kosningu. Auglýsing Jóhannesar er ekki annars eðlis en almennar auglýsingar í kosningabaráttu, þar sem fólk er hvatt til að kjósa tiltekna lista eða menn, eða til að kjósa ekki tiltekna lista og jafnvel menn, eftir atvikum. En kjósendur taka afstöðu og lýsa henni með atkvæði sínu.
Ég get ímyndað mér margt við skoðanir Björns og framgöngu sem kjósendur D-listans gætu verið að lýsa óánægju sinni með. Björn hefur löngum komið fyrir sem einlægur stuðningsmaður Bandaríkjanna en svipleg brottför hersins og Íraksmálið hafa grafið undan trúverðugleika hans á því sviði. Hann hefur flækst öfugu megin inn í umræðu um hlerunarmál, og virðist almennt áhugasamur um eflingu lögregluríkis og hervæðingu, hverju nafni sem nefnist. Þetta eru skoðanir sem ekki allir Sjálfstæðismenn taka undir, sérstaklega ekki þeir sem leggja áherslu á frelsi einstaklingsins og lágmörkun ríkisafskipta. Þá gekk Björn fram fyrir skjöldu í fjölmiðlamálinu svokallaða og gaf undir fótinn hugmyndum um kröfur um lágmarksþátttöku og jafnvel aukinn meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslu, án þess að séð verði að stjórnarskráin heimili slíkt. Svona hluti muna margir, og þarf ekki Baugsmálið til að menn séu ósáttir við Björn.
Ég held að hollast væri Sjálfstæðisflokknum og Birni að taka mark á kjósendum og líta í eigin barm; kannski eru hér á ferðinni skilaboð sem vert er að taka mark á.
Björn lýsir áhyggjum af þróun stjórnmálastarfs og réttarríkisins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:09 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.