5.11.2011 | 15:39
Hrunið og stjórnarskráin
Ég var spurður að því í viðtali á RÚV, Rás 1, um daginn hvernig stjórnarskráin tengdist hruninu. Það er góð spurning sem ástæða er til að svara með skipulegum hætti.
Stjórnarskráin skilgreinir stjórnskipun landsins og setur henni ramma. Í þeim ramma felast hvatar til ákveðinnar breytni og glufur sem leyfa annarri breytni að viðgangast. Þessir hvatar og glufur hafa í för með sér afleiðingar, sem síðan valda annars stigs afleiðingum og svo koll af kolli. Sterkur og þéttur rammi gefur rétta hvata og felur ekki í sér alvarlegar glufur. Afleiðingar verða þar með aðrar og betri en þær sem fást með gömlum, fúnum, óskýrum og götóttum ramma - eins og okkar gamla danskættaða stjórnarskrá er.
Hér eru nokkur dæmi um grundvallaratriði í stjórnskipaninni sem er illa fyrir komið í núverandi stjórnarskrá, og afleiðingar þeirra í samhengi við hrunið.
Þingmenn sitja í skjóli flokka fremur en kjósenda. Flokkar ráða uppstillingu á framboðslistum, þó eftir atvikum með prófkjörum, og þingmenn sækja umboð sitt fremur til flokksapparatanna en beint til kjósenda. Þeir hafa sterkari hvata til þess að verja stöðu sína innan flokksins en að gegna ábyrgð gagnvart kjósendum. Þetta eflir flokksaga en veikir varðstöðu þingmanna um hag almennings. Þeir sinna því ekki eftirlitshlutverki sínu gagnvart framkvæmdarvaldinu og áhættuþáttum í samfélaginu eins og skyldi. Sem dæmi var sjálfstætt eftirlit þingsins með fjármálastöðugleika og áhættu ríkisins vegna innistæðutrygginga ófullnægjandi í aðdraganda hrunsins.
Ráðherrar eru jafnframt þingmenn. Í þingræðisfyrirkomulagi sitja ríkisstjórn og einstakir ráðherrar í umboði þingsins. Þingið á engu að síður að hafa öflugt og gagnrýnið eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Þingmenn eiga að vera fulltrúar kjósenda og gæta að því að aðgerðir ríkisstjórnar séu í þeirra þágu. Hér er grundvallaratriði að löggjafarvald og framkvæmdarvald sé aðgreint eins og kostur er innan marka þingræðisins. Það gengur ekki að ráðherrar sitji jafnframt í þingflokkum og að félagar þeirra þar eigi að sýna þeim gagnrýnið aðhald. Slíkt eftirlit verður óhjákvæmilega í skötulíki. Þá er óeðlilegt að framabraut þingmanna felist í því að verða ráðherrar og þá oft á öðrum forsendum en faglegri hæfni. Sem dæmi hefði getað skipt sköpum að hafa ráðherra með fagþekkingu á fjármálum og hagfræði í lykilembættum í aðdraganda hrunsins og strax eftir það.
Ábyrgð ráðherra er óskýr. Upplifun og skilningur almennings á ábyrgð ráðherra er allt önnur en reyndin er. Ráðherrar bera skv. gömlu stjórnarskránni og gildandi lögum og stjórnskipunarvenjum lagalega ábyrgð á sínum málaflokkum einum með mjög sjálfstæðum hætti. Forsætisráðherra ber litla sem enga formlega ábyrgð á verkstjórn eða samhæfingu á störfum ríkisstjórnarinnar sem heildar. Lagaleg ábyrgð þarf að fara saman við skilning almennings á stjórnskipaninni, annars myndast tortryggni og traust þverr. Sem dæmi var samhæfingu ráðherra ábótavant og þeir tóku fram fyrir hendur hvers annars, þvert á lagalega ábyrgð, í aðdraganda og eftirmálum hrunsins.
Ríkisstjórn þarf að geta tekið ákvarðanir sameiginlega. Í mikilvægum eða stefnumarkandi málum þarf ríkisstjórnin að geta tekið ákvarðanir sem heild (fjölskipað stjórnvald), en á slíkum ákvörðunum bera allir ráðherrar sameiginlega ábyrgð, lagalega og pólitískt. Með því er hjá því komist að einstakir ráðherrar taki afdrifaríkar ákvarðanir án samráðs og þannig að pólitísk og lagaleg ábyrgð sé á skjön, eins og tíðkast hefur í svokölluðu oddvitaræði. Sem dæmi hefði ríkisstjórnin átt að taka ákvarðanir sameiginlega, sem hefðu verið betur ígrundaðar vegna sameiginlegrar lagalegrar ábyrgðar ráðherra, um ýmsa þætti í hruninu, svo sem um björgunaraðgerðir gagnvart bönkum, meðferð innistæðutrygginga o.m.fl.
Þingið vantar verkfæri til aðhalds með ráðherrum og ríkisstjórn. Til að þingið geti veitt lýðræðislegt og lagalegt aðhald þarf stjórnarskrárbundnar stofnanir á borð við Umboðsmann Alþingis, rannsóknarnefndir og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem getur kannað athafnir og athafnaleysi ráðherra, og tekið ákvörðun um rannsókn á meintum embættisbrotum. Efla þarf möguleika minnihlutans á þingi til að tempra vald meirihlutans, bæði við lagasetningu og á vettvangi ríkisstjórnar.Sem dæmi hefði Landsdómsmálið gagnvart Geir Haarde og öðrum ráðherrum getað borið að með allt öðrum, málefnalegri og viðsættanlegri hætti en það gerði.
Embætti eru ekki veitt á grundvelli hæfni og málefnalegra sjónarmiða. Mikilvægara er nú en nokkru sinni að lykilembætti, og reyndar öll embætti, séu veitt á grundvelli faglegrar hæfni og málefnalegra sjónarmiða. Heimurinn verður æ flóknari og réttar ákvarðanir verða ekki teknar nema á grundvelli víðtækrar þekkingar og góðra upplýsinga. Flokks- eða fjölskyldutengsl mega ekki ráða því hverjir veljast í krítísk embætti á borð við Seðlabankastjóra eða Hæstaréttardómara. Sem dæmi hefði skipt verulegu máli að hafa fagmann í embætti Seðlabankastjóra árin fyrir hrun.
Allt ofangreint, og margt fleira af sama toga, má rekja til galla eða vöntunar í núgildandi stjórnarskrá og stjórnskipan. Nýja stjórnarskráin tekur hins vegar á þessum atriðum, m.a. með hliðsjón af bestu fyrirmyndum erlendis frá. Það varðar okkur miklu, ef við ætlum að læra af mistökum fortíðar og gera betur í framtíðinni, að taka upp hina nýju stjórnarskrá. Hún er þá sú fyrsta sem við sem byggjum landið semjum handa sjálfum okkur. Róum að því öllum árum í haust og vetur að svo megi verða.
[Þessi pistill birtist á Eyjunni 26. ágúst sl.]
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:40 | Facebook
Athugasemdir
Það má draga þetta saman í eina setningu: Ríkisvaldið er í höndunum á klíku.
Þessi klíka missti ríkisvaldið úr höndum sínum, verkalýðshreyfingin hirti það upp og hefur þaðnúna óskipt í hendi sér á grundvelli 74. gr Sts. Á grunvelli 74. gr. innheimtir verkalýðshreyfingin meira fé í sjóði sína af launþegum en ríkissjóður án þess að lúta neinni aðhalds eða eftirlitsskyldu frá nokkrum aðila.
Almenni löggjafinn hefur með lögum fært verkalýðshreyfingunni eftirlits og lögregluvald til að fylgja þessari innheimtu eftir.
Stjórnlagaráð lagði til að þessu eignarhaldi á ríkisvaldinu yrði ekki haggað með falsrökum.
Vilhjálmur! Til hvers ertu að skrifa og hugsa?
Kristján Sigurður Kristjánsson, 5.11.2011 kl. 16:54
Minn byrjaðaur að spinna á fullu.
Haltu þig við að prédíka fyrir kórinn á Eyjuni.
Jón Steinar Ragnarsson, 5.11.2011 kl. 17:24
Hrunið kom stjórnarskránni ekkert við og orsaka þess er ekki að leita þar, það veistu. Tilgangur stjórnlagaráðs var einn frá sjónarmiði Samfylkingarinnar, en það var að heimila framsal valds til útlanda.
Þ.e. Liður sjö í pöntunarlista Jóhönnu í lögum um stjórnlagaþing. Allt annað er reykur og speglar, enda hefur þú mikla reynslu í sýndarveruleika að mér skilst og réttur maður á réttum stað í því samhengi.
Stjórnlagaráð var ólöglegt, þú varst ólöglegur þar. Þessi þvæla verður aldrei samþykkt, því það vita allir til hvers þessi sirkus var gerður. Þetta er ekkert minna en meðvituð tilraun til landráða.
Það hlustar enginn á þig Villi. Þú ert í besta falli sorglegur.
Jón Steinar Ragnarsson, 5.11.2011 kl. 17:50
Þetta er nokkuð undarlegur pistill, Vilhjálmur, svo maður taki varlega til orða.
Margt af því sem þú segir hefur nokkur sannindi að baki sér, en kemur þó hruninu lítið við. Þá eiga flest þeirra atriða sem þú nefnir og einhver glóra er í, ekki erindi í stjórnarskrá.
Það er tvennt að núverandi stjórnarskrá. Skilgreiningar eru ekki nógu skýrar, eins og þú nefnir og engin viðurlög eða ráð ertu til, ef brotið er gegn henni. Hvorugu þessara atriða er þó tekið á í tillögu ykkar til þingsins.
Sú tillaga sem þið leggið fyrir þingið er ekki hæf sem stjórnarskrá. Þar kemur fyrst og fremst til að hún er allt of víðfermd, tekið inn í stjórnarskránna ýmis atriði sem ekki eiga heima þar. Einnig eru sumar greinar tillögunnar í mótsögn við hverja aðra. Síðast en ekki síst sú staðreynd að þegar er farið að deila um túlkun ýmissa greina tillögunnar. Stjórnarskrá á að vera stutt og skorinorð og ekki á að vera möguleiki að mistúlka einu einustu grein hennar!!
Ég efast ekki um að hugur ykkar til tillögunnar er eins, að mestu. En það er eitt að hugsa og annað að tjá. Ykkur mistókst algerlega að koma hugsunum ykkar fram svo ekki færi á milli mála hver meiningin væri. Því er þessi tillaga ykkar til Alþngis jafn loðin og sú stjórnarskrá sem í gildi er.
Mestu skiptir þó að tekið sé á því hvernig fara skal með þá sem taldir eru brjóta gegn stjórnarskránni. Það má vissulega deila um hvort stjórnvöld hafi brotið gegn stjórnarskránni fyrir hrun og með því átt þátt í því. Það þarf hins vegar ekki að deila um að eftir hrun hefur verið marg brotið á stjórnarskránni, í það minnsta farið verulega á svig við hana.
Eitt dæmi þess er þegar stjórnvöld tóku þá ákvörðun að hundsa niðurstöðu æðsta dómstigs landsins og setja á stofn stjórnlagaráð í stað þess að kjósa aftur til stjórnlagaþings!!
Annað dæmi var þegar ákvörðun Alþingis lá fyrir um aðildarumsókn í ESB, voru einungis tveir ráðherrar sem undirrituðu umsóknarblaðið. Skýrt kemur fram í núverandi stjórnarskrá að forseta beri að staðfesta öll lög og undirrita með ráðherra allar stjórnvaldsaðgerðir!!
Að öðru leiti tek ég undir orð Jóns Steinars, hér fyrir ofan.
Gunnar Heiðarsson, 5.11.2011 kl. 20:03
Vönduð samantekt hjá þér Vilhjálmur. Ég held hins vegar ekki að stjórnarskráin hafi ekki orsakað hrunið, en vissulega tengist hún hruninu. En það er eitt að tengjast og annað að vera orsakavaldur. Nú eru Afganar t.a.m. með mjög ítarlega, langa og vandaða stjórnarskrá en ég held að enginn muni halda því fram að hún per se hafi eða muni bæta stjórnarfarið sem þar er í dag.
Jón Baldur Lorange, 5.11.2011 kl. 22:06
...einu ekki þarna ofaukið ... átti að vera ,,Ég held hins vegar ekki að stjórnarskráin hafi orsakað hrunið, ..."
Jón Baldur Lorange, 5.11.2011 kl. 22:08
Kristján: Ég hef aldrei náð því hvað þú ert að fara með þínum fjölmörgu og ítrekuðu athugasemdum við 74. gr. um félagafrelsi. Get eiginlega ekki svarað þér nema að fá skýran og skipulegan texta um hvert vandamálið nákvæmlega er, stutt tölum og rökum.
Jón Steinar: Í núgildandi stjórnarskrá stendur ekkert um framsal ríkisvalds. Til dæmis virðist ekkert í henni útiloka að Alþingi geti framselt ríkisvald, eins og það gerði t.d. með EES-samningnum og með aðild Íslands að Mannréttindasáttmála Evrópu (og þar með Mannréttindadómstólnum). Í nýju stjórnarskránni er skýrt (sbr. 3. mgr. 111. gr.) að ríkisvald verður ekki framselt nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu, þ.e. sömu aðferð og þarf til að breyta stjórnarskránni (nýju) sjálfri.
Stjórnlagaráð var að sjálfsögðu ekki "ólöglegt", það var skipað með ályktun Alþingis og skilaði sínu áliti og frumvarpi til þess til frekari málsmeðferðar. Alþingi hefur svo síðasta orðið eins og núgildandi stjórnarskrá gerir ráð fyrir.
Gunnar: Ég hef kynnt mér fjölmargar stjórnarskrár en enga séð sem hefur í sér fólgin refsiákvæði. Ef þú finnur eina slíka máttu benda mér á hana. Refsingar eru jafnan ákveðnar í sérstakri refsilöggjöf, sem að sjálfsögðu verður að vera í samræmi við stjórnarskrána.
Nýja stjórnarskráin er svipuð eða minni að umfangi og stjórnarskrár ýmissa helstu nágrannalanda, t.d. Finnlands, Svíþjóðar og Þýskalands. Danska stjórnarskráin sem sú íslenska byggir á er í hópi stystu stjórnarskráa, ásamt þeirri norsku, enda eru þær lítið breyttar úr gömlum hefðum.
Ákvörðun um að sækja um aðild að ESB var í formi þingsályktunar, ekki lagafrumvarps. Engan atbeina forseta þarf til í því tilviki.
Jón Baldur: Ég held því ekki fram að stjórnarskráin hafi orsakað hrunið, en hún og stjórnskipanin sem hún lýsir tengist því engu að síður með ýmsum hætti.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 5.11.2011 kl. 23:31
Það má gera því skóna að stjórnarskrá per se skifti ekki öllu máli ef enginn fer eftir henni. Það má til dæmis halda því fram að margt sem þó er í stjórnarskránni hefur ekki verið virkjað eða er svo óljóst orðað að hver má halda því fram sem þóknast. Vinnan við stjórnarskrárfrumvarpið er afrek af því einu að hún fór fram og skilaði afurð sem er tæk til afgreiðslu. Það er afrek. Það sem á vantar er að Sjálfstæðisflokkurinn stóð gegn og styður ekki frumvarpið að því maður best veit. Sem sýnir hversu destrúktíft afl þessi flokknefna er í samfélaginu og mun halda áfram að hunsa leikreglur sem henta honum ekki alveg í trássi við hvað stendur í stjórnarskrá í dag eða á morgun. Það er með ólíkindum hversu neikvæður og niðurrífandi leiðtogar flokksins eru. Vonandi tekst að hnekkja frekar á FLokknum í næstu kosningum. Ef ekki verður það mikið tjón fyrir land og lýð.
Gísli Ingvarsson, 5.11.2011 kl. 23:42
Það er gjörsamlega tilgangslaust að birta þetta á moggablogginu... það er dálítið eins og að senda grein um Karl Marx í málgagn nýnasista.
Þorsteinn (IP-tala skráð) 6.11.2011 kl. 13:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.