Erlendar skuldir enn á ný

Enn á ný gefur umræðan ástæðu til að skýra erlenda skuldastöðu þjóðarbúsins og gjaldeyrisforða Seðlabankans.  Skoðum fyrst nýjustu tölur frá Seðlabankanum um erlenda stöðu þjóðarbúsins.  Þjóðarbúið er sem sagt ríkið, Seðlabankinn, sveitarfélög, opinber fyrirtæki, bankar - líka þeir gömlu og gjaldþrota - og einkafyrirtæki á borð við álverin og Actavis.  Þetta graf má finna á vef Seðlabankans:

Erlend staða þjóðarbúsins

Hér má sjá að fyrir hrunið jukust erlendar eignir og skuldir þjóðarbúsins hraðbyri; fjólubláu súlurnar skuldamegin voru talsvert hærri en þær rauðu eignamegin, sem þýðir að þjóðarbúið skuldaði meira en það átti erlendis.

Við hrunið duttu eignirnar verulega niður en skuldirnar stóðu að nafninu til eftir.  En takið eftir því að stór hluti þeirra, drappleitu súlurnar, eru skuldir þrotabúa gömlu bankanna ("innlánsstofnana í slitameðferð").  Þessar skuldir verða aðeins greiddar með eignum þessara sömu þrotabúa (ljósgrænu súlurnar) eftir því sem þær hrökkva til.  Það sem eftir stendur af þeim, 7-8.000 milljarðar, verður afskrifað og kröfuhafar tapa þeirri fjárhæð - ekki íslenska ríkið eða skattgreiðendur*).  Sá gjaldeyrir verður aldrei greiddur út úr hagkerfinu.

Svokölluð hrein erlend staða við útlönd var í lok árs 2010 neikvæð um 434 milljarða og hafði ekki verið svo hagstæð í háa herrans tíð.

Þá liggur eigna- og skuldastaðan fyrir, en hvernig er gjaldeyrisstaðan?  Þar er átt við lausafjárforðann sem fyrir hendi er í Seðlabankanum til að greiða afborganir af erlendum skuldum ríkis og opinberra aðila, til að geta selt einkaaðilum gjaldeyri til að mæta skuldbindingum sínum, og til þess e.t.v. að nota til að hefja afnám gjaldeyrishafta.

Erlend staða Seðlabankans

Hér má sjá gjaldeyriseignir Seðlabankans og mótsvarandi skuldir, og svo nettóforðann, þ.e. eignir að frádregnum skuldum.  Góðu fréttirnar eru þær að gjaldeyriseignirnar hafa aukist talsvert hraðar en skuldirnar, einkum síðustu mánuði.  Ástæðan fyrir því er sú að vöruskipta- og þjónustujöfnuður hefur verið mjög jákvæður undanfarið - yfir 10 milljarðar á mánuði að meðaltali í plús - og undirliggjandi þáttatekjur (tekin lán, afborganir, vextir og fjárfestingar) verið á sama tíma í jafnvægi eða hagstæðar.  Nettó eigin gjaldeyrisforði Seðlabankans var í lok mars jákvæður upp á 484 milljarða og hafði aukist um 200 milljarða á einu ári.

En hvað með (vergar) erlendar skuldir hins opinbera (ríkis og sveitarfélaga) á sama tíma?  Svarið er að þær lækkuðu úr 640 milljörðum í lok árs 2009 í 492 milljarða í loks árs 2010 eða um 148 milljarða á einu ári.

Sem sagt: Ólíkt því sem margir vilja vera að láta í umræðu, og stundum af öðrum ástæðum en sannleiksást, þá fer skulda- og gjaldeyrisstaðan hratt batnandi. Það þýðir að vonandi verða tækifæri til að hefja afléttingu hafta fyrr en síðar, og að það er engin ástæða til að ætla að krónan veikist ef svo heldur áfram sem horfir.  (Það þarf reyndar að fara varlega og að öllu með gát.)

Svo sakar ekki að minna á að ef við værum með evru, þyrfti engan gjaldeyrisforða og áhyggjur af honum og erlendum skuldum sem slíkum væru að því leyti úr sögunni.

 

*) Þetta er einmitt munurinn á Íslandi og t.d. Írlandi.  Hér tók ríkissjóður ekki á sig skuldir bankanna.  Í stað þess bauð Ísland "alþjóða kapítalinu byrginn", eins og sumir kölluðu á í kring um Icesave-málið.  Það snerist þó um aðeins brot af þeirri upphæð sem kröfuhafar tapa á Íslandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Verður ekki að taka tillit til skulda (þ.e. innlán) Seðlabankans í erlendum gjaldeyri sem skilanefndir (þ.e. föllnu bankarnir) eiga í Seðlabankanum?  Skilanefndir eru skilgreindir sem innlendir aðilar en er í raun erlendir eins og þú segir sjálfur.

Að teknu tillit til ofangreinds er erlend staða Seðlabankans verr en hér kemur fram.

Freyr (IP-tala skráð) 1.5.2011 kl. 21:34

2 identicon

Reyndar skiptir myntin ekki máli í þessu samhengi þegar taldar eru erlendar skuldir.  Heldur hver er eigandi skuldarinnar (þ.e. erlendur lánveitandi ef skuldin á að teljast erlend) óháð því hvort skuldin er í ISK eða erlendri mynt.

En það er ekki aðalatriðið þó hérna.

Freyr (IP-tala skráð) 1.5.2011 kl. 21:41

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Er þetta ekki eitthvað nær sanni Villi?

Annars þessi evrusöngur...er stýrivaxtahækkun ESB til að slá á þenslu í Þýskalandi og Frakklandi í takti við stöðu Portúgala Íra og Grikkja, svo eitthvað sé nefnt. Eru Finnar að springa úr ánægju með það að hafa ekkert um þetta að segja?

Útflutningur Finnlands féll um 24% frá 2008-2009, fjárfestingar drógust saman um 13%, innflutningur um 22% og einkaneysla féll um 2,1%. Rekstrarafkoma fyrirtækja féll um 39%. Þau greiddu því 44% minna í skatta og greiddu út 34% minna í arð.

Þetta hef ég eftir upplýsingum sem ég treysti þokkalega.  

Ég er bara að velta þessu fyrir mér sem leikmaður.  Er verið að leggja í einhverja spunagöngu að nýju?

Jón Steinar Ragnarsson, 1.5.2011 kl. 22:46

4 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Freyr: Það er búið að netta út þrotabú gömlu bankanna í tölunum sem eru að teknu tilliti til innlánsstofnana í slitameðferð.  Þá er átt við að skilanefndirnar eru taldar sem erlendur aðili, en jafnframt eru ýmsir kröfuhafar innlendir, sem kemur til mótvægis.  Betri grein er gerð fyrir þessu í skýrslunni "Hvað skuldar þjóðin" sem finna má á vef Seðlabankans, einkum í kafla III (bls. 14 og áfram).

Varðandi seinni punktinn þá eru skuldir alltaf skuldir, en ef við værum sjálf með evru þá væri það ekki viðbótarvandamál að þurfa að hugsa um gjaldeyrisforða til að geta mætt fjárstreymi hverju sinni.  Sem sagt, evrurnar færu úr íslensku hagkerfi til erlendra kröfuhafa en án hættulegra hliðaráhrifa á gengi krónunnar sem eykur innlenda verðbólgu og hækkar verðtryggðar skuldir heimila og fyrirtækja.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 1.5.2011 kl. 22:47

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hverju á maður að treysta? Eru þessar hagfræðiprédíkanir eitthvað í ætt við guðfræðina? Niðurstaðan háð því hvar og hvernig þú tekur ritnningarstaðina úr samhengi?

Jón Steinar Ragnarsson, 1.5.2011 kl. 22:48

6 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Jón Steinar: Útspil Haraldar L. Haraldssonar er einmitt ein af ástæðum þess að ég tók saman þennan bloggpistil.  Ég hef ekki séð auglýsinguna hans í Mogganum (sé það blað aðeins með höppum og glöppum) en í viðtalinu við hann í Silfri Egils í dag var að finna margháttaðan misskilning.  Til dæmis er eins og Haraldur viti ekki að stærstu fjármagnseigendur á íslenskum markaði, og langstærstu eigendur ríkisskuldabréfa, eru lífeyrissjóðirnir, ekki bankar.

Allar tölur í pistli mínum eru annars teknar beint frá vef Seðlabankans.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 1.5.2011 kl. 22:55

7 identicon

Tölur Seðlabankans koma ekki heim og saman við tölur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Í töflum 1 og 3 (bls. 30 og 32) í síðustu skýrslu AGS (sjá slóð hér að neðan) eru vegar erlendar skuldir í árslok 2009 og 2010 sýndar ÁN erlendra skulda "old banks", og jafngiltu 307,6% af vergri landsframleiðslu (VLF) 2009 að upphæð 1501 milljarður, og 333.1% af VLF að upphæð 1551 árið 2010.

M.ö.o., AGS segir vergar erlendar skuldir þjóðarbúsins ÁN banka í slitameðferð hafa numið 307,6x1501 = 4617 milljörðum í árslok 2009 og 333,1x1551 = 5155 milljörðum í árslok 2010.

Af grafi Seðlabankans má lesa að vergar erlendar skuldir þjóðarbúsins hafi numið ca. 3500 milljörðum í árslok 2010.

M.ö.o., skv. AGS voru vergar erlendar skuldir þjóðabúsins um 1500 milljörðum hærri í árslok 2010 en tölur SÍ gefa til kynna.

http://www.imf.org/external/pubs/cat/longres.aspx?sk=24571.0

Gunnar Tómasson (IP-tala skráð) 1.5.2011 kl. 23:05

8 identicon

Ég sagði erlend staða Seðlabankans.

Var ekki að tala um þjóðarbúið.

Góð staða Seðlabankans gagnvart útlöndum er ofmetinn, þar sem skilanefndir teljast ekki erlendir aðilar þrátt fyrir að vera það (eins og bæði þú og bankinn hafa skilgreint þá í tölum um erlenda stöðu þjóðarbúsins).

Freyr (IP-tala skráð) 1.5.2011 kl. 23:42

9 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Mér finnst menn alltaf gleyma því að eigendur erlendra eigna eru aðrir en eigendur erlendra skulda.  Þannig er stærsti hluti erlendra eigna annarra aðila en fjármálastofnana í slitameðferð lífeyrissjóðirnir.  Þeir munu ekki selja sínar erlendur eignir til að fjármagna greiðslu erlendra skulda annarra.  Í þessu felst sjónhverfining sem þú ert m.a. að halda frammi, Vilhjálmur.  Ætli menn ekki hreinlega að þjóðnýta erlendar eignir lífeyrissjóðanna, þá skipta þær ekki máli.  Erlendu skuldirnar þarf að greiða án þess að hægt sé að treysta á erlendar eignir.  Lífeyrissjóðirnir munu ekki flytja ávöxtun erlendra eigna til landsins, þar sem ávöxtunin verður að mestu leiti ekki að raunveruleika fyrr en við sölu eignanna.

Við Haraldur Líndal fórum fyrir þessa talnaleikfimi með fjárlaganefnd í júní 2009.  Þetta tal um að staðan væri ekki svo slæm, þar sem erlendar eignir komi á móti, er hættuleg hugsanavilla.  Greiða þarf af erlendum skuldum með tekjuinnstreymi í gjaldeyri vegna vöruskipta og þjónustujöfnuðar (eða hvað þetta nú heitir).  Ekki vegna ávöxtunar á verðbréfum sem ekki er greidd út.  Gleymið því að lífeyrissjóðirnir fari að flytja pening til landsins í miklu mæli.  Þeim sveið alveg nóg að kaupa bréf Landsbankans af Seðlabanka Lúxemborgar.  Meðan gjaldeyrishöftin eru við líði, þá hafa sjóðirnir enga möguleika á að færa pening úr landi, sem þeir nauðsynlega þurfa, þar sem hér á landi eru ekki næg fjárfestingatækifæri án þess að hætta sé á brenglun á samkeppnisumhverfi.

Marinó G. Njálsson, 1.5.2011 kl. 23:45

10 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Gunnar, munurinn er Actavis.  Seðlabankinn ákvað að skuldir Actavis væru ekki hluti af erlendum skuldum þjóðarinnar.

Marinó G. Njálsson, 1.5.2011 kl. 23:46

11 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Annað sem gleymist í þessu og er líka hluti af blekkingunni:  Hluti þeirra eigna fjármálafyrirtækja í slitameðferð sem nota á til að greiða erlendar skuldir þeirra, eru í íslenskum krónum hér á landi.  Það er því hreinlega rangt að stilla þessu svona upp eins og þú gerir á grafinu, Vilhjálmur.  Vil ég þar nefna 288 milljarða kr. skuldabréf sem NBI hf. gaf út til Landsbanka Íslands hf.  Síðan er það hlutdeild erlendra kröfuhafa í betri innheimtum á innlendum kröfum.  Þá er það innheimta fjármálafyrirtækja í slitameðferð á innlendum kröfum, en sá peningur mun að hluta renna til erlendra kröfuhafa.

Ég bara bið menn um að hætta að blekkja þjóðina.  Ástandið er grafalvarlegt og við lögum það ekki með því að sópa því undir teppið, eins og þú ert að gera tilraun til að gera, Vilhjálmur.

Marinó G. Njálsson, 1.5.2011 kl. 23:54

12 identicon

Marínó:  "Þeim sveið alveg nóg að kaupa bréf Landsbankans af Seðlabanka Lúxemborgar. "

Sveið?  Þetta er með betri dílum sem lífeyrissjóðirnir hafa gert lengi.  Ríkisskuldabréf á vægast sagt niðursettu verði.

Að auki hefðu lífeyrissjóðirnir aldrei sporðrennt dílnum (ef hann hefði verið óhagfelldur) nema með lagasetningu.

 Hvað hefurðu fyrir þér í því að þeim hafi sviðið hann, annað en tilfinninguna?

Freyr (IP-tala skráð) 1.5.2011 kl. 23:58

13 identicon

Marínó:  "Gunnar, munurinn er Actavis.  Seðlabankinn ákvað að skuldir Actavis væru ekki hluti af erlendum skuldum þjóðarinnar."

Ég fæ ekki séð að þetta sé rétt hjá þér.

Freyr (IP-tala skráð) 2.5.2011 kl. 00:00

14 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Er hugsanlegt að Seðlabankinn sé að fegra myndina Villi? Eins og bent er á þá er AGS ekki alveg á sömu blaðsíðu.  Þó á að vera náin samvinna þarna á milli? Hvað veldur? Er það að undra þótt fólk treysti ekki þessum glansmyndum Maóistans í seðlabankanum?

Jón Steinar Ragnarsson, 2.5.2011 kl. 00:10

15 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Freyr, þú ættir að tala við forsvarsmenn lífeyrissjóðanna.  Þeim fannst þetta ekki vera þessi rosa flotti díll.

Annars var ég að setja inn færslu hjá mér um þetta efni: Stórhættuleg hugsanaskekkja varðandi erlendar skuldir - Ekki er hægt að treysta á erlendar eignir til að greiða erlendar skuldir

Við græðum ekkert á því að nota svona blekkingar, eins og að eignir sé hægt að nota til að greiða niður skuldir, að ekki þurfi að taka tillit til innlendra eigna erlendra kröfuhafa og fjármagnseigenda.

Marinó G. Njálsson, 2.5.2011 kl. 00:21

16 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Freyr: Það er rétt að gjaldeyrisforði Seðlabankans þarf að standa undir því að krónueignum skilanefnda verði skipt yfir í gjaldeyri þegar þær eru greiddar út til erlendra kröfuhafa, þ.e. að því marki sem þessar krónueignir eru nettó umfram krónur sem greiddar verða innlendum aðilum.  Á móti kemur einnig að hluti gjaldeyriseigna þrotabúanna endar í höndum innlendra aðila.  Mat Seðlabankans er að þetta nettist út sem hrein skuld þrotabúanna við erlenda aðila að upphæð 676 milljarðar sem muni á endanum streyma út í gjaldeyri, í ferli sem tekur einhver ár.  (Sjá áðurnefnda skýrslu bankans, bls. 17.)

Því til viðbótar er reiknað með að hrein erlend eign eignarhaldsfélaga í slitameðferð verði á endanum +39 milljarðar (bls. 18).

Athugið að gjaldeyrisforðanum yrði ekki "eytt" í þetta (skuldir þrotabúanna eru ekki vandamál skattborgara - nema í gegn um krónuna), heldur yrði gjaldeyrir seldur fyrir krónur.  Seðlabankinn þarf svo að geta aflað nýs gjaldeyris fyrir þær krónur til að halda í forðann.  Þá er mikilvægt að halda annars vegar jákvæðum vöru- og þjónustujöfnuði, og að hafa aðgang að lánsfjármögnun á hagstæðum kjörum hins vegar (les: gott samstarf við AGS og nágrannaþjóðir og lágmarks rugl í gangi á borð við *hóst* Icesave *hóst*).

Marinó: Sammála þér um að ekki er gott að reikna með því að lífeyrissjóðir selji erlendar eignir fyrir krónur, nema þá sem síðasta valkost sem grípa þyrfti til ef lánsfé fæst ekki annars staðar.

Mér litist auðvitað miklu betur á að fara í þessa brimskafla framundan með Icesave leyst og helst með góðar horfur á bakstuðningi ECB innan ERM II aðlögunar að evru.  En áhættufíklar meðal vor ráða því að við siglum í gegn um þetta með litlar olíubirgðir, fáa björgunarbáta og engin nærstödd björgunarskip.  Það verður þá bara svo að vera.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 2.5.2011 kl. 00:21

17 identicon

Marínó: "Freyr, þú ættir að tala við forsvarsmenn lífeyrissjóðanna.  Þeim fannst þetta ekki vera þessi rosa flotti díll."

Heimild?

Hvernig var díllinn þá neyddur ofan í þá?  Hlakka til að heyra þessa samsæriskenningu.  Vona samt þó að það verði eitthvað bitastæðara en kenning.

Freyr (IP-tala skráð) 2.5.2011 kl. 00:26

18 identicon

Sælir.

Merkilegt að þú skulir nefna Actavis Marinó.

Vilhjálmur tengist einmitt því fyrirtæki á margan hátt ásamt mörgum öðrum félögum útrásarmafíunnar. Hvort heldur Bjöggana eða Jóns Ásgeirs og co.

Actavis var t.d. einn af eigendum og stofnendum OKG ehf. sem Vilhjálmur var stjórnarmaður í. Sem og í Kögun og fl..

http://blog.eyjan.is/larahanna/files/2009/12/bjorgolfur_thor_og_vilhjalmur_c3beorst.jpg

http://www.litlaisland.net/corruption/draw/302/253/

http://www.hvitbok.vg/Profilar/VilhjalmurThorsteinsson/

Actavis styrkti einnig samspillinguna um 3 miljónir.

Tilviljun?

Ég held ekki.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 2.5.2011 kl. 00:30

19 identicon

Vilhjálmur.

Ég tala um stöðu Seðlabankans gagnvart erlendum aðilum og þú ferð ávallt í það að tala um stöðu þrotabúanna (hluti af þjóðarbúinu) eða þjóðarbúsins.

Staða Seðlabankans er fegruð með því að skilgreina skilanefndir sem innlenda aðila, þrátt fyrir að skilgreiningin sé önnur í stöðu þjóðarbúsins.

Freyr (IP-tala skráð) 2.5.2011 kl. 00:30

20 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Vilhjálmur, heldur þú virkilega að það muni muna miklu á heildargreiðslu vegna Icesave hvor leiðin sem væri farin?  Öll stærstu vafamálin eru eins eftir báðum leiðum.  1.  Standast neyðarlögin?  2.  Stenst að erlendir innstæðueigendur höfðu ekki aðgang að sínum peningum? 3.  Fær TIF forgang í eignir þrotabúsins umfram FSCS og DNB?  4.  Munu eignir Landsbankans duga fyrir forgangskröfum?  5.  Ef eignirnar duga ekki, þarf ríkið að greiða það sem upp á vantar vegna innstæðna?  Falli þessi atriði öll gegn okkur, þá eru við jafn sviðin hver sem niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar hefðu orðið. 

Marinó G. Njálsson, 2.5.2011 kl. 00:32

21 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Freyr, ég ræddi við þá sjálfur.  Hef bæði hitt þá á fundi og síðan bara á förnum vegi.  Þeir sem ég hef hitt eru t.d. framkvæmdarstjórar í öllum stærstu sjóðunum, fráfarandi framkvæmdastjóri Landsamtaka lífeyrissjóða, formaður LL og stjórnarmenn í LL.  Ég segi ekki hver sagði hvað, en það var ekki bjart yfir þeim þegar kom að þessum svaka díl.

Málið er að ekki kemur í ljós fyrr en eftir mörg ár hvort þetta var svona svakalega góður "díll".  Þú getur velt fyrir þér hvernig standi á því.

Marinó G. Njálsson, 2.5.2011 kl. 00:37

22 identicon

Arnór:  Þú minnir mig á samsæris-karekterinn í Spaugstofunni.

"Tilviljun?  Nei....."

 Marínó:  Var þetta semsagt bara grunsemdir þínar eða hefurðu einhverjar heimildir sem þú getur vitnað í?  Ef ekki geturðu þá rökstutt þínar kenningar?

Freyr (IP-tala skráð) 2.5.2011 kl. 00:40

23 identicon

Marínó:  Hvernig stendur þá á því að lífeyrissjóðirnir tóku þátt?  Hver var nauðungin?

Nei, það er nú þegar komið í ljós hversu góður díllinn var.  Það er ekkert vafamál.  Nema að þú viljir rökstyðja það mál frekar?

Freyr (IP-tala skráð) 2.5.2011 kl. 00:42

24 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Freyr: Ég næ ekki alveg hvar ágreiningurinn liggur.  Ertu að meina að innistæður skilanefnda hjá Seðlabankanum séu taldar til eigna en ekki skulda í gjaldeyrisstöðu bankans?

Marinó: Ég held að þrotabú Landsbankans muni duga að langmestu eða öllu leyti fyrir innstæðutryggingunni, en að talsverðar líkur séu á að við töpum málaferlum fyrir dómi.  Væntigildi mitt um beinan kostnað skattgreiðenda vegna "já" eða "nei" er því svipað eða eilítið hærra fyrir "nei".  Hins vegar tel ég óbeinan kostnað við "nei" mun hærri, í gegn um lánshæfismat í framhaldinu, aðgang að lánum, lánakjör, fordæmi og almennan vilja gagnaðila til viðskipta við Ísland.  Sá kostnaður tel ég að muni m.a. koma fram í þessu máli sem við erum að tala um núna, þ.e. kostnað við viðhald nægjanlegs gjaldeyrisforða. En við skulum endilega ekki missa þetta út í enn eina Icesave-umræðuna, það eru allir orðnir leiðir á því umræðuefni og meira en það.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 2.5.2011 kl. 00:43

25 identicon

Freyr minn. Munurinn á mér og honum og mér er sá að ég er til, og ég hef rétt fyrir mér.

Tilviljun NEI....

Þessi ótrúverðugasti málsvari fjármála og viðskiftastefnu þessarar ríkisstjórnar, nefnilega Vilhjálmur Þ.

Hefur verið og er í slagtogi og viðskiftum við alla verstu mafíósa Íslenska bankahrunsins.

Heilagur verndari JÁ sinna Íceslave,

Ásamt því að vera innmúraður inn í helgustu vé samspillingarinnar. Er hann einnig einn nánasti samstarfsmaður Bjöggana sem hafa enn ekki verið látnir sæta ábyrgð á Landsbankanum og Ícesafe.

Tilviljun NEI....

Freyr skoðaðu bara linkana sem voru með fyrri færslunni.

Þar sérðu einnig hver er í stjórn Verne holding t.d. sem Bjöggarnir eiga og þessi ömurlega ríkisstjórn stendur í viðskiftum við.

Ertu síðan að neita því að Actavis hafi "mútað " samspillingunni um 3 millur?

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 2.5.2011 kl. 00:59

26 identicon

Vilhjálmur:  Já.   Ég get ekki séð annað. 

Dæmi a) Skilanefnd leggur 1$ inn á innlánsreikning í Seðlabankanum.  1$ verður þar með erlend eign Seðlabankans en er ekki erlend skuld þar sem skilanefndin er ekki skilgreind sem erlendur aðili.

Dæmi b) Skilanefnd leggur inn 1 kr á sama stað.  Með réttu telst 1kr ekki erlend eign Seðlabankans.  Sömu fjármunir eru ekki heldur erlend skuld þrátt fyrir að vera í raun erlend skuld (sama ástæða og í a), þ.e. skilgreiningaratriði á innlánsþeganum).

(Skv. skilgreiningunni eru erlendar skuldir nefnilega skuldir við erlenda aðila, óháð því hvort myntin er ISK eða eitthvað annað).

Ef þú getur hrakið þetta hjá mér þá yrði ég manna fegnastur.

Freyr (IP-tala skráð) 2.5.2011 kl. 01:07

27 identicon

Arnór:  Eins og þú vilt.  Við hinir höldum okkur bara við að rökræða á meðan.  Vona að það trufli ekki.

Freyr (IP-tala skráð) 2.5.2011 kl. 01:09

28 identicon

Fínt þá hlusta ég bara á ykkur snillingana ;-)

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 2.5.2011 kl. 01:11

29 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Arnór: Þú ert hér með búinn að koma þínum margtuggða boðskap á framfæri, eins og við allar aðrar bloggfærslur mínar undanfarið.  Efnisleg og málefnaleg umræða er velkomin en frekari athugasemdum frá þér sem ekki fjalla um efnið verður eytt, í þágu annarra sem vilja taka þátt í umræðunni sér til gagns og gamans.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 2.5.2011 kl. 01:13

30 identicon

Er hægt að hrekja ofangreint hjá mér eða er staðan ofmetinn?

Fjármálastofnanir eiga litla 300 ma. kr. hjá Seðlabankanum í innlánum.

Freyr (IP-tala skráð) 2.5.2011 kl. 09:39

31 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Freyr: Ég er búinn að kafa nánar ofan í tölurnar. Það er rétt hjá þér að í erlendri stöðu Seðlabankans teljast gjaldeyrisinnistæður skilanefnda til eignar, núna um 300 ma. kr. En vitaskuld lækkar gjaldeyrisskuldbinding vegna uppgjörs þrotabúanna samsvarandi eftir því sem innistæðurnar verða greiddar út. Innistæðurnar, og erlenda staðan, eiga að sama skapi eftir að hækka eftir því sem eignum þrotabúanna er breytt í reiðufé (gjaldeyri). Að frádreginni aukningu gjaldeyrisinnistæðna hefur forði bankans aukist um 60 milljarða á þremur mánuðum, frá janúar til og með mars á þessu ári.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 2.5.2011 kl. 16:32

32 identicon

Jón Steinar skrifar eftirfarandi og segist hafa heimildirnar frá öruggum aðila:

,,Útflutningur Finnlands féll um 24% frá 2008-2009, fjárfestingar drógust saman um 13%, innflutningur um 22% og einkaneysla féll um 2,1%. Rekstrarafkoma fyrirtækja féll um 39%. Þau greiddu því 44% minna í skatta og greiddu út 34% minna í arð."

Ekki vissi ég að það væri kreppa í Finnlandi. Fáránlegar tölur.

Valsól (IP-tala skráð) 3.5.2011 kl. 08:15

33 identicon

Valsól!

Ekki kreppa í Finnlandi?.  Hvar hefur þú verið.  Það er búið að vera mjög erfitt í Finnlandi undanfarin ár og kreppan skekur Finnland mjög harkalega sem önnur lönd. Tölur Jóns eru réttar.

itg (IP-tala skráð) 3.5.2011 kl. 18:22

34 Smámynd: Brynjar Jóhannsson

Þegar ég las hagtölurnar á Seðlabankanum varð mér fljótlega ljóst að það væri mjög auðvelt að misskilja þær. Sér í lagi fyrir þá sem þráðu það ekkert heitar. En þar kom mjög skýrt fram að stærstur hluti skulda íslenska þjóðabúsins eru skuldir skilanefndar eða um sjötíu prósent en skuldir ríkisins væru gott betur en viðráðanlegar. Raunar ótrúlegt hvernig menn reyna ítrekað að skekkja tölur og kannski hálf skondið að sami hagfræðingur og spáði bannkahruninu - fullyrðir að íslenska krónan sé vanmetin um 25%.

Brynjar Jóhannsson, 3.5.2011 kl. 23:47

35 identicon

Án þess að ætla að kafa djúpt í annars nokkuð umfangsmikið verkefni þá er rétt að minnast á að þessar tölur eru verulega skrýtnar frá Seðlabankanum.

Bein fjármunaeign innlendra aðila erlendis er áætluð um 900ma króna (ÁN lífeyrissjóða)....ég held að fáum sýnist þetta raunmyndin sem blasir við.  Af þessum 900mö sem við eigum að eiga í útlöndum tilheyra 30% af GDP því sem heitir "eignarhalds- og fasteignafélög".  Ég leyfi mér að efast um að þar séu miklar eignir sem Íslendingar eiga í dag.

Þessi einfalda staðreynd sem skýrslan byggir á held ég að sé kolröng og þarmeð allar niðurstöður skýrslunnar....þær sýna fegurri mynd en staðan leyfir.

Að öðru máli sem er inneignir skilanefnda hjá SÍ.  Þetta er talið með sem gjaldeyrisforði en fyrir liggur að þessi sami gjaldeyrir þarf að streyma út úr ISK þegar erlendir kröfuhafar fá sínar greiðslur.  Hann er því að láni einsog nær allur forðinn í dag og því er tal um styrk ekki mjög traustverðugt, því miður.

Viðskiptajöfnuður og vöruskipti sýna mikinn afgang í ISK.  Hvar liggur allur þessi gjaldeyrir spyr maður ?  Ekki safnast hann í Seðlabankann, ekki liggur hann í viðskiptabönkunum og ekki styrkist krónan.  Hér er eitthvað skakkt.

Að þessu sögðu þá er erfitt að fegra þetta mikið...

kveðja, Styrmir

Styrmir (IP-tala skráð) 6.5.2011 kl. 13:32

36 identicon

Vilhjálmur:  Já það virðist vera sem forðinn sé ofmetinn.

Þetta er því ekki rétt: 

"Nettó eigin gjaldeyrisforði Seðlabankans var í lok mars jákvæður upp á 484 milljarða og hafði aukist um 200 milljarða á einu ári."

Góð staða Seðlabankans er verulega ofmetinn.

Freyr (IP-tala skráð) 15.5.2011 kl. 12:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband