Stjórnarskrá fólksins

Eftir því sem atburðum vindur fram, og því meir sem ég hugsa málið, geri ég mér æ betur grein fyrir því hvað stjórnlagaþingið er göfug og stór hugmynd.

Nú er ég vitaskuld hlutdrægur og vanhæfur og allt það sem einn þeirra sem fékk kjörbréf upp á vasann sem fulltrúi á stjórnlagaþingi, nú ógiltur.  En álit mitt á hugmyndinni er óháð þeirri staðreynd.

Það er eitthvað gott og fagurt - og hugrakkt - við það að þora að kjósa fulltrúa í almennu persónukjöri, fjölbreyttan hóp víðsvegar að úr samfélaginu, til að gera tillögu að nýrri stjórnarskrá.  Það rímar við skilgreiningu á lýðræði, að valdið komi frá fólkinu og sé fyrir fólkið.  Að fólk setji sér sjálft leikreglur samfélagsins sem það vill búa í.

Í kosningunni 27. nóvember sl. tókst að mörgu leyti vel til. Margir vildu bjóða sig fram og úrval frambjóðenda var mikið. Kosningabaráttan var hófstillt, kurteisleg og laus við árásir og meiðingar.  Hópurinn sem kjörinn var kom því ósár til leiks og með góðan hug til uppbyggilegs samstarfs.

Þar völdust saman: nákvæmi og skipulagði embættismaðurinn, ungi óþekkti stjórnmálafræðingurinn sem eyddi ævisparnaðinum í það brennheita áhugamál að taka þátt í stjórnlagaþingi, rótttæki geðlæknirinn, sóknarpresturinn, þjóðfélagsrýnirinn og blaðamaðurinn, skeptíski stærðfræðingurinn, fjölmiðlakonan og listfræðineminn, guðfræðingurinn, stjórnmálafræðidósentinn, hjúkrunarfræðingurinn, bændafrömuðurinn, baráttukonan fyrir mannréttindum fatlaðra, íslenskumaðurinn, neytendafrömuðurinn, verkalýðsforkólfurinn, heimilislæknirinn, ungi hugsjónalögfræðingurinn, kvikmyndagerðarmaðurinn, útvarpsmaðurinn, siðfræðingurinn, lífsreyndi femínistinn og leikstjórinn, hagfræðiprófessorinn, tæknikratinn (ég) og svo auðvitað þjóðargersemin Ómar sem er með öllu óflokkanlegur.

Þó ég segi sjálfur frá, þá finnst mér þetta flottur hópur til að semja stjórnarskrá einnar þjóðar.  Og sú hugmynd að svona hópur taki að sér verkefnið í umboði þjóðarinnar finnst mér sem sagt bæði góð og falleg.

Nú veit ég að ýmsum þykir þetta aftur á móti alveg snargalið dæmi frá A-Ö.  Eftir því sem ég hef skynjað virðist andstaðan mikil í hópi lögfræðinga, meiri í hópi hægrisinnaðra lögfræðinga og allra mest í hópi hægrisinnaðra lögfræðinga sem hafa einhvern tíma starfað á lögfræðistofu með Jóni Steinari Gunnlaugssyni.

En, náðarsamlegast: það er bara ekki þannig að lögfræðingar séu best til þess fallnir að semja stjórnarskrá.  Sú ágæta stétt á vissulega að koma að verkefninu með sérfræðiráðgjöf og vera stjórnlagaþingi innan handar í starfi.  En stjórnarskráin er fólksins.  Hana á að vinna í umboði þjóðarinnar og endurspegla þverskurð hennar, skoðanir, óskir, vonir og þrár um betra samfélag. Það er ekki galin hugmynd, heldur þvert á móti birting lýðræðisins í sinni tæru og réttu mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sammála þér Vilhjálmur, vitanlega ertu vanhæfur eins og flestir sem kosningu hlutu.  Yfir 99% fólks með kosningarétt kaus flest ykkar ekki, 64% sáu ekki ástæðu til að breyta stjórnarskránni, það þarf ekki lögfræðing til að komast að þessari niðurstöðu.

Magnús Sigurðsson, 11.2.2011 kl. 17:47

2 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Magnús, nafnið mitt (eða öllu heldur númer) var á 8.200 kjörseðlum og ég er bara mjög sáttur við það, þakka þér fyrir.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 11.2.2011 kl. 18:07

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Það gott að þú ert sáttur Vilhjálmur.

Magnús Sigurðsson, 11.2.2011 kl. 18:34

4 identicon

Magnús:

"..., 64% sáu ekki ástæðu til að breyta stjórnarskránni, ..."

Bull og vitleysa. Þú hefur ekki hugmynd um eitt brotabrot af þeim ástæðum af hverju fólk kaus að sitja heima á kjördag.

Jón Guðnason (IP-tala skráð) 11.2.2011 kl. 18:41

5 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Það er hárrétt hjá þér Jón, hið rétta er 64% kosningabærra sáu ekki ástæðu til að mæta á kjörstað til að kjósa fólk til að breyta stjórnarskránni. 

Magnús Sigurðsson, 11.2.2011 kl. 19:01

6 identicon

Göfug og stór hugmynd segirðu. Æi ég veit það ekki, ég kaus en ég held að þetta eigi ekki eftir að breyta svo sem neinu, þetta er bara plagg. Ekki frekar að ég skrifi plagg um það sem ætti að vera ideal hegðun mín. Plaggið skiptir alls ekki svo miklu máli, heldur hvort ég fari eftir því, hvort ég breyti rétt eða rangt. Þess má til gamans geta að Guðmundur Ólafsson hagfræðingurinn stóryrti nefndi það um daginn að Þýskaland Hitlers og Rússland Stalíns hefðu verið með úrvals stjórnarskrár, einar þær bestu sem hann hefði séð. Það er umhugsunarvert.

En auðvitað er góðra gjalda vert að koma með mannvænt plagg, þannig að endilega komið með það :)

Ari (IP-tala skráð) 11.2.2011 kl. 19:15

7 identicon

Æi veistu, mér finnst ekkert gott né fagurt við þessa kosningu (úff væmni...!) Alltof fáir tóku þátt til að þetta yrði eitthvað sem maður héldi að myndi skipta máli eða gæti breytt einhverju. Núna finnst mér fínt ef yrði kosið aftur -einhvern tímann - en mér finnst það samt ekki fyrsta mál á dagskrá að breyta stjórnarskránni. Ég held að eitthvað annað þurfi að breytast fyrst. Þetta hefur líka einhvern gæluverkefnisstimpil á sér - eitthvað til að róa "pöpulinn". En mér er eiginlega alveg sama um þetta -eins og reyndar um 70% þjóðarinnar.

Soffía (IP-tala skráð) 11.2.2011 kl. 19:57

8 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Ari og Soffía: "Þetta er bara plagg." Plagg er það, en líka mikilvægasta plagg íslenskrar stjórnskipunar. Það sem stendur í þessu plaggi skiptir afar miklu máli og hefur mikil áhrif á daglegt líf okkar.

Ég stend á því fastar en fótunum að mörgu þurfi að breyta í stjórnarskránni og þá ekki síst til að taka á augljósum göllum í kerfinu, sem meðal annars birtust í hruninu. Nokkur dæmi:

Faglegri ráðherra - við verðum að velja æðstu menn framkvæmdavaldsins úr stærri hópi en þingflokkum stjórnarflokka hverju sinni. Þetta atriði eitt og sér hefði getað bjargað miklu í aðdraganda hrunsins.

Öflugra aðhald og virkari stefnumótun á vegum sjálfstæðara þings - þingið er of mikið undir hælnum á framkvæmdavaldinu, fylgist ekki nógu vel með og sinnir lítt stefnumótun. Betra eftirlit með efnahagsmálum, áhættum í fjármálakerfinu og innistæðutryggingum hefði vitaskuld skipt sköpum, svo og heildstæðari atvinnustefna, svo eitthvað sé nefnt.

Faglegri stjórnsýsla - stjórnsýslan þarf endurbóta við með betri ráðningarferlum, öflugri Umboðsmanni Alþingis eða stjórnsýsludómstól, og skýrari ábyrgðarskiptingu.

Betra lýðræði - kjósendur þurfa að eiga þess kost að velja í auknum mæli milli einstaklinga, ekki aðeins flokka. Flokkarnir eru of sterkir og hagsmunabandalag milli viðskipta og stjórnmála er of öflugt.

Margt fleira mætti nefna, en það má augljóst vera að það er bara sinnuleysi og uppgjöf að segja "stjórnarskráin skiptir engu máli". Hún skiptir þvert á móti afar miklu máli. En það er líka þess vegna sem öflugir hagsmunir standa í vegi fyrir því að henni sé breytt.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 11.2.2011 kl. 20:25

9 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Sæll Þorsteinn. Ég var einn frambjóðenda, en náði ekki kjöri. Ég er sammála þér og mér fannst sérstaklega þegar leið á að hér væri eitthvað stórkostlega merkilegt að gerast. Og er enn á þeirri skoðun að þessi tilraun hafi verið einstök.

Einstaklega skemmtileg og frjó umræða skapaðist kringum framboðið, áhugi og bjartsýni og það var eins og menn litu upp úr þrasinu um stund og spyrðu sig hvernig samfélag við viljum búa í, hver séu markmið okkar og draumar. Hugmyndirnar komust að sem gerist allt of sjaldan. En tíminn var naumur og framboðið erfitt í kynningu og svo bættust við einhverjar handvammir.

Ég veit enga betri leið úr því sem komið er, en að endurtaka kosningu til stjórnlagaþings. Miklu síðra er að rengja dóminn því að huga þarf að endalokunum. Verði sjórnalagaþing haldið þarf niðurstaða þess að njóta trausts sem flestra, einnig þeirra sem voru á móti hugmyndinni frá upphafi.

Guðmundur Pálsson, 11.2.2011 kl. 20:52

10 identicon

Sæll Vilhjálmur,

Hvernig fer það saman að vera tæknikrati, og svo með svona hugmyndir um að hópur sem hefur litla sem enga sérfræðiþekkingu ætli að semja stjórnarskrá fyrir heila þjóð?

heidar

heidar (IP-tala skráð) 11.2.2011 kl. 21:12

11 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Faglegri ráðherra -

Öflugra aðhald og virkari stefnumótun á vegum sjálfstæðara þings -

Faglegri stjórnsýsla -

Betra lýðræði -

Þér hefur ekki dottið í hug að setja ákvæði í stjórnarskrána um að kjósendur yrðu að hafa einhverja prófgráðu?

Magnús Sigurðsson, 11.2.2011 kl. 22:04

12 Smámynd: Guðmundur Kristinn Þórðarson

Þettað  stjórnlagarþing er tómt bull,alþingi á að sjá um þettað

Guðmundur Kristinn Þórðarson, 11.2.2011 kl. 23:15

13 Smámynd: Guðmundur Júlíusson

Sammála !!

Guðmundur Júlíusson, 11.2.2011 kl. 23:57

14 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Guðmundur: Sammála prinsippinu, en þar sem tilfellið er að enginn dregur rétt kjör okkar 25 í efa - ekki heldur Hæstiréttur - þá finnst mér ekki útilokað að Alþingi tilnefni hópinn beint til starfans. Athugasemdir Hæstaréttar eru formlegs eðlis, og réttmætar sem slíkar, en það heldur því enginn fram að einhvers konar misferli hafi í reynd átt sér stað eða að talningin hafi verið röng.

Heiðar: Ég er bara svona margvíður tæknikrati ;-)

Magnús: Nei, af hverju dettur þér það í hug?

Guðmundur Kristinn: Ég er algerlega ósammála. Það er ekki rétt að Alþingi semji reglur um alla valdþætti þjóðfélagsins. Enda hefur lítið sem ekkert komið út úr tilraunum þingsins til að endurskoða stjórnarskrána frá lýðveldisstofnun, ef frá er talinn mannréttindakaflinn 1995 sem telja má firn að hafi tekið 50 ár að fá.

Guðmundur Júlíusson: Gott að heyra.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 12.2.2011 kl. 00:19

15 identicon

Þetta er góð grein hjá þér, Vilhjálmur.

Sú hugmynd að alþýða manna eigi kost á því að skipa málum sínum með grunnlögum er vitanlega lýðræðisleg.

Ég sé að hér eru mættir ýmsir andmælendur. Sumir vísa í fulltrúa sína á hinu háa Alþingi.

Mér þykir einsýnt að hinu háa Alþingi hefur gjörsamlega mistekist við að gæta frumskyldu sinnar við velferð þjóðarinnar.

QED

Jóhann (IP-tala skráð) 12.2.2011 kl. 00:29

16 identicon

Athyglisvert verður að sjá hvort Íslendingar geti gert sér stjórnarskrá. Kannski ekki mikil von eftir ef það verkefni kemst ekki á dagskrá--þrátt fyrir að stjórnskipun landsins sé óskýr og mistök stjórnvalda hafi kostað svona eins og eins árs þjóðartekjur. Meira hefur verið gert af minna tilefni.

En ef menn ætla að gera kappleik úr þessu, þá tapar auðvitað skynsemin. Hún hverfur fljótt af rjóðum kinnum.

Áfram Ísland

Andri Haraldsson (IP-tala skráð) 12.2.2011 kl. 00:31

17 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Einu sinni áður hefur verið haldið stjórnlagaþing. Það var árið 1851. Heppilegra þótti að kjósa sérstaklega til þess þings en að Alþingi gerði þetta. Þó var þetta þing hlutfallslega margfalt dýrara en nú, því að þá var Ísland fátækasta land Evrópu, þjóðin bjó að mestu í torfkofum og vegir voru engir.

Fjármunina sem settir voru í þingið, hefðu nýst vel í landi örbirgðar og fátæktar. 

Aldrei var rætt um að þetta stjórnlagaþing, sem fékk nafnið Þjóðfundur, hefði ekki umboð þótt innan við 2% þjóðarinnar kysi það. Aldrei var rætt um það að 98% þjóðarinnar hefði ekki haft neinn áhuga á því að Jón Sigurðsson sæti á þessu þingi. 

Þing þetta hefur yfir sér ljóma þótt það það lyki ekki störfum eftir rúmlega tveggja mánaða setu. 

Fulltrúi konungs, Trampe greifi, sleit þinginu óvænt eins og frægt er orðið. 

Síðan liðu 67 ár þangað til Ísland fékk stjórnarskrá sem fullvalda ríki, að vísu í konungssambandi við Danmörku. 

67 ár eru liðin síðan Alþingi hét því að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins en hefur ekki tekist það þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. 

Ég sé í athugasemdum hér að ofan að sumir telja litlu skipta hver 67 ár sem það dregst að klára ætlunarverk Alþingis frá 1944. Það finnst mér athyglisvert. 

Ómar Ragnarsson, 12.2.2011 kl. 02:03

18 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Óttaleg niðurrifsöfl eru þetta.  Ég er alveg sammála þér Vilhjálmur þetta er gott og þarft verkefni sem við verðum með öllum tiltækum ráðum að koma á, hvernig sem fer eftir þennan ömurlega hlutlæga dóm hæstaréttar.  Ef til vill þarf að kæra úrskurð þeirra eins og bent hefur verið á.  En stjórnlagaþing skal haldið. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 12.2.2011 kl. 08:29

19 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Það er eitt sem vantaði sem raunverulegan valkost varðandi þessar stjórnlagaþingskosningar.  Það er á að breyta stjórnarskránni?

Það er alveg ljóst að hrunið varð til að þessi stjórnlagaumræða fór af stað, einnig er það jafnljóst að stjórnarskráin var ekki orsök hrunsins.

Það skýtur skökku við að kalla eftir í stjðórnarskrá "faglegri" ráðningum æðstu manna þjóðarinnar og "faglegri" stjórnsýslu þegar það er orðið lýðnum ljóst að það var "fagfólk" á fínum launum sem vann við að setja Ísland á hausinn.

Það er ekki óskinsamlegt að álikta að stærsti hluti þeirra 64% sem heima sátu hafi ekki talið núverandi stjórnarskrá það slæma að það hafi verið aðkallandi að breyta henni á þessum tímamótum.  Það má einnig áætla að hluti þeirra sem kusu hafi verið á sömu skoðun. 

Magnús Sigurðsson, 12.2.2011 kl. 09:53

20 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Þorsteinn,

hugmyndin um stjórnlagaþing er góð og er, að mínu mati, góð leið til að ná sátt í landinu eftir hrun.

Hins vegar er ég ekki alveg að skilja hvernig ný stjórnarskrá ætti að láta stjórnmálamenn og embættismenn fara eitthvað frekar eftir lögum og reglum.

Hvaða hugmyndir ertu með um það?

Lúðvík Júlíusson, 12.2.2011 kl. 10:01

21 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

átti að vera Vilhjálmur :)

Lúðvík Júlíusson, 12.2.2011 kl. 10:01

22 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það er alltaf verið að tönnglast á því að svo og svo fáir hafi kosið og svo og svo margir hafi setið heima.  Málið er að þegar menn sitja heima afsala þeir sér réttinum til að hafa áhrif.  Þar með er það staðreynd að þeir sem tóku þátt er fólkið sem hafði áhrif. 

Það verður ekki bæði geymd kakan og etinn.  Ef menn vilja hafa áhrif á gang mála, þá er það frumskylda þeirra að  mæta á kjörstað og taka þátt, jafnvel með því að skila auðu.  Það er barnaskapur að hengja sig í að þessi kosning sé ekki eða lítið marktæk vegna þátttökunnar. 

Þetta gildir um allar kosningar.  Ef við viljum vera þátttakendur í lýðræðinu á landinu okkar, þá er það skylda okkar að sýna því virðingu með því að mæta og taka þátt, en ekki sitja heima og tuða eitthvað út í loftið um hvað manni finnst og hvað ekki. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 12.2.2011 kl. 10:23

23 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þetta sögðu þeir líka í Sovét.

Magnús Sigurðsson, 12.2.2011 kl. 10:33

24 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Ásthildur, hvað með réttindi þeirra sem komust ekki á kjörstað?  Utankjörstaðaratkvæðagreiðsla stóð í aðeins 3 vikur fyrir stjórnlagaþingskosningar í stað 6 vikna í öðrum atkvæðagreiðsluim.

Sjómenn sem eru 4-5 vikur eða lengur á sjó og fóru rétt áður en atkvæðagreiðslan hófst gátu ekki kosið.

Að mínu mati ætti að kjósa aftur og láta utankjörstaðaratkvæðagreiðslui standa í 6 vikur.

Lúðvík Júlíusson, 12.2.2011 kl. 10:42

25 Smámynd: Þorsteinn H. Gunnarsson

Góðan dag

Mér var boðið á fund í vetur hjá Borgarahreyfingunni, af kunningja mínum sem er lausamaður í stjórnmálum en sjálfur er ég óflokksbundin.

Eins og kunnugt er fá stjórnmálaöfl sem ná manni í kosningum til Alþingis, fjárframlög.

Borgarahreyfingunni var úrskurðaða allt fjármagn, en Hreyfingin sem er með þingmennina fær ekkert. 

Það kom fram á þessum fundi Borgarahreyfingarinnar að þeir eru að vinna að gerð stjórnarskrár og hyggjast nota fjármunina í þetta verkefni.

Það er verfræðingur sem er í þessu og þetta er víst nokkuð faglegt hjá þeim. 

Mér skildist á þeim að þeir ætluðu að bera þetta frumvarp fram fyrir þjóðina.

Það væri gaman að vita hvernig þetta verkefni er statt, ef einhver veit það.

Þetta er ekkert leyndarmál, allavega var ekki beðið um neinn trúnað, fundurinn var opinn.

Þorsteinn H. Gunnarsson, 12.2.2011 kl. 11:47

26 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Lúðvík ég ætla mér ekki að verja framkvæmd þessara kosninga.  Það sem ég á við er að það þýðir ekkert að vera að ræða um það eftir á hversu margir tóku þátt.  Þeir sem sátu heima afsöluðu sér þeim rétti.  Hins vegar er það alveg rétt hjá þér að það er óásættanlegt að margir hafi ekki átt þess kost að taka þátt, svo sem eins og sjómenn.  Auðvitað þarf að taka tillit til allra í kosningum.  Alveg rétt eins og við tökum ábyrgð á því að mæta á kjörstað, þurfa stjórnvöld að sjá til þess að allir sem vilja geti kosið.  Það hlýtur hver maður að viðurkenna. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 12.2.2011 kl. 13:28

27 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Jóhann: Já, stjórnvöldum mistókst grunnhlutverk sitt, að tryggja öryggi og velferð.  Þessi stóru mistök leiddu eðlilega til rofins trausts og mikillar tortryggni.  M.a. af þeim ástæðum var nauðsynlegt að fá forsætisráðherra á borð við Jóhönnu Sigurðardóttur til leiks; konu sem almenningur gat treyst til að bera velferð sína fyrir brjósti og vera trúverðug í þeim aðgerðum sem grípa þyrfti til.  Að öðrum kosti hefði verið hætta á fullkomnu vantrausti og upplausn.

En nú þarf að ráðast að rótum vandans: hvernig gat þetta gerst?  Orsakirnar liggja víða en meðal annars í ákveðnum göllum í stjórnskipulaginu sem við þurfum nauðsynlega að laga; annars byggjum við nýtt hús á sandi.

Magnús: Því miður voru faglegheitin of fjarri í yfirstjórn Seðlabanka, fjármálaráðuneytis og viðskiptaráðuneytis, svo dæmi séu nefnd.

Lúðvík: Ég vil m.a. skoða að taka upp hæfnisskilyrði embættismanna eins og finna má í sænsku stjórnarskránni.  Þá vil ég efla Umboðsmann Alþingis sem eftirlitsaðila með stjórnsýslu og gefa honum sess og umboð í stjórnarskránni.  Ég vil skilgreina hlutverk stjórnlagadómstóls og (líklega) fela það Hæstarétti; sá dómstóll gæti m.a. skorið úr um hvort lög samræmdust stjórnarskrá, án þess fara þyrfti í mál með hefðbundinni aðild sem oft er erfitt að festa hendur á.  Svo þarf að sjálfsögðu að kveða á um það í stjórnarskrá hvernig dómarar eru skipaðir og þá með aðild a.m.k. tveggja valdþátta en ekki bara framkvæmdavalds eins og lengst af viðgekkst hér.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 12.2.2011 kl. 14:24

28 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Vilhjálmur,

þetta líst mér vel á.

Lúðvík Júlíusson, 12.2.2011 kl. 14:29

29 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Vilhjálmur ekki ætla ég að deila við þig um skort á faglegheitum þeirra stofnana sem þú nefnir en vil benda þér á að þú er nálægt því að vera komin í mótsögn við sjálfan þig eftir að hafa lofsamað Jóhönnu í hæðstu hæðir sem bjargvætt þjóðarinnar á ögurstund.

Hvernig á svo að mæla faglegheitin hjá t.d. fjármálaráðherra?  Hagfræðingur skólaður af bankakerfinu, skólaður stjórnmálamaður eða hagsýn húsmóðir? Þess vegna spurði ég þig hvort þér hefði ekki dottið í hug að einfalda málið og fara fram með það í stjórnarskrá kjósendur hafi prófgráðu. 

Í mínum huga snýst stjórnarskráin um ekkert af þessu.  Hún snýst um grundvallarréttindi borgaranna gagnvart ríkisvaldinu og rétt einstaklingsins gagnvart meirihlutanum, að með þennan rétt verði ekki hringlað eftir tíðarandanum.

Þetta með taka ábyrgð með því að mæta á kjörstað, eða þegja ella, þá þarf að vera um valkosti að ræða.  Þeir voru ekki augljósir hvað framkvæmd þessara stjórnlagakosninga varðar.  Hvaða skilaboð hefði t.d. auður seðill gefið.  Allir frambjóðendur eru óhæfir, stjórnarskráin er góð eins og hún er, eða bara virðing við kosningaréttinn.

Það fyrsta sem mér datt í hug var að fara á kjörstað vegna virðingar við kosningaréttinn.  En eftir að hafa lesið stjórnarskrána og  upplýsingar sem frambjóðendur gáfu, ákvað ég að fara ekki á kjörstað.

Magnús Sigurðsson, 12.2.2011 kl. 16:17

30 identicon

Sæll Villi.

Í svari þínu til Lúðvíks hér að ofan kemur fram: "Ég vil m.a. skoða að taka upp hæfnisskilyrði embættismanna eins og finna má í sænsku stjórnarskránni."

Því vil ég spyrja þig:

Hvaða hæfnisskilyrði þarf að þínu mati til að koma að endurskrifum stjórnarskrárinnar?

Hver er hæfni þín til þess að fást við endurskoðun á stjórnarskrá lýðveldisins? Hver er þín formlega menntun?

Hvernig telur þú menntun þína og hæfni nægja til þess að fást við jafn alvarlegt mál eins og endurskoðun stjórnarskrárinnar?

Með vinsemd.

 Ársæll

Ársæll (IP-tala skráð) 15.2.2011 kl. 17:46

31 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Sæll Ársæll!

Það er kannski einfaldast að spyrja þig til baka: (a) hvaða hæfnisskilyrði telur þú að alþingismenn ættu að þurfa að uppfylla, ef einhver, og (b) hvernig myndir þú vilja standa að endurskoðun stjórnarskrár?

Með vinsemd,

Vilhjálmur Þorsteinsson, 15.2.2011 kl. 21:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband