14.1.2011 | 22:15
Orkustefna fyrir Ísland
Í gær voru gefin út drög að nýrri heildstæðri Orkustefnu fyrir Ísland, sem sækja má á vefinn orkustefna.is. Almenningi gefst kostur á að senda inn umsagnir og gagnrýni til 9. febrúar, en þá verður stefnan formlega afhent iðnaðarráðherra.
Það var stýrihópur um heildstæða orkustefnu sem mótaði stefnuna, en í honum eru Bergur Sigurðsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Guðrún Jóna Jónsdóttir, Guðni A. Jóhannesson, Gunnar Tryggvason, Salvör Jónsdóttir og blogghöfundur, sem er formaður. Með hópnum starfar Helga Barðadóttir sérfræðingur í iðnaðarráðuneyti.
Í dag hefur meðal annars verið fjallað um stefnuna í Speglinum á Rás 1 og í kvöldfréttum RÚV.
Hér er ein mynd úr stefnuskjalinu sem segir meira en mörg orð. Þarna eru teknar saman tölur um núverandi vinnslu raforku (í gígawattstundum á ári, GWh/a), hugsanlega raforkuvinnslu í framtíðinni miðað við mögulega virkjanakosti í fallvatni og jarðvarma, og hvert raforkan fer í dag.
Eins og sjá má er þegar búið að virkja þriðjung til helming vinnanlegrar raforku úr fallvatni og jarðvarma. Af 17 TWh sem unnar eru á ári, fara sirka 3 til almenna markaðarins og 14 til stórnotenda (stóriðju). Svo er það spurningin hvað við viljum gera við þá virkjanakosti sem eftir eru: meira af því sama, eða reyna að fá sem best verð þótt það kosti meiri þolinmæði?
Ég hvet alla sem áhuga hafa á orkumálum og á ráðstöfun orkuauðlindanna til að kynna sér stefnuna og senda inn umsögn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 15.1.2011 kl. 13:00 | Facebook
Athugasemdir
Vilhjálmur !
Hvað voruð þið lengi að semja þetta ?
Þið ætlið öðrum mjög skamman tíma til að koma með athugasemdir !
,,Almenningi gefst kostur á að senda inn umsagnir og gagnrýni til 9. febrúar.."
JR (IP-tala skráð) 14.1.2011 kl. 23:11
Ert þú ekki hagsmunaaðili?
marat (IP-tala skráð) 15.1.2011 kl. 00:51
Það er eitt sem vafðist svolítið fyrir mér Vilhjálmur, eftir viðtalið í Speglinum.
Þar sagðir þú að búið sé að virkja þriðjung til helming af vinnanlegri orku í landinu. Í þessu sama viðtali sagðir þú einnig að ekki sé hægt að meta hversu mikil jarðvarmaorkan sé. Hvernig kemur þetta heim og saman?
Fyrir það fyrsta er mjög mikill munur á þriðjungi og helming, en samkvæmt því sem þú sagðir, gæti nýtingin verið komin vel yfir helming nýtanlegrar orku eða jafnvel einungis búið að nýta einn fjórða eða einn fimmta.
Gunnar Heiðarsson, 15.1.2011 kl. 08:07
JR: Við vorum rúmt ár að semja þetta, í hjáverkum. Þú þarft hins vegar ekki að semja heila stefnu (frekar en þú vilt), heldur bara koma á framfæri athugasemdum, ábendingum og gagnrýni - sem ég hvet þig til að gera á þessum tæpum fjórum vikum til 9. febrúar.
Marat: Ég hygg að ráðherrann hafi verið með opin augun þegar hún valdi saman þennan stýrihóp. En endilega komdu á framfæri athugasemdum ef þér finnst eitthvað í stefnunni vera á skjön.
Gunnar: Ein af ástæðunum fyrir því að bilið í virkjanlegri orku er svona stórt (30-50 TWh/a) er einmitt að jarðhitann er erfitt að áætla fyrirfram. Jafnstöðuvinnslugeta jarðhitasvæða er óviss framan af en óvissan minnkar með rannsóknum og aðallega með vinnslunni sjálfri og mótvægisaðgerðum sem menn grípa til þegar það kemur í ljós hvernig svæðið hegðar sér. Hér má sjá yfirlitsumfjöllun Orkustofnunar um jarðhitann. Athyglisvert: Öll raforkuvinnsla úr jarðhita í dag dugir tæplega fyrir einu álveri af Reyðaráls/Grundartanga-stærð.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 15.1.2011 kl. 13:11
Það verður áhugavert að lesa þessa skýrslu, sýnist hún vera vel unnin og læsileg.
Leiðarljós stefnunnar:
Að orkubúskap Íslands verði hagað með sjálfbærum hætti, samfélaginu og almenningi til hagsbóta.
geta örugglega allir skrifað undir.
Það er hins vegar útfærslan á þessum lið, sem mun valda árekstrum á hægri og vinstri væng. Tel mig samt vera þess umkomna að túlka 50.000 undirskriftir á þann hátt að "rentan" renni í sameiginglega sjóði landsmanna milliliðalaust, og án umboðslauna.
"Þjóðhagsleg hagkvæmni orkubúskaparins er hámörkuð þegar orkan er nýtt með sem mestum samfélagslegum ábata og með sem minnstum samfélagslegum kostnaði. Samfélagslegur ábati (e. social benefit) af tiltekinni orkunýtingu felst í auðlindarentu og öðrum hagnaði sem til verður vegna hennar. Samfélagslegur kostnaður felst að sama skapi í umhverfisraski og mengun, valréttargildi og öðrum kostnaði, beinum og óbeinum. "
Jenný Stefanía Jensdóttir, 15.1.2011 kl. 17:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.