Auðlindir og Evrópusambandið

web DSC2017 530px

Stuðlaberg í Kálfshamarsvík á Skaga, ljósm. VÞ.

Besta leiðin til að fóta sig í Evrópuumræðunni er að byrja á því að kynna sér þá hugsjón og hugmyndafræði sem liggur að baki Evrópusamstarfinu.  Af þeirri hugsjón leiða ákveðnar grunnreglur eða prinsipp, sem eru til grundvallar stefnu sambandsins í hinum ýmsu málaflokkum.

Hugsjón Evrópusambandsins er sú að tryggja velferð, öryggi og frið með því að þróa áfram náið samstarf fullvalda Evrópuríkja, byggt á lýðræðis- og mannréttindahefðum álfunnar.  Þessar hefðir hafa mótast allt frá tímum Forn-Grikkja, og markast af reynslu og lærdómum aldanna, oft afar sársaukafullum - þar á meðal byltingum og stríðum.

Mörg helstu viðfangsefni mannkyns um þessar mundir eru þess eðlis að þau verður að takast á við í sameiningu, þvert á þjóðríki.  Má þar nefna umhverfismál og loftslagsmál, réttindi á vinnumarkaði, mannréttindamál, samgöngumál og margt fleira.  Evrópusambandið er því stofnað bæði í kjölfar lærdóma af fortíðinni, og sem tæki til að takast á við viðfangsefni framtíðar.  Það er vettvangur skynsamlegrar, lýðræðislegrar, öfgalausrar stefnu með blönduðu hagkerfi; sem sagt reist á því besta sem lærst hefur og áunnist í Evrópu í aldanna rás.

Evrópusambandinu er beinlínis stefnt gegn innbyrðis skæklatogi, sérvisku og sérhagsmunapoti.  Í stað þess kemur sameiginlegt, hlutlaust, staðlað regluverk sem gildir jafnt um alla á hinum innri markaði.  Þannig verða allir atvinnurekendur að virða félagsleg réttindi, fyrirtæki verða að keppa á jafnréttisgrundvelli og beygja sig undir sömu grundvallarreglur, til dæmis varðandi umhverfismál og neytendavernd.

Víkur þá sögunni að auðlindum.  Evrópusambandið hefur aðeins sameiginlega stefnu í þeim málaflokkum þar sem slík stefna er nauðsynleg og gagnleg samkvæmt eðli máls.  Sambandið hefur enga stefnu um náttúruauðlindir sem slíkar; til dæmis skiptir það sér ekki af námum í Svíþjóð eða skógarhöggi í Finnlandi, né olíulindum í Norðursjó, né virkjun fallvatna í Ölpunum, né ölkeldum á Ítalíu.  Fiskur í sjónum hefur hins vegar þá sérstöðu að hann getur synt milli lögsaga aðildarríkjanna, og því er óhjákvæmilegt að stjórna nýtingu hans með sjálfbærum hætti í samkomulagi milli þjóða.  Sá er tilgangur sjávarútvegsstefnu ESB, ekki sá að ræna þjóðir auðlindum sínum.  Og svo það sé skýrt: kvótar í staðbundnum fiskistofnum við Ísland verða ákveðnir samkvæmt ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar og úthlutað eftir þeim reglum sem íslenska ríkið setur.

Íslendingar þurfa að móta sér stefnu í auðlindamálum þar sem sanngjarnt auðlindagjald er greitt til þjóðarinnar vegna afnota af sameiginlegum auðlindum, hvort sem er fiski, fallvötnum eða jarðhita.  Þetta getum við gert og eigum að gera alveg óháð hugsanlegri aðild að ESB.  Fyrirkomulag útleigu auðlinda má vera hvernig sem við kjósum sjálf að hafa það.  Við megum nota leigu til skamms eða langs tíma, uppboð, framseljanlegan eignarkvóta eða einhverja blöndu af þessu; um það hefur ESB ekkert að segja og reyndar engan áhuga.  Þjóðin mun þá njóta auðlindarentunnar með beinum hætti, eins og vera ber.  En í þeim mæli sem einkaaðilum verður falið að nýta auðlindina (útgerð, virkjanir) þá má ekki mismuna milli þeirra eftir þjóðerni innan EES-svæðisins.  Og sú regla er að sjálfsögðu gagnkvæm, eins og dæmi er um þar sem Samherji á hlut í þýsku útgerðarfyrirtæki.

Þessar eru staðreyndir málsins, og væri sallafínt ef t.d. Ögmundur Jónasson væri til í umræðu um kosti og galla Evrópusambandsaðildar á grundvelli þeirra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Auðun Gíslason

Það var og!  Mér er sagt, að helsti gallinn við Evrópusambandið sé sá, að það líti bara vel út á pappírnum!  Sel það ekki dýrara en ég keypti!

Auðun Gíslason, 9.8.2010 kl. 17:14

2 identicon

Hvaða bull er þeta að leigja út auðlindir og til hvers ?

Að selja Gullgæsina sína bara að því að það er fullt af fólki sem finnst það rosa sniðugt alveg sama hvað sko já bara þannig sko.

Já það er þá bara fínt ef einhver vill kaupa af okkur Íslendingum rafmagn en við getum framleiitt það sjálf úr jarðhita og þurfum enga hjálp til þess.

Eru einokunar fyrirtækin sem eiga gífurlegt magn af auðlindum í evrópu að skila þeim eða er verið að mæla með því að það sé helst í einhverri einaeigu ?

Það er bara fínt að við sem einkaþjóð verðum svakalega rík á því að eiga okkar auðlindir og nota þær fyrir okkar uppbyggingu ég sé enga ástæðu til að hleypa einhverjum stríðsglæpa-, hryðjuverka- og barnamorðingjaþjóðum inn í okkar auðlindir.

Það er fínt ef Íslendingum tekst með sátt og samstöðu á okkar svæði sem er vonlaust á stærra svæði, að verða rík og öflug þjóð sem er ekki með her og tekur ekki þátt í stríðum og glæpum tengdum þeim.

Við eigum enga aðild að stríðunum í afgan og írak ef einhver vill reyna að kíta um það.

Það voru nokkrir friðargæsluliðar í flugvallarstjórnun sem komu við sögu.

Það er enginn að fara að hafna okkur í viðskiptum auk þess er löngu  kominn tími til að við verslum við aðrar þjóðir enda fáum við mest lítið úr því sem við seljum til þýskalands, bretlands og að ég tali nú ekki um spán og portúgal.

Arðurinn fer að mestu í erlenda milliliði sem lifa sníkjulífi á okkar vinnu og auðlindum. 

Það er bara ekki nein skynsemi í því að vera að deila með glæpaþjóðum neinu því við höfum alltaf tapað á því og við getum ekki einu sinni treyst á vinskap frændþjóða okkar í norðrinu nema Færeyjingum.

Það er lang einfaldast að reyna að höndla sinn garð áður en farið er í að höndla flækju kjaftæðið í brussel og þessi tæpu ríki sem eru í ESB eins og til dæmis ítalía með þetta fasistafífl berlusconi og glæpamen sem stjórna póllandi.

Svo hefur oft komið fram í ummælum frá þýskum þingmönnum sem vilja fá okkur í ESB að það sé svo mikið að græða á því vegna þess að við eigum miklar auðlindir og fleira í þeim dúr sem þeir sjá sér hag í, afhverju eru þeir að segja það ef ekkert er upp úr því að hafa að vera með okkur í ESB bullinu ?

Frestur (IP-tala skráð) 9.8.2010 kl. 18:39

3 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Ég vil gjarnan svara mótbárum en sannast sagna á ég erfitt með að svara þessu því textinn er ekki nógu skýr og hnitmiðaður til að unnt sé að festa hendur á efnisatriðum með fullnægjandi hætti.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 9.8.2010 kl. 18:50

4 identicon

Einu fyrirtækin í ESB sem ásælast íslenskar orkuauðlindir eru ofan í skúffu í Svíþjóð.

Guðmundur Karlsson (IP-tala skráð) 9.8.2010 kl. 19:17

5 identicon

Vilhjálmur, hefurðu ekki kynnt þér orkumál Evrópusambandsins betur en þetta?

Evrópusambandið eyðir milljörðum dollara í að fjármagna byggingu orkumannvirkja utan sambandsins. Ég hef lagt fram heilmikil gögn í þessu sambandi og finnur þú þau í einum grænum með því að gúgla nafninu mínu t.d. í með Evrópska Fjárfestingabankann innan gæsalappa.

Læt þér eftir gagnaöflun.

Þetta er bara ekki svona Vilhjálmur, ekki rétt hjá þér. Evrópusambandið beinlínis reisir virkjanir, leggur gasleiðslur yfir hálfa Afríku til Evrópusambandsins.

Sko spurningin er hvort þú gerir ráð fyrir því að alltaf sé farið viðskipti inn um framdyrnar og að Evrópusambandsmenn hafi ekki en lært þá listgrein að nota t.d. skúffufyrirtæki. Það sé uppfinning Íslendinga. Það er farið í kring um reglur og lög sambandsins með öllum tiltækum ráðum.

Þetta gera einnig fjárfestingabankar í eigu og á vegum sambandsins.

Skoðaðu þetta mál betur Vilhjálmur, það dugir ekki að lesa auglýsingabæklinga Samfylkingarinnar.

bkv

sandkassi (IP-tala skráð) 10.8.2010 kl. 07:21

6 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Hmm, ertu að meina útlán Evrópska fjárfestingarbankans (EIB) til orkuverkefna?  Ekki sé ég samsæriskenninguna í því, fremur en útlánum Norræna fjárfestingarbankans (NIB) eða JP Morgan Chase til sama geira.

Það væri gaman að fá alvöru rökræðu um pistilinn minn, eru ekki einhverjar málefnalegar gagnrýnisraddir sem vilja leggja til málanna?  Eða er bloggið að lognast endanlega út af sem vettvangur upplýstrar umræðu?

Vilhjálmur Þorsteinsson, 10.8.2010 kl. 11:08

7 identicon

Evrópusambandið er ákaflega illa statt í orku umhverfi komandi ára. Auðlindir þess eru afar takmarkaðar og fara hratt þverrandi.

Þeir horfa fram á að á komandi árum þegar systematísk hækkun á jarðgasi og olíu verður raunin þá muni Evrópusambandið vera á greiðslu endanum í þeim viðskiptum. Lausnirnar sem sambandið hefur eru kol, kjarnorka og sólarorka.

Orkuskorturinn er þegar orðinn sýnilegur í því að skyndilega er verið að byggja ný kjarnorkuver og hanna nýjar tegundir kjarnorkuvera. En sannleikurinn er sá að Evrópusambandið er eiginlega jafn illa statt í þeim efnum. Evrópusambandið á nefnilega ekkert úran, það nær ekki að fullnægja sinni eigin þörf fyrir úran í dag, hvað þá ef fjölga á kjarnorkuverum. Með hækkandi orkuverði mun úran líka hækka og líklega munu mörg kjarnorkuver verða slegin af borðinu þegar verð á úrani rýkur upp.

Þetta leiðir til þess að það virðist augljóst að Evrópusambandið þarf að leita nýrra leiða og það þarf að venja sig af olíuþörfinni eins hratt og það mögulega getur.

Samrunaorka heillar en hún er samt allt of langt undan til að vera svar við þessari krísu sem blasir við. Evrópusambandið er líka leiðandi í þróun sólarorku, sólarorkuverkefni sem sambandið styður í Sahara eru afar metnaðarfull og góð tíðindi fyrir umhverfið en gefur líka vísbendingu um á hvaða skala orkuvandi Evrópusambandsins er. http://www.guardian.co.uk/environment/2010/jun/27/solar-power-sahara-europe-alok-jha

http://www.reuters.com/article/idUSTRE65J1ZO20100620

http://en.wikipedia.org/wiki/Desertec

gummih (IP-tala skráð) 10.8.2010 kl. 11:54

8 identicon

Ég er hræddur em að svar þitt sé allt annað en upplýst svo ég noti þitt eigið orðalag.

Útlán stofnanna í eigu ambandsins til orkuverkefna í Afríku eru einfaldlega svo stórfelld að það er engin samsæriskenning þar á ferðinni og dettur engum í hug að halda öðru eins bulli fram.

Talandi um "málefnalegar gagnrýnisraddir" sem þú kallar eftir þá sé ég ekkert málefnalegt við eftirfarandi fullyrðingu þína; "Ekki sé ég samsæriskenninguna í því". Hvað þú sérð Vilhjálmur eða ekki, hefur bara lítð með staðreyndir að gera.

Hvar lærðir þú rökræður Vilhjálmur, hjá honum Björgólfi Thor vinnuveitanda þínum eða ert þú bara maður sem þarft ekki að gera grein fyrir fullyrðingum þínum yfirhöfuð?

Er það tilfinningin sem ræður eða?

Er það þín skoðun að yfirgangur og merkilegheit dugi þér Vilhjálmur, að almenningur sé svo vitlaus að hann sætti sig við predíkannir þínar?

Útlán til stórskuldsettra landa í Afríku upp á milljarða dollara á ári hverju, til verkefna sem ganga fyrst og fremst út á að sjá Evrópusambandinu fyrir orku, ganga út á veð. Sá sem á veðin á þessi verkefni, þannig er það, enda þessar þjóðir ekki borgunarmenn hvorki í dag né um ókomna tíð.

Þú þarft að færa rök fyrir máli þínu Vilhjálmur, hæðni sú sem þú sínir er einungis merki um að þú hafir engin svör. Talandi um upplýsta umræðu, þá þykir mér vanta sitthvað í haus á blogginu þínu um störf þín fyrir Íslensk stórfyrirtæki. Hagsmunir þínir eiga að vera ljósir.

Um leið gætir þú upplýst okkur hér á því hverjir eru raunverulegir eigendur gagnavers á Suðursesjum sem að þú stjórnar uppbyggingu á, fyrir hönd Björgólfs Thors vinar þíns. Hmm,

Hver á veðin í því dóti?

sandkassi (IP-tala skráð) 10.8.2010 kl. 12:46

9 identicon

Fínt blogg, það má alltaf treysta því að þú kemur að kjarna málsins level headed án gífuryrða.

Annað má segja um andspyrnuna sem stendur upp á afturlappirnar, kveikir elda og kyndir upp í samsæriskenningunum við hvert tækifæri.

Ég óska við hvert tækifæri eftir framtíðarsýn (þá lengra en eitt kjörtímabil) þeirra sem vilja að Ísland standi fyrir utan Evrópusambandið.

Finnur Magnússon (IP-tala skráð) 10.8.2010 kl. 13:42

10 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

gummih, gefum okkur að eitthvað sé til í því sem þú segir að Evrópa sé alveg að hruni komin orkulega (en ég set alla fyrirvar við þína framsögn eftir atvikum) - að hver er þá punkturinn?  Að ESB komi hérna og steli orkunni maður, dæli henni á tankskip og fari með hana til að Evrópa greyið hafi einhverja orku eða?

Ómar Bjarki Kristjánsson, 10.8.2010 kl. 13:58

11 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

I rest my case.

En ég bendi á að það er hlekkur í blogghausnum vinstra megin sem heitir "LinkedIn", þar eru starfsferill minn og helstu störf tíunduð.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 10.8.2010 kl. 14:38

12 identicon

jæja,

Það er nú gott Vilhjálmur, ég vil reyndar taka fram að ég hef ekki einu sinni lesið þennan pistil sem þessar umræður eru við (Auðlyndir og Evrópusambandið).

Ástæðuna ætla ég ekki að tíunda neitt frekar, en vertu aðeins meiri nagli Vilhjálmur. Komdu bara fram eins og sá maður sem þú ert, ég nenni ekki að vera að leita að einhverjum linkum, nenni helst ekki heldur að lesa þennan pistil ef ég mögulega kemst hjá því.

En þú verður að komsat niður á jörðina Vilhjálmur. Ég sé að þú þráir "málefnalegar umræður". Já það er erfitt hmm.

bestu kveðjur

g

sandkassi (IP-tala skráð) 10.8.2010 kl. 15:47

13 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Þetta eru alveg frábærar umræður. Gunnar Waage er minn maður. Hann les ekki einusinni það sem hann kommenterar. Það er málefnaleg umræða.

Gísli Ingvarsson, 10.8.2010 kl. 16:18

14 identicon

Ég nota vissa tækni í þessu Gísli, ég næ ca einum þriðja af greininni með því að renna augunum yfir greinina. Tekur 3-4 sek.

Það nægir í bili.

sandkassi (IP-tala skráð) 10.8.2010 kl. 16:26

15 identicon

"Það er nú gott Vilhjálmur, ég vil reyndar taka fram að ég hef ekki einu sinni lesið þennan pistil sem þessar umræður eru við (Auðlyndir og Evrópusambandið)."

Lítið hægt að segja við þessu. Það er tröll á meðal vor! http://en.wikipedia.org/wiki/Troll_(Internet)

En varðandi greinina.

Án þess að ég sé að taka afstöðu með eða á móti ESB er ég hjartanlega sammála Vilhjálmi þar sem hann kemur að leigu á auðlindum.

 "Íslendingar þurfa að móta sér stefnu í auðlindamálum þar sem sanngjarnt auðlindagjald er greitt til þjóðarinnar vegna afnota af sameiginlegum auðlindum, hvort sem er fiski, fallvötnum eða jarðhita."

 Umræðan er á algerum villigötum. Að sjálfsögðu eigum við að krefjast rentu af okkar auðlindum. Við eigum að leigja þær út til þess aðila sem færir okkur mestan arð af þeim. Hvort hann heitir Jón Jónson eða John Johnson varðar mig ekki um. Svo má rökræða um fáránlegan leigutíma (sbr Magma).

Gunnar (IP-tala skráð) 10.8.2010 kl. 16:29

16 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Þetta rugl hefur visst gildi sem áþreifanlegt dæmi um hvernig umræðan er á köflum.  Ég hef haft það sem prinsipp að hafa opnar athugasemdir og hef aðeins einu sinni þurrkað út athugasemd allan þann tíma sem þetta blogg hefur verið virkt.  Lengi vel var hægt að treysta því að flestir þáttakendur vildu upplýsta rökræðu, sem oft hefur bætt miklu við upphaflegu pistlana.  En það virðist sem almennt séu net-tröllin og ritsóðarnir að bera bloggumræðuna ofurliði.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 10.8.2010 kl. 16:30

17 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Gunnar ekki Waage: Sammála varðandi tröllið, rentuna, og leigutímann líka.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 10.8.2010 kl. 16:32

18 identicon

Ómar, punkturinn er aðallega sá að það eru erfiðir tímar framundan í Evrópusambandinu. Það hefur jafnan verið svo að það er sterkt samhengi á milli nýttrar orku og hagsældar og nú lítur út fyrir að Evrópusambandið geti ekki með góðu útvegað sér alla þá orku sem það vildi (Sem útskýrir þessi ákaflega kostnaðarsömu verkefni).

Mín skoðun er sú að Evrópusambandið hafi nú upplifað hátind hagsældar sinnar og muni nú þramma hægt og bítandi niður hagsældarstigann um óforséða framtíð á meðan Rússland, Indland, Kína o.fl. munu auka hagsæld sína. Ég er líka þeirrar skoðunar að okkar hagsmunum sé til lengri tíma litið betur borgið utan Evrópusambandsins. Við höfum hér yfir að ráða verðmætum auðlindum; stór fiskimið, fallegt ósnortið umhverfi sem mun stöðugt verða eftirsóttara fyrir ferðamenn, hreint vatn og næg orka til eigin nota og uppbyggingar.

Punkturinn minn var ekki að sambandið ætli að stela af okkur orkunni eins og þú dregur upp svo hressilega mynd af. En vegna þess hvað þér virðist finnast það fjarstæðukennt að Evrópusambandið þarfnist orku, þá hefurðu kannski áhuga á því að í áætlunum sem horfa að því hvernig á að fullnægja orkuþörf Evrópusambandsins næstu áratugina þá er oft m.a. horft til Íslands. Þetta á bæði við verkefnin Supergrid og EU-Mena.

Og hvað heldurðu að gerist ef lagður er HVDC strengur til Evrópu? Heldurðu að framtakssamir menn á Íslandi muni fá orkuna á sama verði og þeir fá hana í dag eða heldurðu að þeir þurfi að kaupa hana á evróputaxta? (Ég skal gefa þér vísbendingu, Evrópusambandið hefur sett lög um slíka verðlagningu.)

gummih (IP-tala skráð) 10.8.2010 kl. 16:33

19 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Ég hef tekið þá ákvörðun með hagsmuni lesenda þessa bloggs í huga, að banna framvegis athugasemdir frá Gunnari Waage.

Gummih: Það er rétt að framundan eru stór óleyst vandamál varðandi orku í heiminum, einkum vegna þess að jarðefnaeldsneyti mun ganga til þurrðar á næstu áratugum, og vegna þess að við þurfum að minnka losun koltvísýrings verulega.  En hvort tveggja gerir orkuframleiðslu með fallvatni og jarðhita ennþá eftirsóttari og þar með vonandi ábatasamari (þ.e. fyrir framleiðendur, öfugt fyrir notendur).  Það hvort Ísland er í ESB eða ekki breytir svo sem engu um þá mynd, við munum eftir sem áður finna kaupendur að orku frá ýmsum löndum, innan ESB og utan.  Það er hins vegar mikilvægt að leigusamningar á auðlindum séu í styttri kantinum - til að fylgja verðlagsþróun orku - og/eða með hlutdeild í framlegð af orkusölunni hverju sinni, þ.e. skili hærri auðlindarentu eftir því sem orkuverðið hækkar.  Fordæmi um slíkt er m.a. að finna í olíusamningum Norðmanna og fleiri.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 10.8.2010 kl. 16:41

20 identicon

Ég tel reyndar að það breyti myndinni samt. Ég var þeirrar skoðunar að það væri meira vit að leggja sæstreng til að geta selt raforkuna okkar á markaðsverði til Evrópu frekar en að selja hana á kostnaðarverði í álframleiðslu. En sú skoðun mín er að breytast að því leiti að því miður sýnist mér það ekki vera ákjósanleg staða að vera með sæstreng til Evrópu ef við erum bundin af reglugerð sambandsins um að heildsöluraforkuverð skuli vera það sama beggja megin strengsins, þ.e. að ekki megi mismuna markaðssvæðunum í verði. Það hljómar sem sjálfsagt mál að það megi ekki mismuna markaðssvæðunum en slíkt myndi leiða til þess að heildsöluraforkuverð yrði hér jafn hátt og í Evrópusambandinu.

Mér sýnist að ef við erum bundin af þessu myndi það vera neikvætt fyrir framkvæmdir og erlenda fjárfestingu hér og því neikvætt fyrir atvinnulífið og þar með hagsæld.

Eða svo ég setji það pínulítið öðruvísi upp. Hvort er hagkvæmara fyrir þjóðina að selja raforkuna beint til Evrópu gegnum sæstreng eða selja hana til aðila eins og Verne?

gummih (IP-tala skráð) 10.8.2010 kl. 17:09

21 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

,,En vegna þess hvað þér virðist finnast það fjarstæðukennt að Evrópusambandið þarfnist orku"

Meei, það er ekki málið að mér finnist það fjastæðukennt per se.  Frekar að yfirvofandi ,,orkuhrun" Evrópu, eigi að leysa með Íslandi.

Ef öll orka sem hægt er að framleiða á Íslandi færi út til Evrópu - veistu hvað það myndi gangast mörgum evrópubúum?  Hálfri Danmörku!

Og hvernig æliði að leysa orkuhrun evrópu með íslandi?  Mér er það hulið!

Þetta hjá þér með sölu á orku um streng til Evópu og það mundi hækka verð hérna - evróputaxti o.s.frv.  ekki megi selja hærra en hér etc.  Þá er það alveg umhugsunarverður punktur -  sem eg set samt alla fyrirvara við eftir atvikum.  Vil helst fá konkret dæmi til samanburðar.  Skal ekkert fullyrða um það af eða á, að svo stöddu,  án betri skoðunar.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 10.8.2010 kl. 18:00

22 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Sæll Vilhjálmur  Takk fyrir frábæran pistil skrifaðan á einföldu og auðskiljanlegu mannamáli

Málefnaleg umræða er að verða jafn sjaldséð hér á blogginu og hvítir hrafnar.

Þú talar um framseljanlegan eignakvóta, er það eignakvóti á afnotarétti til ákveðins tíma sem eigandi getur framselt til þriðja aðila. Gott að fá aðeins nánari skilgreiningu.

Það er aldrei of oft tekið fram að ESB er EKKI að ásælast auðlindir aðildarríkjanna.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 11.8.2010 kl. 23:42

23 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Hólmfríður: Ég tek fram að ég styð ekki framseljanlegan eignarkvóta, sem er það sem við erum með í dag í sjávarútveginum. En ef menn eru nógu klikk til að vilja viðhalda því kerfi, þá mega þeir það - ESB aðild skiptir ekki máli í því sambandi.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 11.8.2010 kl. 23:53

24 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

P.S. Þeir sem tala digurbarkalega um að ESB ræni fiskveiðiauðlindinni mega velta því aðeins fyrir sér að í dag er hún í reynd í eigu örfárra lögaðila, með framseljanlegum, ótímabundnum aflahlutdeildum sem eru ígildi eignar.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 11.8.2010 kl. 23:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband