19.4.2010 | 23:05
Ein af mörgum athyglisverðum síðum í Rannsóknarskýrslunni
Þessa dagana er ég að böðlast í gegn um Rannsóknarskýrsluna, en ætlunin er að lesa hana alla (sem er vitaskuld lágmark til að vera umræðuhæfur ). Skýrslan kemur að mörgu leyti á óvart. Hún er efnismeiri, þéttari og afdráttarlausari en ég bjóst við fyrirfram, og subbuskapurinn í bönkunum jafnvel meiri en ég óttaðist. En hugmyndafræðin, stjórnmálamennirnir og stjórnsýslan brugðust vitaskuld einnig, eins og lýst er í sársaukafullum smáatriðum.
Ég datt m.a. um þennan texta á síðu 192 í 1. bindi. Athyglisvert hvað menn voru að ráðleggja árið 2007, þvert ofan í mjög réttmætar áhyggjur hagfræðings ASÍ.
Meira síðar!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hvort viltu borga 20 milljónir á 25 árum með 13% vöxtum eða 40 milljónir á 25 árum með 3% vöxtum?
Doddi D (IP-tala skráð) 19.4.2010 kl. 23:34
40 milljónir á verðlagi dagsins í dag eða 40 milljónir á verðlagi hvers árs? Á því er risastór munur.
Þeir sem eru með launatekjur í íslenskum krónum eiga ekki að skuldsetja sig í öðrum myntum (nema þeir eigi þá erlendar eignir á móti). Slíkt hefur hvarvetna leitt til ófarnaðar, eins og skýrslan lýsir einmitt ítarlega í 1. bindi með margvíslegum tilvitnunum í fordæmi og rannsóknir - sem hefðu átt að vera vel kunnar í Seðlabanka Íslands.
Ef menn eru ósáttir við þessa staðreynd, eiga þeir að berjast fyrir upptöku evru.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 19.4.2010 kl. 23:54
Dæmið er sett fram, til umhugsunar, um þá sem tóku á sama tíma 20 milljóna króna lán, t.d. 1, jan 2008 í t.d. jenum annars vegar og krónum hins vegar. Ég hélt einhvern veginn að þetta hefði skilist. Ég held því enn fram að það komi betur út að taka erlenda lánið. Krónan er mun dýrari til lengdar. Við skulum ekki gleyma því að verðtryggingin gerir hana í raun indexeraða á erlendar myntir.
Það er eins hægt að segja að enginn eigi að taka verðtryggt lán, sem ekki er með verðtryggðar tekjur.
Doddi D (IP-tala skráð) 20.4.2010 kl. 00:08
Sæll Vilhjálmur. Þú ert komin vel af stað í lestrinum. Athyglisverð ráð og álit manna sem telja má til þeirra sem telja sig geta veitt öðru fólki haldgóðar leiðbeiningar.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 20.4.2010 kl. 00:45
Doddi, hagfræðin segir að til lengdar eigi ekki að vera unnt að græða á vaxtamun milli gjaldmiðla - gengið muni alltaf laga sig að vaxtamuninum fyrr eða síðar. Ef svo væri ekki þá væri fyrir hendi högnunarmöguleiki (arbitrage) sem markaðurinn myndi nýta sér og loka með því gatinu.
Til langs tíma eru launatekjur verðtryggðar og gott betur; með framleiðniaukningu og hagvexti hækka laun að öllu jöfnu umfram verðlag, þ.e. kaupmáttur eykst. En vissulega koma upp misgengi í niðursveiflum. Þau eru þó minni en gengissveiflur geta orðið. Mönnum er tíðrætt um sveiflujafnandi áhrif gengis (sjálfstæðs gjaldmiðils) en skv. 1. bindi Skýrslunnar þá geta gengissveiflur orðið að sjálfstæðum sveifluvaldi í hagkerfinu, þ.e. orsakasambandið getur líka snúist við. Það held ég að við höfum séð m.a. í hruninu.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 20.4.2010 kl. 00:50
Hver er þá hagnaðurinn af því að taka upp Evru, ef þetta kemur allt út á eitt? Mér hefur skilist að það væri ákveðinn kostnaður fólginn í því að halda úti krónu, sem birtist í hærra vaxtastigi. Ef svo er, og ef röksemdafærsla þín er að öðru leyti rétt, þá hef ég rétt fyrir mér.
Doddi D (IP-tala skráð) 20.4.2010 kl. 00:54
Góð og þörf ábending hjá þér. Þetta er einmitt ástæðan fyrir því að ég þrjóskaðist við og tók ekki erlend lán, hvorki til bílakaupa né húsnæðiskaupa - og er þó ekki hagfræðimenntuð! Mér fannst þetta einfaldlega hljóma of vel til að vera satt...eins og kom á daginn. En það er ekki undarlegt að fólk hafi fallið fyrir þessu, sérstaklega þar sem óháðir sérfræðingar ráðlögðu almenningi ítrekað að taka erlend lán. Það voru nefnilega ekki bara bankarnir!
Guðrún (IP-tala skráð) 20.4.2010 kl. 05:58
Ég er sammála þér Vilhjálmur að íslenska krónan er ónýt. Samt erum við í raun með tvær myntir hér, íslenska krónu sem launþegar fá og svo verðtryggða krónu sem bankarnir fá.
Hins vegar held ég að fólk hafi tekið bestu ákvörðun út frá fyrirliggjandi upplýsingum um að skipta yfir í erlend lán. Þar eru lægri vextir og heildarafborganir lægri. Undantekningin er nánast algert hrun íslenska efnahagskerfisins. Á því áttu fáir von.
Þar er komið að forsendubrestinum sem Hagsmunasamtök heimilanna hafa bent á, en ráðamenn þrjóskast við að viðurkenna.
Þrándur (IP-tala skráð) 20.4.2010 kl. 09:32
"...nánast algert hrun íslenska efnahagskerfisins. Á því áttu fáir von."
Efnahagskefið hrundi alls ekki, það var bankakerfið sem hrundi. Algert efnahagshrun hlyti að þýða atvinnuleysi upp á tugi prósenta og mikinn vöruskort. Hvorugu er til að dreifa hér nú um stundir.
Þorgeir Ragnarsson, 20.4.2010 kl. 11:01
@Þorgeir - Jú víst!
Gæti líka bætt við stjórnmálakerfinu og einhverju fleiru. (Ætla samt ekki að fara út í hagfræðilegar skilgreiningar).
Efnahagshrunið er borið af launþegum í amk. helmingslækkun launa og af skuldugum íbúðareigendum í formi stökkbreyttra lána (eða helmingslækkun húsnæðisverðs).
Þrándur (IP-tala skráð) 20.4.2010 kl. 11:24
Doddi: Vextir þurfa að vera hærri í krónu, af því að hún er líklegri til að veikjast og fara í kollsteypur, eins og dæmin sanna ítrekað. Evruvextir eru að sama skapi lágir. Engin þversögn í því, heldur gengur stærðfræðin einmitt rétt upp.
Guðrún: Einmitt, ókeypis hádegisverðurinn er vandfundinn.
Þrándur: Krónan ofreis á árunum 2005-2007, viðskiptahalli varð gríðarlegur og ójafnvægið í hagkerfinu var morgunljóst. Þenslunni var leyft að fara úr böndunum og hagfræðin segir mönnum að á eftir svoleiðis þróun kemur ekkert nema stór skellur. Hagstjórnin hér var arfavond, bæði af hálfu ríkis og Seðlabanka. Lexían er sú að kjósa ekki stjórnmálamenn sem halda því fram að hægt sé að gera hvort tveggja, borða kökuna og eiga hana. En hræddur er ég um að mannlegt eðli sé þannig vaxið að sú lexía lærist seint. (Sbr. t.d. Icesave og umræðu um fjármál ríkisins um þessar mundir.)
Þorgeir: Hér varð tvenns konar hrun, bankahrun og gjaldmiðilshrun. Af þessu tvennu tapaði almenningur meiru á gjaldmiðilshruninu, og á því bera stjórnvöld og embættismenn mikla ábyrgð, þó ekki alla.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 20.4.2010 kl. 13:47
Á meðan krónulán eru indexeruð í verðbólgu (de facto gengistryggð) ásamt því að vera með hærri vöxtum, er útilokað að reikna það út að lán sem er gengistryggt og á lægri vöxtum sé verri kostur. Afborgunarkúrfurnar eru ólíkar, eftir því sem gengið sveiflast en þegar upp er staðið er endurgreiðsla lágvaxtalánsins ávallt miklu léttari.
Ég tek fram að ég er alls ekki andvígur því að ganga í myntbandalag.
Doddi D (IP-tala skráð) 20.4.2010 kl. 14:05
Takk fyrir þetta Vilhjálmur.
Þetta er lærdómsríkt fyrir þá sem gleymdu litla gula stafrófi peninga.
Hver er Egill Helgason?
Þetta er víti til að varst. Þess vegna hefur evrulandið Austurríki nú sett á gjaldeyrishöft sem eiga að reyna að koma í veg fyrir að þetta geti orðið verra en það nú þegar er í því evru-landi.
Þriðjungur allra fasteignalána í Austurríki eru í erlendri mynt. Mest í svissneskum frönkum eða japönskum jenum. Seðlabanki Austurríkis segir að almennir Austurríkismenn skuldi nú um 35 miljarða evrur í erlendum fasteigna- bíla- og spákaupmennskulánum.
Þessar lántökur fóru fram í gegnum austurríska bankakerfið á meðan gengi franka og jens gagnvart myntvafningnum evru var lágt á árunum fyrir hrunið 2008. Nú hefur gengi þessara erlendu gjaldmiðla hækkað mikið eða um 13% til 30% og fer hækkandi í takt við að myntvafningurinn evra fellur í gengi og myntbandalagið þar á bak við fer inn í sinn endanlega upplausnarfasa. Sá fasi getur orðið langur og strangur.
Það eru fjármálayfirvöld í Austurríki sem eru orðin hrædd. Þau ætla því að banna svona lán og loka fyrir aðgengi almennings að lánum í erlendri mynt. Aðeins ríkt og mikilvægt fólk mun fá að nota þessa þjónustu framvegis. Ef evran mun hrynja verulega hratt á næstu árum þá mun það hafa slæmar afleiðingar fyrir bankakerfið og lánþiggjendur þess í Austurríki.
Evrubankakerfi Austurríkis hefur átt erfiða daga og hafa tveir af sex kerfislega mikilvægum bönkum landsins þegar verið þjóðnýttir. Síðast var það Hypo Group Alpe Adria sem var þjóðnýttur þann 14. desember síðastliðinn
Kveðjur
Gunnar Rögnvaldsson, 20.4.2010 kl. 14:32
Hvað er það með ykkur vinstri menn og sendiboðana ? Það hafa fáir staðið siðferðisvaktina jafnvel og Vilhjálmur.
Hver...já,hver getur gert ráð fyrir 60% falli gjaldmiðils á vesturlöndum árið 2008 ??
Það er viss sannleikur fólgin í því að við gengissviptingar þá tekur það gengistryggð lán styttri tíma að fara á leiðarenda miðað við þau verðtryggðu, endastaðurinn er sá sami, aðeins annar tími.
Flesta getið þið hraunað yfir en EKKI Vilhjálm !!
Takk fyrir.
P.S
Ekki er það stílbrot, frekar en fyrri daginn, að þegar svona málflutningur er viðhafður þá ríður Hólmfríður með.
runar (IP-tala skráð) 20.4.2010 kl. 15:05
Vilhjálmur, þú ert ekki enn búinn að svara fyrstu spurningunni.
Gunnar er með ástæðuna fyrir því að vaxtamunurinn er eins og þú lýsir honum í síðasta andsvari. Vegna spottatogs, ekki vegna lögmála.
kv.
Sindri Karl Sigurðsson, 20.4.2010 kl. 15:05
Þetta er ólíkindalestur. Lánakjörin á krónunni, með sinni verbólgu og okurvöxtum sem seðlabankinn hélt uppi, gerði það alveg fullkomlega raunhæft að taka gengistryggt lán (sem í ljós hefur komið að var ólöglegt að bjóða upp á) eins og krónan og fjármálalífið var talað upp og fólk blekkt með því að breiða yfir stöðuna. Banna umtal o.s.fr.v. Það leit svo sannarlega fáránlega út á pappírunum að taka krónulán. Takk seðlabanki og verðtrygging.
Takk fyrir að benda á þetta.
Rúnar Þór Þórarinsson, 20.4.2010 kl. 15:12
Doddi spurði:
Ef þú borgar jafnháar afborgarnir mánaðarlega (230þús) af hvoru láni fyrir sig verður þú 20 ár að klára 3% lánið en 25 ár með 13% lánið.
Erlenda lánið með 3% vöxtunum virðist því samt borga sig.
Kári Harðarson, 20.4.2010 kl. 15:25
PS: Ef þú hins vegar getur borgað lánin mjög hratt niður, getur borgað 300 þúsund á mánuði í stað 230 þúsund, snýst dæmið við:
Nú getur þú klárað að borga íslenska lánið á 11 árum en það erlenda á 14 árum.
Lexían er: Borgaðu lán hratt niður ef þau eru með háa vexti.
Kári Harðarson, 20.4.2010 kl. 15:29
Doddi, ef þú ert að segja að það sé unnt að taka lán til langs tíma í erlendum gjaldmiðli á föstum vöxtum sem eru lægri en raunvextir á Íslandi, þá held ég að það sé ekki rétt hjá þér. Passaðu að bera ekki saman fljótandi vexti (sem eru mjög lágir núna á Vesturlöndum) við fasta vexti. Fljótandi vextir af erlendum lánum (þ.e. LIBOR/EURIBOR o.s.frv.) eiga eftir að hækka mjög mikið, þegar peningaprentun, skuldafjöll og verðbólga fara að segja til sín. Fljótandi vextir í Bandaríkjunum fóru t.d. upp í 19% í byrjun 9. áratugarins.
Gunnar: Já, Austurríki er að læra þessa sömu lexíu, eins og Ungverjaland, Tékkland og fleiri lönd.
Runar: Næ ekki punktinum hjá þér.
Sindri Karl: "Spottatogs"?
Kári: Ég held að hvergi í heiminum fái einstaklingur lán til 25 ára á föstum 3% vöxtum til húsnæðiskaupa, þannig að dæmið er strámaður.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 20.4.2010 kl. 16:09
Spottatog = pólitísk órökrétt eða rökrétt inngrip vegna:
Spottatogið, segi ég, að sé orsök ekki afleiðing.
Ef það þarf og er ætlunin, að reka bankakerfi hér á landi með að minnsta kosti 5% álagi + verðtryggingarálags, þá er ljóst að það þarf að "passa upp á" að almenningur komist ekki í betri lánakjör.
Það eru 2% vextir á dönskum húsnæðislánum, síðast þegar ég vissi, án verðtryggingar.
Sindri Karl Sigurðsson, 20.4.2010 kl. 16:27
Sindri, skv. RealKredit Danmark þá eru fastir vextir á 30 ára húsnæðisláni nú 5,23%, óverðtryggt. Breytilega vexti má fá niður í rétt rúm 2% en þeir eru ekki sambærilegir við fasta vexti. Eins og kunnugt er fylgir danska krónan evrunni mjög þétt enda innan ERM II ramma í samstarfi danska seðlabankans og ECB. Það er annars athyglisvert að RealKredit býður líka húsnæðislán í evrum með aðeins lægri vöxtum en í DKK.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 20.4.2010 kl. 21:29
Vextir í Danmörku
Já þetta er eins og Vilhjálmur bendir á það eru 5,2% vextir á sambærilegum húsnæðislánum og á Íslandi í Danmörku.
Hin svo kölluðu dönsku flex-lán eru ekki til á Íslandi (stutt lán samið um vexti til 1-5 árs í senn).
Þess ber einnig að geta að nýtt regluverk ESB er að kollvarpa danska húsnæðislánakerfinu í núverandi mynd. Nýjar ESB-kröfur um eigið fé lánastofanna og fleira mun breyta miklu og í versta falli þýða mikla lækkun á húsnæðisverði og miklu dýrari ný lán. Að meðaltali skuldbreyta danskir húsnæðiseigendur lánum símum á þriggja ára fresti. Þá er samið um ný vaxtakjör og nýjan höfuðstól og þá kemur nýr kostnaður og afföll til viðbótar við höfuðstól. Svo menn ættu að taka því með varnagla hverjir eru vextir í Danmörku. Eignamyndun er ekki sérstaklega góð.
Þegar ég keypti mér fyrst húnsæði hér í Danmörku var verðbólgan 1,3% og stýrivextir voru um 7-11%. Þá fengust lánin á 8-10% vöxtum eftir forgangi veða. Þetta var 1992. Ekki er útilokað að þetta verði eins á næstu árum því ef Þýskaland fer í annað hræðslukast þá hækka vextir algerlega án tillits til verðbólgu í Danmörku.
Annars er verbólgan um 1% í Danmörku núna. Bílalán eru með 10-12% ársvöxtum og yfirdráttur er með 12-15% ársvöxtum.
Innlánsvextir á hávaxta bankareikningum eru 0,00%
Á Írlandi er verðbólgan neikvæð um 4-5% og eru því raunvextir á húsnæðislánum Íra ca. 9-11% núna. Það myndi jafngilda ca 18% raunvöxtum á Íslandi núna.
Gunnar Rögnvaldsson, 20.4.2010 kl. 22:44
Gott að fá þetta á hreint.
5,2% fastir vextir hljóma vel í 1% verðbólgu, raunvextir ættu þá að liggja um 4,2%. Í dag borga ég um 5,1+8,7% vexti eða14% vexti og ekki nóg með það heldur borga ég líka vexti á vextina í formi vaxta á verðbætur.
Þetta er ein af þeim orsökum sem ég gat um í spottatoginu hér að ofan og er klárlega mælikvarði á samkeppnishæfi fjármálakerfisins á Íslandi.
Sindri Karl Sigurðsson, 20.4.2010 kl. 23:39
Það er ekki úr vegi að rifja upp og benda á eldri bloggfærslu mína um verðtryggð lán og hvernig þau virka. Umræðurnar með færslunni eru líka fróðlegar.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 21.4.2010 kl. 00:24
Þessi setning var í einni af færslunum við bloggfærsluna sem þú varst að benda á:
"Það má færa rök fyrir því að verðtrygging sé nauðsynlegur fylgifiskur lélegrar hagstjórnar, ef einhver á að fást til að veita lán til langs tíma. "
Þetta er afleiðing spottatogsins.
Sindri Karl Sigurðsson, 21.4.2010 kl. 08:11
Ég verð að gera þá játningu, að mig grunaði aldrei að bankarnir væru þrautskipulagðar svikamyllur.
Ég er vanur að fylgjast með, fjölmiðlaumræðu og annarri umræðu.
Ég last því, allar þær greinar sem fram komu, og varað var við bönkunum.
Ég, af þess völdum, hafði töluverðar áhyggjur af þeim á árinu 2006 og 2007.
En, eitthvað voru þær áhyggjur farnar að dala, í ársbyrjun 2008 - þ.s. eftir allt saman, þá stóðu þeir enn.
Man eftir að lesa, ársuppgjör glitnis það síðasta fyrir hrun, þ.s. því var haldið fram, að staða hans væri sterkari t.d. en tiltekinna danskra banka, þ.e. eiginfjár hlutfalll Glitnis væri sterkara.
Í dag vitum við, að sú ársskýrsla er meira í átt við áhugaverða fantasíu, en veruleika.
*Ég hafði þó verið, að velta því upp fyrir mér, sem möguleika að bankarnir hryndu. Haðfi, verið að hugsa um það síðan litla kreppan 2006 hófst.
*Þannig, að hrunið kom mér ef til vill, eitthvað minna á óvart, en einhverjum öðrum, þó það kæmi mér samt að óvörum þegar það hófst.
--------------------------------------
Þ.s. Vilhjálmur sýnir þarna, er dæmi um hegðun þá sem auðsýnd var, þ.s. svokallaðir ráðgjafar voru ekkert annað en harðsvífnir sölumenn fyrir bankana.
Viðhjálmur má hafa þökk fyrir það - í þetta sinng sleppi ég allri gagnrýni.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 21.4.2010 kl. 13:41
Ég hlýt þá að hafa misskilið rauða þráðinn í þínum pistli.
Mér fannst þú vera að skjóta á Vilhjálm Bjarnason.
Ómaklega.
runar (IP-tala skráð) 21.4.2010 kl. 13:48
Eftir að hafa stúderað þetta er mín niðurstaða að erlend lán eru hagstæðari í nær öllum tilvikum en innlend lán. Innlend lán eru verðtryggð og bera í flestum tilfellum mun hærri vexti en þau erlendu. 3% eða 13-15% skiptir máli á háum upphæðum eins og þú þekkir. [og Doddi bendir á.]
Annað sem þarf að reikna er fylgistuðull verðbólgu m.v. gengisþróun og í raun ef þú horfir fram eftir árinu 2008 (til apríl/maí) og frá allt að 1990 kemur í ljós að verðbólgan er c.a. 6 mánuðum á eftir gengisþróuninni og er tregbreytanleg niður á við. Vísitalan hækkar lánið alltaf á meðan gengisbreytingar gera hlut lántakans bærilegri, þar sem gengisstyrkingar krónu lækka alltaf höfuðstólinn strax. Með því móti er það sanngjarnara fyrir skuldarann að skulda í erlendu en í vísitölutryggðu innlendu.
Þú ræðir svo um kaupmáttaraukningu og gefur þér að hún sé alltaf hærri en verðbólguþróun en svo er ekki alltaf farið.
Mín niðurstaða er, fyrir utan árið 2008 hefur alltaf verið hagstæðara að vera með erlent lán, enda bankahrun og síðar algjört hrun á tiltrú krónu harla óvenjuleg staða.
Árni (IP-tala skráð) 21.4.2010 kl. 21:28
Það er útilokað að segja til um hvort erlent lán muni reynast hagstæðara en verðtryggt íslenskt lán. Þetta fer eftir gengisþróun þeirra gjaldmiðla sem lánið er tekið í, þróun vaxta (sem eru í lágmarki erlendis um þessar mundir) og verðbólgu á Íslandi. Það er auðvitað ekki hægt að spá fyrir um þessa hluti áratugi fram í tímann.
Þeir sem hafa talið erlend lán ótvírætt hagstæðari en íslensk lán og einkum nefnt verðtrygginguna því sambandi virðast ekki átta sig á að erlend lán eru einnig verðtryggð. Þau hækka í samræmi við hækkun á gengi þeirra gjaldmiðla sem þau eru tekin í. Það er því alltaf aukin áhætta sem fylgir því að taka erlend lán. Þá áhættu eiga þeir sem taka lánin að bera.
Snemma árs 1967 var gengi norsku krónunnar rétt rúmlega 6 aurar (6 gamlar krónur). Gengið núna er um kr 21.70. Þetta þýðir að gengið hefur 362-faldast á 43 árum eða hækkað um 36100%. Mér reiknast til að þetta sé um 14.7% hækkun á ári sem væri hrein verðtrygging því að ofan á þetta reiknast svo vextir ef um væri að ræða lán þetta tímabil.
Fyrir utan að greiðslubyrði erlendra lána getur hæglega reynst þyngri en greiðslubyrði innlendra lána hafa erlend lán þann ókost að greiðslubyrðin er mjög sveiflukennd. Þeir sem taka slík lán þurfa því að hafa mikið fjárhagslegt svigrúm. Þegar kreppir að í þjóðfélaginu fellur yfirleitt gengi krónunnar og erlend lán hækka upp úr öllu valdi einmitt þegar verst stendur á. Það var þetta sem gerðist og það var fyrir séð.
Fólk og fyrirtæki með allar tekjur í íslenskum krónum og engar erlendar eignir ættu aldrei að taka erlend lán. Jafnvel í þeim tilvikum þegar greiðslubyrðin hefur reynst léttari á erlendu láni er líklegt að tímabundið hafi hún verið alltof þung svo að viðkomandi hefur farið í þrot.
Þetta eru löngu þekkt sannindi sem gleymdust í geðveikinni 2007-8. Jafnvel lektor í fjármálum við HÍ hefur greinilega verið illa haldinn ásamt fleiri fjármálaráðgjöfum. Eru ekki uppi neinar kröfur um að þessir menn segi af sér? Skyldi Vilhjámur Bjarnason enn vera þeirrar skoðunar að þeir sem nú sitja eftir með sárt ennið vegna erlendra lána séu upp til hópa asnar?
Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 24.4.2010 kl. 23:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.